Bloggfærslur mánaðarins, júní 2008

Ville Hamilton

Það kom mér ekkert verulega á óvart að Hamilton skyldi vinna pólinn í Montreal.  Hann vann hann sömuleiðis í fyrra og því má nú segja að enginn annar hafi unnið pólinn í Montreal síðan Hamilton hóf keppni.

En hitt kom mér á óvart, hvað hann vann hann með miklum mun.  Að hann skuli hafa 6/10 úr sekúndu á næsta mann og næstum því 9/10 á Raikkonen í 3ja sætinu kom mér nokkuð á óvart.  Það gefur mér hins vegar sömuleiðis ákveðna von.

Það er nefnilega freistandi að draga þá ályktun að Hamilton og Kubica sé nokkuð léttari af bensíni en Ferrari bílarnir.  Ég er næstum því viss hvað Kubica varðar, en Hamilton er meiri spurning.  En það verður gaman að sjá hvernig þjónustuhléum verður háttað.  Ég er nokkuð viss um að Kubica verður fyrstur inn af toppbílunum.

En ég átti von á því að Montreal yrði Ferrari erfið, þetta er ekki braut sem virðist henta "okkur" vel.  Það eru þó mikil vonbrigði að sjá Massa aðeins í 6. sæti, en 3ja hjá Kimi verður að teljast ásættanlegt.

En það verður einnig fróðlegt að fylgjast með Alonso og Rosberg.  Sjá hvað þeir hafa af bensíni og hvað er raunveruleg framför í farartækjunum.

En brautin var víst verulega erfið í dag, sprungin og erfitt um grip sumstaðar.  Lagt verður nýtt malbik á hluta brautarinnar í kvöld og nótt.

En svo er veðrið líka spurning.  Spáin er ekki of góð, skúrir og jafnvel hætta á þrumuveðri.  Þannig að það er ýmislegt sem getur komið upp á á morgun.

Og svo er það öryggisbílinn, hann hefur stundum leikið stórt hlutverk í Montreal.


mbl.is Hamilton á ráspól í Montreal
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gullkorn frá foringjanum

Móðir drengsins var eitthvað að reyna að siða hann til núna seinnipartinn.  Sem oftar virtist það hafa frekar takmörkuð áhrif á drenginn og þolinmæði konunnar fór að þverra.

Lét hún því þau orð falla, sem líklega flestir foreldrar hafa notað í samskiptum við ómegðina, "það er engu líkara en að allt sem ég segi fari inn um annað eyrað á þér og út um hitt."

Sá stutti lét sér hvergi bregða og svaraði spontant:  "Já, og ég hef ekki hugmynd um hvert það fer eftir það."

Siðapistillinn varð ekki lengri að sinni.


Dagar múrmeldýranna

Það styttist óðum í kappaksturinn í Montreal, eins og ég hef áður sagt er ég ekki mjög bjartsýnn fyrir hönd Ferrari, en vissulega vona ég alltaf hið besta.

En Hamilton á góðar minningar frá Montreal, þar vann hann sinn fyrsta pól og fyrsta sigur í fyrra.  Það er því ekki við öðru að búast en að hann komi sterkur til leiks.

En vonandi verður um spennandi keppni að ræða og óskandi auðvitað að mínir menn standi uppi sem sigurvegarar að lokum.

Það er svo að lokum rétt að taka það fram að dýrið sem sleppur naumlega frá bíl Hamilton er ekki bjór.  Ef ég sé rétt leikur enginn vafi á því að um er að ræða múrmeldýr (groundhog).  Alla vegna minnir mig að Íslenska heitið sé múrmeldýr, þó að vissulega mætti segja að rökréttara væri að kalla þau jarðsvín, eða jarðgelti.

Ralf Schumacher slapp naumlega við að keyra á múrmeldýr í fyrra, en Anthony Davidson var ekki svo heppinn og fékk eitt stykki á bílinn.  Hann hélt því reyndar fram að hann hefði keyrt á bjór, og kann að vera að þessi misskilningur sé þaðan kominn.

En mikið af múrmeldýrum lifir í kringum brautina í Montreal og er reynt að fækka þeim nokkuð fyrir keppnir, með því að veiða þau í búr (gulrætur sem agn) og flytja þau í burtu.

Hámarkshraði múrmeldýra er u.þ.b. 15 km á klukkustund og eiga þau því erfitt með að forða sér ef þau hætta sér út á brautina.  En þau eru vissulega í góðum "stæðum" á meðan á keppninni stendur.

 


mbl.is Hamilton hraðskreiðastur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

33

Eftir frekar svalt vor og upphaf sumars hér í Toronto, skall það á í dag.  Hitinn sem var sakleysislegar 19° í gærdag skellti sér í 33 gráður í dag.  Það sem meira er, ef rakinn er tekinn með í reikninginn, var þetta eins og u.þ.b. 42 til 43°.

Bjórárfjölskyldan fékk þá (eftir á að hyggja slæmu) hugmynd að skreppa út fyrir borgina og hreyfa sig aðeins í fersku skógarlofti og viðra ómegðina.

Það var svo heitt í skóginum að enginn nennti að hreyfa sig nema moskítóflugurnar.  En hreyfingin gerir það vissulega svangar.  Eins og oftast áður eru þær moskítóflugur sem fjölskyldan hittir fyrir sérlega matvandar og láta ekki bjóða sér hvað sem er.  Því er það eingöngu húsbóndinn sem er snæddur.  En þeim mun hraustlegar.  Ég held að ég hafi fengið u.þ.b. fyrstu 15 bit sumarsins eða svo í dag.

Flýttum okkur heim aftur.  Vodki útvortis og Tékki innvortis.  Líðanin fer skánandi.


Laus staða Bjarndýraeftirlitsmanns

Það er ekki spurning að til að tryggja öryggi Skagfirðinga þarf að koma á fót stöðu Bjarndýraeftirlitsmanns.  Spurningin hvort að hann tæki líka að sér að sjá um Húnavatnsýslur.  Vestfirðingar þurfa svo sömuleiðis að hyggja að öryggi sínu, enda á miklu hættusvæði.

Spurningin er aðeins hvort að störf þessi féllu undir lögregluembættin á hverjum stað, almannavarnir, eða Varnarmálastofnun.

Svo til að alls réttlætis sé gætt og réttindi ekki brotin, þyrftí líkast til að koma á fót stöðu umboðsmanns bjarna.

 

P.S.  Hvernig er það, ætlar enginn að skipuleggja kertafleytingu fyrir Bangsa?


mbl.is Ekki fleiri bjarndýr í Skagafirði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Brandarar í boði Sameinuðu þjóðanna

Þessa dagana hafa Sameinuðu þjóðirnar staðið fyrir heljarinnar ráðstefnu í Róm, þar sem fjallað er um matvælavanda heimsins.  Þar hafa hinir ýmsustu spekingar stigið á stokk og tjáð sig um vandann.

Robert Mugabe lét sig að sjálfsögðu ekki vanta, enda ekki á hverjum degi sem hann á þess kost að ferðast til Evrópu.  ESB hefur bannað honum að stíga á foldu ríkja "Sambandsins", en að sjálfsögðu gildir slíkt bann ekki um ráðstefnur á vegum SÞ.

Mugabe lýsti því yfir á ráðstefnunni að fæðuskorturinn í Zimbabve væri Bretum að kenna.  Nýlega var hjálparstofnuninni CARE bannað að starfa í Zimbabve (sjá hér).

Mahmoud Ahmadinejad Íransforseti talaði líka á ráðstefnunni.  Það voru allir rasandi hissa á því þegar hann gaf í skyn að hækkandi matvælaverð væri samsæri alþjóðlegra kapítalista og zionista að kenna.

Það þarf ekki að efa að framlag þeirra er mikilvægt til lausnar á fæðuvanda fátækra ríkja.

 

 


Í kýrhausnum

Það hefur þó nokkuð verið rætt og ritað um uppsögn forstjóra OR (sem var í leyfi) og má skilja á ýmsum "vinstri spekingunum" að það sé hræðilegt til þess að hugsa hvað þessi uppsögn kosti borgarbúa mikið fé.  Mörgum þykir rúmlega 30 milljónum króna illa varið með þessu móti.

Auðvitað má segja að það sé rétt, en fáir virðast þó velta því fyrir sér hvernig stendur á því að yfirmaður fyrirtækis í eigu Reykjavíkurborgar er með þessi laun og hvernig stendur á því að hann er með þetta langan uppsagnarfrest.

Við höfum ekki séð neina hjartnæma útreikninga um hve 2.6 milljón króna mánaðarlaunin jafngildi mörgum mánaðarlaunum verkakvenna eða ríflega 30 milljón króna "starfslokasamningurinn" mörgum árslaunum þeirra kvenna.  Það er ekki einu sinni að þessi laun séu borin saman við laun sviðsstjóra hjá borginni.

Ekki hefur heldur heyrst af því að mikil óánægja sé hjá yfirmönnum annarra fyrirtækja borgarinnar.

Enginn hefur heldur minnst á það hver og hvaða meirihluti í borgarstjórrn og þar af leiðandi stjórn Orkuveitunnar gerði slíkan samning við yfirmanninn.  Ef til vill eru svona samningar algengir í borgarfyrirtækjum, ætli einhver vilji athuga það?

Ef til vill er þetta það sem koma skal í pólítískum ráðningum vina og samherja, einfaldlega að hafa kjörin það góð, að það sé of "dýrt" að losa sig slíka starfsmenn, sama hvað gengur á.

Já, það er margt skrýtið

Annað sem vakti athygli mína í fréttum var umfjöllun um dráp á ísbirni norður í landi.  Það er engu líkara en meiri harmdauði hafi ekki orðið á Íslandi síðan Lúkas var talinn hafa yfirgefið jarðlífið.

Allir virðast hafa miklu meiri kunnáttu og þekkingu á því hvernig höndla beri ísbirni en þeir sem stjórnuðu aðgerðum á staðnum. 

Meira að segja umhverfisráðherra er talin eiga sök á því hvernig fór.

Auðvitað verða ákvarðanir sem þessar alltaf að takast af þeim sem meta aðstæður á staðnum.  Ákvarðanir sem þessar eiga ekki að vera teknar við skrifborð ráðherra í höfuðborginni. 

Vilja menn reyna að ímynda sér hvernig fréttir og blog væru ef bangsi hefði náð að glefsa eða slæma krumlunni í safaríkan Skagfirðing?


Óværa

Ég fékk einhverja bölvaða óværu í tölvuna.  Hegðunin var verulega undarleg.  Sumt kom ekki á óvart, endalaus uppspretta af óumbeðnum síðum, bæði í IE og Firefox, en svo neitaðu vafrarnir að birta sumar síður. 

Ég komst til dæmis ekki á hotmail síðuna mína og ýmsar aðrar síður neituðu vafrarnir að birta, og á sumum birtist aðeins forsíðan og vafrarnir neituðu að fylgja hlekkjum.

Það var alveg sama hvernig ég reyndi að "kemba" vélina, og sama hvaða forritum ég beitti, sum þeirra fundu allra handa "trjóu hesta" og annan óþverra, en alltaf hélt áfram að taka "sjálfstæðar ákvarðanir".

Sem betur fer virkaði DVD skrifarinn fyllilega svo ég hófst handa við að "skrifa niður" það sem merkilegt gat talist og "straujaði" svo vélina.

Allt gekk eins og til var sáð, nema að nú vantar mig auðvitað fjöldann allan af stórum og smáum forritum sem ég hafði á vélina og vinnan við að lesa þau inn aftur er umtalsverð.

Þetta hefst þó að lokum og allt verður eins og áður....

..... þangað til næst.


Að vaða í Villa og svima

Hið fornkveðna, að menn uppskeri eins og þeir sái kemur vel í ljós í þessarri frétt.  Það er einfaldlega ekki margir hlutir sem borgarstjórnarflokur Sjálfstæðisflokkisins hefur gert rétt undanfarin misseri.  Það hefur engum fræjum verið sáð, það er ekki von á neinni uppskeru. 

Þvert á móti, þá hefur"útsæðið" verið etið, og ekkert verið hugsað til framtíðar.

Allt hefur miðast við lægsta samnefnarann, rétt eins og ekkert hafi verið lært af þeim meirihluta sem sat fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar.

Enginn vill taka af skarið, enginn vill segja að leiðtoginn eigi að víkja.  Enginn þorir að gera annað en að væflast áfram. 

Stuðningsmenn leiðtogans lýsa yfir stuðningi við mann aftarlega á listanum, en þeir sem sitja framar þegja þunnu hljóði.

Á meðan "blæðir" flokknum hægt og rólega út.

Enginn þorir að stíga fram og krefjast leiðtogastöðunnar sem er búin að vera auð svo mánuðum skiptir.

Það þýðir að enginn er hennar verðug(ur).

Það er líklega ekki seinna vænna fyrir Sjálfstæðismenn í Reykjavík að fara að leita að leiðtoga fyrir næstu kosningar.

Núverandi fulltrúar segja pass.

Spil vinnast ekki á pass.

Ég hef sagt það áður að eina von Sjálfstæðismanna til að vinna á í borginni, við óbreyttar aðstæður, er hve andstæðingarnir eru slakir.

En það dugar ekki lengur.


mbl.is Fylgi D-lista aldrei minna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband