Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2011
16.11.2011 | 05:30
Að gera fiskistofnana að raunverulegri þjóðareign
Þó að hugmynd Péturs sé ekki ný af nálinni er hún virkileg góð og virkilega umræðu virði. Ég er reyndar ekki búinn að lesa frumvarpið sjálft (allt of mikið að lesa þessa dagana), en vona að ég finni mér tíma til þess.
En með þessu móti verða fiskistofnarnir gerðir að raunverulegri þjóðareign. Ekki bara fyrir ríkið og stjórnmálamenn að vasast með, heldur eru allir með. Allir fá jafna hlutdeild, allir sitja við sama borð og geta ákveðið hvað þeir gera við sinn hlut.
Valið stendur þá á milli þess að veiða sjálfur eða selja. Nú ef ákveðið er að selja, þá stæðu nokkrir möguleikar opnir. Hægt væri að selja hæstbjóðenda. Hægt væri að ákveða að selja eingöngu til "heimamanns" og svo þar fram eftir götunum. Einn möguleikinn væri að láta sinn hluta falla niður ónýttan ef viðkomandi væri á móti fiskveiðum, t.d. ef viðkomandi einstaklingur telur veiðar grimmilegar, eða að þorskurinn sem vitsmunavera eigi betra skilið.
En lang líklegast er auðvitað að frumvarpið dagi upp í nefnd, eða annars staðar í ranghölum Alþingis. Stjórnmálamönnum líst án efa lítið á að færa þjóðareignina til þjóðarinnar, enda hugsunin nokkuð róttæk.
Ég velti því þó örlítið fyrir mér (áður en ég hef lesið frumvarpið) hvernig Pétur áætlar að standa að innköllun núverandi veiðiheimilda, sem margir útgerðarmenn hafa keypt háu verði. En það verður að bíða enn um sinn að komast að því.
![]() |
Allir fái veiðiheimildir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
16.11.2011 | 05:15
7. ára gamall sjentilmaður
Ég hitt móður eins af bekkjarsystkinum sonar míns þegar ég beið barnanna fyrir utan skólann í dag. Hún hafði það eftir dóttur sinni að sonur minn ætti kærustu í bekknum, og nefndi nafn stúlkunnar.
Þar sem við gengum heimleiðis ákvað ég að bera þetta undir minn mann og spurði hvort að hann ætti einhverja kærustu. Örlítið undirleitur sagði hann já. Ég spurði hann næst að því hvað hún héti. Heldur undirleitari en áður tjáði hann mér að hann myndi það ekki. Þegar ég lýsti þeirri skoðun minni að það væri ekki gott að muna ekki nafnið á kærustunni sinni svaraði hann frekar djarfleitur: Það gerir ekkert til, ég man ennþá hvernig hún lítur út.
Ekki var rætt meira um kærustur á heimleiðinni.
16.11.2011 | 05:14
Icelandic Honey Week
Þetta skýrir sig auðvitað alveg sjálft.
15.11.2011 | 23:43
Arður er af hinu góða - Landsvirkjun á góðri siglingu
Það er auðvitað öllum fagnaðarefni ef hægt verður að auka arð af starfsemi Landsvirkjunar á komandi árum, því meiri arður því meiri fögnðuður. Allt stefnir í að raforkuverð eigi eftir að stórhækka á alþjóðamarkaði og því eru væntingar um aukin arð alls ekki ástæðulausar.
Þessar yfirlýsingar Harðar eru þó alls ekki ástæða til að fullyrða eins og sumir vilja gera, að Landsvirkkjun hafi verið á kolröngu róli undanfarna áratugi eða að þetta sanni þær fullyrðingar að Landsvirkjun hafi selt raforku alltof lágu verði á liðnum tímabilum.
Sannleikurinn í málinu liggur ekki síst í þessumi setningum úr fréttinni:
Raforkuverð þurfi að hækka og hafi þurft að gera það strax í síðustu samningum sem Landsvirkjun gerði. Hann segir að aðrar forsendur hafi hins vegar verið þegar samið var um raforkuverð frá eldri virkjunum og því hafi ekki verið hægt að ná betri samningum á þeim tíma enda lítil eftirspurn eftir því að koma til Íslands frá stórfyrirtækjum.
Staðan er hins vegar önnur í dag og ljóst að eftirspurn verður meiri en framboð en Ísland er eitt af fáum þjóðum í Evrópu sem enn á eftir að virkja orkuauðlindir.
Staðreyndin er sú að sárafáir sýndu áhuga á því að byggja upp iðnað og kaupa raforku á Íslandi. Raforkufrek álver voru af augljósum ástæðum þar því sem næst ein í flokki.
Álver þurfa í grófum dráttum til starfsemi sinnar, verksmiðju, súrál, rafmagn, starfskraft. Síðan skipta flutningaleiðir og nálægð við Báxít námu/súrál og markaði miklu máli.
Það er ljóst að Ísland lá ekki vel við hráefnisöflun eða mörkuðum, samgönguleiðir voru dýrari en víða annarsstaðar. Starfskraftar hafa í gegnum tíðina ekki verið ódýrari en hjá þeim sem keppt hafa við Ísland um staðsetningar. Hvað er þá eftir sem gæti fengið álver til að velja Ísland fram yfir aðra staði: Ódýrara rafmagn.
Það er því alls ekki hægt að segja að það hefði verið betra að selja alls ekki rafmagn undanfarna áratugi, heldur en að selja á því verði sem talað er um.
Auðvitað vilja allir hafa meiri arð, en ég hygg þó að margir á Íslandi yrðu nokkuð ánægðir með 5 til 6% arð eins og talað er um við Kárahnjúka. Ég býst við að sparifjáreigendur eða lífeyrissjóðir yrðu til dæmis nokkkuð ánægðir með það, sérstaklega í því árferði sem ríkir nú.
En fyrst verið er að tala um arð til ríkisins, þá má auðvitað slá þessu upp í kæruleysi og reikna út hvað ríkið hefur fengið mikinn arð af þeim fjármunum sem ríkið hefur lagt til Landsvirkjunar, með margfeldisáhrifum, tekjuskatti, virðisaukaskatti o.s.frv. Er ekki hægt að fá Ágúst Einarsson í að reikna það út.
![]() |
Of lítil arðsemi af virkjunum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 23:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.11.2011 | 22:00
En hver eru launakjör Sinfóníunnar?
Alltaf gott að friður skuli ríkja á vinnumarkaði. En eitt hefur vakið athygli mína á þeim fréttum sem ég hef séð um vinnudeilur Sinfóníuhljómsveitarinnar. Það er að ég hef aldrei séð hvaða kröfur starfsmenn gerðu, eða hver er niðurstaða samninganna. Ekki heldur hef ég séð hvaða launakjara starfsmenn sinfóníunnar njóta.
Er það eitthvað leyndarmál á þessum allt upp á borðum gegnsæistímum?
Sjá til dæmis þessa frétt og þessa.
Annað verkfall sem hefur verið nokkuð í fréttum upp á síðkastið er verkfall undirmanna á skipum Hafrannsóknarstofnunar. Þá kom hins vegar fréttaskýring um laun þeirra og tölur um krafist væri 50% hækkunar.
![]() |
Starfsmenn Sinfóníunnar samþykktu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Kjaramál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.11.2011 | 16:00
Danir vilja ekki Euro - eðlilega
Það væri eitthvað skrýtið ef stór hluti Dana vildi taka upp euro við þessar aðstæður. Til þess eru þeir almennt allt of skynsamir. Það borgar sig ekki að taka upp erlendan gjaldeyri - allra síst við kringumstæður sem nú ríkja á mörkuðum.
Danska krónan er hins vegar bundin við Euroið, með lágum vikmörkum, mig minnir að þau séu 2.5%. Það er ekkert nýtt fyrir Dani að mynt þeirra sé bundin erlendri mynt, ef ég man rétt var krónan þeirra heitbundin Þýska markinu áður en trúfestan var flutt yfir til eurosins. Margir myndu því segja nú að þeir hafi flutt bindingu krónunnar frá einni Þýskri mynt til annarar Þýskrar myntar.
En samt sem áður prenta Danir sína eigin seðla og geta gefið út skuldabréf í sinni eigin mynt. Það er mikilvægur varnagli sem ég er ekki hissa á að Danir vilji halda í. Þeir eru "ekki lokaðir inni" í erlendri mynt eins og Grikkir, Ítalir, Spánverjar og eiga því mun fleiri úrræði ef hlutir þróast til enn verri vegar. En vegna óróans á Eurosvæðinu hefur fjárstreymi aukist til Danmerkur og þeir lækkuðu vexti meira en Evrópski seðlabankinn gerði, og vonast líklega eftir að krónan þeirra veikist örlitið.
Vegna féflótta frá Eurosvæðinu standa Dönsk skuldabréf vel, en vandræði á húsnæðismarkaði (fasteignaverð hefur lækkað u.þ.b. 25%), aukið atvinnuleysi og fjárlagahalli eru vandræðin sem blasa við Dönum.
En Danskur efnahagur er í brekku, enda auðvitað nátengdur Eurosvæðinu og virðist hafa mun verri framtíðarhorfur en t.d sá Norski, Finnski, eða Sænski.
En þeir hafa krónuna og virðast vera nógu skynsamir til að vilja halda henni.
![]() |
Danir hafna evrunni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
14.11.2011 | 19:46
Írland, Ísland, stjórnmál, vísindi og fræði
Ég horfði á Silfur Egils seint í gærkveldi. Þar kom ýmislegt athyglivert fram. Viðtalið við Sigurð Má um bók hans: IceSave samningarnir - klúður aldarinnar, var athyglisvert og vakti með mér mikinn áhuga á að lesa bókina.
En það var viðtalið við Írska fræðimanninn Peadar Kirby sem vakti mesta athygli mína. Það gekk ekki á með gassagangi en margt athyglivert kom þar fram. Samanburður á millil Íslands og Írlands, euro og krónu o.s.frv. Hann virtist álíta að euroið hefði átt mestan þáttinn í að blása upp bóluna á Írlandi, en þakkaði því jafnframt fyrir að kreppan varð ekki dýpri, en taldi það að sömuleiðis lengja kreppuna. Hann taldi krónuna hins vegar hafa dýpkað Íslensku kreppuna en hún hjálpaði Íslendingum sömuleiðis að vinna sig mun hraðar út úr henni en Írar gætu með euroinu.
Þetta var alla vegna í stuttu máli það sem ég tók eftir í málflutningi hans. Það má auðvitað deila um þetta eins og annað, vissulega hafa Íslendingar átt í dýpri erfiðleikum en Írar vegna fall gjaldmiðilsins, sem hefur aukið á skuldir bæði einstaklinga og fyrirtækja, en hins vegar er atvinnuleysi meira en tvöfallt á Írlandi miðað við Ísland. Þetta er staðreynd, þrátt fyrir að u.þ.b. 100.000 Írar hafi flutt á brott og þá fullyrðingu Kirby´s að útflutningsiðnaður Íra væri "booming". Hvort hefur verri áhrif til lengri tíma eru sjálfsagt skiptar skoðanir um, en Íslendingar hafa í gegnum tíðina lagt mikla áherslu á hátt atvinnustig.
Það er rétt að taka það fram að ég hef ekki lesið stúdíuna sjálfa, þannig ég gagnrýni þetta ekki frekar. Studíuna má finna hér. Ég er búinn að hlaða henni niður og finn vonandi tíma til að lesa hana fljótlega.
En það er vissulega fróðlegt að vita að Kirby vann stúdíuna með Baldri Þórhallssyni varaþingmanni Samfylkingar og einhverjum ákafasta "Sambandsinna" Íslendinga.
Eftir því sem mér skildist í viðtalinu er Kirby að fara af stað með samanburðarrannsókn á Sjálfstæðisflokknum og Fianna Fáil, sem var lengst af "ríkjandi" flokkur á Írlandi. Og hver skyldi nú vera betur til þess fallinn að starfa með Kirby við þá rannsókn en einmitt sami varaþingmaður Samfylkingarinnar?
En það sem hefur líklega vakið mesta athygli í málflutningi Kirby´s er frásögn hans af því að Írar hafi gengið mun vasklegar fram í því að endurnýja stjórnmálamenn sína en Íslendingar. Það hafi vakið sérstaka athygli hans þegar hann heimsótti Alþingi og sá tvo alþingismenn sem höfðu verið í háum embættum þegar hrunið varð, og væru enn að. Það sagði hann að væri óhugsandi á Írlandi.
Þetta hefur orðið ýmsum tilefni til að kalla eftir því að meiri endurnýjun eigi sér stað á Íslandi. Persónulega finnst mér það hafa frekar holan hljóm, vissulega eru svo dæmi sé tekið 7. einstaklingar á Alþingi sem áttu sæti í "hrunstjórninni" svokölluðu. Það eru Jóhanna Sigurðardóttir, Össur Skarphéðinsson, Björgvin G. Sigurðsson, Kristján L. Möller, Guðlaugur Þór. Þórðarson, Einar K. Guðfinnsson og Þorgerður K. Gunnarsdóttir. (Ég held og vona að ég sé ekki að gleyma neinum).
En Íslenskir kjósendur kusu þessa einstaklinga til þingsetu í síðustu kosningum og í raun ekkert meira um það að segja. Þessir einstaklingar fengu endurnýjað umboð frá bæði flokkum sínum og kjósendum til setu á Alþingi.
P.S. Þess má svo til gamans geta, vegna þess að tengsl og hagsmunir eru mikið til umræðu þessi misserin, að ef að þessir 7. einstaklingar sem sátu í "hrunstjórninni" svokölluðu myndu segja af sér, yrðu skarð þeirra auðvitað fyllt með varaþingmönnum. Þá myndi setjast á þing fyrir Samfylkinguna engin annar en varaþingmaðurinn og samstarfsmaður Kirby, Baldur Þórhallsson.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
13.11.2011 | 03:37
Himbriminn (Kanadadollar) á Íslandi?
Ég kalla Kanadadollarann stundum Himbrimann í gríni. Gælunafn dollarans er Loonie, sem dregið er af 1. dollar myntinni en á henni er mynd af loon eða eins og við Íslendingar köllum hann himbrima. Að því leyti má segja að það færi einkar vel á því að taka upp Kanadadollar á Íslandi, því Ísland er jú eina landið þar sem himbrimi lifir í Evrópu.
Kanadadollar er sterk mynt, stendur um þessar mundir nokkuð jafnfætis hinum Bandaríska starfsbróður sínum og er að mig minnir 7. hæsta myntin í heimsviðskiptum.
Það gæti því hljómað ágætlega að taka upp Kanadískan dollar með samstarfi við Seðlabanka Kanada, Kanada tæki jafnframt yfir fjármálaeftirlit á Íslandi og að einhverju marki hlyti Ísland að gangast undir ákveðna skilmála um lágmarks stefnufestu í efnahagsmálum.
En það kemur alltaf að sömu spurningunni, myndi myntin henta Íslenska hagkerfinu, eru efnahagssveiflur í Kanada með líkum hætti og á Íslandi?
Það liggur nokkuð ljóst fyrir að vaxtaákvarðanir yrðu ekki teknar með tilliti til efnahagsástands á Íslandi. Stærðarmunurinn u.þ.b. 1/100 segir allt sem segja þarf.
Það er líka vert að hafa í huga að efnahagur héraðanna innan Kanada er það mismundi að alríkisstjórnin flytur fé á milli þeirra með skipulegum hætti. Fjármagn flutt frá "have provinces" til "have not provinces" eins og það er kallað.
Þannig fær Quebec í ár u.þ.b. níu hundruð milljarða Íslenskra króna með þessum hætti. Ontario sem var ætíð "have" svæði, fluttist yfir í "have not" fyrir 2. árum eða svo og fær í ár ca. 250 milljarða Íslenskra króna. Iðnframleiðslan í Ontario hefur átt undir högg að sækja vegna styrkingar Kanadíska dollarans, og það skýrir þessa breytingu
Héruðin sem eru "have not" eru í ár: Quebec ($7.815 billion), Ontario ($2.200 billion), Manitoba ($1.666 billion), New Brunswick ($1.483 billion), Nova Scotia ($1.167 billion), Prince Edward Island ($329 million). Þau sem ekkert fá úr jöfnunarsjóði alríkisins eru: Alberta, Saskatchewan, Newfoundland og Labrador og British Columbia.
Tekjurnar sem standa undir þessum jöfnunargreiðslum eru hluti af tekjuskatti einstaklinga og fyrirtækja, en ekki hvað síst tekjur af náttúrulegum auðlindum. Það er vegna ekki síst út af hinum miklu olíuauðlindum sem eru í Alberta, Saskatchewan og Nýfundnalandi/Labrador sem þessi svæði fá engar jöfnunargreiðslur. En það eru auðvitað fyrst og fremst hátt verð á olíu og hrávöru sem þessi svæði eru rík af, sem hefur drifið upp styrk dollarans og gert iðnaðarframleiðslu erfitt fyrir.
Í stuttu máli er þetta hið margfræga "transfer union" sem mikið hefur verið rifist um innan "Sambandsins". Auðvitað eru ekki allir á eitt sáttir um þessa skipan mála hér í Kanada, en svona eru hlutirnir gerðir og ekki útlit fyrir að það breytist á næstunni.
Staðreyndin er sú að Quebec ætti líklega álíka erfitt með að deila gjaldmiðli með Alberta og Grikkland með Þýskalandi, ef þessar greiðslur kæmu ekki til.
Þessar greiðslur eiga sér stað í landi sem ekki telur nema rétt ríflega 30 milljónir manna. Þess utan eru svo margvíslegar opinberar framkvæmdir sem stundum hafa yfir sér pólítískt og kjördæmlegt yfirbragð rétt eins og annars staðar í heiminum.
Slíkar greiðslur yrðu að sjálfsögðu ekki inntar af hendi til Íslands, þannig að á Íslandi yrði líklega það eitt til ráða ef illa áraði, að bíta á jaxlinn, lækka laun og/eða horfa upp á aukið atvinnuleysi.
Ég get því ekki séð að upptaka Kanadadollars sé góð framtíðarlausn fyrir Íslendinga.
Það er líka gott að hafa í huga að það skiptir ekki öllu máli hvað gjaldmiðillinn heitir, gjaldmiðlar eiga góð og slæm skeið, allt eftir því hvernig haldið er á efnahagsmálum í viðkomandi landi.
Það er vert að hugsa til þess að fyrir rétt um20. árum var ástandið öðruvísi í Kanada en það er í dag. Talin var alvöru hætta á því að Kanada yrði gjaldþrota og dollarinn þótti ekki ýkja merkileg mynt. Skuldir landsins fóru nálægt 100% af þjóðarframleiðslu. Kanadíski dollarinn sveiflaðist þá oftast frá því að kaupa 65 til 72 Bandarísk cent. Stýrivextir voru voru í lágri 2ja stafa tölu árið 1990.
En Kanada tók sig á. Skorið var niður í opinbera geiranum, velferðarkerfið var skorið niður, skattar voru hækkaðir og fjárlögin voru afgreidd með afgangi og skipti ekki meginmáli hvor stóru flokkana Íhaldsflokkurinn (Conservative Party) eða Frjálslyndi flokkurinn (Liberal Party) hefur verið við völd, aðhaldssemi hefur verið meginreglan. Enn þann dag í dag eru ekki allir sáttir um hvað leiðir voru farnar, en mestu skipti þó að komið var böndum á eyðsluna.
Staðreyndin er sú að Kanada er ekki statt þar sem það er í dag af því bara eða út af því að það hefur sterka mynt.
Það hefur sterka mynt vegna þess að það tók til í sínum málum og náði tökum á vandamálum sínum. Vissulega hafa ytri aðstæður hjálpað til, enda Kanada hráefnaríkt land og verð á þeim verið hátt.
Að lokum er gott að velta því fyrir sér hvað Kanada gæti talið sér til hagsbóta að Ísland tæki upp Kanadadollar. Ef til vill meira um það seinna.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 21.11.2011 kl. 15:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
13.11.2011 | 02:14
Milljón dollara peningur
Fyrir mörgum árum las ég söguna um milljón punda seðilinn eftir Mark Twain og hafði gaman af. Hér og þar um heiminn hafa verið búnir til seðlar með milljón eða meira að nafnvirði en það hafa að ekki verið merkilegir pappírar ef svo má að orði komast.
En hér í Kanada er hefur myntsláttan framleitt gullpening sem er milljón dollarar að nafnvirði. 100 kíló af gulli fer í hvern og einn, eða 3.215 únsur. Verðmæti gullsins eins og sér er því u.þ.b. 5 og hálf milljón dollara. Framleiðlsla þeirra hófst árið 2007 og eru 5 eintök seld.
En fyrir þá sem eiga ekki alveg nógu mikið aflögu til að kaupa 100 kg pening, þá eru eru einnig framleiddir 10. kg peningar. Nafnvirði þeirra er 100.000 dollarar og verðmæti gullsins væri ekki nema 550.000 dollarar. Ekki verða framleiddir nema að hámarki 15. eintök.
En það verður að segjast eins og er að þessir peningar eru listasmíði.
12.11.2011 | 22:47
10 héruð, 1. mynt, 1. seðlabanki, 1. ríki
National Post birti í dag athygliverðan samanburð á héruðunum (provinces) hér í Kanada. Þó að vissulega megi sjá svipaðar meginlínur, er töluverður munur á efnahag héraðanna. Verðbólga er mismunandi og svo framvegis.
Þetta er þrátt fyrir sterkt alríkisvald (federal goverment), en meginhluti tekjuskatta renni í alríkissjóð. Ríkisstjórnin leggur á frá 15 til 29% tekjuskatt og héruðin bæta síðan við frá 5 til 24% (hér skera Quebec og Nova Scotia sig nokkuð úr, en önnur héruð eru undir 20%), allt eftir tekjum og hvar einstaklingurinn býr. Söluskattur er nokkurn vegin jafn, ríkisstjórn með 5% en héruðin leggja á frá 0 til 10%. Alls staðar eru þó matvæli undanþegin söluskatti.
Það er gaman að skoða mismunandi tölur og velta því fyrir sér hvernig uppbyggingin er. Hinum megin við Atlantshafið eru 17. ríki, 1. gjaldmiðlli, 18. seðlabankar og varla hægt að segja neitt "alríki". En þrátt fyrir sterkt Kanadískt alríki er staðan verulega mismunandi eftir héruðum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)