Mrs. Palin Goes To Washington

Það hefur verið býsna merkilegt að fylgjast með fjölmiðlafárinu sem val McCains á varaforsetaefni  hefur valdið. 

Ég verð að viðurkenna að það sem ég hef heyrt af frú Palin og skoðunum hennar, þá er hún ekki kandídat sem ég fell í stafi yfir, en það verður varla sagt um neinn stjórnmálamann hér "Westan" hafs, hvort sem er í Bandaríkjunum eða Kanada.

En margt af gagnrýninni hefur vakið upp spurningar, og sumt komið úr "glerhúsinu" margfræga.  Það er til dæmis skringilegt að heyra demókrata tala um að frú Palin skorti reynslu til að takast á við verkefni varaforseta.  Ferilskrá hennar gefi ekki til kynna að hún geti valdið embættinu.

Flestir myndu líklega segja að ferilskrá hennar stæði ferilskrá Obama ekki að baki nema síður sé, enda honum reyndar gjarna núið upp úr reynsluleysi sínu.   Það getur því virkað verulega tvímælis fyrir demókratana að ætla að efna til mikilla umræðna um reynsluleysi frambjóðenda.

Að hún hafi ekki tíma til að sinna starfinu og börnum sínum samhliða, held ég að sé gagnrýni sem kemur til með að falla um sjálfa sig, og frekar vinna með henni heldur en hitt, með tímanum.

Auðvitað kemur þungun dóttur hennar eitthvað til með að þvælast fyrir henni í kosningabaráttunni, en það er aðeins hægt að vona að þungunin kenni repúblikönum smá lexíu, en það er þó líklega óhófleg bjartsýni.

Ég hlustaði á ræðu frú Palin í tölvunni og verð að segja að mér fannst hún standa sig afar vel.  Þó að ræðan marki engin tímamót hvað ræðusnilld varðar, kom hún fyrir sem einlæg, heiðarleg og traustvekjandi frambjóðandi.  Kom frekar fyrir sem "next door girl" en "smurður" frambjóðandi. 

Ræðan ef til vill svolíðt óreiðuleg, farið úr einu í annað, og svo komið til baka, en ég er ekki frá því að það hafi verið partur af sjarmanum.

Auðvitað eiga stjórnmálaskýrendur og aðrir fjölmiðlamenn eftir að velta um hverjum steini sem getur gefið nýja vitneskju um frú Palin og fjölskyldu hennar, hvað þeir finna á eftir að koma í ljós.  En dæmt út frá frammistöðu hennar í kvöld, er hún fengur fyrir framboð McCain.


mbl.is Palin afar vel fagnað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þessi frétt á mbl er illa skrifuð og hún inniheldur nokkrar prentvillur.  Virðist hafa verið sett saman með miklu hraði.  Harla óvenjulegt.

J.A. (IP-tala skráð) 4.9.2008 kl. 06:37

2 Smámynd: Jón Magnús

Það versta við hana Palin er að þar fer ofsatrúarmanneskja sem trúir því að sköpunarsaga Biblíunnar sé sönn og það eigi að kenna hana samhliða þróunarkenningunni.  Palin er einnig mjög nálag forsetaembættinu því McCain er orðinn 72 ára og það gæti vel gerst að karlinn gæfi upp öndina á kjörtímabilinu.

Að fá þessa konu sem forseta BNA myndi flokkast undir stórslys.

Jón Magnús, 4.9.2008 kl. 11:20

3 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Ég get tekið undir það að ofsatrú og stjórnmál eru ekki blanda sem ég er hrifin af.  Á hitt ber þó að líta að stjórnmálamönnum hættir til að draga dám af kjósendum sínum, það er að mörgu leiti þeirra eðli.

Hvort sem okkur líkar það betur eða verr, er kirkjusókn og trú miklu stærri þáttur í daglegu lífi margra Bandaríkjamanna, en við Íslendingar þekkjum.

Það eru t.d. ekki margar vikur síðan Obama afneitaði prestinum sínum (hvort að haninn gól veit ég ekki).  Þó hafði hann getað setið undir predikunum hans svo árum skipti. 

Auðvitað væri það æskilegt að stjórnmál héldu sig frá "svefnherbergjum" og að trú blandaðist þar ekki inn í.  En trúin blandast víða inn, ekki er nú langt síðan heitar umræður urðu á Alþingi Íslendinga um hvort forsvaranlegt væri að fella út orðin "kristilegt siðgæði" úr grunnskólalögum.

Persónulega, þó að ég hafi ekki gert upp hug minn, enda ekki nauðsyn til, reikna ég með að ég myndi frekar greiða McCain/Palin atkvæði mitt, en Obama/Biden, hefði ég atkvæðisrétt í Bandaríkjunum.

G. Tómas Gunnarsson, 4.9.2008 kl. 13:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband