Vextir, vaxtaverkir og Seðlabankinn

Mér hefur þótt nokkuð merkilegt að fylgjast með umræðunni um Seðlabankann á Íslandi, nú undanfarnar vikur.  Það er auðvitað eðlilegt að skiptar skoðanir séu um aðgerðir seðlabanka og er það víðast hvar sem seðlabankar eru reknir.

En ef marka má umræðuna eins og stór hluti hennar er á Íslandi, er Seðlabankinn á Íslandi bara einn maður, Davíð Oddsson.  Hann ákveður vextina, og líklega leikur stór vafi á því hvort að hann komi yfirleitt í bankann til þess.  Aðrir starfsmenn sitja við gluggann, horfa yfir Hvolinn eða hafið og naga blýanta (eins og frægt er orðið) og bíða þess að mánaðarmótin komi með launatékkanum.

Það er reyndar nokkuð merkilegt að ekki skuli hafa verið mælt með þvi að þessum mönnum verði sagt upp, sem ekkert gera, ekkert leggja til málanna og hafa engin áhrif, alla vegna ef marka má þá sem hæst hrópa.

En auðvitað er staðreyndin sú, eins og margir hafa bent á, að í Seðlabankanum starfar fjöldinn allur af hagfræðingum.  Hávær köll eftir "fagfólki" eru því frekar innantóm.

Það er talað um að Seðlabankinn sé rúinn trausti og reka þurfi stjórn og ráð.  Fá "fagmenn" til verksins.  En "fagmennirnir" virðast alls ekki allir vera ósáttir við stjórn Seðlabankans, alla vegna ekki ef marka má þau orð sem ég hef séð höfð eftir Lárusi Welding, bankastjóra Glitnis.  En þau mun hann hafa látið falla í viðtali i Morgunblaðinu, sem ég hef ekki séð.  Mér hefur þótt gagnrýnin hörðust frá fræðimönnum frekar en "fagmönnum".

En Lárus sagði víst meðal annars í viðtalinu:

Ég er í raun og veru ánægður með hvernig Seðlabankinn hefur unnið sig í gegnum þetta umhverfi. Honum er þröngt sniðinn stakkur. Ég held að Seðlabankinn sé mjög meðvitaður um það sem þarf að gera og best er að tjá sig ekki mikið um það. Þar vinna menn af festu og ákveðni og þurfa frið til þess.

En auðvitað gefst best í efnhagsmálum að sýna festu, þol og þrautseigju.  Vissulega hefur gefið hraustlega á núna undanfarnar vikur í Íslensku efnahagslífi.  Sem betur fer virðist þó ölgan heldur vera að hjaðna, í það minnsta hefur vaxtatryggingarálagið lækkað verulega og útlitið nokkuð betra.

En vissulega er sjálfsagt að gagnrýna, þó að stóryrtar innistæðulítil stóryrði hitti yfirliett þá sem þau fram mæla sjálfa fyrir.

En sú hugmynd sem fram hefur komið að Seðlabankinn "kryddi" stjórn sína með erlendum "spekingum" finnst mér allra athygli verð og vel þess virði að skoða.

En það sem skiptir mestu máli að mínu mati, eru ríkisfjármálin.  Það er langt síðan að það var löngu tímabært að spyrna við fótum og stöðva útgjaldaaukningu ríkisins.  Líklega má segja að það hafi aldrei verið nauðsynlegra að skila afgangi af ríkissjóði en á góðu árunum sem hafa verið að líða.

Það má segja að það sé auðvelt að vera vitur eftir á, en sú nauðsyn að skera niður ríkisútgjöld er þó orðin flestum nokkuð ljós.  En líklega næst aldrei samkomulag um það sem skera á niður.

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband