Hafa orð ráðherra einhverja vigt?

Það má auðvitað deila um það eins og flest annað hvort að eðlilegt sé að ráðherrar tali um gjaldimiðil þjóðar sinnar eins og segja má að allir ráðherrar Samfylkingar hafa talað síðan 2007.

Allir hafa þeir talað eins og krónan sé ónýt og ekki á vetur setjandi, hún er þó til staðar enn þá og ekkert sem bendir til annars en hún verði það í það minnsta næsta áratuginn, ef ekki til eilífðar.

En vissulega hefur hún þurft að taka á sig brotsjói Íslenskrar efnahagslífs á þessu árabili rétt eins og alltaf í sögu hennar.

En auðvitað skiptir máli hvað sagt er, það skiptir meira að segja máli hver segir það og hvar það er sagt.  Víða um heim er það svo að talið er að ráðherrar tali af þekkingu og skynsemi, en það er ef til vill ekki alltaf raunin á Íslandi.

Það var fyrri part árs 2008 sem ég var staddur í samkvæmi í Toronto, þar var blandaður hópur og m.a. nokkrir einstaklingar sem störfuðu í fjármálageiranum.  Einn þeirra spurði mig hvort að það væri rétt að viðskiptaráðherrann á Íslandi hefði sagt að gjaldmiðill landsins væri ónýtur.  Ég þvældi málið eitthvað, en svaraði á þá leið að ég væri ekki viss um að það hefði hann sagt orðrétt, en það hefði vissulega verið meiningin.  Þá hló viðmælandi minn og sagði, er hann ennþá ráðherra?

Það þarf ekki að leita lengi í fréttum til að sjá að víðast hvar um heiminn eru viðlíka hlutir teknir alvarlega.

Ef menn eru þeirrar skoðunar að orð fjármálaráðherra og annarra ráðherra hafi einhverja vigt, hljóta þeir að vera sammála því að svona  framsetning ber ekki vott um þekkingu eða ábyrgð.

Ef þeir eru hins vegar þeirrar skoðunar að orð fjármálaráðherra hafi enga vigt, eða hafi engin áhrif á umræðuna, þá er vissulega önnur staða uppi.

Hvað álitsgjafar og aðrir "spekulantar" segja er svo annað mál.... þeir eru í allt annari stöðu og eru ekki ráðnir til starfa af þjóðinni.


mbl.is Ráðherra yrði settur af
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Víða um heim er það svo að talið er að ráðherrar tali af þekkingu og skynsemi, en greinilega er ekki ætlast til þess á Íslandi ef þeim er ætlað að lofsyngja krónuna sama hvað reynslan sýnir. Ef menn eru þeirrar skoðunar að orð fjármálaráðherra og annarra ráðherra hafi einhverja vigt, hljóta þeir að vera sammála því að þeir segi satt þó sannleikurinn sé óþægilegur.

sigkja (IP-tala skráð) 5.10.2012 kl. 12:28

2 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Sannleikurinn er sá að krónan er ekki ónýt mynt.  Hún endurspeglar þann efnahagslega raunveruleika sem hefur verið á Íslandi.  Ef til vill telur fjármálaráðherra Samfylkingarinnar að Íslenskir stjórnmálamenn ráði ekki við að snúa því dæmi við.

Ég hef áður tekið dæmi af Kanadadollar.  Fyrir u.þ.b. 20 árum var gert grín að honum, hætta var talin á því að Kanada gæti ekki staðið við skuldbindingar sínar og dollarinn þeirra var kallaður "peso norðursins".  Þá fékks fyrir hvern Kanadadollar í kringum 65 Bandarísk cent.

En Kanadískir stjórnmálamenn lýstu því ekki yfir að dollarinn þeirra væri ónýtur.  Þeir ákváðu að "girða sig í brók", og sneru við dæminu, greiddu niður skuldir og tóku fjármál hins opinbera í gegn.  Bæði stjórnmálamenn úr Frjálslynda flokknum (Liberals) og Íhaldsflokkunu (Conservatives) fylgdu þessari stefnu.

Í dag kaupir Kanadadollarinn u.þ.b. 102 Bandarísk cent og Kanada þykir með traustari löndum á efnahagssviðinu.

Hvað skyldi Bandaríski dollarinn hafa misst mikið af verðgildi sínu gagnvart Japönsku jeni frá árinu 1970?  Hvað hefur Breska sterlingspundið misst mikið af sínu verðgildi gagnvert helstu myntum á frá t.d. 1960?  Eru þetta ónýtir gjaldmiðlar?

Það þarf ekki að lofsyngja krónuna, en það er sjálfsagt að ráðamenn sýni gjaldmiðli þjóðarinnar virðingu.  Gamla máltæið árinni kennir illur ræðari á líklega hvergi betur við en í þessari umræðu.

G. Tómas Gunnarsson, 5.10.2012 kl. 15:23

3 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Ég er á þeirri skoðun að fjármálaráðherran hafi orðið sér til skammar, og það ætti í raun og veru að setja hana af fyrir þetta mál.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 5.10.2012 kl. 15:40

4 identicon

Dollar hefur misst um 80% af verðgildi sínu miðað við Yen síðan 1970. 1970 dollar kaupir það sama og 5 dollarar 2012. Tæplega 4% ársvextir hefðu dugað til að bæta rýrnunina á dollarnum.

Pundið hefur misst um 94% af sínu verðggildi frá 1961. 1961 pundið kaupir það sama og 18 pund 2012.  Tæplega 6% ársvextir hefðu dugað til að bæta rýrnunina á pundinu.

Íslenska krónan hefur misst um 99,9997% af verðgildi sínu frá 1961. 1961 krónan kaupir það sama og 3700 krónur 2012. Rúmlega 17% ársvexti hefði þurft til að bæta rýrnunina á krónunni.

Það er nokkuð ljóst hvaða gjaldmiðill stendur sig verst og er skaðlegastur sparnaði og afkomu almennings.

sigkja (IP-tala skráð) 5.10.2012 kl. 21:47

5 identicon

Það sem sigkja er ekki að átta sig á er að það er ekki krónan sem er veikasti hlekkurinn í íslenska hagkerfinu, það eru pólitíkusarnir sem ekki kunna að stilla eyðslu og afskipum í hóf. Vel má vera að krónan sé sveiflugjarnari en aðrir og stærri gjaldmiðlar en það er fyrst og fremst óhófið og afskiptasemin sem er skemmdarvargurinn.

NN (IP-tala skráð) 5.10.2012 kl. 22:39

6 identicon

Það má vel vera að með einhverjum ofurmönnum í pólitík mætti njóta sömu gæða og aðrar þjóðir njóta í fjármálum. En ég er ansi hræddur um að betra sé að skipta út skrímsli sem oftast gerir meiri skaða en gagn heldur en að ætla að finna ofurmennin sem geta hamið skepnuna tamið og látið gera gagn þegar okkur hefur ekki tekist það ennþá þrátt fyrir áratuga leit. Það hefur ekki verið sýnt fram á það að mannlegur máttur geti hamið dýrið nema mánuði í senn.

Það mætti alveg segja að óhófið og afskiptasemin sé afleiðing en ekki orsök lítils gjaldmiðils sem er ofur viðkvæmur fyrir öllum sveiflum. Þannig hafa í gegnum árin tiltölulega lítil áföll kostað heimilin margra ára uppbyggingu og almenning bæði sparnað og kjarabætur.

sigkja (IP-tala skráð) 6.10.2012 kl. 00:00

7 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Það er alveg rétt að Íslensk efnahagsstjórn hefur verið með slökum hætti og krónan sýnir það.  Hin hliðin á þeim peningi er þegar gjaldmiðillinn tekur ekki mið af efnahagsstjórninni.  Afleiðingarnar af því geta allir séð í Grikklandi dagsins í dag.

Það er líka gott að taka með í reikingin aðrar hagstærðir.  Svo merkilegt sem það er og hve illa Ísland kemur út í þessum samanburði, hafa efnahagslegar framfarir líklega verið mestar á Íslandi af þessum löndum og velmegun aukist mest á þessu tímabili.

Líklega er það ekki hvað minnst að þakka að atvinnuleysi hefur gjarna verið minna á Íslandi en mörgum öðrum löndum.  Jafnvel nú, er atvinnuleysi minna á Ísland en það er í Bandaríkjunum, þrátt fyrir að Bandaríkin hafi þessa sterku mynt (sem hefur vissulega látið mikið á sjá.).  

Hvað skyldi langtíma atvinnuleysi hafa kostað Bretland og Breskan almenning?

Sterkari gjaldmiðill hefur ekki verndað fasteignir Írsks almennings, sem hefur séð þann sparnað brenna upp, það sama hefur átt sér stað á Spáni og víðar.

Það er varasamt að treysta "töfralausnafólki", á því hafa margir brennt sig.

Því miður er staðan sú á Íslandi í dag, að margir stjórnmálamenn sjá sér pólítískan hag í því að krónan standi sem verst í hugum fólks og sé illa þokkuð.

Það er slæm staða.

G. Tómas Gunnarsson, 6.10.2012 kl. 04:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband