Bloggfærslur mánaðarins, desember 2011

Samkomulag sem gat ekki náðst?

Það kemur ef til vill ekki á óvart að ekki hafi náðst samkomulag á milli allra "Sambandsríikjanna" um breytingar.  Það kemur heldur ekki á óvart að það skuli fyrst og fremst stranda á Bretlandi.  Að sumu leyti er það engu líkara en sú niðurstaða hafi verið "hönnuð".

Þegar leiðtogar Frakklands og Þýskalands (hér má velta því fyrir sér hvers vegna enginn virðist efast um rétt þeirra til þess að semja tillögurnar aðeins tvö) koma saman og semja tillögur sem vitað er að því sem næst ómögulegt er fyrir leiðtoga Bretlands að samþykkja og leggja það síðan fyrir öll "Sambandslöndin", kemur það ekki beint á óvart að Bretland samþykki ekki tillögurnar.  Bretar vilja ekki gefa eftir meira af fullveldi sínu og þeim er sérstaklega umhugað að engar breytingar verði gerðar skattalega sem gæti ógnað fjármálageiranum þeirra, sem er sá öflugasti í Evrópu. 

Þeir standa enda betur að mörgu leyti en meginlandslöndin, álagspróf fyrir Evrópska banka sýndi að bankakerfið þeirra stendur betur heldur en hinna meginlandanna í "Sambandinu". 

En það er auðvitað pólítískt auðveldara fyrir Merkel og Sarkozy að leggja fram tillögur sem leggja frekari byrðar á Breta en eigin þjóðir.  Það kann að fara örlítið í skapið á leiðtogunum á meginlandinu að núna er það að koma svo vel í ljós að Bretland valdi réttu leiðina, að standa fyrir utan eurosvæðið og flest þau rök sem komu fram fyrir þeirri ákvörðun hafa reynst rétt.  Meira að segja Jacques Delors lætur slíkar skoðanir í ljós.  Það kann líka að vera að "Merkozy" hafi þótt það ásættanleg niðurstaða, þar sem alltaf var ljóst að samhljóða ákvörðun væri erfitt að ná, að það kæmi í hlut Bretlands að vera hinn "neikvæði" aðili.

Það má alveg hugsa sér verra vegarnesti fyrir Sarkozy í komandi forsetakosningum heldur en að hafa verið harður í horn að taka við "Róstbíf æturnar".

En hvert framhaldið verður er ómögulegt að spá fyrir um nú.  Bretland er enn í "Sambandinu".  Stofnanir "Sambandins" geta ekki með góðu móti farið að starfa fyrir minna samband innan "Sambandsins".  ´

Nú þegar má sjá alls kyns vangaveltur um hvernig þjóðirnar sem ætla að standa að samkomulaginu geti gert það án þess að hleypa almenningi að ákvörðunartökunni, enda lýðræðið álitið til trafala þegar taka þarf ákvarðanir innan "Sambandsins".

En það á ýmislegt eftir að ganga á áður en það tekst að negla saman niðurstöðu af þessum fundum.  Ýmsar yfirlýsingar eiga eftir að heyrast og það verður líklega einhverjir dagar í að "rykið nái að setjast".

Nýlega voru Finnar að hrista eitthvað upp í "samkomunni", en Jutta Urpilainen fjármálaráðherra Finnlands lét hafa eftir sér:

As we are strongly committed to unanimous decision making, in practice that means we have two options. Either we keep to the original agreement that decisions are taken unanimously on the permanent mechanism, or Finland doesn’t participate in the permanent mechanism.

...

It’s natural that a country that has taken meticulous care over its finances has certain conditions they want to hold onto.  We are a small country and think it’s important to respect democracy and allow each member state influence over decisions that imply large financial consequences and liabilities.

Það er ekki ólíklegt að smá hnökrar sem þessir skjóti upp kollinum á næstu dögum.  Reynt verður að berja þá niður jafn óðum en ómögulegt er að sjá hvernig eða hvenær þessu lýkur.

En það er vissulega til bóta að eurosvæðið ætli að sýna ábyrgari fjármálastjórn í framtíðinni, en vandamálin sem ekki er búið að leysa eru enn ærin.  Bankakerfið er veikt, skuldir ríkjanna eru enn gríðarlegar (það ætti þó að hægja á vexti þeirra) og samkeppnisstaðan á milli "suður" og "norður" ríkjanna er ennþá úr jafnvægi.  Vöxtur svæðisins er afar lítill og síðast en ekki síst á alveg eftir að sjá hvernig ríkisstjórnum landanna gengur að höndla niðurskurðarhnífanna, en ljóst er að þeim hlýtur að verða beitt ósparlega á næstu misserum.

 


mbl.is Öll ESB-ríki nema Bretar sammála
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er Jón Bjarnason vinsælasti ráðherrann á Íslandi?

Ekki hefði ég neitt á móti því að Jón Bjarnason hyrfi úr ríkisstjórn, en ég myndi vilja sjá það eftir kosningar og að hann hyrfi á braut ásamt öllum samráðherrum sínum.

En ég verð að viðurkenna að mér þykir það merkilegt að sjá einn ráðherra tekin svona út í könnun.  Var virkilega ekki spurt um neina aðra ráðherra?  Miðað við hvaða stuðning ríkisstjórnin hefur notið í könnunum undanfarið verður mæling Jóns að teljast góð.  En það er óneitanlega verra að hafa ekki mælingu á öðrum ráðherrum til að bera hana saman við.

Ég leyfi mér að efast um að aðrir ráðherrar nytu meiri stuðnings á meðal þjóðarinnar, þó að engan vegin sé hægt að fullyrða nokkuð um það mál.

Það sem vekur mesta athygli við þessa könnun er þó að hún skuli vera gerð.  Það þarf þó ef til vill ekki að koma á óvart að hún sé gerð fyrir Fréttablaðið, því það kemur oft býsna skýrt fram hvaða hagsmunum það blað þjónar.

 


mbl.is Meirihluti vill að Jón hætti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fundað í Brussel til að ákveða hvernig eigi að bjarga klettinum í hafinu

Það er líklega ekki ofmælt að það munu mörg augu fylgjast með því sem gerist í Brussel.  Hvaða leið verður valin til að reyna að bjarga euroinu.  Flestir eru sammála um að engin þeirra er góð, en samt verður eitthvað til bragðs að taka.

Greece the musicalAllir eru sammála um að núverandi ástand getur ekki gengið.  Allir (nema örfáar sálir á Íslandi) virðast vera búnir að sjá að eurosvæðið getur ekki lifað af óbreytt.  Allir eru búnir að sjá að uppbygging og skipulag eurosins var frá upphafi dæmt til að skapa vandræði.  Skapa það ástand sem ríkir akkúrat núna.  Í útbreiddasta dagblaði Íslands var það kallað að stjórnmálamenn hefðu farið offari við að selja kosti eurosins og gleymt að fjalla um gallana.  Þannig tala Íslenskir "Sambandssinnar".

En hvað sem verður tekið til bragðs er líklega óhætt að fullyrða að eurosvæðið og líklega Evrópusambandið verður ekki óbreytt öllu lengur.  Róttækra breytinga er þörf.

En það hlýtur líka að vera flestum ljóst, nú þegar "Sambandsríkin" eru kölluð til fundar til að leggja blessun sína yfir tillögur Merkel og Sarkozy, að allt tal um að ríkin starfi saman á jafnréttisgrundvelli er hjóm eitt.  Á eurosvæðinu eru Þýskaland og Frakkland sólín sem hinum ríkjunum er leyft að snúast í kring um - ef þau hegða sér almennilega.  Annars liggur í loftinu brottvikning úr sólkerfinu.  Við hin 10. ríki "Sambandsins" er sagt að þau verði að vera til friðs, annars einfaldlega fái þau ekki að vera "memm".

Það eiga allir að taka þátt í söngleiknum möglunarlaust, dansa í kringum aðal númerin og syngja með í smellinum, Hopelessly Devoted to EU.

En hvaða leið sem verður valin, er næsta öruggt að hluti af því gjaldi sem þarf að greiða er að lýðræðið innan eurosvæðisins og hugsanlega "Sambandsins" alls verður sett til hliðar eins og þurfa þykir.  Leitað verður allra leiða til að sneiða hjá því að almenningur fái nokkra aðkomu að málinu eða að segja sitt álit.  Honum verður tilkynnt að náðst hafi "glæsileg niðurstaða".

Þunglamalegt stjórnkerfi "Sambandsins" og veikburða stofnanir þess ráða ekki við vandamálið eins og uppbyggingin er í dag.  Þess vegna byggja björgunartilraunirnar á "Merkozy" og hinir bíða á hliðarlínunni.

Eurosvæðið er eins og vistvæn músagildra, það er hægt að komast inn en það er engin leið út, alla vegna ekki með góðu móti.  Þess vegna hafa engin "Sambandslönd" sem enn hafa ekki látið blekkjast af ostinum áhuga á því að taka upp "euroið" um þessar mundir.

P.S.  Drög að þeim ályktunum sem sagt er að  ræddar séu á fundinum hafa að sjálfsögðu lekið út, og má finna hér.

P.S.S. Myndina fékk ég senda en húm mun vera upprunin úr Breska blaðinu The Times


mbl.is Allra augu á Brussel
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

IceSave þjóðaratkvæðagreiðslurnar voru ekki til einskis

Nú er byrjaður spuni stuðningsmanna ríkisstjórnarinnar og þeirra sem hvað ákafast studdu IceSave samningana að allt "rifrildið" og allar rökræðurnar og þjóðaratkvæðagreiðslurnar tvær hafi ekki haft neinn tilgang.

Það er fjarri sanni.

Í fyrsta lagi er það auðvitað grundvallaratriði hvort að um er að ræða ríkisábyrgð eður ei (í sjálfu sér má segja að slík hætta sé enn fyrir hendi, ef til þess kæmi að málið færi fyrir dómstóla).

Í öðru lagi þá hefur Íslenska ríkið ekki innt af hendi vaxtagreiðslur sem nú þegar hefðu numið tugum milljarða. Það er heldur ekki útséð um hvort að þær greiðslur gætu fallið á ríkið, ef til dómsmáls kæmi.  Það má þó líklega segja að það gæti verið Íslenska ríkinu auðveldara að greiða slíkar greiðslur í framtíðinni, ef Íslenskt efnahagslíf nær sér á strik, heldur en á liðnum árum þegar efnahagurinn var hvað erfiðastur.

Ennfremur má segja að stærsti ávinningurinn af þjóðaratkvæðgreiðslunum sé sá að með þeim var það þjóðin sjálf sem ákvað í hvaða farveg málið fór, en laut ekki ákvörðun stjórnmálastéttarinnar sem augljóslega gekk ekki í takt við þjóðina.  Þannig náðist að skapa mun breiðari sátt um málið en ella hefði orðið.  Þjóðin verður svo að sjálfsögðu að lifa með ákvörðun sinni hvernig sem endirinn verður.

En málinu er langt í frá lokið.  Ennþá er nokkuð langt í land að niðurstaða fáist hvað varðar þrotabúið.  Iceland verslundarkeðan er ekki seld og ekki ljóst hvaða verð fæst fyrir hana svo stærsta dæmið sé nefnt.  Íslendingar vona það besta, en niðurstaðan á eftir að koma í ljós.  Kreppan sem nú ríður húsum í Evrópu getur haft áhrif, bæði á verð og ekki síður hve fljótt verður af sölunni.

Enn er ekki útséð með lagahlið málsins.  Það má þó leyfa sér að vona að sú staðreynd að byrjað er að borga út úr þrotabúinu dragi úr líkum á málssókn.  Ástandið í Evrópu eykur líklega heldur ekki líkurnar á því að Bretland, Holland eða Evrópusambandið vilji mikla umfjöllun um innistæðurtryggingakerfið og hugsanlega dómsniðurstöðu í fjölmiðlum.

Ég held því að það megi fullyrða að þjóðaratkvæðagreiðslurnar tvær um IceSave hafi verið afar mikilvægar.  Þjóðin lærði af þeim mikilvæga lexíu og ef til vill stjórnmálastéttin ekki síður.

En þeir voru líka margir sem urðu sér til skammar í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslanna.  Margir fræðimenn og álitsgjafar gengisfelldu sjálfa sig með stórkarlalegum en innihaldslitlum fullyrðingum um afleiðingar þær sem yrðu ef þjóðin neitaði samningunum.

En skammarlegast af öllum gengu líklega fram Jóhanna Sigurðardóttir, Steingrímur J. Sigfússon og ýmsir aðrir stjórnarliðar, þegar þau sniðgengu þjóðaratkvæðagreiðsluna.  Það er einsdæmi að forystumenn ríkisstjórnar sniðgangi þjóðaratkvæðagreiðslu með þessum hætti.  Skömmin verður ennþá meiri þegar litið er til þess hve oft þau höfðu á árum áður talað fjálglega um nauðsyn þjóðaratkvæðagreiðslna.    Ég hygg að sú skömm muni fylgja þeim að svo lengi sem land byggist svo notað sé hátíðlegt orðalag.


mbl.is Greiddu 432 milljarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hagvöxtur já, fjárfesting nei

Það er vissulega gott að hagvöxtur skuli nást á Íslandi, Íslendingar þurfa svo sannarlega á því að halda að umsvif aukist.  Hvort að hagvöxturinn kemur vegna aðgerða ríkisstjórnarinnar eða þrátt fyrir þær er auðvitað eitthvað sem rífast má um lengi, en mér finnst engan veginn hægt að mótmæla því að þetta er plúsmegin hjá ríkisstjórninni.

En það er vissulega áhyggjuefni að að meðan það er að stærstum hluta einkaneysla sem drífur áfram hagvöxtinn, þá dregst fjárfesting saman um ríflega 5% og fjárfesting atvinnulífsins saman um nærri 8%.

Hvaðan skyldi aukin eyðsla almennings koma?  Er fyrst og fremst um að ræða að verið er að eyða sparnaði vegna þess að almenningi er að verða ljóst að tilgangslaust er að geyma fé sitt í bönkum.  Þar er boðið upp á neikvæða ávöxtun og aukna skattheimtu, þannig að ef til vill er þá betra að hreinlega "lifa" fyrir peninginn í núinu.

Líklega er enn framleiðsluslaki í kerfinu, en það hlýtur flestum að vera ljóst að hagvöxtur verður ekki til lengri tíma ef fjárfesting heldur áfram að dragast saman.  Þar er ríkisstjórnin langt frá því að standa plúsmegin og það er þar sem vísbendingarnar fyrir framtíðina er að finna.

Það þarf nauðsynnlega að auka fjárfestingu, skapa atvinnu og draga úr atvinnuleysinu og vonandi færa til baka eitthvað af þeim fjölda sem yfirgefið hefur landið. Aukinn fjöldi námsmanna er líka ástand sem ekki varir nema tímabundið.  Það er rétt að hafa í huga að endurskipulagningu Íslensks atvinnulífs er langt í frá lokið, enn er líklegt að fjöldi uppsagna eigi eftir að eiga sér stað.

 


mbl.is Hagvöxtur mælist 3,7%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þakkir til Lilju Mósesdóttur - Hættum ríkisrekstri á stjórnmálaflokkum.

Ég vil þakka Lilju Mósesdóttur fyrir að leggja fram þessa breytingartillögu við fjárlagafrumvarpið.  Þeir þingmenn sem greiddu tillögunni atkvæði sitt auk Lilju, eiga sömuleiðis þakkir skildar.

Það er sömuleiðis hollt fyrir alla að velta því fyrir sér hvaða þingmenn greiddu atkvæði á móti tillögunni.  Hvaða þingmenn það eru sem þykir það sjálfsagt að ríkið gefi stjórnmálaflokkunum á Íslandi um 300 milljónir árlega.

Það veldur mér sérstökum vonbrigðum að enginn þingmaður Sjálfstæðisflokksins greiðir atkvæði með breytingartillögunni.  Í þeim þingflokki finnst enginn þingmaður sem telur það ekki hlutverk ríkisins að borga rekstrarkostnað stjórnmálaflokka.  Það eru fleiri þingmenn Vinstri grænna (þó að þar finnist aðeins 1.)  þeirrar skoðunar en þingmenn Sjálfstæðisflokksins.

Það er líka gott að hafa í huga að eftiri því sem ég kemst næst, hefur þessi upphæð ekki verið skorin niður.  Þannig er forgangsröðin.

Hér í Kanada er Íhaldsflokkurinn nýbúinn að efna kosningaloforð um að klippa þessa styrki af, en hér var við lýði sú regla flokkarnir fengu tvo dollara fyrir hvert atkvæði sem þeir höfðu hlotið.  Þetta er liðin tíð.  Stjórnandstöðuflokkarnir hér voru harðir á móti, en ríkisstjórnin hélt sinni stefnu, sínu kosningaloforði til streytu. Því er almenningur í Kanada laus við að bera þennan kostnað, í það minnsta um sinn.


mbl.is 6 þingmenn vildu afnema styrki til stjórnmálaflokka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Æskilegt að stjórnmálamenn séu skoðanalausir

Ég ætla ekki að fjalla um hvort að Dalsbraut á Akureyri eigi að fara suður fyrir Þingvallastræti eður ei, á því hef ég enga skoðun (sem gerir mig þá afar hæfan til að taka um það ákvörðun, ekki rétt?).

En þessi ákvörðun bæjarstjórnar Akureyrar að dæma bæjarfulltrúa vanhæfan að fjalla um málið vegna skoðana sinna eða eiginkonu sinnar er nokkuð skrýtin svo ekki sé sterkara að orði kveðið. 

En þetta er ef til vill angi af þeim kröfum að stjórnmálamenn eigi ekki að hafa skoðanir, eða alla vegna ekki að láta þær í ljósi, það geri þá vanhæfa.  Álíka upphrópanir heyrðust til dæmis frá samfylkingarmönnum eftir að Ögmundur hafði kveðið upp úrskurð sinn varðandi undanþágu fyrir landakaupum Nubos.

En eru stjórnmálamenn ekki einmitt kosnir vegna skoðana sinna á álitamálum?  Vegna skoðana þeirra á efnahagsmálum, skipulagsmálum, orkumálum o.s.frv?

En vissulega virðast margir stjórnmálamenn reyna að komast hjá því að tjá nokkrar skoðanir, þeir virðast líta svo að hlutverk þeirra sé aðeins að bregðast við því sem komi upp.  Leita lausna  og lausnamiðuð úrvinnsla heyrist oft í málfari þeirra.

Persónulega hef ég ekkert á móti stjórnmálamönnum með skoðanir og hef í gegnum tíðina greitt þeim atkvæði mitt.   Þessir skoðanalausu mega einnig starfa í stjórnmálum mér að meinalausu.  Kjósendur velja sína fulltrúa og kjósendum treysti ég vel til verksins.  

En það skekkir síðan útkomuna ef allir þeir sem hafa skoðanir eru dæmdir úr leik vegna vanhæfi.

 


mbl.is Vanhæfur vegna athugasemdar eiginkonu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki hvað síst núverandi ríkisstjórn sem er ófyrirsjáanleg

Það er alveg rétt að því miður að óskýrar reglur og matskenndar ákvarðanatökur eru vandamál í Íslensku stjórnkerfi.  Sjaldan eða aldrei hefur það sést betur en í tíð núverandi ríkisstjórnar.  Hvert málið á fætur öðru hefur komið upp þar sem 2. eða fleiri skoðanir eru  um hvaða leiðir skuli halda innan ríkisstjórnarinnar.  Henni hefur ekki tekist að leysa vandamálin með eðlilegum hætti, heldur hafa deilurnar logað í fjölmiðlum.

En það má heldur ekki gleyma skatta og lagabreytingaæði stjórnarinnar.  Öllu skal helst umturnað og sett í uppnám. Skattar eru hækkaðir ótt og títt og engin leið að sjá fyrir hvað verður á næsta ári.

Gott dæmi um þetta er til dæmis "kolefnisskatturinn" sem var til umræðu nú nýverið.  Fjármálaráðherra fer fram með nýjan skatt og talar digurbarkalega.  Ísland á ekki að vera nein skattaparadís fyrir mengangi stóriðju.  Skatturinn vekur ótta á meðal fyrirtækja, ekki síst á meðal erlendra fjárfesta.

Upphlaup verður í stjórnarliðinu, ríkisstjórnin leikur á reiðiskjálfi.  Skatturinn er dreginn til baka.  En skaðinn er skeður.  Ísland er orðið að landi þar sem enginn veit hvað morgundagurinn ber í skauti sér og ef Steingrímur ynni í sterkari ríkisstjórn er alveg eins víst að skattinum hefði verið skellt á.

Íslendingar mega þakka upphlaupsþingmönnum í Samfylkingunni að ekki fór verr í þetta sinn, en þorir einhver að spá um hvar Steingrím gæti borið niður næst með skattahækkanir?

Það hefur oft verið talað um Íslendinga og Íra í sömu andrá undanfarin misseri.  Það er athyglivert að í gegnum sínar þrengingar hafa Írar ekki hróflað við afarlágum tekjuskatti á fyrirtæki.  Þeir telja að það sé óðs manns æði í þeirri stöðu sem þeir standa í.  Sú staða er óbreytt í fjárlagafrumvarpi næsta árs sem er í vinnslu í Írska þinginu.

Það er enda álit flestra að það hafi tryggt þeim á undanförnum árum gríðarlega erlenda fjárfestingu og hafi gert þeim mögulegt að halda mestu af henni.

 


mbl.is Umhverfið hér ófyrirsjáanlegt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Markaðsóróinn" vindur upp á sig, euroið sem heild á athugunarlista.

Europe all together HELPÞað hefur líklega ýmsum brugðið í brún, en þó ætti þetta ekki að koma með öllu á óvart.  Þó leyfi ég mér um að efast að mörgum hafi rennt í grun að eurosvæðið sem heild yrði sett á athugunarlista. 

En ef til vill er það þó ekki óeðlilegt, ef um aukinn samruna og eftirgjöf á fullveldi og sjálfstæði verður að ræða, þá hífir það lakari ríkin upp, en að sama skapi dragast betur settu ríkin niður.  Auðveldlega hægt að samþykkja slík rök.

En ef til vill er það ekki síst þessi hluti af yfirlýsingu S&P sem vekur athygli:

We expect to conclude our review of eurozone sovereign ratings as soon as possible following the EU summit scheduled for Dec. 8 and 9, 2011. Depending on the score changes, if any, that our rating committees agree are appropriate for each sovereign, we believe that ratings could be lowered by up to one notch for Austria, Belgium, Finland, Germany, Netherlands, and Luxembourg, and by up to two notches for the other governments.

Þarna er talað um lækkun fyrir betur settu eurolöndin um 1. þrep, en allt að 2. þrep fyrir afganginn og Frakkland væri þar á meðal.

En ástæðurnar fyrir þessum breytingum á stöðu euroríkjanna eru eftirfarandi að mati S&P:

(1) Tightening credit conditions across the eurozone;

(2) Markedly higher risk premiums on a growing number of eurozone sovereigns, including some that are currently rated 'AAA';

(3) Continuing disagreements among European policy makers on how to tackle the immediate market confidence crisis and, longer term, how to ensure greater economic, financial, and fiscal convergence among eurozone members;

(4) High levels of government and household indebtedness across a large area of the eurozone; and

(5) The rising risk of economic recession in the eurozone as a whole in 2012. Currently, we expect output to decline next year in countries such as Spain, Portugal and Greece, but we now assign a 40% probability of a fall in output for the eurozone as a whole.

Yfirlýsinguna í heild má finna hér.


mbl.is Allt evrusvæðið á athugunarlista
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er samningsmarkmiðið aðeins eitt?

Það hefur að ýmsu leiti verið áhugavert að fylgjast með umræðunni um aðildarumsókn Íslands að "Sambandinu" undanfarna daga.  Það hefur líklega ekki farið fram hjá neinum að nú er rætt um býsna umfangsmiklar breytingar á "Sambandinu" og ekki síður nauðsyn á breytingu reglugerða í kringum euroið, enda gallar þess orðnir flestum sjáanlegir.

En það hefur ekki hvað síst verið fróðlegt að fylgjast með viðbrögðum "Sambandssinnanna" við þessum hugmyndum.  Nú heyrist æ meira úr þeim herbúðum að þessar breytingar séu einmitt það sem Íslendingum komi best og séu löngu tímabærar og bæði Ísland og "Sambandið" muni standa sterkari á eftir.

Jafnvel þeir sem töluðu um að "Sambandið" væri samstarfsvettvangur 27. sjálfstæðra of fullvalda ríkja, tala nú eins og það aukna fullveldisframsal sem nú er talað um, sé einmitt það sem Ísland þurfi á að halda og það sé engu líkara en að breytingarnar séu klæðskerasaumaðar fyrir Ísland.

Samningsmarkmiðið virðist vera aðeins eitt, að ganga í "Sambandið".  Ekkert annað skiptir máli, ekki einu sinni það að engin viti í hvers konar samband sé verið að ganga í.

Það er líka ljóst að enginn Íslendingur virðist vita hver samningsmarkmiðin eru, engin lína hefur verið dregin, ekkert markmið sett sem ekki má hörfa frá. 

Þannig rekur Íslenska ríkisstjórnin málið.  Þannig standa Samfylkingin og VG vörð um hagsmuni Íslands.

Það þarf að setja aðildarumsóknina á ís, það þarf að skipta um ríkisstjórn.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband