Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2008

Á allt að gerast í beinni?

Það hefur verið svolítið skondið að fylgjast með umræðunni um myndun nýs meirihluta í Reykjavík.

Margir fjölmiðlamenn (og þá ekki síður bloggarar) hafa hamast á því að stjórnmálamenn segi ósatt.  Taka þeir þá helst til að Hanna Birna (og líklega fleiri Sjálfstæðismenn) hafi nýlega talað eins og ekkert væri nema gott af frétta af meirihlutasamstarfi Sjálfstæðisflokks og F-lista (hvað sem það nú er).

Einnig hafi Óskar Bergsson ekki viljað kannast við neinar viðræður fyrr en allt var að heita komið á koppinn og þar fram eftir götunum.

Vilja ýmsir meina að þetta séu ekki heiðarleg vinnubrögð og stjórnmálamenn segi ekki satt.

Líklega má til sanns vegar færa að ekki hefur allur sannleikurinn verið á borð borinn fyrir fréttamann, en það er eðli stjórnmála þegar vinna þarf með öðrum og mál kunna vera á viðkvæmu stigi.

Stjórnmál eru ekki endilega best komin í beinni útsendingu (þó að ýmsir stjórnmálamenn virðist hvergi kunna betur við sig).

Stjórnmál eru ekki raunveruleikaþáttur í sjónvarpi, þar sem öllu er varpað á skjáinn jafnóðum.

Auðvitað er eðlilegt að öll vandamál séu ekki borin á torg, heldur reynt að vinna úr þeim með samstarfsaðilum.  Það sama gildir að sjálfsögðu um viðræður flokka á milli.

Það sama gildir reyndar oft í mannlegum samskiptum.

Þegar við mætum í vinnuna eftir helgina og erum spurð að því hvernig við höfum það, byrjum við ógjarna á því að segja að við höfum lent í rifrildi við makann eftir að hafa klúðrað grillinu á laugardagskvöldið.  Sunnudeginum höfum við eytt í andlegri og líkamlegri þynnku og að helgin hafi í flesta staði verið ömurleg.  Nei, við svörum auðvitað "bara fínt". 

Ástandið í borgarstjórn Reykjavíkur hefur ekki verið gott á yfirstandandi kjörtímabili (en horfir vonandi til betri vegar) en fjölmiðlar hafa því miður verið gjarnir á að hella olíu á eldinn, gengið hart fram og jafnvel legið á gluggum.

Það er ekkert eðlilegra en að stjórnmálamenn reyni að halda upplýsingum frá fjölmiðlum á ákveðnum tímum.

 


Orkuútrás fyrir alla

Mér lýst ágætlega á þessar hugmyndir um að gera REI að fjárfestingarsjóði, þar sem Orkuveitan leggi aðeins fram þekkingu sína og viðskiptavild.

Ekki verði farið með fjármuni orkuveitunnar í erlend áhættuverkefni.

Mér lýst einnig gríðarlega vel á að sjóðurinn verði öllum opinn, og eins og segir í fréttinni:  "... sem fjárfestum verði boðið að kaupa hlut í á jafnræðisgrundvelli." 

Í mínum huga er það algert grundvallaratriði, þegar samkrull opinbers fyrirtækja og einkaaðila að það sé gegnsætt og opið.  Það að handvelja fjárfesta er ekki góð latína.

En þessi hluti fréttar mbl.is, stangast að vissu marki (skilgreining á fjárfesti, er að vísu nokkuð á reiki, persónulega tel ég að "almenningur" geti auðveldlega fallið þar undir) á við það sem lesa má á Vísi, en í frétt þar segir"Líklega verður aðeins fjárfestum og fjármálafyrirtækjum gefinn kostur á því að fjárfesta í sjóðnum. Ekki er víst að almenningi gefist tækifæri á því að taka þátt í sjóðnum, að sögn Sigrúnar en þó á enn eftir að útfæra hvernig þessum málum verði háttað"

En ég myndi stinga upp á því að gengið yrði skrefinu lengra.  Tilvalið er að bjóða viðskiptavinum orkuveitunnar, öllum með tölu að taka þátt í útboði á vegum REI.  Það eru jú þeir sem eiga hvað stærstan þátt í uppbyggingu fyrirtækisins og hvað það er vel statt í dag.

Þannig væri öllu viðskiptavinum orkuveitunnar boðið upp á að kaupa t.d. 100, 200 eða 300 þúsund króna hlut í fjárfestingarsjóðnum (þetta má auðvitað útfæra á ýmsa vegu).  Jafnframt væri þeim boðið að upphæðinni væri dreift á orkureikninga þeirra á næstu 12 mánuðum.

Þetta tryggði að fleiri kæmu að verkefninu og gæfi einstaklingum góðan og auðveldan kost á að fjárfesta í REI, ef þeir hefðu áhuga á.  Einstaklingar hefðu þá möguleika á því að hagnast þegar þekkingin "í fyrirtækinu þeirra", væri nýtt til útrásar á erlendri grund.  Ekki aðeins fjármálafyrirtæki og "fjárfestar".

En vonandi næst sátt um REI á þessum nótum, og ekki verra ef almenningur fær að vera með. Orkuveitan er jú "hans" fyrirtæki.


mbl.is Orkuveitan áfram í útrás
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af hverju hættir Marsibil ekki í borgarstjórn?

Mér þykir frekar erfitt að skilja framgöngu Marsibil Sæmundsdóttur í borgarstjórn.  Hún virðist hreint alls ekki vilja vera í meirihluta.  Hún virðist ekki vilja aukin áhrif.

Þegar þessi frétt er lesin á Vísi, kemur í ljós að hún telur að engin (hún sjálf líklega meðtalin) geti unnið með Ólafi F.  Í meðfylgjandi frétt kemur svo í ljós að hún telur sig alls ekki geta unnið með borgarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins.  Hún telur sig sem sagt ekki geta unnið með 8 af 15 borgarfulltrúum í Reykjavík. 

Ef allir borgarfulltrúar í Reykjavík sýndu slíkan "samstarfsvilja" væri það ljóst að engin leið væri að mynda starfhæfan meirihluta.

Það er ekkert óeðlilegt að borgarfulltrúar (eða varaborgarfulltrúar) kjósi frekar að vinna með "einum" frekar en "öðrum", en þeir eru kosnir til að stjórna borginni og því er æskilegt að myndaðir séu meirihlutar.  En ef til vill er þessi skortur á "samstarfsvilja" það sem hefur valdið því að ástandið í borgarstjórn Reykjavíkur er eins og það hefur verið.

En Marsibil virðist ekki hugnast meirihluti þess fólks sem Reykvíkingar kusu sem fulltrúa sína. Hún vill ekki starfa með þeim.

Væri ekki eðlilegast að Marsibil segði sig hreinlega frá borgarstjórn?

P.S.  Ef til vill er Framsóknarflokkurinn einfaldlega að aðlaga sig nýjustu "tískulínunum" sem Samfylkingin hefur lagt í pólítíkinni, þar sem flokkurinn er sífellt bæði fylgjandi og á móti flestum máli.


mbl.is Marsibil styður ekki nýjan meirihluta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sigur jafnréttisins?

Ég býð spenntur eftir því hvort að á morgun komi ekki yfirlýsing frá helstu forkólfum "jafnréttisiðnaðarins" á Íslandi um sigur "jafnréttis", nú þegar kona er að taka við borgarstjóraembættinu í höfuðborginni.

Að skreppa saman

Ég var nýlega staddur í Eistlandi.  Ekki er hægt að segja að ég hafi áþreifanlega orðið var við kreppuna, ekki þegar ég gekk um göturnar.  Þar var allt í blóma, miðbærinn fullur af ferðamönnum og verslanir fullar af fólki, jafnt erlendum sem innlendum.

En kreppueinkennin mátti þó sjá þegar skyggnst var dýpra.

Mikið af húsnæði var til sölu eða leigu og ekki óalgengt að sjá að verðið hefði verið lækkað.  Verð á húsnæði í Tallinn hafði lækkað á bilinu 8 til 15% síðustu 12 mánuðina.  Fasteignasalar sem ég þekki og hitti báru sig ekki vel.

En almennt verðlag hefur farið hækkandi og voru margar vörur mikið mun dýrari en þær eru hér í Kanada.  Þó eru laun almennt lægri, þó að þau hafi reyndar hækkað drjúgt á undanförnum árum.

Finnar sem keyptu og byggðu mikið af sumarbústöðum stuttu eftir að Eistland endurheimti sjálfstæðið sitt vilja nú margir hverjir selja.  Eistland býður ekki upp á jafn ódýrt sumarleyfi og áður.  Þeir vilja líka innleysa hagnað áður en verðið lækkar frekar.

Eistneska krónan er beintengd euroinu og hefur því verið gríðarlega sterk undanfarin misseri.  Það hjálpar ekki, hvorki hvað varðar útflutning eða ferðamennina.  Stöðugur gjaldmiðill er vissulega af hinu góða, en leysir langt í frá öll vandamál og getur í sumum tilfellum búið þau til.

Ekki er ólíklegt að næstu ár eigi eftir að reynast Eistlendingum erfið.  Eins og víða hefur hröð uppbygging þeirra verið fjármögnuð að miklu leyti með lánum, sem erfitt er að fá í dag.  Vextir hafa hækkað og framleiðslugreinar hafa margar hverjir látið undan síga.

Mikilvæg tekjulind fyrir landið hefur sömuleiðis verið sá fjöldi sem hefur farið út fyrir landsteinana til að vinna um lengri eða skemmri tíma og fært fé heim.  Nú þegar útlit er fyrir að vinna dragist víða saman kemur það til með að auka á erfiðleikana.

 


mbl.is Kreppa skollin á í Eistlandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Púðurtunna

Það hefur í senn verið skelfilegt og fróðlegt að fylgjast með stríðinu sem stóð (eða stendur enn) á milli Rússlands og Georgiu.

En spurningarnar sem vakna eru margar.

Í grunninn er auðvitað spurningin um sjálfsákvörðunarrétt þjóða.  Ossetar ættu því að ráða eigin örlögum.  En það er auðvitað spurning hvernig staðið er að slíku.  Samningaborðið er auðvitað rökréttasti staðurinn fyrir slíkt  En það er ekki alltaf sem slíkt tekst á friðsamlegum nótum.  Stuðningur Rússa við Osseta vekur t.d. upp spurningar, að fyrst þeim þykir sjálfsagt að Ossetar njóti sjálfsforræðis, hvers vegna gilti ekki það sama um Chechena?

Ennfremur vekur sú aðgerð Rússa að gefa flestum Ossetum Rússneskan ríkisborgararétt upp spurningar um hvert sé raunverulegt markmið þeirra.  Samkvæmt mínum heimildum hafa þeir verið að leika svipaðan leik á Krímskaga og víðar.  Spurning hvenær þurfi að vernda ríkisborgara þar?

En hvort sem menn eru þeirrar skoðunar að Ossetar eigi að njóta sjálfsforræðis eður ei, þá er það ljóst að Rússar brutu alþjóðleg lög þegar þeir réðust gegn Georgíu. 

Hvernig stendur á því að þeir voru taldir annast "friðargæslu" á svæðinu veit ég ekki, en ég tel að flestir sjái og skilji að framferði þeirra á ekkert skilt við það sem er hefðbundin skilgreining á friðargæslu.

En vandamálin í þessum heimshluta eru mörg og stór.  Þvinguð sambúð og þvingaðir brottflutningar fyrr á árum hafa skilið eftir óteljandi óleyst vandamál.

Þetta er því sannkölluð púðurtunna.

Það sem stendur þó upp úr hvað þetta mál allt varðar er að það virðist nokkuð ljóst að Rússar geta gert því sem næst hvað sem er í þessum heimshluta.  Þeirra er valdið.

Enginn hefur getu til að stöðva þá.

Þess vegna líður mörgum í fyrrum Sovetlýðveldum og leppríkjum Sovétsins illa í dag.  Fyrir þeim er þetta rétt eins og óþægilegt "deja vu".


mbl.is „Rök Rússa sömu og Hitlers"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Athygliverð tilraun

Þetta finnst mér athyglivert.  Aldrei hef ég smakkað vín sem bruggað hefur verið úr birkisafa, en hef smakkað sýróp sem soðið var úr slíku og þótti ágætt, þó að það léki ekki alveg jafn ljúflega við bragðlaukana og hlynsýrópið.

En þetta er athygliverð nýjung og spurning hvort að einhver fari út í framleiðslu, en það vakna auðvitað spurningar eins og hvað fæst mikill safi úr meðaltré og þvíumlíkt.

En ég myndi tvímælalaust kaupa flösku ef mér stæði hún til boða.


mbl.is Birkivínið ljúffengt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gas og skipulag

Mál málanna hér í Toronto hefur að sjálfsögðu verið gassprengingin mikla sem varð hér á sunnudagsmorgunin.

Þeir íbúar sem þurftu að yfirgefa heimili sín telja sig margir hverjir heppna að hafa sloppið lifandi, en um gríðarlegar öflugar sprengingar var að ræða og eru þó nokkur hús algerlega óíbúðarhæf.  Einhver hætta er talin á að asbest hafi dreifst með sprengingunum og tefur það að einvherjir íbúar geti snúið heim.

Sprenginingin kostaði þó næsta víst 2. mannslíf.  Eins slökkviliðsmanns og ekkert hefur spurst til starfsmanns gasstöðvarinnar.

Flestir ef ekki allir virðast sammála umað lögregla og slökkvilið borgarinnar hafi unnið frábært starf.

En nú þegar hlutirnir eru hægt og rólega að færast í samt horf, byrja spurningarnar.

Háværust er spurningin hvernig stóð á því að gasstöðinni var leyft að opna svo að segja í miðju íbúðahverfi? Þegar stöðinni var komið á laggirnar árið 2006 voru margir íbúar sem kvörtuðu og töldu þessa starfsemi ekki eiga heima á innan um íbúðahúsin.

Eðlilega eru þeir reiðir í dag.

En borgarstjórinn og embættismenn benda hver á annan og vitna í ýmis lög og skipulagsreglugerðir.

Fréttir úr Globe and Mail hér, hér og hér.

Myndasyrpa Globe and Mail

Hér má sjá stutt myndskeið á YouTube

Sjónvarpsfrétt Global News


Ég horfi ekki

Þó að ég sé ekki mjög íþróttalega þenkjandi hef ég oft haft gaman af því að fylgjast með ýmsum stórmótum, alla vegna svona með öðru auganu.  Olympíuleikar hafa þar ekki verið undanskildir.

En nú hef ég misst áhugann.  Í ár ætla ég að sleppa því að horfa.

Eftir fréttahríð af mannréttindabrotum, blokkun á netsambandi og öðru slíku hef ég hreinlega ekki áhuga á því að horfa á leikana, þeir vekja ekki áhuga.

Gamla slagorðið að pólítík og íþróttir komi hvort öðru ekki við hljómar holt í mín eyru, enda pólítík verið fylgifiskur Olympíuleikanna um langt árabil.

En í ár horfi ég ekki.  Sé til eftir 4. ár.

 

 


Skippy Burgers

Þetta er í sjálfu sér ekki verri hugmynd en hver önnur.  Reyndar hef ég sjálfur ekki smakkað kengúrukjöt, en hef heyrt vel af því látið.

Það gæti því verið prýðileg hugmynd fyrir andfætlingana að markaðssetja kengúruborgara.  Ekki er heldur ólíklegt að rækta megi kengúrur á fleiri stöðum.

En hvort að þessi hugmynd verði einhvern tíma að veruleika er annar handleggur.

Eitt af því er að kengúrur hafa góða ímynd.  Þær eru vinalegar og líta skemmtilega út og hafa þó nokkuð aðdráttarafl t.d. í dýragörðum.

Þeir sem komnir eru aðeins á aldur muna líklega eftir "Skippý" framhaldsmyndaflokknum sem sýndur var í Sjónvarpinu fyrir all löngu.  Hann gerðist einmitt í Ástralíu og lék kengúra ein (nema að þær hafi verið fleiri) eitt af aðalhlutverkunum.

Slíkt er auðvitað hættulegt fyrir kjötframleiðslu og gæti staðið í vegi fyrir neyslu kengúruborgara.

Alla vegna þangað til "ofurhetja" af kýrkyni kemur til sögunnar.


mbl.is Kengúruborgarar til bjargar jörðinni?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband