Bloggfærslur mánaðarins, október 2012
9.10.2012 | 08:41
Að bjarga fyrir horn
Einstaka sinnum er það réttlætanlegt að hið opinbera hlaupi undir bagga með einkafyrirtækjum í stuttan tíma. Slíkt er þó alltaf óæskilegt og varasamt.
Vissulega ber það göfugt yfirbragð að bjarga störfum. En ef störfin eru ekki "sjálfbær", er verr af stað farið en heima setið. Þegar hið opinbera grípur inn í og "bjargar" fyrirtækjum og störfum skekkir það samkeppnisumhverfi annara fyrirtækja og gerir ólíklegra að óarðbær fyrirtæki hverfi, renni inn í önnur fyrirtæki eða taki til í sínum ranni og hagræði.
Í einstaka tilfellum kann inngrip að vera réttlætanlegt til að "kaupa tíma" á meðan endurskipulagning fer fram og rekstri er snúið við. Sósíalista ríkisstjórn Hollande hefur hins vegar ekki virst vera á þeim buxunum, heldur vírðist fyrst og fremst keyra á gömlum lausnum. Auknum ríkisafskiptum og hærri skattheimtu.
Það er ávísun á frekari vandræði, þegar skattheimta er aukin á au fyrirtæki sem ganga, og nota féð til að halda gangandi fyrirtækjum sem eiga í erfiðleikum.
Frakkland þarf fyrst og fremst á því að halda að auka samkeppnishæfi sitt, sérstaklega gagnvart Þýskalandi.
119 fyrirtækjum bjargað frá þroti | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
5.10.2012 | 11:39
Hafa orð ráðherra einhverja vigt?
Það má auðvitað deila um það eins og flest annað hvort að eðlilegt sé að ráðherrar tali um gjaldimiðil þjóðar sinnar eins og segja má að allir ráðherrar Samfylkingar hafa talað síðan 2007.
Allir hafa þeir talað eins og krónan sé ónýt og ekki á vetur setjandi, hún er þó til staðar enn þá og ekkert sem bendir til annars en hún verði það í það minnsta næsta áratuginn, ef ekki til eilífðar.
En vissulega hefur hún þurft að taka á sig brotsjói Íslenskrar efnahagslífs á þessu árabili rétt eins og alltaf í sögu hennar.
En auðvitað skiptir máli hvað sagt er, það skiptir meira að segja máli hver segir það og hvar það er sagt. Víða um heim er það svo að talið er að ráðherrar tali af þekkingu og skynsemi, en það er ef til vill ekki alltaf raunin á Íslandi.
Það var fyrri part árs 2008 sem ég var staddur í samkvæmi í Toronto, þar var blandaður hópur og m.a. nokkrir einstaklingar sem störfuðu í fjármálageiranum. Einn þeirra spurði mig hvort að það væri rétt að viðskiptaráðherrann á Íslandi hefði sagt að gjaldmiðill landsins væri ónýtur. Ég þvældi málið eitthvað, en svaraði á þá leið að ég væri ekki viss um að það hefði hann sagt orðrétt, en það hefði vissulega verið meiningin. Þá hló viðmælandi minn og sagði, er hann ennþá ráðherra?
Það þarf ekki að leita lengi í fréttum til að sjá að víðast hvar um heiminn eru viðlíka hlutir teknir alvarlega.
Ef menn eru þeirrar skoðunar að orð fjármálaráðherra og annarra ráðherra hafi einhverja vigt, hljóta þeir að vera sammála því að svona framsetning ber ekki vott um þekkingu eða ábyrgð.
Ef þeir eru hins vegar þeirrar skoðunar að orð fjármálaráðherra hafi enga vigt, eða hafi engin áhrif á umræðuna, þá er vissulega önnur staða uppi.
Hvað álitsgjafar og aðrir "spekulantar" segja er svo annað mál.... þeir eru í allt annari stöðu og eru ekki ráðnir til starfa af þjóðinni.
Ráðherra yrði settur af | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
4.10.2012 | 13:38
Stjórnviska í anda Dr. Jeckyll og Mr. Hyde
Stundum virðist ríkisstjórn Íslendinga aldrei hafa hugleitt að aukin skattheimta geti leitt af sér samdrátt í eftirspurn.
Vissulega má rökstyðja að allir og allar greinar atvinnulífsins eigi að borga sömu prósentu í virðisaukaskatt og bílaleigur eigi að borga sömu okurgjöldin og aðrir þegar keyptir eru bílar á Íslandi.
En það er auðvitað ekki sama hvernig að hækkunum er staðið og hvaða fyrirvari er gefinn á hækkunina.
Það hlýtur líka að vekja upp spurningar, að ekki er ætlunin að að vera með einn virðisaukaskattflokk yfir línuna. Það er því ekki spurningin um að allir greiði jafnan skatt, heldur ætlar ríkisstjórnin ennþá að velja þá sem fá þannig "ríkisstyrk" svo notað sé orðalag sem haft var eftir nýhættum fjármálaráðherra. Með þeim rökum heldur Samfylkingin því líklega fram að lægri vsk á matvæli sé ríkisstyrkur til handa matvörukaupmönnum.
En það sem vekur ekki minni athygli, og fær mig til að detta í hug Dr. Jeckyll og Mr. Hyde (þó að sögusviðið sé sem betur fer annað), er að á sama tíma skrifa ráðherrar ríkisstjórnarinnar mærulegar greinar og hrósa sjálfum sér fyrir endurgreiðslu á vsk til handa kvikmyndaframleiðendur og þeim sem hafa lagfært fasteignir sínar, í átaki sem heitir "Allir vinna".
Þá efast ráðherrarnir ekki um gildi lægri skatta og sjá hvað það eykur umsvif og atvinnu og jafnvel skatttekjur.
Það kann að vera að það sé skemmtilegra að endurgreiða Hollywood mógulum fé, en að gefa veita almennum ferðamönnum kost á því að greiða ofurlítið minna fyrir hótelherbergi eða bílaleigubíl en hvorir tveggja eru þó líklegir til að taka ákvarðanir sínar um áfangastaði út frá kostnaði.
Það vilja líklega flestir að skattar séu eins lágir og verða má, en rétta prósentan er vissulega umdeilanleg og vandfundin. En hitt er ennþá mikilvægara að skattkerfið sé nokkuð "stabílt". Að það taki ekki sífelldum breytingum og breytingar séu kynntar með eins góðum fyrirvara og verða má.
Því miður er það svo, að þó að nýr fjármálaráðherra hafi sagt munu taka þessa ákvörðun til endurskoðunar, og vona megi að hún breytist, hefur ákvörðunin þegar ollið miklum skaða, þó að draga megi úr honum með því að draga hana til baka.
Skattaákvarðanir þurfa að vera vel undirbúnar og teknar af yfirvegun og vel hugsuðu máli. Ég hugsa að núverandi ríkisstjórn fáí ekki háa einkunn á þeim vettvangi.
Ísland ekki miðpunktur heimsins | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
4.10.2012 | 12:52
Knúið áfram af offorsi, ofstopa og hefnigirni
Auðvitað hefur það vakið furðu víða um heim hvernig staðið var að saksókn á hendur Geir Haarde fyrir Landsdómi.
En það er þó ekki stílbrot við stjórnunarstíl núverandi ríkisstjórnar. Þar ríkir offorsið, ofstopinn og yfirgangurinn. Þeir sem ekki taka undir og sætta sig við vinnubrögð og ákvarðanir ríkisstjórnarinnar, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna, eru umsvifalaust stimplaðir sem öfgamenn, óeirðaseggir, "villikettir" eða þaðan af verra.
Hér má sjá hvernig atkvæði féllu í atkvæðagreiðslunni um hverja skyldi leiða fyrir Landsdóm. Það er ekki úr vegi að hafa það í huga, nú þegar styttist í kosningar.
Nýjasta dæmið um hvernig stjórnað skal með yfirgangi og offorsi, sést svo í samskiptum stjórnarþingmanna við Ríkisendurskoðun.
Málið gegn Geir misheppnað | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
3.10.2012 | 05:23
Nýr jakki, sama röddin
Nú virðast "Sambandsinnar" hafa talið að þeir þyrftu nýjan vettvang til að senda fram áróður sinn fyrir "Sambandsaðild" og aðlögunarviðræðunum við Evrópusambandið.
Líklega hafa þeir talið að þeu samtök sem fyrir eru (hvað eru þau nú orðin mörg samtökin sem berjast fyrir "Sambandsaðild"?) séu farin að missa trúverðugleika og fáir hlusti á það sem þau hafa fram að færa. Það er líkega ekki fjarri sanni hjá þeim.
Undir slíkum kringumstæðum hefur verið vinsælt (sérstaklega hjá vinstri mönnum) að stofna nýjan vettvang (gott ef ein slík tilraun bar ekki einmitt slíkt nafn, Nýr vettvangur) um von um nýjan skammt af trúverðugleika.
En ég held að flestir sjái í gegnum þennan málflutning og þennan nýja hóp, þetta er sama fólkið og sami boðskapurinn - í nýjum jakka.
Ekkert er minnst á erfiðleika "Sambandsins" eða þá erfiðleika sem blasa við "jaðarríkjum" í "Sambandinu". Það er eins og rétt einu sinni eigi að reyna að selja aðild á þeirri forsendu að lífskjör í aðlögunarlandinu muni samsama sig lífskjörum í Þýskalandi.
Íbúar margra landa hafa brennt sig á þeirri sölumennsku og ég vona að Íslendingar bætist ekki í þann hóp.
Loks staðfestir ályktunin, enn og aftur, það sem margir hafa haft á tilfinningunni.
Lætin, ofstopinn og offorsið sem ríkisstjórnin hefur keyrt stjórnarskrármálið áfram af, á sér fyrst og fremst eina skýringu.
Það liggur á að breyta stjórnarskránni til þess að tímaáætlun þeirra sem vilja keyra Ísland inn í Evrópusambandið raskist ekki.
Ég spyr, er það sá grundvöllur sem Íslendingar vilja nota sem hvata til að breyta stjórnarskrá sinni?
P.S. Eins og margir gera sér eflaust grein fyrir er fyrirsögnin fengin að "láni" frá Björgvini Halldórssyni.
Vilja breyta framtíðarsýninni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
2.10.2012 | 08:39
Evrópusamband atvinnuleysisins
Það er ekkert sem bendir til þess að atvinnleysi fari minnkandi í "Sambandinu". Þegar hlustað er t.d. á forsvarsmenn Evrópskra bílaframleiðenda, er ljóst að þeir sjá lítið nema erfiðleika og uppsagnir framundan. Þar er farið að tala um hugsanlega þörf fyrir aðstoð hins opinbera. Ástandið hjá framleiðendum er talið versna eftir því sem sunnar dregur í álfunni, enda þekkt að þær þjóðir hafa glatað drjúgum hluta af samkeppnishæfi.
Það er reyndar rétt að hafa það í huga að atvinnuleysi er afar mismunandi bæði innan "Sambandsins" og innan eurosvæðisins. Allt frá u.þ.b. 4.5% í Austurríki og upp í rétt ríflega 25% á Spáni.
En þegar atvinnuleysi nær slíkum hæðum, hlýtur eitthvað undan að láta. Ekkert samfélag stenst slíka raun til lengdar. Eymd atvinnuleysisins nær til allra. Verst út verður ungt fólk sem oft a tíðum sér enga aðra leið en flytja á brott. Það hjálpar í núinu, en gerir framtíðarýnina síst bjartari.
Sameiginlegur, of sterkur, gjaldmiðill hefur sett Spán í því líka klípu að fæstir vita til hvers bragðs á taka. Neikvæðir raunvextir og greiður aðgangur að lánsfé kyntu upp fasteignabólu sem ekki á sér margar hliðstæður. Byggingageirinn sogaði til sín fólk og fjármagn og allt virtist í lukkunar velstandi. Aðrar framleiðslugreinar gengu ef til vill ekki jafn vel, en það skipti engu máli, því sterkur gjaldmiðill gerði kleyft að flytja inn það sem þurfti á hagstæðu verði.
En allt tekur enda um síðar, líka fasteignabólur. Þegar "útflutningur" Spánverja á húsnæði hrundi og aðgangur þeirra að ódýru lánsfé skrapp saman um svipað leyti, hefði gjaldmiðill þeirra átt að láta undan síga. En það gerði hann ekki nema að litlu leyti, þar sem staða Þýskalands ræður gengi gjaldmiðils Spánar að miklu leyti.
En Þýskaland er hin hliðin á peningnum ef svo má að orði komast. Þýski gjaldmiðillinn er gengisfelldur í sífellu vegna tengingar Spánverja, Grikkja og fleiri við hann. Þar hefur atvinnuleysi dregist saman á undanförnum árum, enda Þýskar vörur eftirsóttar um víða veröld og hagstæðari í innkaupum nú, en ef gjaldmiðill þeirra hefði styrkst í samræmi við uppgang efnahags landsins.
Þjóðverjar búa einnig að breytingu á vinnumarkaðslöggjöf sinni, sem er orðin sveigjanlegri en er í flestum "Suðurríkjunum". Raunlaunahækkanir í Þýskalandi undanfarnin áratug hafa því sem næst ekki verið neinar, á meðan kostnaður margra annara ríkja hefur rokið upp. Þeim er þó vorkunn að sumu leyti, enda þegnum þeirra gjarna lofað að lífskjör myndu "renna saman" í "Sambandinu". Kannast Íslendingar við slík loforð?
Þjóðverjar búa sig nú undir (og hafa gert á undanförnum misserum) aukin straum innflytjenda til landsins og hafa staðið fyrir herferðum til að auka hann. Helstu markhóparnir eru betur menntað ungt fólk í þeim löndum "Sambandsins" sem atvinnuleysi er hvað hæst.
Það er ekki að undra þó að þeim fjölgi sem telja að Spánn þurfi á sinni eigin mynt að halda, jafnvel þó að þeir geri sér grein fyrir því að slíkt sé ekki án sársauka.
11,4% atvinnuleysi á evrusvæðinu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
1.10.2012 | 13:24
Sparnaður og yfirdráttur = Hagvöxtur?
Hagvöxtur á Íslandi hefur valdið vonbrigðum, þó að hann hafi verið betri en víðast hvar um Evrópu. En það er þó vissulega jákvætt að Íslendingar búi við hagvöxt, þó að hann þyrfti vissulega að vera meiri.
En það er líka þarft að velta því fyrir sér hvað býr til hagvöxtinn.
Eins og kemur fram í þeirri frétt sem þessi færsla er tengd við hafa Íslendingar verið duglegir við að taka út séreignarsparnað sinn og líklega er það ekki eini sparnaðurinn sem hefur verið gengið á. Íslendingar hafa tekið út u.þ.b. 75 milljarða af séreignarsparnarði sínum, og eins og ég sagði áður er líklegt að sömuleiðis hafi verið gengið á annan sparnað.
Við bætist svo að yfirdráttarlán hafa aukist hröðum skrefum síðan þau náðu lágmarki árið 2009. Má segja að yfirdráttarlán séu orðin svo gott sem jafn mikil og þau voru árið 2008.
Síðan 2009 hafa yfirdráttarlán aukist um ríflega 30 milljarða.
Hagvöxturinn byggir sem sé að miklu leyti á því að Íslendingar éti upp sparnað sinn og steypi sér í skuldir.
Það eyðist sem af er tekið, gildir auðvitað líka um sparnað og lántökur hafa einnig sín takmörk. Þess vegna "raunverulegur, sjálfsbær" hagvöxtur að koma til sögunnar á Íslandi.
Líklega gerist það ekki fyrr en búið verður að skipta um ríkisstjórn.
Margir hafa sótt um að taka út sparnaðinn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
1.10.2012 | 12:48
Ofstopi og offors
Það kann að vera að ekki séu allir sáttir við vinnubrögð Ríkisendurskoðunar. Það kann að eiga sér eðlilegar skýringar, eður ei. Auðvitað er Ríkisendurskoðun ekki hafin yfir gagnrýni frekar en aðrir. Auðvitað er full ástæða til að fara yfir ferilinn hvað varðar skýrslu um Fjárhags og mannauðskerfi ríkisins.
En þessi aðferð er ekki líkleg til að skila tilætluðum árangri. En þetta er þó aðferð sem virðist í miklum metum hjá ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingar.
Ef ófriður er í boði, þá er sú leið valinn.
Nauðsynlegt er að sýna stuðningsmönnum sínum óvinina. Þannig má þétta raðirnar og fylkja liði.
Ofstopi og offors eru stjórntækin.
Þeir sem ekki beygja sig undir þessar aðferðir, eru sakaðir um að sýna engan sáttavilja, vera öfgamenn eða að gagnvart þeim hafi orðið trúnaðbrestur, eða þeim beri að "íhuga stöðu sína".
Það er ekki undarlegt að virðing Alþingis hafi látið á sjá.
Ekkert samráð við forsætisnefnd | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |