Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2009

Er Steingrímur að velja vitlausustu leiðina?

Það er ekki að efa að margir verða ánægðir með þessa ákvörðun sjávarútvegsráðherra.  Það hefur verið nokkuð skýrt í skoðanakönnunum að meirihluti Íslendinga er fylgjandi hvalveiðum.

En það er þó býsna stór hópur sem finnur veiðum allt til foráttu og ég hef það á tilfinningunni að sá hópur sé að miklu leyti stuðningsmenn núverandi ríkisstjórnar.

Því var Steingrími J. líklega nokkur vandi á höndum, erfitt að ganga gegn vilja meirihluta kjósenda en vissulega eru kjósendur eigin flokks "verðmætari" en kjósendur annarra flokka.

Þessa vegna velur Steingrímur leið sem er að mínu mati líklega sú vitlausasta sem var í boði í stöðunni.  Steingrímur kýs að fara einhverja skrýtna millileið.  Hann treystir sér ekki til að banna veiðarnar, en gefur fyrirheit um að það að veiðarnar kunni að vera stöðvaðar strax á næsta ári.

Með því að láta ákvörðunina hanga í lausu lofti til lengri tíma gerir Steingrímur þeim sem hug hafa á að stunda hvalveiðar erfiðara fyrir (næstum ómögulegt) að leggja í fjárfestingar í greininni, hvort sem er í tækjakosti eða markaðsstarfi. 

Þessi ákvörðun leyfir því hvalveiðar þetta árið en gerir greininni erfiðara til framtíðar, og kippir undan henni grunninum (4. árum) sem reglugerð fyrrverandi ráðherra gaf henni.

Þess vegna held ég að Steingrímur hafi valið vitlausustu leiðina.

 


mbl.is Ákvörðun um hvalveiðar stendur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skynsamir Svíar

Ég held að þetta sé hárrétt ákvörðun hjá Svíunum.  Ef Saab er á leið á höfuðið er einfaldlega best að fyrirtækið fari á höfuðið.

Mun betra að nota opinbert fé í annað en að rétta við vonlítil fyrirtæki.

Ég las einhversstaðar fyrir stuttu að áætluð framleiðslugeta bílaverksmiðja í heiminum væri u.þ.b. 100 milljónir bíla á ári.  Reiknað væri með að eftirspurnin yrði í kringum 60 milljónir árlega á næstunni.

Það er því ljóst að það samkeppni á bílamarkaði verður blóðug á næstu árum og næsta víst að einhverjir munu ekki standast hana.  Það er því í besta falli varhugaverð fjárfesting að setja fúlgur fjár inn í bílaframleiðendur sem hafa staðið sig illa á undanförnum árum.

Persónulega líst mér afar illa á fyrirætlanir Bandarískra og Kanadískra stjórnvalda um að dæla fé inn í bílaiðnaðinn.  En sterk verkalýðsfélög (margir kjósendur) og erfitt atvinnuástand er blanda sem flestir stjórnmálamenn eiga erfitt með að standast.


mbl.is Svíar ætla ekki að bjarga Saab
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvers vegna eiga skattgreiðendur að borga á fjórðu milljón í árslaun til formanna stjórnmálaflokka?

Það er ákaflega þarft verk hjá VefÞjóðviljanum að vekja athygli á því að skattgreiðendur hafa undanfarin ár (allt frá samþykkt svokallaðra eftirlaunalaga, sem þó fjölluðu um ýmisleg annað) greitt formönnum stjórnmálaflokka, sem sitja í stjórnarandstöðu (eða eru ekki ráðherrar) á fjórðu milljón króna árlega fyrir þau störf sem flokkssystkini þeirra hafa kosið þá til að rækja.

Hvers vegna eiga skattgreiðendur að borga formönnum flokka (hvort sem þeir eru ráðherrar eður ei) laun?  Hver er réttlætingin á bakvið slíkar greiðslur?

Þetta er ekki embætti á vegum hins opinbera, ekki á vegum þingsins, heldur á vegum hvers flokks fyrir sig.

Auðvitað ættu þingmenn að sjá sóma sinn í því að fella þessar greiðslur niður. 

Sömuleiðis er full þörf á því að draga úr greiðslum (helst fella niður) greiðslum hins opinbera til stjórnmálaflokka.  Stjórnmál eiga ekki að vera ríkisrekin.

 

P.S.  Rakst líka á skratti góða frétt á www.amx.is   Þar segir frá því að það virðist vera orðið svo lítið að gera hjá greiningardeildum ríkisbankanna að þær eru farnar að fást við stjórnmálaskýringar.  Hvers vegna ríkið er að halda úti slíkum deildum er svo meiri spurning.

 


Tímavél Samfylkingarinnar?

Það var hálf fyndið (sumir myndu líklega segja grátbroslegt) að fylgjast með Jóni Baldvini lýsa því yfir að hann myndi bjóða sig fram sem formann Samfylkingarinnar ef Ingibjörg viki ekki.  Helst var á honum að skilja að hann vildi að Jóhanna tæki við forystunni.

Jón virðist telja að fyrst tími Jóhönnu er loksins kominn, hljóti hans að vera það sömuleiðis.  Fyrst að Jóhanna hefur risið til æðstu metorða, hljóta hann að eiga að vera einhversstaðar þar líka.

Í engum hef ég heyrt sem er þeirrar skoðunar að Jón væri góður formaður flokksins, en þeir eru margir sem þætti það ekki afleitt að Ingibjörg viki fyrir Jóhönnu, enda hefur flokkurinn braggast mikið fylgislega eftir að Jóhanna tók við taumunum og Ingibjörg hvarf úr sviðsljósinu.

Slíkt fær óneitanlega marga til að hugsa að málum gæti hugsanlega verið betur skipað á annan veg, hvað formannsembættið varðar.

En nú þegar Ingibjörg hefur tekið af allan vafa um það að hún hugsi sér að stíga niður, og Jóhanna gefið það út að hún sækist ekki eftir formannsembættinu, verður fróðlegt að sjá hver næstu skref Jóns Baldvins verða.

Stendur hann við stóru orðin og fer í formannsframboð?

Hitt verður ekki síður fróðlegt að sjá hvernig Samfylkingin skipar fram sínu fólki í kosningunum?  Verður Ingibjörg aðeins önnur fiðla undir styrkri forystu Jóhönnu?

Það hlýtur að vera freistandi fyrir flokkinn að reyna að keyra kosningabaráttuna á vinsældum Jóhönnu og því trausti sem almenningur ber til hennar, en hvoru tveggja virðist mun meira en Ingibjörg hefur.

Hinu hef ég svo heyrt fleygt fyrir að Jóhanna verði forsætisráðherraefni Samfylkingarinnar, en dragi sig í hlé áður en næsta kjörtímabili lýkur, jafnvel snemma á kjörtímabilinu.

En þetta eru spennandi tímar.


Fyrirsjáanleg ringulreið?

Þeir eru býsna margir sem hafa haft orð á því að nú ættu þingmenn að slíðra orðasverðin og axirnar og standa saman sem einn maður og vinna að endurreisn Íslensks samfélags.

Svo rammt hefur kveðið að þessarri umræðu að hún hefur jafnvel borist inn í sali Alþingis.

En auðvitað var þessi ringulreið og þetta orðaskak fyrirsjáanlegt.  Það var einmitt þess vegna sem margir vöruðu við því að kosningar yrðu haldnar í vor, hvað þá strax eins og krafa margra hljóðaði upp á.

Það var einmitt til að koma í veg fyrir þetta orðaskak að tillögur um þjóðstjórn komu fram, að allir flokkar ættu aðild að ríkisstjórn og störfuðu saman til heilla fyrir þjóðina.

Hverjir voru það sem lögðust harðast gegn slíkum þjóðstjórnarhugmyndum, hverjir voru það sem heimtuðu kosningar eins fljótt og koma mætti þeim við?


Flutningur á milli Samfylkingar og VG?

Í mínum huga hljómar þessi skoðanakönnun nokkuð trúlega, hún er heldur ekki það langt frá könnun sem birtist fyrir nokkrum dögum og var framkvæmd af MMR.  Þó að nokkur munur sé að könnunum eru þær að mestu leyti innan skekkjumarka.

Það verður að hafa í huga að í flestum könnunum sem hafa verið að birtast eru óákveðnir u.þ.b. 40%.

En það fyrsta sem vekur athygli hvað varðar þessa könnun er að draga má þá ályktun að u.þ.b. 6% hafi flutt sig frá VG yfir til Samfylkingar.  Þeir óánægðu Samfylkingarkjósendur sem höfðu flutt sig yfir til VG, séu að skila sér heim aftur.

Sjálfstæðisflokkurinn styrkist og Framsóknarflokkurinn stendur betur en oftast áður.  Í raun má segja að "gamli fjórflokkurinn" standi keikur þó að vissulega hafi orðið breyting á fylgi innan hópsins.

En það er líka nokkuð ljóst að ef þetta væru úrslit kosninga, þá hlyti samstarf núverandi stjórnarflokka að halda áfram, hvorugur flokkurinn gæti þolað það pólítískt að rjúfa það.

En enn eru um 70 dagar til kosninga og margt getur gerst.

Það eru spennandi tímar.

 


mbl.is Samfylkingin stærst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslenskt eða ekki Íslenskt?

Hún er nokkuð merkileg umræðan um hvort að vara sé Íslensk eða ekki Íslensk.  Merkileg en þörf.

Hvað gerir vöru Íslenska?  Er það hráefnið?  Er það að hún er unnin á Íslandi?  Eða eitthvað annað?

Auðvitað gera flestir sér grein fyrir því að appelsínusafi er ekki Íslenskur.  Appelsínurnar eru fluttar inn frá Bandaríkjunum, Brasilíu eða öðrum löndum þar sem vaxtarskilyrði eru þeim hagstæð.  Í sumum tilfellum eru fluttar inn appelsínur, í öðrum er innflutningurinn í formi frosins appelsínuþykknis sem blandað er vatni og sett á fernur eða flöskur.

Ef verð og gæði eru sambærileg er það auðvitað þjóðarhagur að neytendur velji ávaxtasafi sem skapar störf og verðmæti á Íslandi.

Ef grannt er skoðað er það ekki margt sem er 100% Íslenskt og verður til án þess að einhver innflutningur komi til

Blessuð mjólkin er þannig gjarna framleidd með aðstoð innflutts kjarnfóðurs, aflað er heyja með innfluttum tækjum sem brenna innfluttu eldsneyti.  Mjaltatæki eru innflutt, sömuleiðis bílarnir sem sækja mjólkina og eldsneytið sem þeir nota.  Tækjakostur mjólkurbúa er innfluttur og loks er mjólkinni tappað á innfluttar umbúðir.

En auðvitað er mjólkin samt Íslensk, á því leikur enginn vafi í mínum huga.

En fullunnin innflutt vara, þó með Íslenskum merkingum sé er ekki Íslensk.

En þetta er auðvitað ekki einföld skilgreining, og spurning hvort að þurfi að setja viðmiðunarreglur um hvenær vara er Íslensk og hvenær ekki.  En slíkt yrði aldrei einfalt mál.

En svo er spurning hvort að Íslenskir neytendur taki nokkuð mark á þessum "erlendu" sjónvarpsstöðvum sem eru að senda út á Íslandi.  Því sé litið á þær sömu augum, er sjónvarpsstöð sem sendir út að meirihluta til erlent efni, varla Íslensk.


Þjóðhagslega hættuleg blanda

Ég hef ekki lesið skýrslu þeirra Jóns og Gylfa ennþá, þó að ég sé búinn að hlaða henni niður, en ég hef séð ýmsar tilvitnanir í skýrsluna og hlakka til að lesa hana.

Það er ekkert nýtt að ekkert eitt hafi orsakað hrunið á Íslandi, ég held að slíkt liggi nokkuð í augum uppi.  Ísland bauð upp á þjóðhagslega hættulegan kokteil, sem gat þó líklega ekki endað með öðru en ósköpum.

Það hefur mikið verið rætt um vaxtamunaviðskiptin, það hefur mikið verið rætt um stærð bankanna (og flestir þeirra skoðunar að þeir hefðu hrunið fyrr eða síðar), það hefur þó nokkuð verið rætt um ótímabærar og of miklar skattahækkanir (ótrúlega margir virðast trúa því að peningar skapi minni þennslu í höndum ríkisins) og svo hefur líka verið rætt mikið um meinta sekt einstakra aðila eða eftirlitsstofnana.

En eitt af þeim atriðum sem nefnt er í fréttinni sem er hér viðhengd, hefur ef til vill fengið minni athygli, en það eru ríkisfjármálin.  Reyndar vita flestir að ríkissjóður stóð vel, var því sem næst skuldlaus og rekstrarafgangur var flest ár.

En, og það er svo oft eitthvað en, minna var rætt um hve ríkissjóður hafði bólgnað út. Þannig hækkuðu ríkisútgjöld að raunvirði um u.þ.b. 50% á milli áranna 2000 og 2008, eftir því sem ég kemst næst.

Stjórnmálamenn með slagorðið "við erum ein ríkasta þjóð í heimi" lögðu af stað í leiðangur með tekjubólginn ríkissjóð að vopni.  Nú var tækifæri til að eyða.

Sveitarstjórnarmenn voru alþingismönnum engir eftirbátar, stórauknar tekjur af útsvari og fasteignagjöldum (plús skuldsetning) gerði þeim kleyft að keyra eyðslu fram úr hófi. 

Bæði ríki og sveitarfélög hegðuðu sér eins og að "veislan" hlyti að standa að eilífu.  Skýrasta dæmið um vitleysuna er líklega fjárlög Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar fyrir árið 2008, en þau juku útgjöld ríkisins um 20% frá fyrri fjárlögum og hafði þó verið vel í lagt áður.  Seinnipart árs 2007 voru sömuleiðis komin skýr teikn á loft um að framundan væri samdráttur.

Ég held að þau áhrif sem opinberar framkvæmdir, bæði ríkis og sveitarfélaga, höfðu á þennsluna séu stórlega vanmetin, sérstaklega þar sem stór hluti þeirra var í byggingargeiranum, sem var sprengþaninn fyrir.

Aukin þennsla og auknar lántökur hvöttu svo til hárra vaxta o.s.frv.


mbl.is Vítahringur í peningamálum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þarf fjölmiðlabann á forsetann?

Það líður varla sú vika þessa dagana að einhver fjölmiðill eða einstaklingar misskilji Ólaf Ragnar Grímsson.  Íslendingar þurfa líka að lesa það í erlendum fjölmiðlum að forsetafrúin hafi vitað um yfirvofandi bankahrun frá árinu 2005, en eiginmaður hennar ekkert gert með það eða engum sagt frá því.

Bessastaðir virðast vera að breytast í einhverskonar sirkus.

Auðvitað er forseta frjálst að tjá sig sem öllum öðrum, en hann verður að gera sér grein fyrir því að orð hans vega þyngra og bera þar af leiðandi meiri ábyrgð en margra annarra.

Því fer best á að forseti vísi frá sér málum sem eru ekki á hans könnu þegar hann ræðir við fjölmiðla.  Það er alger óþarfi að hann tali fyrir þjóðina í öllum málum eða svari efnislega öllum spurningum fjölmiðla. 

Í þessu máli sem hér um ræðir hefði til dæmis farið vel á því að hann hefði einfaldlega sagt að þetta mál væri utan hans lögsögu og bent fjölmiðlafólkinu að ræða við viðskiptaráðherra og/eða skilanefndir bankanna.

En slíkt virðist ekki ríma við stóra sjálfsmynd forsetans, hann tjáir sig um allt, virðist gefa í skyn að hann meira eða minna stjórni Íslandi og sé köngulóin í vefnum.

Vegna slíks misskilnings lesa Íslendingar í erlendum fjölmiðlum, að ríkisstjórnir séu "hans",  að Ólafur Ragnar hafi "fundið upp" hitaveituna og að Þýskir sparifjáreigendur fái ekki krónu.

Ég hef aldrei stutt Ólaf til embættis forseta, aldrei kosið hann til eins eða neins.  En í mínum huga hefur hann farið verr með embætti forseta en mig óraði fyrir.

 


mbl.is Svakalegt að fá þetta í andlitið núna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af umboði og umboðsleysi Framsóknarmanna

Flestum er það eflaust í fersku minni að Framsóknarflokkurinn taldi þingmenn sína og flokkinn ekki hafa umboð til þess að taka sæti í ríkisstjórn.

Ekki veit ég hvers vegna Framsóknarflokkurinn telur þingmenn sína ekki hafa umboð til stjórnarsetu, en þeir voru þó kosnir á sama tíma og aðrir þingmenn og með samskonar umboð.  Þess vegna ætti Magnús Stefánsson að hafa sama umboð til stjórnarsetu og Össur Skarphéðinsson og Valgerður Sverrisdóttir að hafa sama umboð til stjórnarsetu og Ögmundur Jónasson.

En það er ýmislegt annað sem Framsóknarflokkurinn telur sig hafa umboð til.

Það virðist ekki vefjast fyrir Framsóknarflokknum að hann hafi umboð til að styðja ráðherra sem enginn hefur kosið og ekkert hafa umboð.

Framsóknarflokkurinn virðist sömuleiðis telja að hann hafi fullt umboð til þess að þingmenn hans breyti stjórnarskránni.

Framsóknarflokkurinn virðist ekki hiksta eða vera í vafa um að hann hafi umboð til að  styðja ríkisstjórn þar sem embættismönnum s.s. ráðuneytisstjórum er skákað til og frá eftir geðþótta ráðherra.

En það er auðvitað ekkert nýtt að Framsóknarflokkurinn tali út og suður, en það er nýtt að alþingismenn telji að aðrir alþingismenn hafi víðtækara eða betra umboð en þeir sjálfir.

Þetta eru spennandi tímar.

 


mbl.is Undirbúa stjórnlagafrumvarp
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband