Írland, Ísland, stjórnmál, vísindi og fræði

Ég horfði á Silfur Egils seint í gærkveldi.  Þar kom ýmislegt athyglivert fram.  Viðtalið við Sigurð Má um bók hans: IceSave samningarnir - klúður aldarinnar, var athyglisvert og vakti með mér mikinn áhuga á að lesa bókina.

En það var viðtalið við Írska fræðimanninn  Peadar Kirby sem vakti mesta athygli mína.  Það gekk ekki á með gassagangi en margt athyglivert kom þar fram.  Samanburður á millil Íslands og Írlands, euro og krónu o.s.frv.  Hann virtist álíta að euroið hefði átt mestan þáttinn í að blása upp bóluna á Írlandi, en þakkaði því jafnframt fyrir að kreppan varð ekki dýpri, en taldi það að sömuleiðis lengja kreppuna.  Hann taldi krónuna hins vegar hafa dýpkað Íslensku kreppuna en hún hjálpaði Íslendingum sömuleiðis að vinna sig mun hraðar út úr henni en Írar gætu með euroinu.

Þetta var alla vegna í stuttu máli það sem ég tók eftir í málflutningi hans.  Það má auðvitað deila um þetta eins og annað, vissulega hafa Íslendingar átt í dýpri erfiðleikum en Írar vegna fall gjaldmiðilsins, sem hefur aukið á skuldir bæði einstaklinga og fyrirtækja, en hins vegar er atvinnuleysi meira en tvöfallt á Írlandi miðað við Ísland.  Þetta er staðreynd, þrátt fyrir að u.þ.b. 100.000 Írar hafi flutt á brott og þá fullyrðingu Kirby´s að útflutningsiðnaður Íra væri "booming".  Hvort hefur verri áhrif til lengri tíma eru sjálfsagt skiptar skoðanir um, en Íslendingar hafa í gegnum tíðina lagt mikla áherslu á hátt atvinnustig.

Það er rétt að taka það fram að ég hef ekki lesið stúdíuna sjálfa, þannig ég gagnrýni þetta ekki frekar.  Studíuna má finna hér.  Ég er búinn að hlaða henni niður og finn vonandi tíma til að lesa hana fljótlega.

En það er vissulega fróðlegt að vita að Kirby vann stúdíuna með Baldri Þórhallssyni varaþingmanni Samfylkingar og einhverjum ákafasta "Sambandsinna" Íslendinga.

Eftir því sem mér skildist í viðtalinu er Kirby að fara af stað með samanburðarrannsókn á Sjálfstæðisflokknum og Fianna Fáil, sem var lengst af "ríkjandi" flokkur á Írlandi.  Og hver skyldi nú vera betur til þess fallinn að starfa með Kirby við þá rannsókn en einmitt sami varaþingmaður Samfylkingarinnar?

En það sem hefur líklega vakið mesta athygli í málflutningi Kirby´s er frásögn hans af því að Írar hafi gengið mun vasklegar fram í því að endurnýja stjórnmálamenn sína en Íslendingar.  Það hafi vakið sérstaka athygli hans þegar hann heimsótti Alþingi og sá tvo alþingismenn sem höfðu verið í háum embættum þegar hrunið varð, og væru enn að.  Það sagði hann að væri óhugsandi á Írlandi.

Þetta hefur orðið ýmsum tilefni til að kalla eftir því að meiri endurnýjun eigi sér stað á Íslandi.  Persónulega finnst mér það hafa frekar holan hljóm, vissulega eru svo dæmi sé tekið 7. einstaklingar á Alþingi sem áttu sæti í "hrunstjórninni" svokölluðu.  Það eru Jóhanna Sigurðardóttir, Össur Skarphéðinsson, Björgvin G. Sigurðsson, Kristján L. Möller, Guðlaugur Þór. Þórðarson, Einar K. Guðfinnsson og Þorgerður K. Gunnarsdóttir. (Ég held og vona að ég sé ekki að gleyma neinum). 

En Íslenskir kjósendur kusu þessa einstaklinga til þingsetu í síðustu kosningum og í raun ekkert meira um það að segja.  Þessir einstaklingar fengu endurnýjað umboð frá bæði flokkum sínum og kjósendum til setu á Alþingi.

P.S.  Þess má svo til gamans geta, vegna þess að tengsl og hagsmunir eru mikið til umræðu þessi misserin, að ef að þessir 7. einstaklingar sem sátu í "hrunstjórninni" svokölluðu myndu segja af sér, yrðu skarð þeirra auðvitað fyllt með varaþingmönnum.  Þá myndi setjast á þing fyrir Samfylkinguna engin annar en varaþingmaðurinn og samstarfsmaður Kirby, Baldur Þórhallsson. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Það er vissulega ljóður að kjósendum skyldi ekki takast að losa Alþingi við alla þá sem voru í eldlínu stjórnmálanna fyrir hrun, í síðustu kosningum.

En verra er þó að enn skuli vera tveir starfandi ráðherrar úr þeim hópi. Ráðherrar sem gengdu hvor um sig lykilhlutverki síðustu mánuði fyrir hrun!

Hvernig ætli Peadar Kirby lítist á þá staðreynd, eða gleymdi Baldur kannski að segja honum, þá staðreynd?

Manni verður flökurt!!

Gunnar Heiðarsson, 15.11.2011 kl. 10:07

2 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Það má auðvitað deila endalaust um hvort að betra hefði verið að þessi eða hinn þingmaðurinn hefði horfið að þingi, eða hvort að þeir allir hefðu átt að draga sig í hlé.

Það sem mestu skiptir í mínum huga er að kjósendur ráða.  Þeir velja.

Það má líka deila um hvort að þeir nýliðar sem komu inn á þingi hafi verið til bóta, en það sama gildir um þá, kjósendur völdu.

Ég myndi þó að sumu leiti vilja halda því fram að það hefði orðið verra ef endurnýjunin hefði orðið mikið meiri en hún varð, því einhver samfella verður yfirleitt til bóta.

Það má nefna hér t.d. að þó að ég sé ekki hrifinn af "Sambands" brölti Össurar, held ég að þingflokki Samfylkingarinnar tæki ekki skref fram á við þó að hann hyrfi úr honum.

G. Tómas Gunnarsson, 15.11.2011 kl. 14:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband