Að eiga "réttinn" af eigin lífshlaupi

Ég hef fylgst með umfjöllun um myndina Djúpið og virðist sem þar sé á ferðinni vönduð og athygliverð mynd sem ég hef mikinn áhuga á því að sjá.

Efni myndarinnar er áhugavert og virðist sem myndin sjálf sé sömuleiðis afbragðs vel gerð og heppnuð.

En það hefur líka orðið mér umhugsunarefni þegar það hefur komið fram að myndin sé gerð í óþökk þess einstaklings sem hún fjallar að mestu leyti um.

Spurningin sem vaknar er að hve miklu leyti eiga einstaklingar "réttinn" af eigin lífshlaupi og að hve miklu leyti ætti  listamönnum og  öðrum að vera að nýta sér slíkt í hagnaðarskyni?

Við þessu er að mínu viti ekki til neitt einfalt svar og það er vel þekkt að bækur, leikrit, söngleikir og kvikmyndir hafa verið verið gerðar um einstakar persónur eða hópa í óþökk þeirra.

Stundum er nöfnum og jafnvel umhverfi breytt til að "vernda" einstaklingana eða til að komast hjá málaferlum.  Sé þannig staðið að verki er spurningin um "rétt" einstaklinganna úr sögunni, enda því sem næst ómögulegt að sanna hver fyrirmyndin er, ef höfundar afneita því,  þó að það sé ef til vill á "allra" vitorði.

Og þannig skilst mér að sé það gert í Djúpinu, nöfnum er breytt og eðli málsins samkvæmt hlýtur margt í myndinni að vera skáldskapur.

En við kynningu á myndinni er þess hinsvegar þess vandlega gætt að það komi skilmerkilega fram á hvaða atburði myndin byggist og hvaða einstaklingur sé fyrirmynd aðalpersónu myndarinnar.  Það er líklega nauðsynlegt fyrir trúverðugleika mndarinnar, sem annars yrði lyginni líkust, sem afrekið sem myndin fjallar um vissulega er.  En það er þessi raunverulegi atburður sem gefur myndinni gildi.

Sem aftur vekur þá spurninguna hvort að einstaklingur eigi "réttinn" af eigin lífshlaupi, eða atburðum í því.

Nú er það ljóst að ef einstaklingurinn sem Djúpið fjallar um, endurgerði myndina Djúpið, yrði hann brotlegur við lög, nema hann aflaði sér leyfis frá rétthöfum.  En ef kvikmyndaleikstjórinn "endurgerir" atburði úr lífi einstaklingsins, þá horfir málið öðruvísi við og þykir sjálfsagt, eða hvað?  Höfundaréttur af listaverkum gildir í ákveðinn árafjölda eftir andlát, en "rétturinn"  af eigin lífshlaupi er ekki til.  Hann er "public domain" eins og stundum er sagt.

Listin er þá rétthærri lífinu eins og stundum er sagt.

P.S.   Þessari færslu er ekki ætlað að dæma um rétt eða rangt í þessu efni, enda ekki auðvelt mál viðureignar.  Þetta eru eingöngu hugleiðingar sem hafa skotið upp í kollinn á mér annað slagið, nú síðast vegna umfjöllunar um Djúpið.  Það er heldur alls ekki meiningin að hnýta í Djúipið, eða þá sem standa að gerð hennar, enda er hún aðeins nýjasta dæmið í fjölda svipaðra um víða veröld og hefur það fram yfir mörg þeirra að hún er gerð af virðingu fyrir viðfangsefninu, sem er ekki alltaf raunin.

Fyrst og fremst eru þetta vangaveltur og það væri gaman að heyra í þeim sem hafa velt þessum málum fyrir sér.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég er eiginlega staddur á sama stað í þessu og þú.Þarna virðast vera á ferðinni ósvaranlegar spurningar. Mér finndist þó fullkomnlega eðlilegt að þetta færi í taugarnar á þeim sem eiga um sárt að binda eftir sjóslysið. Kanski þó huggun harmi gegn að myndin er þó að sögn ekkert klúður.  Veit ekki, hef ekki séð hana.

Stundum er sagt að menn séu opinberar persónur og verði því að sætta sig við opinbera umræðu, sbr. mál Jóns Baldvins hér fyrr á árinu eða greinar DV um Eið fótboltakappa.  En um þá Jón og Eið má kanski segja að þeir hafi valið sér að verða opinberar persónur, Guðlaugur lendir á hinn bóginn í þessu.  En kanski er þarna um að ræða stigsmun en ekki eðlis.

Þetta er svipað og með ljósmyndara sem eiga ljósmyndina sem þeir taka af fyrirmyndinni en hún ekki. Kanski verður Baltasar svo frægur fyrir myndina í henni Hollívúd að hann verður eltur á röndum af papparössum. Þá finnur hann þetta á eigin skinni. Það væri nú dáldið kaldhæðið!

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 24.9.2012 kl. 13:04

2 identicon

Mér finnst óneitanlega nokkuð undarlegt, jafnvel siðferðilega rangt, að gera kvikmynd um lífsreynslu ákveðins einstaklings gegn hans vilja. Mér finnst að með því sé brotið svo gróflega á einstaklingnum að það ætti að varða við lög.

Eins og þú bendir á þá er þetta ekki eina dæmið, það hafa td verið skrifaðar þekktar bækur hér á landi sem byggja á lífshlaupi ákveðinna einstaklinga eða það sem mér finnst ennþá verra taka þekktan einstakling, lifandi eða látinn, og ljúga upp á hann atburðum (sbr. Kona við 1000°C). 

Guðrún (IP-tala skráð) 24.9.2012 kl. 13:55

3 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Já, það veru mörg álitamál hvað þetta varðar. 

Eitt af vandamálunum sem oft kom upp þegar þekktir einstaklingar eru notaðir í skáldverk og spunnið í kringum atburði sem raunverulega gerðust, er að skáldskapurinn verður að "sannleikanum" þegar fram líða stundir.  Það er að segja í hugum margra.

Líklega er eina leiðin til að ná "réttinum af eigin lífshlaupi, sú að skrifa sjálfsævisögu og gefa hana út.  Þá er kominn höfundaréttur, sem er verndaður.  Þá er hægt að fara í mál ef aðrir fara of nálægt í sínum verkum.  Sá réttur virðist vera mun sterkari en réttur til að vernda einkalíf sitt.

En ég velti réttindum einstaklinga nokkuð fyrir mér, því mitt helsta tómstundagaman er að taka ljósmyndir.  Ég er alltaf nokkuð tvístíga við að taka ljósmyndir af fólki og setja t.d. á vefinn.  Þar eru mörkin óljós og mismunandi eftir löndum.  Sjálfur geri ég þó t.d. mikinn mun á því hvort að ég tek mynd "niður í bæ", eða hvort ég myndi taka mynd af einstaklingi í sínum eigin garði, eða úti í glugga á heimili sínu.  En það er auðvitað alls ekki víst að í hugum annara sé á því nokkur munur.

G. Tómas Gunnarsson, 25.9.2012 kl. 08:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband