Lífið eftir vinnu

Það að barnaskólakennari sé settur í óumbeðið frí vegna bloggskrifa vekur upp margar spurningar.  Ekki hvað síst, hvenær er réttlætanlegt að hefta skoðana eða tjáningarfrelsi?  Getum við neitað sumum starfsgreinum um tjáningarfrelsi sem við leyfum öðrum?  Þarf slíkt þá ekki að koma skírt fram í ráðningarsamning?  Getur slíkur samningur stangast á við stjórnarskrá?

Ef hægt er að banna kennara að tjá skoðanir trúarsafnaðar sem hann er í, á opinberum vettvangi, þarf þá ekki að banna trúarsöfnuðinn?  Ef þær skoðanir sem kennarinn lét í ljós er hatursskrif, byggir söfnuðurinn þá ekki á hatri?

Ef talið er að ekki sé um vísvitandi místúlkun á orðum í Bíblíunni, þarf þá að banna Bíblíuna?  Eru hatursskrif í bókum ekki bönnuð líka?

En hvað má kennari blogga um?  Er ef til vill best að banna þeim að blogga?  Mætti kennari til dæmis skrifa fallega um nazisma?  Nú eða lýsa því yfir að hann sé kommúnisti og að Sovétríkin hefðu verið fyrirmyndarsamfélag?  Hvað ef hann fjallaði fjálglega um yfirburði A-Þýska kommúnistaflokksins.  Vill einhver að barnið sitt umgangist slíka einstaklinga?

Ættu höft á tjáningarfrelsi bara að gilda um barnaskólakennara eða gilda þau líka um framhalds og háskólakennara?

Hvað um aðrar stéttir?  Þarf að gefa út handbók um hvað lögreglumenn mega blogga um, hvað um opinbera starfsmenn sem almenningur þarf ef til vill að leita til?  Nú eða stöðumælaverði?

Hver á lífið eftir vinnu?  Er eitthvað líf eftir vinnu?

Og hvað með einkageirann?  Myndi verkalýðsfélagið samþykkja að ég myndi reka einstakling sem skrifaði illa um samkynhneigða, nú eða vel um kommúnista eða nazista, á þeirri forsendu að hann kæmi slæmu orði á fyrirtækið mitt?

Að gera kröfu til einstaklinga á vinnutíma er eitt, að gera kröfu til þeirra í einkalífi er annað, en hvar liggur línan?

Ég held að það séu ekki til nein einhlýt svör við þessum spurningum.  Það er líklega svo að svörin við þeim eru mismunandi eftir einstaklingum.  Það er eðlilegt og sýnir fjölbreytileika mannlifsins.

Það er allt í lagi að vera á móti skoðunum annara, það getur verið allt í lagi að fyrirlíta þær.  Það sama gildir um trúarbrögð og annað það sem einstaklingar samsama sig í.

En persónulega hef ég engan áhuga á því að banna fólki að hafa skoðanir eða að tjá þær.  Ef einhver er vafi, eigum við að bera gæfu til að leyfa tjáningarfrelsinu að njóta hans.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mér finnst hatursorðræða ekki eiga rétt á sér, sérstaklega í ljósi þess að maðurinn er kennari.  Við þurfum að vera mjög vakandi gagnvart orðræðu sem þessari, þetta eru meira en bara skoðanir, þetta er yfirlýst hatur á ákveðnum hópi fólks.

Erna Magnúsdóttir (IP-tala skráð) 14.2.2012 kl. 23:34

2 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

En ef einstaklingurinn heldur sínum skrifum algerlega aðskildum frá starfi sínu? 

Getur yfirlýstur Stalínisti ekki verið kennari?  Eða maður sem segir að Lenín hafi verið góður foringi?  Eða maður sem segir hann noti gælunafnið Lenín sem hrósyrði?  Eða maður sem segir að Hitler hafi gert margt gott?  Getur einstaklingur sem er hlynntur lögleiðingu efna s.s. marijuana verið kennari?  Má hann blogga um það?  Getur kennari gefið yfirlýsingu um það að hann noti eða hafi notað marijuana og ekki beðið skaða af?

Er einstaklingurinn í starfi sínu 24. tíma á sólarhring?  Hvar drögum við mörkin? 

G. Tómas Gunnarsson, 14.2.2012 kl. 23:45

3 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Það er ef til vill rétt að taka það fram að ég er ekki að tala um "manninn", með ákveðnum greini.  Ég er að tala um hvað við teljum að megi, hvar eigi að draga mörkin, hvað er ásættanlegt? 

Fer það bara eftir því hvaða hópur er háværastur, eða eru einhverjar línur?

G. Tómas Gunnarsson, 14.2.2012 kl. 23:47

4 identicon

Já, línurnar liggja við hatursorðræðu. Mariuanalögleiðing felur ekki í sér hatur á ákveðnum hópum fólks.  Og já, það eru ýmsar starfsstéttir sem eru í raun í starfinu 24 tíma sólarhringsins.  9-5 væðing nútímans gerir það að verkum að fólk "kompartmentalíserar" líf sitt, en mér finnst ekki vera hægt að aðskilja vinnu frá persónu að öllu leyti. 

Til dæmis eru lögfræðingar með ákveðnar siðareglur um það hvernig lögfræðingar skula haga sér almennt, og þá ekki bara á vinnutíma.

Erna Magnúsdóttir (IP-tala skráð) 15.2.2012 kl. 00:07

5 identicon

Algjörlega sammála, þetta siglir í alherjar ritskoðun líkt og í Kína og sambærilrgum löndum.

Ásdis Erlingsdóttir (IP-tala skráð) 15.2.2012 kl. 00:16

6 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Það finnst mér frekar ódýr afgreiðsla, hvað með nazisma?  Hvað með kommúnisma?  Þetta eru ef til vill þær tvær mestu mannhatursstefnur sem við þekkjum, má þá maður sem predikar kommúnisma í bloggi sínu kenna börnum?  Má einstaklingur sem predikar nazisma í bloggi sínu kenna börnum?

Er samkynhneigð fordæmd í Bíblíunni?  Ef svo er eigum við þá að banna Bíblíuna?  Er samkynhneigð formdæmd í Kóraninum? Eigum við þá að banna Kóraninn?  Er einstaklingur sem segir að allir menningarheimar séu ekki jafnir (eins og haft er eftir einum ráðherra Frakklands) að tjá sig gegn því sem gott þykir?

Hver skilgreinir hvað er hatur?  Eigum við að setja á stofn nefnd til að ákveða það?

G. Tómas Gunnarsson, 15.2.2012 kl. 00:16

7 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Gleymdi að minnast á, hefur lögfræðingum og t.d. blaðamönnum verið vikið úr starfi fyrir að ganga gegn siðareglum stéttar sinnar?

G. Tómas Gunnarsson, 15.2.2012 kl. 00:18

8 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Á barn sem veit að afi þess eða langafi var drepinn af kommúnistum eða nazistum að þurfa að þola að ganga í tíma til kennara sem lofsyngur aðra hvora stefnuna í bloggi sínu?

G. Tómas Gunnarsson, 15.2.2012 kl. 00:19

9 identicon

Uh.. ef ég ætti barn sem væri í námi hjá kennara sem predikaði mannhatursstefnur eins og nazisma og kommúnisma þá myndi ég mótmæla! 

En mér þykir þú vera með útúrsnúninga.  Samkynhneigðir eru jaðarhópur sem hefur þurft að berjast fyrir réttindum sínum, jafnvel mannréttindum og eiga undir högg að sækja.  Mér finnst það persónulega ekkert jaðartilvik að tala um þann hóp eins og Snorri gerir.

Erna Magnúsdóttir (IP-tala skráð) 15.2.2012 kl. 00:24

10 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Það er ekkert jaðartilvik að tala eins og Snorri gerir, þó að ég kjósi alla jafna ekki að tala um þetta út frá einum einstaklingi.

Kristnir menn og kristin kirkja hefur talað á þann veg um árabil og aldir, það er ekkert nýtt.  Viljum við banna Bíbíunn?  Fyrir trúleysingja eins og mig er það enginn missir, nema að því leyti að það er eitt bannið í viðbót, sem hamlar tjáningu einstaklinga.  Og þá tjáningu þykir mér vænt um í öfugu hlutfalli við trú mína.

Það er enginn útúrsnúningur að blanda þessu saman við kommúnisma og nazisma, því svo ég taki dæmi af sjálfum mér þá er það eitur í mínum beinum.

En það sem ég er að vara við er að við förum að velja úr það sem við viljum banna, eftir okkar eigin skoðunum, eða skoðunum meirihlutans.

Það er rétt að hafa það í huga að fyrir sárgrætilega fáum árum var sú skoðun sem þú nú fordæmir skoðun meirihlutans og kennarar voru reknir úr starfi víða um lönd, og eru ef til vill enn þann dag í dag, fyrir að vera samkynhneigðir eða að lýsa yfir samúð sinni með þeim sem það voru.

Það þótti líka víða um lönd eðlilegt að reka þá úr starfi sem voru kommúnistar, já og nazistar.  Bæði ef þeir voru kennarar sem og í öðrum störfum.  Í þeim löndum sem aðhylltust kommúnisma eða nazisma voru margir þeir sem ekki gerðu það reknir úr störfum sínum eða hlutu þaðan af verri örlög.  Margir voru hreinlega drepnir.

Meirihlutinn kann að hafa rétt fyrir sér eða rangt eftir atvikum.  Í hvorugu tilfellinu er réttlætanlegt að þröngva skoðun sinni upp á minnihlutann.  Að hafa rangt fyrir sér er ekki glæpur, fyrir það ætti enginn að vera rekinn úr vinnunni sinni.  Að hafa "slæmar" skoðanir ætti ekki heldur að vera "refsihæft".

G. Tómas Gunnarsson, 15.2.2012 kl. 00:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband