Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2008

Massa

Ég gat ekki horft á tímatökurnar í morgun þar sem rásin sem sendir út Formúluna á kaplinum valdi að sýna eitthvað þrautleiðinglegt efni frá Olympíuleikunum í staðinn.  Sem betur fer verður ekkert slíkt rugl á ferðinni í fyrramálið.

Í stað þess varð ég að láta mér nægja að ræsa upp tölvuna og fylgjast með tímunum í beinni, og vita þannig hvernig allt fór.

Massa virðist í fantaformi nú um stundir og tók pólinn glæsilega.  Raikkonen virðist ennþá eiga nokkuð langt í land með að ná ásættanlegum árangri í tímatökunum og á líklega frekar erfitt uppdráttar í keppninni á morgun. Þó er brautin nokkuð hröð og ætti að gefa nokkurn möguleika á framúrakstri.  Það verður því að vona hið besta.

Annars er ekki margt sem vekur sérstaka athygli, nema þá einna helst gott gengi Toro Rosso og svo afleitt gengi Renault.  Það hefur ekki verið skemmtilegt fyrir Alonso að að ná ekki í þriðju lotuna, fyrir framan heita aðdáendur sína á heimavelli.


mbl.is Massa hreppti ráspólinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Væntingar

Það er gömul saga og ný að markaðir og verðlaga á þeim byggist á væntingum.  Fjárfestar spá í framtíðina, vöruskiptajöfnuð, verðbólgu og aðrar hagtölur.

Því velti ég því fyrir mér hvort að krónan hefði ekki átt að styrkjast meira í dag, vegna alls þess gulls sem væntanlegt er til landsins á sunnudaginn.


mbl.is Krónan styrktist um 0,90%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

22. ágúst - Sautján árum seinna

22. ágúst 2001Þó að 22. ágúst verði í framtíðinni líklega helst minnst sem dagsins þegar Íslendingar gjörsigruðu Spánverja í handbolta á Olympíuleikum og tryggðu sér rétt til þess að keppa um olympíugull, hefur ýmislegt annað markvert gerst á þessum degi.

Fyrir 17. árum studdu Íslendingar litlar þjóðar sem voru að berjast við að endurheimta sjálfstæði sitt úr klóm Sovétríkjanna.  Á þessum degi varð Ísland fyrsta landið til þess að lýsa yfir viðurkenningu á sjálfstæði Eistlands, Lettlands og Litháen.

Þessi stuðningur smáríkisins Íslands við þessi ríki, sem eru minni að flatarmáli en Ísland, þó að íbúafjöldi þeirra sé meiri, skipti máli, hann breytti aturðarásinni.

Enn þann dag í dag minnast margir íbúa þessara landa þessa stuðnings með þakklæti og virðingu.  Þeir telja réttilega að þarna hafi Ísland sýnt að með hugrekki og heiðarleika, að lítil ríki geti skipt máli, að þau hafi rödd sem heyrist.

Meðfylgjandi er mynd sem ég tók í sumar, af minningarskildi um viðurkenningu Íslands á sjálfstæði Eistlands.  Skjöldurinn er utan á utanríkisráðuneyti Eistlendinga, sem stendur við Íslandstorg.  Á torginu var áður stór stytta af Lenín, sem var fjarlægð stuttu eftir endurheimtingu sjálfstæðis landsins.

P.S. Sá að Egill Helgason er að hvetja til þess að Íslendingar bjóði Dalai Lama í heimsókn.  Það væri ekki illa til fundið.  Það myndi þá líklega sýna hvernig Íslendingar hyggðust koma fram í Öryggisráðinu, ef svo færi að þeir næðu þar kosningu.


Að vera eða vera ekki - velkominn í Frjálslynda flokkinn, það er spurningin?

Það fer að verða svo að ef áhugamönnum um stjórnmál vantar smá skemmtiefni, þá er gott að googla "frjálslyndi flokkurinn".

Þar er alltaf eitthvað um að vera, borgarfulltrúar, varaborgarfulltrúar og alþingismenn ganga úr flokknum, alþingismenn ganga í flokkinn, borgarfulltrar vilja ganga í flokkinn og svo frameftir götunum.

Heilmikil blaða og blogskrif eru eingöngu um hvort að einstaklingar séu velkomnir í flokkinn eður ei.

Ólafur F. fyrrverandi borgarstjóri er til dæmis ekki velkominn í Frjálslynda flokkinn, ef marka má skrif Jóns Magnússonar, sem mig minnir að sé í forsvari fyrir borgarmálafélag flokksins í Reykjavík.

Hann fullyrðir reyndar að Ólafur fari með rangt mál, þegar hann haldi því fram að Guðjón Arnar hafi boðið Ólaf velkominn og vilji að hann sé í framboði fyrir flokkinn. 

Spurningin sem vaknar er þá hvort að eitthvað sé yfirleitt að marka allra handa yfirlýsingar Ólafs, sem eiga það sameiginlegt að eiga að hjálpa kjósendum að sjá hann í betra ljósi.

En Kristinn H. býður Ólaf F. hjartanlega velkominn, enda líklega leitun að stjórnmálamanni sem skilur betur að menn eigi erfitt með að ákveða hvort þeir ætli að vera í flokki eða ekki.

Spennan er auðvitað að verða óbærileg.

Er ekki tímabært að einhver fjölmiðlamaðurinn fari ofan í saumana á þessu máli og skýri það í vandaðri fréttaskýringu?

Eftir því sem ég kemst næst er spennan yfir þessu það mikil að hún er farin að draga niður framleiðni á Íslandi.

 


Afsakið orðbragðið

Ég fékk tölvupóst nú fyrir stuttu sem innihélt þennan hlekk.

 Ef hlekknum er fylgt er komið á blogg Arnar Smára Gíslasonar, sem er nýfarinn að blogga á Eyjunni.

Bloggið kallar hann "bol dagsins" og birtir daglega nýjan "t-bol".

Ég viðurkenni fúslega að þessi kætti mig og hló ég nokkuð dátt.


Ísland sem ódýr áfangastaður

Oft hef ég séð mælt með ferðum til Íslands í blöðum og tímaritum víðsvegar um heiminn, þar sé falleg náttúra, gott fólk, mælt með að ferðamenn skreppi í Bláa lónið.  Oft er minnst á næturlífið ýmist sem eitthvað æðislegt, eða skrýtið athæfi.

En ég man ekki eftir því fyrr að lesa um að Ísland sé ódýr áfangastaður, "bargain destination".

En Ísland er á lista yfir "top 5" yfir ódýra áfangastaði hjá Bandaríska blaðinu "USA Today".  Þrír af 5 áfangastöðunum eru innanlands í Bandaríkjunum og svo eru Ísland og Mexikó á listanum.

Þar segir m.a.

"It's been a long time since Iceland was on the radar as a bargain destination. But this year, the small country has seen a precipitous 22% drop in the value of its currency against the euro. As a result, Iceland is on the map this fall as a more affordable alternative to mainland Europe."

Á sama tíma les ég að verslun ferðamanna hafi aldrei verið meiri á Íslandi og hafi aukist mikið per einstakling.

Þetta eru auðvitað jákvæð áhrif þess að Íslenska krónan er á réttu róli um þessar mundir, en Íslendingar þekkja líklega vel þau neikvæðu.


Rétt uppáskrift

Rauðar, gular og grænar "placebo" eða gervipillur eru gjarna skrifaðar út af læknum handa ímyndunarveikum eða "histerískum" sjúklingum.

Því verður að telja að þetta "recept" handa kjósendum og stuðningsfólki Samfylkingar og Vinstri grænna ætti að hitta beint í mark.

Það er aldrei að vita nema þeir læknist með "rauðu pillunni".

En ég reikna ekki með að þær bíti á stuðningsfólk Ólafs og F-listans.  En ef til vill þarf Jón Magnússon "rauða pillu" til að fallast á að taka við Ólafi?

 

 


mbl.is Rós og ráð gegn rugli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Haussmann og húsavernd

Ég hef fylgst aðeins með umræðunni um húsavernd á Íslandi, sjálfsagt hef ég misst af einhverju, en ég hef eiginlega aldrei getið skilið þessa umræðu til fullnustu.

Talað er um 19. aldar götumynd sem beri og þurfi að varðveita.  Hús sem eru hér og þar innan um steinsteypukumbalda megi ekki hverfa.

Einhvernveginn held ég að það sem helst þurfi sé að skipuleggja ákveðin svæði, svo sem miðborgina sem heild.  Eitthvað sem lítur út eins og einhver hugsun hafi verið á bak við það.

Til samanburðar er hægt að hugsa sér París.  Borg sem flestir eru sammála um að sé skemmtileg, falleg hús, fallegar götur og borgin full af sögu - og ljósum.  Borg ljósanna.

Eins og margir vita er skipulag Parísarborgar rakið til Haussmanns baróns.  En til að skapa þá París sem við þekkjum í dag, varð að rífa heilu borgarhverfin, minnismerki voru eyðilögð eða flutt, götur ruddar og nýjar lagðar.  Verslunarmiðstöðvar risu og þóttu sumar ekki par merkilegar þá. 

Þessar framkvæmdir sem stóðu yfir í áratugi voru langt frá því að vera óumdeildar.

Með þessu skipulagi hvarf "hin sjarmerandi Parísarborg" og ómetanlegar húsbyggingar allt frá miðöldum.  "Ómetanlegum" menningarverðmætum var fargað.  Dregið var strik yfir söguna að hluta til.

En París er falleg.  Heilsteypt og glæsileg.  Enn rífa Frakkar hús, jafnvel við Champs Elysee, en þó þannig að framhliðin heldur sér yfirleitt, svo er byggt "hentugt" hús á bakvið.  Bankar breytast í plötuverslanir og þar fram eftir götunum, sumt af innréttingunum heldur sér annað ekki.  Flestir Frakkar láta það sér í léttu rúmi liggja, en hafa meiri áhyggjur af því að skyndibitastaðir séu að taka yfir götuna.

En líklega er það of mikil bjartsýni að halda að uppbygging á Íslandi verði nokkurn tíma með slíkum hætti.  Íslendingar halda sig við það að geyma "sýnishorn" hér og þar, og "bútasaumur" er kjörorð dagsins. 

Húsfriðunarsinnar fá eitt og eitt hús, uppbyggingarsinnar eina og eina lóð, enginn er ánægður og ekkert gerist.  Nema að miðborginni heldur áfram að blæða út hægt og rólega.


Minnihluti eða minnihlutar?

Ég er að velta því fyrir mér hvort að eitthvert formlegt samstarf verði hjá minnihlutanum í borgarstjórninni, t.d. við kosningu í nefndir og annað slíkt?

Og hvort slíkt samstarf verði eitthvert það sem eftir lifir kjörtímabilsins?

Eða verður Ólafur F. einn og sér?

Það er alla vegna skrýtið að hugsa til þess að Marsibil Sæmundsdóttir (sem taldi engan geta eða vilja starfa með Ólafi F.) og Margrét Sverrisdóttir starfi með Ólafi F. í einum sameinuðum minnihluta?

En auðvitað á aldrei að segja aldrei, eða hvað?


Heilindi, heiðarleiki eða hræsni?

Ég bloggaði um það um daginn að mér þætti eðlilegt af Marsibil að segja sig frá borgarstjórn.

Ég get ekki sagt að það komi mér sérstaklega á óvart að hún skuli frekar hafa valið þann kost að segja sig úr Framsóknarflokknum og halda varamannssæti sínu í borgarstjórninni.  Slíkt hefur tíðkast í Íslenskum stjórnmálum, enda lagalega rétt þar sem fulltrúar þjóðarinnar, hvort sem er í sveitarstjórnum eða á Alþingi eru taldir kosnir sem einstaklingar, þó að þeir komi af listum flokkanna.

Margir hafa þó efast um siðferðislegan rétt og hafa margir verið þeirrar skoðunar að breyta ætti reglunum, í þann veg að flokkarnir öðluðust sterkari yfirráð yfir sætunum.

Persónulega er ég þeirrar skoðunar að slíkt væri ekki til bóta og aukið flokksræði hreint ekki það sem vanti í Íslensk stjórnmál, jafnvel þó að rök megi færa fyrir því að víða séu þau mun meiri en á Íslandi (til dæmis hér í Kanada).

En það er nokkuð merkilegt að velta því fyrir sér að með minnihluta borgarstjórnar starfa þrír einstaklingar sem hafa sagt skilið við flokkinn sem þau störfuðu með.  Fyrstan skal auðvitað nefna fyrrverandi borgarstjóra, Ólaf F. Magnússon, þá varamann hans Margréti Sverrisdóttur, en þau sátu bæði á lista Frjálslynda flokksins.  Nú hefur Marsibil Sæmundsdóttir bæst við, nú eftir að hún hefur sagt sig úr Framsóknarflokknum.

Þau þrjú hafa sagt sig úr flokkum sem þau sátu á lista en kosið að halda sætum sínum. 

Ef til vill er staða Margrétar skrýtnust af þeim þremur.  Ekki nóg með að hún hafi sem framkvæmdastjóri Frjálslynda flokksins farið því sem næst hamförum þegar þáverandi flokksbróðir hennar Gunnar Örlygsson skipti um flokk með þessum hætti, heldur hefur hún síðan þá tekið þátt í stofnun nýs stjórnmálaflokks og situr sem varaformaður hans.  Þrátt fyrir það finnst henni ekkert athugavert að sitja enn sem varamaður fyrir lista Frjálslyndaflokksins í borgarstjórn.

En einstaklingar sem eru kjörnir í borgarstjórn (eða til vara) eða á Alþingi eiga það aðeins við samvisku sína hvort að hvort að þeir haldi sætum sínum eður ei. 

En ég velti því stundum fyrir mér hvort að þessir einstaklingar telji sig hafa eitthvað mikilvægt fram að færa, eða einhverju mikilvægu ólokið, eða hvort að launin eru hreinlega svona góð?


mbl.is Marsibil segir sig úr Framsóknarflokknum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband