Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2012

Aðeins skammtímalausnir?

Það er ekkert sem bendir til þess að sjái fyrir endann á eurokrísunni.  Í raun hafa engar lausnir verið boðaðar.  Aðeins hefur verið talað um niðurskurð, launalækkanir og aukið lánsfé.  Það blasir við í Grikklandi hvaða árangri þær "lausnir" skila.

Eurolöndin hafa enda lítið gert nema að standa fyrir langri röð neyðarfunda.

Allt bendir til að Spánn þurfi á mikilli aðstoð að halda.  Héraðstjórnir þarlendar eru að verða gjaldþrota.  Sömu sögu er að segja að borgum og sveitarstjórnum á Ítalíu.  Á mörgum stöðum er verið að tala um að ekki sé til fé til að veita grunnþjónustu.

Euroið bauð upp á góðan aðgang að lánsfé og þar að auki oft með neikvæðum raunvöxtum.  Það er veisla sem framkvæmdaglaðir stjórnmálamenn eiga erfitt með að neita sér um. 

En Spánn hefur glatað samkeppnishæfni sinni, læst inni með alltof sterkan gjaldmiðil.  Atvinnuleysi í kringum 25% og 50% hjá ungu fólki.  Slíkt þolir engin þjóð til lengdar.

En þungi vandamálsins finnst ef til vill í orðum forstjóra Franska fyrirtækisins Peugeot, sem hann lét falla um svipað leyti og fyrirtækið sagði upp 8000 starfsmönnum.  Hann fullyrti að launakostnaður bilframleiðenda í Frakklandi væri 14% hærri en bílaframleiðenda í Þýskalandi. 

Það er því ekki að undra að margir óttist að eurokrísan gleypi einnig Ítalíu og jafnvel Frakkland.  Þau búa sömuleiðis við skert samkeppnishæfi, og nýkjörinn Frakklandsforseti þykir ekki traustvekjandi á sínum fyrstu mánuðum í starfi.  Þar virðist gamaldags sósíalismi hafa yfirhöndina.

Megin mein eurosvæðisins er hve hagkerfin innan þess hafa þróast mismunandi og í ólíkar áttir.  Veikari löndin hafa tapað miklu af samkeppnishæfi sínu.  Útreikningar benda til að fyrir sum þeirra sé myntin u.þ.b. 40% of sterk.  Til samanburðar má benda á að Þýskur iðnaður blómstrar, enda má segja að Þýskaland sífelli gjaldmiðill sinn, með tengingu við Grikkland, Portúgal, Spán, Ítalíu o.s.frv.  Þýskur gjaldmiðill yrði umtalsvert sterkari en euroið er nú.

Slíkt misvægi verður ekki leiðrétt nema með því sem næst óframkvæmanlegum innri niðurfærslum launa og annars kostnaðar, eða þá frekari samruna og umsvifamiklum og stöðugum fé millifærslum frá hinum betur stæðari löndum svæðisins, til hinna verr stæðu.

Fyrir því er hins vegar að segja má enginn pólítískur áhugi, og má hver sá stjórnmálamaður sem ber það upp í norðurhluta eurosvæðisins reikna með að tapa kosningum.

Því er haldið áfram frá neyðarfundi til neyðarfundar.  Plástur er settur á holundarsárin, keyptur  friður á mörkuðum í fáeina daga.  Pólítísk forysta eurosvæðisins hefur reynst með öllu ófær um að taka á vandanum (samkvæmt Íslenskri fyrirmynd, yrði hún þó síknuð fyrir dómstólum vegna þess að hún er dugleg að halda fundi), sem hefur ekki gert neitt nema að aukast mánuð frá mánuði.

Það er undarlegra en orð fá lýst, og í raun ástæða til sérstakrar rannsóknar, hvað Samfylkingin og Vinstri græn telja sig vinna fyriri Íslensku þjóðina með því að stefna markvisst að "Sambandsaðild" og upptöku euros.


mbl.is Spánn sekkur enn dýpra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sambandsleysi?

Það er ósköp auðvelt að setja sig í spor Norðmanna sem ekki vilja ganga í "Sambandið".  Eins og forsetaframbjóðandinn orðaði það, hver kaupir gistingu í brennandi hóteli, ef til vill ekki orðrétt haft eftir, en meiningin var slík.  Varla verður forsetaframbjóðandinn þó sakaður um að hafa að óþörfu horn í síðu "Sambandsins" eða vera því verulega andsnúin.

"Sambandið" logar enda því sem næst stafna á milli.  Bruninn er verstur í "Suðurríkjunum", en ágreiningurinn og deilurnar ná um allt.  Deilt er um fé, deilt er um aðferðir, deilt er um lausnir og markmið.  Í viðbót við eurokrísuna, var í nýlegri skýrslu fullyrt að einu aðildarríkjanna væri í raun stjórnað af glæpaklíkum.

Einn er þó sá hópur sem staðfastlega vill ganga í "Sambandið".  Það eru ráðherrar og þingmenn Samfylkingar og Vinstri grænna.

Þeir standa í "lobbýinu" á hinu "brennandi hóteli" og virðast halda að logarnir sem leika um bygginguna sé vegna grillveislu sem þeim hafi verið gjörð. Þar verði boðið upp á grillaðan makríl. Þeir standa í "lobbýinu" og veifa heilbrigðisvottorðinu sem utanríkisráðherrann fullyrðir að þeir séu að gefa "Sambandinu".  Líklega telja þeir sig sömuleiðis hafa verið fengna til að "taka út" brunavarnirnar.

Sem betur fer styttist í kosningar.  Þar gefst Íslensku þjóðinni tækifæri til þess að skipta um farastjóra.

Það er nokkuð ljóst að í þeim kosningum gildir atkvæði greitt Samfylkingu og Vinstri grænum áframhaldandi aðlögunarferli að "Sambandinu". 

Atkvæði greitt Samfylkingu og Vinstri grænum í þeim kosningum jafngildir því að vilja skrá sig til gistingar á hinu "brennandi hóteli".

 


mbl.is 75% Norðmanna vilja ekki í ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Engar hugsjónir?

Alltaf þykir mér frekar klént þegar ég les fréttir (sem eru auðvitað ekki alltaf réttar) um að einstaklingar séu að framkvæma skoðanakannanir (að mæla styrk sinn) áður en þeir ákveða að bjóða sig fram.

Mér finnst það einhvern veginn blasa við að þeir einstaklingar hafa ekki hugsjónir sem þeir eru að hugsa um að berjast fyrir.  Þeir eru hinsvegar að reyna að mæla hvort þeir komist í ákveðið starf.

Ég held að slíkar mælingar séu oft ekki besta veganestið í kosningabaráttu.  Það er varasamt að hefja baráttuna á forsendum skoðanakannana.

Ég held að nýafstaðnar forsetakosningar hafi sannað það.

 


Trúfrelsi eða ekki trúfrelsi, skoðanafrelsi eða ekki skoðanafrelsi, það er spurningin?

Ég sá það nýlega í Íslenskum fréttum að haft hefði verið samband við biskup Íslensku ríkiskirkjunar og farið fram á það að einn af ríkisstyrktum starfsmönnum hennar yrði sagt upp störfum.  Ástæða þeirra kröfu mun hafa verið greinarskrif viðkomandi starfsmanns fyrir nýliðnar forsetakosningar.

Biskup mun hafa hafnað beiðninni og er það vel.  Það er ekki réttlætanlegt að segja upp starfsfólki þó að skoðanir þess séu ef til vill ekki okkur hugnanlegar, eða skortur þyki á prúðmannlegri framkomu.  Hér er þó rétt að taka fram að þetta gildir um gjörðir starfsmanns utan vinnutíma en á vinnutíma hljóta að gilda aðrar reglur.

En á sama tíma var grunnskólakennara norður í landi sagt upp störfum, vegna skrifa hans á persónulega bloggsíðu.  Síðu sem hlýtur að mega ætla að sé hluti af einkalífi hans og sé skrifiuð utan vinnutíma.

Það hlýtur að vekja upp áleitnar spurningar.  Spurningar um frelsi til einkalifs, um trúfrelsi og hvað miklar hömlur vinnuveitandi geti sett á hegðun starfsmanna utan vinnutíma.

Hverjir mega kenna?  Hvað mega þeir gera og  skrifa í frítima sínum?

Eru skoðanir grunnskólakennarans bannaðar á Íslandi?  Brýtur sá söfnuður sem heldur fram skoðunum hans Íslensk lög?  Eru grunnskólakennarar á Íslandi seldir undir sérstaka skoðana og hugsanalögreglu?

Má einstaklingur sem boðar kommúnisma af ákefð á heimasíðu sinni kenna börnum?  Má kennari sem er hallur undir nazisma kenna börnum?  Má einstaklingur sem rekur stífan áróður fyrir trúleysi, í frítíma sínum, kenna börnum?

Ég get ekki tekið undir skoðanir barnaskólakennarans, en ég hef engan áhuga á því að banna honum að hafa þær. 

Umburðarlyndi, mál- og skoðanafrelsi hefðu átt að sigra í þessu máli, en biðu því miður lægri hlut.

Persónulega teldi ég gott að þetta mál færi fyrir dómstóla.  Það er áríðandi fyrir Íslendinga að vita hvað tjáningar og málfrelsið nær langt á Íslandi og hvaða vörn það hefur.  Mest áríðandi er það líklega fyrir kennara.

P.S. Ég bloggaði um sama mál í desember síðastliðnum, þau skrif má finna hér.

 


Halli ríkissjóðs, fall sparisjóðs og áframhaldandi feluleikur

Nú hefur komið í ljós að halli Íslenska ríkissjóðsins var u.þ.b. 170% hærri en upphaflegar áætlanir gerðu ráð fyrir.

Það er árangurinn eftir að Samfylkingin og Vinstri græn hafa talað fjálglega um nauðsyn ábyrgrar fjárlagagerðar

Nú reyna ríkisstjórnarflokkarnir að tína til ástæður og afsakanir fyrir þessari gríðarlegu framúrkeyrslu.  Veigamesta afsökunin er sú að ríkissjóður hafi þurft að greiða svo mikið fé vegna SpKef.  Sú upphæð skýrir þó ekki nema hluta þeirra ríflega 50 milljarða sem fjárlögin bólgnuðu um.

Víða um bloggheima má svo lesa aðdróttanir stuðningsmanna ríkisstjórnarinnar um að sú greiðsla sé á einhvern hátt Sjálfstæðismönnum að kenna og skrifist á þá og hrunið.

Það er merkilegur málflutningur, þegar það er haft í huga að Sjálfstæðismenn hafa verið framarlega í flokki þeirra sem hafa krafist sérstakrar rannsóknar á málefnum SpKef.  Þeir sem hafa dregið lappirnar í þeim efnum hafa verið ríkisstjórnarflokkarnir. 

Af hverju skyldi það vera?

Varla er það vegna þess að þeir vilji ekki láta rannsaka þennan meinta þátt í hruninu?  Eða er það vegna þess að staðan var ekki svo slæm í ársbyrjun 2009, en fór hratt versnandi þar eftir?

Það sem eftir stendur er að fullyrðingar Samyfylkingar og Vinstri grænna um að nauðsyn ábyrgrar fjárlagagerðar eru réttar, en það ætti flestum að vera ljóst að þeir eru ekki réttu flokkarnir til að koma því í framkvæmd.


Hinir ríku Kanadabúar

Það er mikið fjallað um ríkidæmi Kanadabúa í fjölmiðlum um þessar mundir.  Mér sýnist að sú umræða hafi meira að segja náð til Íslands.

Ástæða þessa er sú að nú eiga Kanadabúar að meðaltali meiri hreina eign, en nágrannar þeirra í Bandaríkjunum.  Hingað til hefur þessu verið öfugt farið.

Margir hafa viljað eigna þessa þróun hinu sósíalíska hagkerfi Kanada, en þar eins og oft sýnist sitt hverjum og það eru býsna margar stærðir sem þarf að taka inn í jöfnuna.

Þau tvö atriði sem líklega ráða mestu um auðlegðaraukningu Kanadabúa, hafa ekkert að gera með sósíalisma, heldur eru þau stöðug hækkun húsnæðisverðs, aðalega í nágrenni Toronto og Vancouver (en veruleg hækkun hefur átt sér stað víða) og svo mikil styrking Kanadíska dollarans, sem er mest að þakka síhækkandi verði á olíu og öðrum hrávörum.

Hvað varðar hækkun húsnæðisverðs, þá hafa yfirvöld haft af því nokkrar áhyggjur um skeið og hert reglur hvað varðar ríkistryggingu á húsnæðislánum og reynt að grípa til ráðstafana til að draga úr verðhækkunum.  Þess er þegar farið að sjá merki í Vancouver og spáð er að fasteignamarkaðurinn í Toronto fari að kólna.

Kanadíski dollarinn hefur einnig styrkst verulega.  Árið 2006 fékkst fyrir hann að mig minnir u.þ.b. 88 Bandarísk cent, en árið 2011 (ég held að það sé sem miðað er við í samanburðinum) voru dollararnir nokkuð á pari.  Það munar um minna.

Þessa styrkingu má að miklu leyti þakka (eða kenna um) olíuvinnslunni í Alberta.  Margir af Kandadísku sósíalistunum hafa enda allt á hornum sér hvað varðar olíuvinnsluna, telja að þurfi að draga úr henni, setja henni alls kyns skorður og stórauka reglugerðir og afskipti hins opinbera af henni.

Því verður að ég tel ekki mótmælt, að styrking Kanadíska dollarans hefur haft veruleg áhrif að iðnarframleiðslu í Kanada, sem hefur átt í vök að verjast vegna hækkandi launakostnaðar (í alþjóðlegum samanburði) sem hækkun dollarans hefur eðlilega í för með sér.

Einnig ber að hafa í huga að "ríkidæmi" og kaupmáttur er ekki hið sama.  Þó að dollararnir tveir séu nokkuð á pari, er verðlag í mörgum tilfellum verulega hærra í Kanada.  Ekki er óalgengt að munurinn sé 20% eða meiri.

Þannig virkar "ríkidæmi" Kanadabúa best ef þeir fara yfir landamærin að versla, sem  þeir gera í sívaxandi mæli.

En þó að hér séu nefndar nokkrar ástæður fyrir "ríkidæmi" Kandabúa,er engin ástæða til að gera lítið úr velgengni Kanada á efnahagsviðinu, þó að vissulega séu blikur á lofti hér sem víða annarsstaðar.

En velgengni Kanada má ekki hvað síst þakka þeirri kreppu sem reið yfir Kanada fyrir ríflega 20 árum síðan.  Þá var talin raunveruleg hætta á því að Kanada yrði gjaldþrota, þvílíkar voru skuldir hins opinbera.  Þá var Kanadíski dollarinn kallaður "pesó norðursins", enda fengust ekki nema í kringum 65 Bandarísk cent fyrir hann þá.

En Kanadískir stjórnmálamenn lærðu sína lexíu (þó að margt bendi til þess að minningin um kreppuna sem farin að dofna víða, ekki hvað síst við stjórn Ontario) og tóku sér tak, skáru harkalega niður í rekstri hins opinbera, hækkuðu skatta á almenning (en lækkuðu marga skatta á fyrirtæki) og greiddu niður skuldir.

Bönkum var haldið nokkuð í skefjum, og stjórnvöld neituðu að samþykkja samrunaáætlanir þeirra.  Löggjöf í kringum þá er nokkuð ströng, en innlendir bankar að nokkru verndaðir gegn alþjóðlegri samkeppni.

Þessi blanda hefur virkað nokkuð vel og eins og áður sagði stendur Kanada nokkuð vel efnahagslega.

En "ríkidæmið" er að þó nokkru leyti aðeins "pappírnum", og því miður hafa margið notað þann "auð" til að skuldsetja sig meir en hollt getur talist.  Meðalskuldir Kanadabúa hafa sömuleiðis aukist verulega.


Tímabundnir skattar?

Það er velþekkt að "tímabundnir" skattar hafa tilhneigingu til að staldra lengi við, eða hreinlega festast í sessi.  Það er allt of sjaldgæft að skattar séu felldir niður, ef þeim hefur einu sinni verið komið á.

En ef til vill er lykilsetningin í þessari frétt þar sem segir:  ... yrði væntanlega endurskoðaður strax og fjárhagur Frakklands væri aftur kominn á rétt ról og farið væri að sjá fram á tekjuafgang.

Það eru nefnilega hartnær 40 ár síðan Frönsku fjárlögin voru síðast með tekjuafgangi.  Það var annað hvort árið 1973 eða 4. 

Það verður að teljast afar líklegt að þeir launaháu Frakkar sem hafa ekki þegar gert ráðstafanir til þess að koma launum sínum undan fyrirhugaðri ofurskattlagningu, séu í óða önn við að gera það nú.

Því er líklegt að hinn fyrirhugaði skattur skili litlu, eða minnki jafnvel tekjur Franska ríkisins. 

Það er ekki eins og það sé skortur á möguleikum í nágrenni Frakklands.  Það nægir að nefna Monakó, Luxemburg og svo Ermasundseyjarnar.

Því miður virðist Hollande ætla að keyra á gömlum sósíalista/kommúnista lausnum, það boðar erfiða framtíð fyrir Frakkland. 

Það boðar líka erfiða framtíð fyrir "Sambandið", það er ekki endalaust hægt að bæta við þjóðum á spena neyðarsjóðanna.

 

 


Feluleikur og hálfsannleikur

Það er alltaf að koma betur og betur í ljós hvernig ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna, vinnur að sínu helsta hugðarefni, inngöngu í Evrópusambandið.

Á meðal  uppáhalds vopna í þeirri baráttu virðast vera feluleikur og hálfsannleikur.  Hvernig þetta mál virðist hafa verið keyrt í gegnum þingið virðist vera gott dæmi um það.  Samráð allt í skötulíki og ekkert skiptir máli nema aðlögunin að "Sambandinu".

Þegar sjást teikn á lofti um að ríkisstjórnin hyggist ekki halda fast um hagsmuni Íslendinga í makríldeilunni, heldur láta undan þrýstingi "Sambandsins", til að greiða fyrir aðlögunarviðræðunum. 

Einn hálfsannleikurinn, ef ekki hrein lygi,  sem ríkisstjórnarflokkarnir hafa haldið á lofti er að makríldeilan tengist ekki, eða hafi nokkur áhrif á aðlögunarviðræðurnar.

Það er kominn tími til að blekkinginum linni, líklega er best að slíta aðlögunarviðræðunum eða í það minnsta setja þær á ís. 

Hvorki ástandið innan "Sambandsins", eða samskipti Íslendinga og "Sambandsins" (IceSave og Makríldeilan) gefa ástæður eða réttlæta að viðræðunum sé haldið áfram.

En það blasir við að það þarf að skipta um ríkisstjórn til að svo verði.  Til þess þarf kosningar, sem verða æ brýnni með hverjum deginum sem líður.


mbl.is Ryður valdframsali braut
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Síðustu forvöð að yfirgefa euroið? Skipulagt Fixit?

Það er alveg ljóst að "Norðurríkin", í það minnsta mörg þeirra, eru ekki ánægð með að taka hugsanlega  þátt í að greiða skuldir "Suðurríkjanna".  Það er varla erfitt að skilja slíka óánægju. Flest ríkin eiga nóg með sig, ef svo má að orði komast, og þó að skuldamál Finna séu í nokkuð góðu standi (alla vegna í samanburði við mörg önnur lönd), er langt í frá að efnahagslífið sé í blóma og raunar hættulegar blikur á lofti.

Það er líka vert að hafa í huga að það er ekki langt síðan Finnar gengu í gegnum hræðilega kreppu, sem hafði mikil áhrif á þjóðina.  Finnar sigldu í gegnum kreppuna með aðhaldi, niðurskurði og í raun því sem má kalla harðindum.  Það kemur því ekki á óvart að Finnum lítist ekki á að dæla fé í "Suðurríkin".

En ef til vill gera Finnar sér líka grein fyrir því að ef til vill eru að verða síðustu forvöð að yfirgefa euroið.

Með því er ég ekki að segja að ekki verði hægt að yfirgefa euroið í framtíðinni, öðru nær og ég er ekki að halda því fram að það verði ekki kostnaðarsamt fyrir Finna að yfirgefa sameiginlegu myntina.  En það gæti komið betur út að yfirgefa myntsvæðið eftir eigin áætlun, heldur en að þurfa að taka upp nýja mynt með litlum fyrirvara ef eurosvæðið splundrast.

Finnar gætu líka hugsað sem svo að betra sé að yfirgefa euroið núna, áður en frekari samþætting fjármála og skuldsetningar á sér stað, þar sem það verður æ erfiðara og flóknara að yfirgefa euroið eftir því sem samstarfið verður nánara og dýpra.

Besti tíminn gæti því verið núna.

En það er alveg ljóst að þetta er "skot fyrir bóginn" frá Finnum.  Þeir láta vita að þeim sé að verða nóg boðið og "Suðurríkin" verði að fara varlega í kröfugerð sinni.

P.S.  Það hefur verið mikið um alls kyns skammstafanir í kringum eurokreppuna. PIGS, PIIGS, Grexit o.s.frv.  Skammstöfunin fyrir brottför Finnlands af eurosvæðinu, eða "Finnish Exit" er að sjálfsögðu Fixit.


mbl.is Greiða ekki skuldir annarra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gamlar lausnir og gamall skuldavandi

Það kemur líklega fáum á óvart að ríkisstjórn sósíalista í Frakklandi, sem lét verða eitt af sínum fyrstu verkum að lækka eftirlaunaaldur hluta ríkisstarfsmanna, grípi til þess ráðs að hækka skatta.

Enn færri ætti að koma það á óvart að halli sé á Frönskum fjárlögum.  Það er vissulega göfugt markmið að stefna að hallalausum fjárlögum árið 2017, en frekar týpískt að fresta því að skera niður og vonast eftir að bráðum komi betri tíð.

Staðreyndin er sú að Frönsk fjárlög hafa ekki verið hallalaus síðan 1973 eða 4, ég man ekki alveg hvort árið það var.  Í hartnær 40 ár hafa Frakkar ekki komið saman fjárlögum án halla.  Í hartnær fjörtíu ár hafa Frakkar lifað um efni fram.

Þetta er ekki lengur að slá lán og ætla að láta börnin borga, nú er slegið og barnabörnunum ætlað að borga brúsann.

Því miður eru Frakkar ekkert einsdæmi hvað þetta varðar og ekki undarlegt þó að hrikti í víða um heiminn.

 


mbl.is Skattahækkanir boðaðar í Frakklandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband