Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2008

You have to have a Finn to....

Ég kom í ekki fyrir á stundatöflunni að horfa á tímartökurnar í morgun.  Eitt af því fá sem er mikilvægara en Formúlan hefur öll völd á laugardagsmorgnum, fjölskyldan.

Auðvitað er ég ánægður með að sjá Raikkonen á pól.  En ég er sömuleiðis ánægður með að sjá Alonso í öðru sætinu.  Það er gott fyrir bæði Ferrari og Formúluna að það séu fleiri bílstjórar sem berjast á toppnum, svo lengi sem Ferrari heldur sig í þremur fyrstu sætunum.

En það er freistandi að álykta að Alonso og Renault hafi verið að setja upp "show" fyrir Spænska aðdáendur hans. Að hann sé léttur af bensíni og hafi viljað gefa aðdáendum sínum í það minnsta góða tímatöku, vegna þess að hann viti að hann geti ekki gefið þeim ástæðu til að fagna í keppninni sjálfri. En Alonso er góður ökumaður og óþarfi að afskrifa hann með þeim hætti, þeir sem á eftir koma fara ekki auðveldlega fram úr honum, en ég reikna þó með því að sjá hann koma frekar snemma inn.

En við Ferrari menn getum ágætlega við unað, 1. og 3. sætið er vel ásættanlegt, báðir bílarnir á "hreina" helming brautarinnar og við vonumst eftir góðu starti.

Kubica heldur áfram að sýna hvers hann er megnugur, en McLaren virðast ekki alveg vera að finna sig þessa dagana.  Ef til vill er að koma í ljós að Hamilton er ekki nógu góður "alhilða" ökumaður.  Það er eitt að aka bílnum, en annar handleggur að koma því sem er að til skila til tæknimannana.  Það er einmitt það sem ökumenn eins og Schumacher og t.d. Alonso hafa verið orðlagðir fyrir að gera svo vel.  Ef til vill naut Hamilton þess í fyrra.

En nú er að rífa sig upp í fyrramálið og njóta keppninnar.

 
mbl.is Räikkönen marði Alonso á síðustu sekúndunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Með egg á andlitinu

Þetta er ótrúlegt mál og mér þykir þessi yfirlýsing eiginlega smyrja egginu um "andlit" fréttastofunnar.  Að fréttamanni þyki miður að það hvarfli að einhverjum að draga trúverðugleika hennar í efa.

Eins og það sé ekki nokkuð sjálfsagt mál, þegar svona nokkuð fer í loftið.

Persónulega finnst mér ekki nema ein leið til þess að fréttastofa Stöðvar 2 viðhaldi trúverðugleika sínum.  Það er að viðkomandi fréttamaður segi upp störfum eða sé látin fara.

Svo notaður sé frasi sem vinsæll er hjá fréttamönnum, þá "yrði svona nokkuð næsta örugglega ekki látið viðgangast í nágrannalöndunum".

Ef viðkomandi fréttamaður lætur af störfum, verðum við svo að sjá hvort að henni verði falið eftir nokkra mánuði að setja á stofn fréttasjónvarpsstöð fyrir 365 miðla, svona rétt eins og síðasti fréttamaður sem sagði af sér af svipuðum ástæðum.


mbl.is Yfirlýsing frá Láru Ómarsdóttur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skrílslæti á Gas(a) svæðinu

Ég var að horfa á netfréttir hjá Íslensku sjónvarpsstöðvunum af óeirðum sem brutust út á Íslenska Gas(a) svæðinu a.k.a. Suðurlandsvegi.

Ég ætla ekki að dæma um aðgerðir lögreglunnar, enda ekki fær um það með því einu að horfa á fréttir.  Það er allt annað að horfa á skjáinn eða vera á svæðinu.

En það er ljóst að löggæsla fer ekki endalaust fram með því að gefa mönnum í nefið.  Ofbeldi vörubílstjóra gegn samborgurum sínum hefur verið látið viðgangast of lengi, það hlaut að koma að því að lögreglan gerði það sem henni er ætlað, héldi uppi lögum.

Árás á lögreglu með grjótkasti eru síðan staðreynd, en hana er ekki hægt að skrifa á vörubílstjóra. 

En hitt er þó ljóst að það þarf ekki neinum að koma á óvart að skrilslæti dragi að sér skríl.


Aftur af málfrelsi

Vildi vekja athygli á umfjöllun Kastljóss á "stóra Skúlamálinu".  Umfjöllunin er ágæt, hófstillt og fræðandi.

Sérstaklega finnst mér punktar lögfræðingsins fínir, þó að hann, eins og lögmönnum er tamt, tali óljóst og forðist að setja fram neinar staðhæfingar.

En einni spurningu finnst mér ennþá ósvarað, telur blog.is sig bera ábyrgð á því sem við skrifum hér á síður okkar, undir nafni og eftir að hafa gefið þeim upp kennitölu og aðrar upplýsingar?

Ég hefði haft gaman af því að sjá lögmenn spurða að þeirri spurningu.  Er blog.is "ábyrgðarmaður" allra blogga sem hér eru?


Útflutnings... ég meina útrásarverðlaunin veitt

Er ég einn um það að gera greinarmun á því að kaupa og reka fyrirtæki á hér og þar um heiminn og að reka útflutningsfyrirtæki á Íslandi?

Ef til vill er ég að misskilja verðlaunin, en ég stóð í þeirri meiningu að fyrirtæki þyrftu að flytja út eitthvað annað en fé og fólk til að hljóta þau.

En þó ég þekki ekki til reksturs Baugs, hélt ég að þeirra rekstur á Íslandi byggði að stórum hluta á því að flytja inn vörur (og dótturfyrirtæki þeirra væru á meðal stærstu innflutningsfyrirtækja landsins) en hef minna heyrt af útflutningi þeirra á Íslenskum vörum.


mbl.is Baugur Group hlýtur Útflutningsverðlaun forseta Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af málfrelsi

Nú er mikið rætt um málfrelsi, eitthvað sem öllum þykir sjálfsagt (eða velflestum skulum við segja) en menn deilir nokkuð á um hvar mörkin liggja.

Ég velti því til dæmis í ljósi þess sem mikið hefur verið rætt um nýverið, þegar lokað var fyrir blogg, hér á blog.is, hvort að blog.is telji sig á einhvern hátt bera ábyrgð á því sem ég skrifa hér, það þó að ég geri það hér undir nafni og hafi gefið upp kennitölu mína ásamt fleiri upplýsingum þegar ég hóf að skrifa hér fyrir 2. árum. 

Sjálfur lít ég ekki svo á, enda ef einhver kann að túlka það sem ég skrifa hér ósæmandi, þá hlyti sá hinn sami að eiga sökótt við mig, og þá væntanlega biðja yfirvöld eða dómstóla að skerast í málið, ef hann teldi mig sneiða að æru sinni, eða á annan hátt brjóta lög. 

En hitt er líka ljóst af minni hálfu að ég er hér vegna velvildar blog.is, ég greiði þeim ekkert fyrir þau afnot sem ég hef hér að vefsvæði og vefumsjónarkerfi.  Þeim ber engin skylda til að hafa mig hér, ekki frekar en forsvarsmenn svæðisins kæra sig um.

Þess vegna er það ekki brot á málfrelsi eins né neins að honum sé úthýst af blogsvæði. Ekki frekar en það er brot á málfrelsi að einstaklingur fái ekki að skrifa í dagblað, eða koma fram í fréttatíma sjónvarpsstöðvar.  Allir eiga rétt á því að ritstýra sínum fjölmiðlum.

En jafn sjálfsagt og mér þykir að eigendur og umsjónarmenn ritstýri fjölmiðlum, þá hef ég alltaf verið þeirrar skoðunar að málfrelsi sé heilagur hlutur og raunar sé of langt gengið nú þegar til að banna skoðanir og að einstaklingar tjái þær.

Yfirleitt hitta þessar skoðanir engan fyrir nema þann sem tjáir þær.  Gera frekar lítið úr honum en þeim eða því,  sem hann er að tjá sig um. 

Þeir sem tjá sig undir nafnleysi eru að nokkru önnur "kategoría".  Þó er löng hefð fyrir nafnleysi í Íslenskum fjölmiðlum, en þar ábyrgist blaðið skrifin.  En nafnleysingjarnir á blog.is, eru að ég held allir hér á kennitölu.  Blog.is krefst kennitölu þegar blog er stofnað.  Vissulega er sá möguleiki fyrir hendi að gefin sé upp röng kennitala. 

Þannig eiga  þeir sem misboðið er, þann möguleika að fara í meiðyrðamál, nú eða krefjast þess að þeir verði kallaðir fyrir vegna "hate speach" eða laga um guðlast.  Þá hljóta yfirvöld að krefjast kennitölu hjá blog.is.  Hana ætti síðan í flestum tilfellum að hægt að spyrða saman við ip tölu.

En ég tel þó að mörgum hætti til að taka aðra of alvarlega.

Ef ég segi til dæmis alhæfi að allir kjósendur Frjálslynda flokksins séu slorug fífl,  þeir sem kosið hafi Samfylkinguna séu veruleikafirrtir vælukjóar, allir Framsóknarmenn haugsæknar dreifbýlistúttur, kjósendur Sjálfstæðislfokks fýlugjarnir peningapúkar, VG séu vitskertir græningjar og klikki svo út með því að halda því fram að menn þurfi að vera argandi vitleysingar til að halda með Val, þá vita að ég held allir að ég fer með rangt mál (sem ég viðurkenni fúslega). 

Alhæfingar sem þessar eru ótrúlega algengar um hina ýmsu hópa.

En myndi einhver fara í stefna mér fyrir það sem stendur hér að ofan?  Ég held ekki, ég vona ekki.

En hvað er merkilegra við það að vera í trúfélagi heldur en stjórnmálaflokki eða íþróttafélagi?

Yfirleitt gerir bann við skoðunum eða tjáningu, ekkert nema að upphefja orð og skoðanir þess sem bönnaðar eru.  Getur jafnvel gert menn "fræga", stundum að endemum.

Persónulega held ég að mönnum hætti til að gera úlfalda úr mýflugu og upphefja þannig þann sem brúkar "stóru" orðin. 

Heimurinn er ekki "PC", það er lífið ekki heldur.

Lífi mál og tjáningarfrelsið.


Vextir, vaxtaverkir og Seðlabankinn

Mér hefur þótt nokkuð merkilegt að fylgjast með umræðunni um Seðlabankann á Íslandi, nú undanfarnar vikur.  Það er auðvitað eðlilegt að skiptar skoðanir séu um aðgerðir seðlabanka og er það víðast hvar sem seðlabankar eru reknir.

En ef marka má umræðuna eins og stór hluti hennar er á Íslandi, er Seðlabankinn á Íslandi bara einn maður, Davíð Oddsson.  Hann ákveður vextina, og líklega leikur stór vafi á því hvort að hann komi yfirleitt í bankann til þess.  Aðrir starfsmenn sitja við gluggann, horfa yfir Hvolinn eða hafið og naga blýanta (eins og frægt er orðið) og bíða þess að mánaðarmótin komi með launatékkanum.

Það er reyndar nokkuð merkilegt að ekki skuli hafa verið mælt með þvi að þessum mönnum verði sagt upp, sem ekkert gera, ekkert leggja til málanna og hafa engin áhrif, alla vegna ef marka má þá sem hæst hrópa.

En auðvitað er staðreyndin sú, eins og margir hafa bent á, að í Seðlabankanum starfar fjöldinn allur af hagfræðingum.  Hávær köll eftir "fagfólki" eru því frekar innantóm.

Það er talað um að Seðlabankinn sé rúinn trausti og reka þurfi stjórn og ráð.  Fá "fagmenn" til verksins.  En "fagmennirnir" virðast alls ekki allir vera ósáttir við stjórn Seðlabankans, alla vegna ekki ef marka má þau orð sem ég hef séð höfð eftir Lárusi Welding, bankastjóra Glitnis.  En þau mun hann hafa látið falla í viðtali i Morgunblaðinu, sem ég hef ekki séð.  Mér hefur þótt gagnrýnin hörðust frá fræðimönnum frekar en "fagmönnum".

En Lárus sagði víst meðal annars í viðtalinu:

Ég er í raun og veru ánægður með hvernig Seðlabankinn hefur unnið sig í gegnum þetta umhverfi. Honum er þröngt sniðinn stakkur. Ég held að Seðlabankinn sé mjög meðvitaður um það sem þarf að gera og best er að tjá sig ekki mikið um það. Þar vinna menn af festu og ákveðni og þurfa frið til þess.

En auðvitað gefst best í efnhagsmálum að sýna festu, þol og þrautseigju.  Vissulega hefur gefið hraustlega á núna undanfarnar vikur í Íslensku efnahagslífi.  Sem betur fer virðist þó ölgan heldur vera að hjaðna, í það minnsta hefur vaxtatryggingarálagið lækkað verulega og útlitið nokkuð betra.

En vissulega er sjálfsagt að gagnrýna, þó að stóryrtar innistæðulítil stóryrði hitti yfirliett þá sem þau fram mæla sjálfa fyrir.

En sú hugmynd sem fram hefur komið að Seðlabankinn "kryddi" stjórn sína með erlendum "spekingum" finnst mér allra athygli verð og vel þess virði að skoða.

En það sem skiptir mestu máli að mínu mati, eru ríkisfjármálin.  Það er langt síðan að það var löngu tímabært að spyrna við fótum og stöðva útgjaldaaukningu ríkisins.  Líklega má segja að það hafi aldrei verið nauðsynlegra að skila afgangi af ríkissjóði en á góðu árunum sem hafa verið að líða.

Það má segja að það sé auðvelt að vera vitur eftir á, en sú nauðsyn að skera niður ríkisútgjöld er þó orðin flestum nokkuð ljós.  En líklega næst aldrei samkomulag um það sem skera á niður.

 

Þá steig fram hinn þriðji

Schumacher The ThirdÞað er þetta með eplið og eikina (þó að epli vaxi auðvitað ekki á eikartrjám) og þarf líklega engan að undra þó að eitthvað "bensín" sé í blóði sonar Michaels Schumacher.

Ágætis árangur hjá drengnum og með sama áframhaldi sjáum við hann undir stýri á Ferrari eftir u.þ.b. 15 ár eða svo.

En hér er mynd af drengnum úr kappakstrinum.  Sami einbeitti svipurinn, sama mynstur á hjálminum, og sami "aðstoðarmaðurinn" og faðir hans hafði í æsku (þ.e.a.s. afi hans). 

Verðum við ekki að segja að þetta sé þrautreynd formúla.

 


mbl.is Schumi III á Alonsokörtu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er skynsamlegt að borga/fá borgað í euro?

Mikið hefur verið fjallað um aðild að "Sambandinu" og nauðsyn þess að taka upp euro á Íslandi.  Fréttir berast af því að að einstaklingar séu byrjaðir að semja um að fá laun sín greidd í euro og "skynsamt" fólk jafnvel farið að greiða barnapíunum sínum í þeirri mynt.

Alla vegna fékk ég sendan hlekk á þessa frétt á vef DV.  Þar segir m.a.:

„Það merkilega við þetta allt saman er að ekkert okkar var einu sinni að grínast, heldur þótti okkur öllum þetta vera eðlileg og skynsamleg ráðstöfun,“ heldur hún áfram. hún á reyndar ekki von á því að greiðslur í evrum verði heimilinu erfiðar ef að krónan lækkar frekar. Barnapíur þessa lands séu flestar hófsamar í kröfum sínum og svo sé einnig um þeirra barnapíu, sem sé bæði nágranni og heimilisvinur. „Við þurftum þess vegna ekkert að gera neina fundargerð eða tilkynna þetta til Fjármálaeftirlitsins.“

En hversu skynsamleg er þessi ákvörðun?  Ef barnapían hefur skuldbundingar í euro, eða hyggst leggja fyrir með því augnamiði að heimsækja eitthvert land eða lönd á eurosvæðinu, er þetta auðvitað hið besta mál.  Séu fyrirsjáanleg útgjöld hennar í euro er þetta góð trygging.

Ætli hún hins vegar að nota laun sín á Íslandi getur brugðið til beggja vona.  Það verður að vona að barnapían hafi verið frædd um þann möguleika að laun hennar gætu lækkað í krónum talið, t.d. ef þessi spá gengur eftir.

En svo þarf líka að líta á óhagræðið sem hefst af því að höndla með gjaldmiðil, sem er ekki gjaldmiðill landsins, ef á að eyða upphæðinni innanlands.  Það gæti því verið skynsamlegra að "binda" launin við euro, þó að hættan á gengislækkun sé ennþá fyrir hendi, þá er engin aukakostnaður.

Tökum dæmi.  Barnapían fær 10 euro á tímann og hefur unnið 5 tíma, fær greitt 50 euro.  Hjónin fara í bankann og kaupa 50 euro.  Á seðlagengi dagsins kostar það 6.115 Íslenskar krónur.  Barnapían fer svo í bankann með 50 euro og skiptir þeim í Íslenskar krónur til að skreppa í kvikmyndahús og annað smálegt.

Bankinn greiðir henni eftir seðlagenginu, 5.810 Íslenskar krónur, 305 krónum lægri upphæð.

Skynsamlegt?


Tveir fasteignasalar

Sá þegar að ég horfði á fréttir á netinu að Talsmaður neytenda (eða öllu heldur sá sem hið opinbera réð í stöðu sem það kallar talsmaður neytenda) og bloggvinur minn, Gísli Tryggvason,  var að kalla eftir því að tveir fasteignasalar kæmu að sölu hverrar fasteignar.  Það er, einn fasteignasali sem þjónaði hagsmunum seljanda og annar fasteignasali sem sinnti hagsmunum kaupenda.

Sjálfur hef ég nokkra reynslu af þessu fyrirkomulagi, meira að segja í tveimur löndum, Íslandi og Kanada og ákvað því að setja niður nokkur orð um þetta.

Þegar ég keypti mér íbúð á Íslandi árið 1998, fékk ég í lið með mér fasteignasala sem sá um að hafa augun opin fyrir eignum sem hentaði mér, og stóð með mér í kaupunum.  Þetta fyrirkomulag reyndist mér vel, en ég veit ekki hvort að hann fékk einhvern hluta af sölulaunum fasteignasala seljandans, en ég veit þó að það er velþekkt fyrirkomulag.

Hér í Kanada skoðaðum við hús í gríð og erg í marga mánuði, án fasteignasala til að gera okkur grein fyrir markaðnum, en fengum svo fasteignasala í lið með okkur þegar það kom meiri alvara í málið.  Þetta virkaði ágætlega og ég hygg að flestir hér hafi fasteignasala á sínum snærum, það sparar einfaldlega svo mikla fyrirhöfn, en það ber að hafa í huga að hér ganga lögfræðingar (seljandi og kaupandi með sitthvorn lögfræðingin) endanlega frá málum og yfirfara alla samning, yfirfara öll veðbönd og þar fram eftir götunum.

Hér skipta fasteignasalarnir söluþóknuninni á milli sín, en það ber að hafa í huga að algeng söluþóknunarprósenta er 5-6%.

En ég er þó þeirrar skoðunar að það sé óþarfi að setja um þetta lög eða reglugerðir.  Það er hins vegar gott að koma þessu máli í umræðuna og benda fólki á þennan möguleika.  Ég held að hver og einn geti svo ákveðið hvort að þeir vilji hafa fasteignasala með sér eður ei.

Það þarf líka að gera kaupendum grein fyrir því að eftir sem áður er ábyrgðin á eigin málum og fasteignakaupum þeirra. 

Það þarf að hafa í huga að hagsmunir beggja fasteignasala fara í raun saman.  Báðir hafa hag af því að væntanlegir kaupendur bjóði sem hæst í eignina, því ef t.d. umbjóðendur "mínir" eiga ekki hæsta tilboðið í eign, þá fæ ég ekki greitt og þarf að halda áfram að vinna fyrir þá og finna nýjar eignir fyrir þá að skoða og gera tilboð í.

Líklega mætti einnig segja að enginn fasteignasali myndi telja sig hafa hagsmuni af því að byrja lækkunarferli á markaðnum.

Það er líka þarft að hafa í huga að meira að segja hér í stórborginni, þar sem fasteignasalar sérhæfa sig gjarna í ákveðnum hverfum, myndast hálfgerður "klúbbur" fasteignasala.  Allir þekkja alla, sömu fasteignasalarnir hittast dag eftir dag á "opnum húsum".  Allir eru með bæði kaupendur go seljendur á sínum snærum og má velta fyrir sér hvort að áhuginn sé mikill fyrir því að "rugga bátnum".

Ég held því að skref eins og að segja að það eigi tveir fasteignasalar að koma að hverri sölu sé ekki til bóta.  Lög og reglugerðir eru óþarfar.

Hitt er svo sjálfsagt að fræða almenning um þennan möguleika og að það geti verið gott að hafa þennan háttinn á.  En umfram allt á að láta almenningi eftir að velja hvernig hann vill standa að sínum málum.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband