Bloggfærslur mánaðarins, september 2008

Spa meðferð

Það var hressandi að horfa á Spa kappaksturinn í morgunsárið.  Hrein skemmtun og nóg um að vera.  Kappaksturinn endaði þó ekki eins og best verður á kosið, þó að spennan hafi verið næg.

Þetta var kappakstur sem við Ferrari-menn máttum ekki við a tapa, allra síst fyrir Hamilton og McLaren.  Raikkonen varð eiginlega að vinna til að stimpla sig inn aftur, og komst lygilega nærri því, en svo tók veggurinn við.  Niðurlæging hans er svo fullkomnuð með því að falla niður í fjórða sætið í keppni ökuþóra.

Massa stóð sig þokkalega, en það er ekki nóg að koma annar í mark, nema einhver annar en Hamilton komi fyrstur.  Bilið þarf að minnka, ekki aukast.  En Massa sigldi nokkuð auðan sjó í þriðja sætinu lengst af, og átti enga raunverulega möguleika á að missa það eða komast hærra, ekki fyrr en Raikkonen datt út.

Staðan er því ekki mjög vænleg fyrir Ferrari, en það var hún reyndar ekki heldur um þetta leyti í fyrra, en sigur hafðist samt.  Það verður því að spýta í lófana og klára þetta.

Gott tækifæri er að byrja í Monza um næstu helgi með 1 - 2 sigri.

P.S.  Svo eru dómararnir að rannsaka það sem gerðist á milli Raikkonen og Hamilton.  Ég hef ekki stúderað reglurnar til hlýtar, og hef ekki mikla trú á að eitthvað gerist hvað það varðar, en vissulega er vonandi að fréttis nákvæmlega hvað er verið að rannsaka.

 

 


mbl.is Rigningin í lokin hleypti öllu í loft upp í Spa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ásættanlegt, en ....

Tímatökurnar í morgun voru ágætar, þó að við Ferrariáhangendur hefðum að sjálfsögðu kosið aðeins betri árangur, svona eins og einu sæti hærra fyrir báða okkar keppendur, jafnvel 2. fyrir Kimi.

En það verður sjaldnast á allt kosið og það er keppnin sem gildir.  Eins og keppnin og tímatökurnar eru settar upp, þá eru tímatökurnar lítið meira en vísbending, það er jú keppnisáætlunin sem skiptir meira máli.

Það verður spennandi að sjá hvernig keppnin þróast á morgun.  Mín ágiskun er að McLaren bílarnir hafi verið heldar léttari og komi því fyrr inn á morgun. Sérstaklega hef ég trú á því að það gildi um Kovalainen.

Ef til vill er þetta örlítil óskhyggja hjá mér, en McLaren þurfti á því að halda að koma sínum bílum framarlega og reyna með því að koma í veg fyrir að Massa gæti leitt frá upphafi til enda.  Það er sérstaklega mikilvægt fyrir þá að hafa komið Kovalainen á milli Ferrari bílanna (best hefði auðvitað verið að hafa Heiki númer 2 og þannig hefði hann reynt að halda aftur af Ferrari og leyft Hamilton að byggja upp forskot) og með því hafa möguleika á trufla keppnisáætlun Raikkonen.

En það verður vonandi skemmtileg keppni á morgun, Spa hefur gjarna boðið upp á góðan kappakstur og ef það verður rigning opnast ekki bara himnarnir, heldur keppnin öll.


mbl.is Hamilton vann fyrsta einvígið við Massa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mrs. Palin Goes To Washington

Það hefur verið býsna merkilegt að fylgjast með fjölmiðlafárinu sem val McCains á varaforsetaefni  hefur valdið. 

Ég verð að viðurkenna að það sem ég hef heyrt af frú Palin og skoðunum hennar, þá er hún ekki kandídat sem ég fell í stafi yfir, en það verður varla sagt um neinn stjórnmálamann hér "Westan" hafs, hvort sem er í Bandaríkjunum eða Kanada.

En margt af gagnrýninni hefur vakið upp spurningar, og sumt komið úr "glerhúsinu" margfræga.  Það er til dæmis skringilegt að heyra demókrata tala um að frú Palin skorti reynslu til að takast á við verkefni varaforseta.  Ferilskrá hennar gefi ekki til kynna að hún geti valdið embættinu.

Flestir myndu líklega segja að ferilskrá hennar stæði ferilskrá Obama ekki að baki nema síður sé, enda honum reyndar gjarna núið upp úr reynsluleysi sínu.   Það getur því virkað verulega tvímælis fyrir demókratana að ætla að efna til mikilla umræðna um reynsluleysi frambjóðenda.

Að hún hafi ekki tíma til að sinna starfinu og börnum sínum samhliða, held ég að sé gagnrýni sem kemur til með að falla um sjálfa sig, og frekar vinna með henni heldur en hitt, með tímanum.

Auðvitað kemur þungun dóttur hennar eitthvað til með að þvælast fyrir henni í kosningabaráttunni, en það er aðeins hægt að vona að þungunin kenni repúblikönum smá lexíu, en það er þó líklega óhófleg bjartsýni.

Ég hlustaði á ræðu frú Palin í tölvunni og verð að segja að mér fannst hún standa sig afar vel.  Þó að ræðan marki engin tímamót hvað ræðusnilld varðar, kom hún fyrir sem einlæg, heiðarleg og traustvekjandi frambjóðandi.  Kom frekar fyrir sem "next door girl" en "smurður" frambjóðandi. 

Ræðan ef til vill svolíðt óreiðuleg, farið úr einu í annað, og svo komið til baka, en ég er ekki frá því að það hafi verið partur af sjarmanum.

Auðvitað eiga stjórnmálaskýrendur og aðrir fjölmiðlamenn eftir að velta um hverjum steini sem getur gefið nýja vitneskju um frú Palin og fjölskyldu hennar, hvað þeir finna á eftir að koma í ljós.  En dæmt út frá frammistöðu hennar í kvöld, er hún fengur fyrir framboð McCain.


mbl.is Palin afar vel fagnað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrsti skóladagurinn

Það mátti sjá eftirvæntingu og líklega líka stolt í svip fjögurra ára drengs sem labbaði með pabba sínum í skólann í dag. 

Þetta var líka dagur sem búið var að bíða eftir í nokkurn tíma.  Það er nokkur merkilegur áfangi að byrja í skóla.  Líklega er þetta þó það sem myndi á Íslensku kallast leikskóli, enda Enska heitið Junior Kindergarten.  En Foringinn er ekki til viðræðu um neitt annað en að hann sé að ganga í skóla.

Líklega er þetta mitt á milli þess sem Íslendingar myndu kalla leikskóla og skóla.  Það er aðeins einn kennari fyrir 18. börn, og kennslan fer fram í grunnskóla.  Einu sinni í viku er leikfimi og sér sérstakur leikfimikennari um þá hlið fræðslunnar.

Og þó að kennsla sé að nokkru leiti fólgin í að læra að lita, og leika sér úti, er líka byrjað að undirbúa lestrarkunnáttu, reikning og skrift.

Drengurinn segir auðvitað öllum að hann sé byrjaður í skóla og engin ástæða til að rengja það.


Allur lurkum laminn

Þá er fjölskyldan kominn aftur heim á Bjórá, eftir afar vel heppnað ferðalag norður á bóginn.  Rétt um 30 stiga hiti og sól alla dagana og "norðrið" skartaði sínu fegursta.

Bloggritari hefur ekki þótt vænlegt efni í "strandljón", en lét sig þó hafa það að sýna á sér nábleika vömbina á hinum aðskiljanlegustu baðströndum þar nyðra, enda líkurnar á því að ég hitti baðstrandargesti aftur afar litlar.

Að sjálfsögðu uppskar ég góðan bruna á bæði baki og öxlum og lít nú út sem ekta "redneck" og hnykla upphandleggsvöðvana aðeins með ýtrustu varúð.

En dvölin nyðra var góð, ómegðin lék við hvern sinn fingur í sandinum og sofnaði sæl og kát á kvöldin.

Himbrimar og endur skemmtu krökkunum og froskar og snákar vöktu sömuleiðis kátínu.  Bryggjur og bátar þykja einnig skemmtilegir hlutir og hægt að skemmta sér tímunum saman við það eitt að henda steinum út í vatn.

Spáin framundan er að heldur fari að draga úr hitanum, líklega hefur þetta verið með seinustu sumardögunum og líklegt að haustið fari að taka við hvað úr hverju.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband