Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2011

Skemmdarverkastarfsemi hreinu tæru vinstristjórnarinnar

Það er leiðinlegt að lesa fréttir sem þessa frá Íslandi, en því miður virðist það verða æ algengara.  Ríkisstjórnin virðist æ oftar leggja í vanhugsaða leiðangra.  Því sem næst það eina sem virðist koma upp í hugann er að skattleggja hvar sem svo mikið sem glittir í smá aur.  Skattabreytingar á Íslandi eru víst komnar á annað hundraðið síðan núverandi ríkisstjórn tók við.

Þeir einu sem kætast eru skattalögfræðingar og bóhaldarar, þeir sjá fram á betri tíð.

Enginn veit hvar ríkisstjórnin ákveður að leggja dauða hönd skattlagningarinnar næst.  Í fréttinni sem þessi færsla er hengd við er fjallað um nýjan skatt sem setur áform og rekstur nokkurra fyrirtækja í uppnám og hundruði starfa í hættu.  Allt í nafni norrænu velferðarinnar.

En það eru auðvitað ekki allir sammála þessrar stefnu, ekki einu sinni innan þingflokka ríkisstjórnarflokkana.  Það eru til þingmenn, sam hafa reyndar haft ríkisstjórnina á skilorði því sem næst eins lengi og elstu menn muna, sem segjast ekki sammála þessu.  Sigmundur Ernir fullyrðir að ekki sé þingmeirihluti fyrir málinu.  En ef til vill er hann fullur af orðum og engu öðru.

Ef til vill verður skatturinn dreginn til baka, en því miður hafa skemmdirnar þegar orðið að hluta.  Þeir eru nefnilega æ fleiri sem ekki treysta Íslenskum stjórnvöldum.  Þegar skattaumhverfinu er breytt ótt og títt er á erfiðara að gera áætlanir og í raun ómögulegt.  Þegar Íslensk stjórnvöld eru ásökuð um að standa ekki við gerða samninga gerir útlitið enn verra.  Þess vegna þarf að íhuga vel áður en slíkar tillögur eru lagðar fram, eitthvað sem ríkisstjórnin virðist ekki megna, hvað þá að hlutirnir hafi verið ræddir til mergjar í þingflokkunum, ummæli Sigmundar Ernis benda alla vegna ekki til þess.

Hvaða fyrirtæki vill fjárfesta í svona umhverfi?  Svarið er fá sem engin, enda er pólítísk áhætta við það að fjárfesta á Íslandi löngu komið á hættulegt stig.  Hvað pólitísk inngrip varðar er Íslandi skipað á bekk með nokkrum löndum Mið- og Suður-Ameríku, Afríku, Asíu og Rússlandi.

Þessum skemmdarverkum ríkisstjórnarinnar verður að fara að linna.

 


mbl.is Afleiðingar skattsins skelfilegar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjármálamarkaðir skrópa í Þýskukennslunni

Það vakti mikla athygli og raunar reiði hér og þar, þegar Þýskur þingmaður lét þau orð falla nýverið að nú talaði öll Evrópa Þýsku.

En fjármálamarkaðir virðast ekki hafa of mikinn áhuga á hinu Germanska máli og virðist svo sem stór hluti þeirra hafi ákveðið að skrópa í Þýskukennslunni í morgun.  Þá hugðist Þýskaland selja 10. ára skuldabréf fyrir 6. milljarða euroa, en tilboð komu aðeins í u.þ.b. 65% af upphæðinni, eða u.þ.b. 3.6 milljarða.

Eftir starfsmönnum markaða er haft:  Ef Þýskaland getur ekki selt skuldabréf, hvað ætlar þá afgangurinn af Eurosvæðinu að gera?

En líklega er þetta gott dæmi um óróa á markaði sem hefur verið að hrjá Evrópu upp á síðkastið.  Það versta fyrir euroríkin er auðvitað að þau eru þegar í Evrópusambandinu, það útlokar að þau geti notað þá töfralausn við efnahagslegum óstöðugleika, sem að sækja um aðild að "Sambandinu" er.

Áhugi á því að kaupa skuldabréf í euroum virðist vera í lágmarki.  Það helst ef til vill í hendur við þann vilja frammámann í "Sambandinu" að  tala helst ekki  um sameiginleg Euroskuldabréf lengur, heldur tala þeir nú hátíðlega um Stöðugleikaskuldabréf.  "Sambandsspeakið" lætur ekki að sér hæða.

 


Í hvaða gjaldmiðlum er útflutningur Íslendinga?

Það hefur sést á prenti víða að euroið sé helsti útflutningsgjaldmiðill Íslendinga.  Það er misskilningur.  Reyndar hafa margir "Sambandssinnar" kosið að nota þann hálfsannleik að stærstur hluti útflutnings Íslendinga sé til eurolanda.  Ég segi hálfsannleik vegna þess að það er ekki rangt, skipting utflutningstekna islands HMGen þetta er notað til að reyna að blekkja, það skiptir engu máli í hvaða landi uppskipunarhöfn er, eða hvaða gjaldmiðill er notaður í viðkomandi höfn (nema auðvitað fyrir Íslenska farmenn sem reyna að kaupa sér vörur án þess að ofurskattlagning Íslensku velferðarstjórnarinnar komi þar nærri).  Það sem skiptir máli er hvaða gjaldmiðill er notaður til að greiða Íslenskum útflutningsaðilum fyrir vörurnar.

Kökuritið hér til hliðar, sem ég fékk "lánað" úr grein Heiðars Más Guðjónssonar, sem birtist á vef Vísis, sýnir að Bandarískur dollar er sú mynt sem stærstur hluti útflutnings Íslendinga er greiddur með.  Euroið er í öðru sæti.  Það er reyndar athyglivert að útflutningur sem er greiddur með myntun þeirra landa sem eru í "Sambandinu" en hafa kosið að nota ekki euroið, er aðeins örlítið minni en sá hluti sem greiddur er með euroum.  Sé EES landinu Noregi bætt við er það stærri hluti en greiddur er með Euroum.

Ég hef ekki kökurit yfir skiptingu innflutnings með sama hætti (upplýsingar vel þegnar í athugasemdum, ef einhver hefur þær), en hef það á tilfinningunni að þar sé euroið mun fyrirferðarmeira. 

En Íslendingar gera sér líklega grein fyrir því hvað gerist þegar ríki flytja stöðugt inn meira en þau flytja út, því þeir hafa reynt það á eigin skinni.

 


Vinstri ríkisstjórn í vanda - Frjálslynd öfl innan hennar biðla til Framsóknarflokksins

Mér var bent á það í tölvupósti að ég ætti að hlusta á Sprengisand sem var í morgun á Bylgjunni, aðallega til þess að hlusta á Árna Pál Árnason, töfralausnamann Samfylkingarinnar biðla til Framsóknarflokksins.

Það var marg fróðlegt sem kom fram í þættinum, en smjaður Árna Páls fyrir Framsóknarflokknum var tvímælalaust á meðal þess athyglisverðasta.

Að hluta til ber þetta smjaður Árna Páls vitni um ótta Samfylkingarinnar við eingangrun.  Þegar allir stóru stjórnmálaflokkarnir á Íslandi að Samfylkingunni undanskyldri, eru að styrkja andstöðu sína víð "Sambandsaðild" (þó að VG haldi sig við stuðning við "aðlögunarviðræður" til að halda lífi í ríkisstjórninni), er nauðsynlegt fyrir Samfylkinguna - meira nú en nokkru sinni fyrr - að einhverjar brýr séu ennþá uppistandandi til annara flokka.

Í þættinum passar Sigmundur Davíð sig á að taka hæfilega vel á móti bónorðinu, en alls ekki neita því með öllu.  Það getur verið bæði klókt og óklókt ef svo má að orði komast.  Auðvitað má segja að það sé best að brenna ekki neinar brýr að baki sér, en hins vegar held ég að fáir hugsanlegir kjósendur Framsóknarflokksins sé þeirrar skoðunar að hlutverk hans sé að styrkja núverandi ríkisstjórn í sessi.  Flestir þeirra telja að mínu mati að flokkurinn hafi lært sína lexíu í þeimum efnum er hann studdi núverandi stjórnarflokka til að mynda minnihlutastjórn veturinn 2009 (Siv Friðleifsdóttir og sumir aðrir Framsóknarmenn eru örugglega annarar skoðunar).

En það er líka athyglivert þegar Árni Páll segir í þættinum að það geti ekki verið hlutverk ríkisstjórnarinnar að verja eiginfjárhlutfall húseigenda sem hafi verið við lýði árið 2007 eða þar um bil.

Það má auðvitað til sanns vegar færa að verðmætamat almennt og þá sérstaklega á fasteignum hafi verið komið úr tengslum við raunveruleikann á því árabili.  Það er athyglisverð nálgun þegar horft er til afstöðu þáverandi félagsmálaráðherra til sambands fasteignamats og lánveitinga á þeim tíma.

Þáverandi félagsmálaráðherra var reyndar hækkuð í tign við upphaf núverandi stjórnarmynsturs og gerð að forsætisráðherra en það er önnur saga.

En meginviðfangsefni Íslenskrar stjórnmála nú ætti að vera að undirbúa kosningar.  Traust núverandi ríkisstjórnar sem og traust og virðing Alþingis sýnir að nauðsyn er að endurnýja umboð allra þeira sem sitja á Alþingi sem og ríkisstjórn.

Ef til vill færi best á að bónorðstilburðir stjórnmálamanna yrðu geymdir þangað til að slík styrkleikamæling hefði farið fram.

P.S.  Notkun orðsins frjálslynd öfl í titli þessa bloggs er í raun lítið annað en grín af því hvernig orðið frjálslyndi er notað nú til dags.  Flestir kjósa að nota það eingöngu yfir þá stjórnmálamenn sem þeim eru þóknanlegir, en hafa ef til vill sýnt lítið frjálslyndi í störfum sínum.  Frjálslyndi vilja margir sömuleiðis nota yfir þá stjórnmálamenn sem hafa jákvæða afstöðu til "Sambandsins".  Þetta hefur orðið til þess að orðið frjálslyndi hefur misst merkingu sína í Íslensku.  Árni Páll er ekki frjálslyndur stjórnmálaamaður að mínu mati, enda styður hann einhverja mestu álögu og afturhaldsstjórn sem um getur á Íslandi.  Það þarf þó ekki að koma í veg fyrir að hann geti hugsanlega talist til frjálslyndari hluta hennar.

 


Æfing í "Sambandslýðræði" hjá Sjálfstæðisflokknum?

Það er þekkt afbrigði af lýðræði innan "Sambandsins" að það þurfi að greiða atkvæði þangað til ásættanleg niðurstaða fæst.

Þetta afbrigði virðist nú hafa verið tekið í notkun hjá Sjálfstæðisflokknum.

Þegar niðurtaðan er ekki eins og til er ætlast, þá er heimtað að greidd séu atkvæði að nýju.

Vissulega má segja að seinni atkvæðagreiðslan endurspegli betur vilja meirihluta fundarmanna, þar sem mun fleiri greiða atkvæði í það skiptið og niðurstaðan er nokkuð afgerandi.  En ég vil benda fundarmönnum á það, sérstaklega þeim sem stóðu fyrir endurtekningu á atkvæðagreiðslunni, að lýðræðið byggist einmitt á því að tekið sé þátt.  Að taka ekki niðurstöðu neinnar atkvæðagreiðslu sem fyrirfram gefni, heldur mæta og greiða atkvæði.

Að heimta endurtekningu atkvæðagreiðslu vegna þess að mikill hluti þeirra sem atkvæðisrétt höfðu töldu sig bersýnilega hafa mikilvægari hnöppum að hneppa, en að greiða atkvæði er skrumskæling á lýðræðinu.

En það er ef til vill táknrænt fyrir tilefnið, að leið þessa afbrigðis, þessi enduröpun á "Sambandslýðræði" sem ratað hefur inn á landsfund Sjálfstæðisflokksins, skuli vera valin til að friðþægja þá flokksmenn sem hæst hafa talað fyrir nauðsyn þess að ganga í margnefnt "Samband".

Vissulega er ekki óeðlilegt að málamiðlun eigi sér stað þegar tekist er á um stór mál, rétt eins og "Sambandsaðild" vissulega er.  Það er verra þegar kostnaðurinn við málamiðlunina er að lýðræðið er sett til hliðar.


mbl.is Felldu tillögu um að draga umsókn til baka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ein mynt, ein fjármálastjórn, eitt ríki?

Það er í sjálfu sér ekkert nýtt að ýmsir innan "Sambandsins" vilji meiri samruna og stefni eins hratt og mögulegt er að sambandsríki. 

Ég geri mér þó ekki grein fyrir hvað Schauble telur sig vinna með því að hamra á þessu í dag, nema ef til vill að gera viðræður Cameron og Merkel erfiðari, því þetta er auðvitað ekki hjálplegt Cameron heima fyrir.  Ef til vill er Cameron næstur í röð þeirra leiðtoga sem "Frankfurt hópurinn" telur sig þurfa að koma frá.

En það er flestum ljóst að ef euroið á að lifa krísuna af verður að gera veigamiklar breytingar á uppbyggingu gjaldmiðilsins og þá líklega í framhaldi af því alls Evrópusambandsins.  Þess verður krafist af aðildarríkjum að þau gefi eftir sívaxandi hluta af fullveldi sínu.

Það fyrsta sem euroríkin verða líklega að gefa eftir verður forsjá yfir fjármálum sínum.  Því Schauble (og reyndar margir aðrir) er þess fullviss að það er nauðsynlegt skref til að bjarga sameiginlega gjaldmiðlinum.  Að hans mati er fjárhagslegt fullveldi euroþjóðanna vandamálið.

Síðan er líklegt að gengið verði lengra, skref fyrir skref, aukin þrýsingur verður á samræmingu skatta og síðan verður gengið í það að krafti að finna "Sambandinu" sjálfu aukna tekjustofna, sem verða líklega teknir af aðildarríkjunum, því víðast hvar háttar svo til að varla er hægt að auka álögur á almenning.

Þannig verður gengið koll af kolli, uns sambandsríki Evrópu verður til.

Þess vegna eiga Íslendingar að staldra við, draga umsókn sína til baka, eða setja hana á ís.  Í dag veit í raun enginn hvers konar Evrópusamband er verið að sækju um aðild að.

Auðvitað geta einstaklingar ornað sér við að mögulegt sé að segja sig úr "Sambandinu", en það hefur komið æ betur í ljós að það er, rétt eins og euroið sjálft, tálsýn.  "Sambands" og euroaðild er eins og vistvæn músagildra, það er hægt að komast inn, en það sleppur engin út.

 


mbl.is ESB einn daginn sameinað með evrunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Capacent könnun. Dregur úr fylgi við aðildarviðræður

Það er eiginlega ekki hægt að segja mikið um þessa könnun.  Það verður að bíða eftir því að eitthvað meira birtist um hana, ef eitthvað meira verður þá birt.  Til þess að ná að segja að meirihluti styðji aðildarviðræðum (jafnvel þó að þjóðaratkvæði sé hengt þar á til að reyna að ná til fleiri) er brugðið á það ráð að birta aðeins niðurstöðu þeirra sem taka afstöðu.

2 skodanakannanirÞað er reyndar með hálfgerðum eindæmum að fjölmiðill sem vill láta taka sig alvarlega birti samanburð eins og hér er til hliðar.

Eins og sést á myndinni (sem ég fékk "lánaða" úr Fréttablaðinu) er MMR könnuninni skipt í 3 hluta, Fylgjandi, hvorki né, og svo andvígur.  Capacent könnuninn er svo aðeins skipt í 2. hluta ljúka og slíta.

Engu líkara en það eigi að reyna að fá Íslendinga til að trúa því að allir hafi tekið afstöðu.

Þrátt fyrir þetta og þá staðreynd að reynt að að nota jákvæða ímynd þjóðaratkvæðagreiðslu, fer fylgi við þann valkost dvínandi.  Fylgismenn aðildar reyna þó að bera sig vel og segir formaður Sterkara Íslands í Fréttatímanum að hann hafi átt von á því að stuðningur við aðild hefði minnkað enn meira.  Það er þetta með stjórnmálamennina og varnarsigrana.

Það er heldur ekki nema von að formaðurinn hafi átt von á meira fylgishruni, því þeir sem fylgjast með því hvernig ástandið er í "Sambandinu" og sérstaklega á eurosvæðinu, eru auðvitað rasandi á því hve margir Íslendingar vilja ennþá "kíkja í pakkann".

En auðvitað fækkar þeim sem hafa áhuga á aðildarviðræðum jafnt og þétt þegar Íslendingar átta sig á hvers eðlis aðildarviðræðurnar eru og enn frekar þegar litið er yfir sviðið og sést hvernig vandræðin hrannast upp á eurosvæðinu.  Æ fleiri átta sig á að euroið er byggt á draumsýn og rifist er um hvað þurfi að gera til að koma undir það fótunum og hvernig eigi að gera það.

Engin veit í hvaða átt Evrópusambandið stefnir eða vill stefna og koma misvísandi yfirlýsingar fram oft í viku, allt eftir við hvaða framámann er talað, en framámenn er þó eitthvað sem "Sambandið" hefur nóg af, þó að kjörnum leiðtogum fari fækkandi.

Þess vegna er tímabært að draga aðildarumsóknina til baka.

P.S. Bætt hér við.  Var að sjá að RUV var að fjalla um Capacent könnunina.  Þeir mega eiga það að þeir nefna MMR könnunina jafnhliða, en eru þó eins og aðrir að bera saman kannanirnar án þess að reikna þær upp, þannig að MMR niðurstaðan inniheldur óákveðna, en Capacent niðurstaðan ekki.  Undarleg vinnubrögð.


mbl.is Meirihluti vill kjósa um ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Euro gröf

Þegar fjallað hefur verið um vanda eurosins undanfarin misseri hefur oft verið rætt um mismuninn á milli norður og suður hluta eurosvæðisins.Því set ég inn hér 3. gröf sem gefa til kynna hvernig þróunin hefur verið í þeim efnum síðastliðin 12. ár eða svo.  Gröfin snúa að framleiðniaukningu, Euro NorthZraunlaunaaukningu og svo þróun viðskiptahalla.

Vissulega er munurinn mikill, á meðan suðrið var á mikilli uppleið var það jafnan haft til marks um það hve vera ríkjanna í "Sambandinu" og euronotkun þeirra gerði þeim gott.

Nú þegar komið hefur í ljós að því sem næst engin innistæða var fyrir uppgangnum, er þetta auðvitað allt spilltum og misvitrum "lókal" stjórnmálamönnum að kenna.

Raunar hefur oft mátt heyra enduróm af þessum málflutningi á Íslandi, þar sem eiginlega allur Euro SouthZuppgangur átti að vera EES samningnum að þakka, en það sem síðan fór miður, er auðvitað Íslenskum stjórnmálamönnum að kenna.

En eins og sést greinilega á gröfunum þarf að vera innistæða fyrir uppgangnum og það er einmitt það sem vantar. 

En það þarf heldur ekki að horfa á gröfin lengi til að sjá að ein mynt hentar þessum svæðum ekki vel.

Nú á að reyna að brúa bilið með því að gefa út sameiginleg skuldabréf sem vissulega geta hjálpað til í augnablikinu.  Þau koma hins vegar ekki til með að leysa þann vanda sem blasir við, að suðrið hefur á undanförnum 10. árum eða svo, glatað samkeppnishæfni Euro TradeB.sinni við norðrið.  Þar liggur vandinn.  Áður fyrr hefði gjaldmiðill þessara landa sigið, en nú þegar þau hafa í raun tekið upp "erlenda" mynt, verður eitthvað annað undan að láta.  Viðskiptahallinn eykst, atvinnuleysi eykst o.s.frv.

Ef einhver á í fórum sínum svipuð eða sambærilega gröf fyrir Ísland þætti mér fengur af því að fá þær upplýsingar.

Öll gröfin sem hér eru birt eru fengin að láni héðan: Growth and competitiveness cycles in the euro zone: 10-year cycles that divide the Northern and the Southern euro zone

P.S.  Fyrirsögnin á þessum pistli er auðvitað skelfilega tvíræð, en ég gat ekki stillt mig um að setja hana

 

 

 


mbl.is Áætlun um evruskuldabréf lögð fram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er það bara um helmingur sem vill draga umsóknina til baka?

Nú hefur RUV birt frétt um könnunina sem MMR gerði fyrir Andríki og síðast færsla mín fjalla um.  Fyrirsögnin er: 

Helmingur vill hætta við umsókn

Hér er fréttin í heild.

Um helmingur þjóðarinnar vill draga umsókn um aðild að Evrópusambandinu til baka, samkvæmt könnun sem MMR gerði fyrir Andríki. Spurt var hversu fylgjandi eða andvígir menn væru því að stjórnvöld dragi umsóknina til baka.

Um helmingur kvaðst mjög eða frekar fylgjandi því að umsóknin yrði dregin til baka, 14 prósent voru hvorki fylgjandi né andvígir og ríflega 35 prósent mjög eða frekar andvíg því.

Þeim hefur fækkað sem vilja draga umsóknina til baka frá því MMR gerði sambærilega könnun fyrir Andríki í fyrra. Þá voru tæplega 57 prósent fylgjandi því að umsóknin yrði dregin til baka en 24 prósent á móti því.

Fréttablaðið kannaði um miðjan september hvort kjósendur vildu heldur að umsóknin að ESB yrði dregin til baka eða aðildarviðræðum lokið og samningur settur í þjóðaratkvæði. Þá sögðust 63 prósent vijla halda viðræðum áfram en 37 prósent að þeim yrði hætt.

Fréttastofan leggur sig í framkróka að því er virðist að nefna ekki prósentutölu þeirra sem vilja draga umsóknina til baka.  Þeir kjósa frekar orðalagið "um helmingur".  Þegar kemur að þeim sem vilja halda umræðum áfram er orðalagið ákveðnara "ríflega 35%".

Að sjálfsögðu sneyðir fréttastofan hjá því að nota orðið meirihluti um þá sem vilja draga umsóknina til baka.

Hver skyldu nú vikmörkin á "um helmingur" vera?

Svo er að sjálfsögðu ekki hægt að skrifa um þessa skoðanakönnun án þess að minnast á könnun sem Fréttablaðið gerði í september og þá ver svo við að prósentan kemur skýrt fram og óákveðnir eru ekki með í þeim útreikningum.

Skyldi verða minnst á þessa könnun, næst þegar fjallað verður um könnun Fréttablaðsins eða Gallup?


Skoðanakönnun: Meirihluti vill draga umsókn um aðild að "Sambandinu" til baka

Sá á VefÞjóðviljanum að samkvæmt niðurstöðum skoðanakönnunar sem MMR hefur unnið fyrir Andríki er það vilji meirihluta Íslendinga að aðildarviðræðum við "Sambandið" verði slitið.   Það þarf dragatilbakajpgekki að koma á óvart eins og staðan er í dag.

Spurningin sem lögð var fyrir svarendur er einföld:

Hversu fylgjandi eða andvíg(ur) ertu því að íslensk stjórnvöld dragi umsókn um aðild að Evrópusambandinu til baka?

Niðurstöðurnar eru afdráttarlausar. Minnihluti, 35,3%, vill halda umsókninni til streitu en 50,5% vilja draga umsóknina til baka.

Nánari upplýsingar um könnunina má finna hér.

Það kemur fram í vefritinu að önnur könnun sé væntanleg, þar sem spurningar eru orðaða öðruvísi og verður fróðlegt að sjá hvernig niðurstöður verða úr henni ef hún hefur verið gerð.

Það verður ekki síður fróðlegt að sjá hvaða meðferð og umfjöllun þessi skoðanakönnun fær í fjölmiðlum. 

Flestir fjölmiðlar eru hrifnir af og gera mikið úr niðurstöðum skoðanakannana, enda auðvelt að gera "uppslátt" úr þeim.

En það hefur þó sýnt sig í gegnum tíðina, að ef niðurstöður eru ekki í takt við "ritstjórnarstefnu" þá njóta kannanir minni hylli.

En ég fagna þessari könnun og þessari niðurstöðu, þó að kannanir séu vissulega eingöngu kannanir.  En þeir gefa vísbendingar og því sterkari sem niðurstöðurnar eru afdráttarlausari.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband