Bloggfærslur mánaðarins, júní 2008

Glatað fé

Það er hefur ekki verið öfundsverð staða að vera fjárfestir á Íslenskum hlutabréfamarkaði nú undanfarnar vikur og mánuði.

Flest eða öll fyrirtæki hafa lækkað, en það er ekki hægt að segja annað en að sum hafi hreinlega hrunið.  Gríðarlegir fjármunir (sem á stundum var auðvitað engin innistæða fyrir) hafa horfið og margir hafa tapað gríðlegu fé.

Reyndar er tap Íslenskra félaga á undanförnum misserum glettilega hátt hlutfall af landsframleiðslu Íslendinga, en til að allar sanngirni sé gætt verður að hafa í huga að margir höfðu hagnast vel áður en til lækkunarinnar kom.

Núna síðast lækkar Eimskipafélagið  um 28% á tveimur dögum eða svo.  Hefur lækkað um fast að 50% frá áramótum.

Lækkunin nú undanfarna daga er rakin til þess að Eimskipafélagið ákvað að afskrifa Breskt flutningafélag, sem það keypti viði mikinn fögnuð stjórnenda á síðasta ári.  Núna er það sett í sölu og kaupverð þess (í kringum 8 milljarðar) króna að fullu afskrifað.

Hefur mátt lesa í blöðum, haft eftir núverandi stjórnarmönnum að fyrrverandi stjórnendur fyrirtækisins hafi "klúðrað bigtime"  Reyndar hefur mér skilist að félagið ætli að hefja innanhúss rannsókn á því hvernig var staðið að kaupunum á hinu Breska félagi sem hefur fallið svo skarpt að verðmæti.

Það er fyllsta ástæða til þess að fagna því að slík rannsókn fari fram, og reyndar er það áleitin spurning hvort að fjármálaeftirlitið ætti ekki að framkvæma eigin rannsókn á því hvað gerðist og hvernig ferlið hefur verið í þessu máli.

Fyrir hina almennu hluthafa er það áríðandi að allt komi fram.

Hvað veldur því að hið Breska fyrirtæki er keypt svo háu verði? Hvenær verður Eimskipafélaginu ljóst að fyrirtækið stendur ekki undir væntingum og að verulegt tap verðí á kaupunum?  Hvað líður langur tími frá því, þangað til tilkynnt er um afskriftina á fyrirtækinu?  Hvernig var viðskiptum með félagið háttað á þeim tíma sem leið?

Ég er ekki halda því fram að eitthvað óeðlilegt hafi átt sér stað, en þegar félag verður fyrir áfalli af þessarri stærðargráðu er áríðandi að allt komi fram, og æskilegt að rannsókn fari fram af hlutlausum aðilum.

Almennir hluthafar eiga það skilið.

Almenn úttekt myndi líklega sömuleiðis nýtast vel í Háskólanum, ef ekki víðar.


Vígin falla

Svona hörfar sósíalisminn skref fyrir skref víðast hvar í heiminum.  Frelsið eykst, bæði til að afla upplýsingar og gefa þær.

Annað fylgir í kjölfarið.  Nú er opnað á möguleika Kúbumann til að þéna meira, hvetja til aukinnar framleiðslu, betri þjónustu og þar fram eftir götunum.

Það er spurning hvað kemur næst og hvað og hvenær flóðgáttirnar opnast.

Cuba libre.


mbl.is Launajöfnuður afnuminn á Kúbu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stuð í formúlunni

Þetta eru góðar fréttir fyrir Formúluna í heild.  Ég reikna fastlega með því að við eigum eftir að sjá svipaðar tilkynningar frá fleiri liðum á næstunni.

Það getur enginn horft fram hjá þessum möguleika,  80 hestöfl, þó aðeins séu í stuttan tíma er ekkert smá, ríflega 10% orkuaukning.

Þetta getur skipt sköpum á réttu augnabliki og ennfremur spurning hvernig þetta geti nýst til að spara eldsneyti ef svo ber undir.

En þetta gefur auka "vídd" í kappaksturinn og er fagnaðarefni.


mbl.is Tvinnbíll í Formúlu 1 á næsta ári
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er einhver hissa?

Það er regla frekar en undantekning að kostnaður hvað varðar opinberar byggingar vaxi með húsinu ef svo má að orði komast.

Það væri ef til vill ekki úr vegi að lesa örlítið af þessari fréttatilkynningu

Í dag undirrita Tómas Ingi Olrich menntamálaráðherra, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, borgarstjóri í Reykjavík, Geir H. Haarde, fjármálaráðherra, og Sturla Böðvarsson, samgönguráðherra, samkomulag  milli Reykjavíkurborgar og ríkisins um byggingu tónlistarhúss og ráðstefnumiðstöðvar við Austurbakka í Reykjavík að viðstöddum Vladimir Ashkenazy, Sinfóníuhljómsveit Íslands og Kór íslensku óperunnar.

...

Áætlaður heildarkostnaður við byggingu tónlistar- og ráðstefnuhúss er tæpir 6 milljarðar króna. Kostnaður skiptist þannig að ríki greiðir 54% kostnaðar vegna hlutdeildar sinnar í verkinu og Reykjavíkurborg 46%.

En síðan eru liðin mörg ár og margt breyst við húsið.

En síðan er það oftast barnaleikur einn að reisa slík hús samanborið við það að reka þau.

Svo á eftir að taka allt sem gera þarf í kringum húsið en telst líklega ekki með í kostnaðinum við það sjálft.

En húsið verður líklega nokkurs konar minnismerki um "bruðlárin".

Því eru ekki allir Íslendingar farnir að spara?



 


mbl.is Tónlistarhús hækkar um fjóra milljarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stóra bakaríismálið

Það hefur vakið mikla athygli á Íslandi upp á síðkastið að komið hefur í ljós að "bakað á staðnum", þýðir einmitt það, að bakkelsið sé bakað á staðnum, en ekkert meira en bakað.

Mikð af því sem er bakað á Íslandi er flutt inn frosið og slengt svo í ofn.

Hvort að það sé betra eða verra að bakkelsið hafi frosið áður en það er bakað get ég ekki sagt að ég hafi vit á.  Sjálfsagt er það líka mismunandi eftir tegundum bakkelsis.

En hitt er ljóst að það kann aldrei góðri lukku að stýra að halda ósannindum að viðskiptavinum sínum.  Það kann ekki öllu máli að skipta hvort að deigið er framleitt í Kópavogi eða Krakow, en ég er þeirrar skoðunar að viðskiptavinurinn eigi rétt á því að vita hvaðan varan er og í hvaða ferli hún hefur gengið í gegnum.

En þar erum við víst á öndverðri skoðun, "Sambandið" og ég, "Sambandið" telur nefnilega að neytandinn hafi ekkert með það að gera að vita hvort matvæli eru frá Grikklandi eða Grundarfirði, Íslandi eða Póllandi.  Það nægir víst að varan sé framleidd í "Sambandinu", eða á Evrópska efnhagssvæðinu.

Því er ekkert ólöglegt við að setja pólskt brauð í ofna á Íslandi án þess að taka það sérstaklega fram. 

En auðvitað er ljótt að ljúga.


Er eitthvað sett út í kaffið í Viðskiptaráðuneytinu?

Sá í dag að það hafði vakið athygli (en ekki hlátur eins og hjá mér) fleiri en mín,  að viðskiptaráðherra skyldi vera með skófluna á lofti í Helguvík.

Þetta er hin ágætasta færsla, þó að hún komi frá öðru sjónarhorni en mínu, en það voru lokaorðin sem vöktu sérstaka athygli mína.

Kannski var einhverju laumað í kaffið hans. En ég hef á mér vara.

Það er engu líkara en samfylkingarmenn virðist sumir telja að ráðherrann hafi verið í annarlegu ástandi með skófluna í Helguvík.  Að jafnvel hafi einhverju verið laumað í kaffið hans.

Ef til vill verður að líta á yfirlýsingar ráðherrans og embættisfærslur með þetta í huga.

 


Skóflustunga að Fagra Íslandi tekin í Helguvík.

Ég get ekki að því gert að ég hló þegar mér var sagt að viðskiptaráðherra Björgnvin Sigurðsson hefði verið á meðal þeirra sem tóku fyrstu skóflustunguna að nýju álveri í Helguvík.

Ekki það að ég fagna uppbyggingu álversins og tel áframhaldandi iðnaðaruppbyggingu grunn að fallegra og betra þjóðfélagi á Íslandi.

Það hefur komið æ betur í ljós á undanförnum mánuðum að nauðsyn er fyrir Íslendinga að framleiða meira, flytja meira út, afla meiri tekna.

En það sem fékk mig til að hlæja er að viðskiptaráðherra (sem undir eðlilegum kringumstæðum væri afar eðlilegur kostur til skóflustungna af þessu tagi) skyldi taka þátt í athöfninni.  Ekki þar fyrir að ég hef áður minnst á það hér á blogginu að mér þyki hann einna fremstur á meðal tækifærissinna og lýðskrumara á Íslandi, en það var vissulega örlítið spaugilegt að einn af ráðherrum Samfylkingarinna sem hvað hæst hefur talað um "Fagra Ísland", skyldi taka skóflustungu að nýju álveri á svæðinu þar sem Ungir Jafnaðarmenn og Græna netið gróðusettu "vaxtasprota" fyrir til þess að gera fáum vikum.

Ef til vill hefur Björgvin stungið upp "vaxtarsprotana" og tekið þá með sér heim.

En auðvitað er rétt að fagna því þegar "vindhanar" snúast í rétta átt.  Ef til vill er byrinn fram á við nú um stundir.


Fagnaðarefni

Það er full ástæða til þess að fagna þessari niðurstöðu.  Reyndar ekki síst ástæða til þess að fagna að ákvörðun hafi verið tekin.  Það var löngu tímabært.

Nú þarf að reyna að vinna úr erfiðri stöðu, endurheimta fylgi og sækja fram.

Ég hef fulla trú á Hönnu Birnu til starfans og vona að hún eigi eftir að reynast vel sem borgarstjóri.

En Sjálfstæðisflokkurinn á erfitt verk fyrir höndum, þetta er skref í rétta átt, en nú verður að taka málin föstum tökum og taka á málunum.

Það er heldur ekki ólíklegt að það þurfi að taka fast á fjármálunum, því nú þegar niðursveiflan og samdrátturinn er í algleymingi er viðbúið að tekjur borgarinnar skreppi hressilega saman.  Á sama tíma má allt að eins búast við að kröfurnar um eyðslu aukist.

Það er því ekki auðvelt starf sem er fyrir höndum, en Sjálfstæðisflokkurinn hefur 2 ár til að skila árangri í borginni.

Það eru ár sem mega ekki fara forgörðum.


mbl.is Hanna Birna oddviti strax
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gott mál - sanngjarn dómur

Ég get ekki annað en verið ánægður með þennan dóm.

Mótmæli "McSpy" eru auðvitað út í hött.  Þeir sem sjá ekki muninn á því að missa stjórn á bíl sínum  á þriðja hundraðinu í erfiðri keppni, og því að keyra aftan á bíl sem hefur stöðvað á rauðu ljósi á bílskúrsfráreininni, ættu ekki að taka þátt í kappakstri.

Það er rétt að hafa það í huga að refsingin fyrir að aka gegn rauðu ljósi við þessar aðstæður er svart flagg, brottrekstur úr keppni.  Það ætti flestum að vera í fersku minni þegar Montoya lenti í því, einmitt í Montreal.

Það að Raikkonen "stöðvaði" ferð Hamilton þannig að hann braut ekki af sér hvað varðar rauða ljósið, ætti auðvitað ekki að verða til þess að hann slyppi refsingarlaust frá athæfinu, og Rosberg auðvitað ekki heldur.

Því lít ég svo á að um sanngjarnan dóm sé að ræða.  Það getur hent alla að missa stjórn á bíl sínum, jafnvel með því skemmt eða eyðilagt keppni fyrir öðrum.  Að gæta ekki að rauðum ljósum (sem þó eru viðbúin við slíkar aðstæður) eru allt annað mál.

 

 


mbl.is Hamilton og Rosberg refsað með afturfærslu í Magny-Cours
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pólstjarnan í Montreal

Montreal klikkaði ekki frekar en oft áður á að bjóða upp á litríkan og nokkuð skemmtilegan kappakstur.  Kubica var vel að sigrinum kominn og það er skemmtileg tilviljun hvernig það æxlast annað árið í röð að rísandi stjarna vinnur sína fyrstu keppni í Kanada.

Kubica tekur forystuna í keppni ökuþóra og BMW skýst í annað sæti í keppni bílsmiða með glæsilegum 1 - 2 sigri.  Það má ef til vill segja að þetta sýni betur en margt annað hve miklu máli það skiptir að koma í mark í stigasæti, helst alltaf.

Það vakti svo minningar að sjá "gamla brýnið" DC á palli, ég man ekki alveg hvenær það gerðist síðast, en hann vann vel úr því sem í boði var.

Það var fátt til að gleðjast yfir fyrir okkur Ferrari aðdáendur, þó sýndi Massa snilldarakstur á köflum, en mistök (fer að verða einum of oft hjá okkur) hvað varðar þjónustuhléín voru honum dýrkeypt.

Raikkonen virtist vera að koma til, en þá kom öryggisbilinn út og Hamilton keyrði hann síðan út úr keppninni, eins og flestum ætti að vera kunnugt.  Ég er reyndar ekki frá því að Hamilton eigi skilið refsingu fyrir þennan aftanáakstur, en ég efast þó um að nokkuð verði gert í því.

En Hamilton hafði alla vegna "vit" á því að sveigja á síðustu stundu og "velja" réttan bíl til að aka á, því annars lá stefna hans beint á Kubica.  Það kemur honum til góða í keppni bilsmiða.

En keppnin hefur ekki verið opnari í langan tíma, fjórir ökumenn sem allir eiga góðan möguleika á því að sigra, og bilið á milli Ferrari og BMW er hreint ekki neitt.  Það er ekki nema rétt rúmlega 1/3 búinn af mótaröðinni.

En þetta var dagur BMW, eftir að hafa beðið svo lengi eftir sigri, þá kemur hann 1 - 2.  Sannarlega góður dagur fyrir þá, og gott fyrir Formúluna að fá fleiri lið í fremstu röð.

Sjálfstraustið hjá Kubica hefur líklega sömuleiðis fengið "feitt" innlegg og verður honum gott vegarnesti í komandi keppnum.

 

 


mbl.is Kubica efstur í keppninni um heimsmeistaratitil ökuþóra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband