Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2007

Tóm tjara?

Mér þykir þessi frétt nokkuð skondin.  En þetta er ef til vill dæmi um að eitthvað er að breytast.  Ég hef í einfeldni minni staðið í þeirri meiningu að orðið malbik væri dregið af þeirri staðreynd að þar væri á ferð blanda af MALarefnum og svo BIKi, öðru nafni tjöru.

En nútíminn þarfnast oft nýrra vinnubragða og "nýrra" efna. 

Nú er vá fyrir dyrum þar sem "malbiksefni" er að verða uppurið.

Er það ekki tóm tjara?


mbl.is Malbikunarefni að verða uppurið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

VSOP meðferð

Eins og ég minntist á í síðustu færslu hefur heilsan verið með hraklegra móti síðustu daga.  Reyndar ekki bara hjá mér, heldur hefur Foringinn átt frekar erfitt líka. Heimasætan fékk líka nefrennsli en ekkert alvarlegt þar á ferð.

Þetta þýddi hins vegar að ég var útlægur gerður úr hjónasænginni, sendur niður í kjallara að sofa, enda þótti tvennt unnið með því.  Í fyrsta lagi var ég leystur frá þeirri ógæfu að lenda hugsanlega í því að smita frúnna eða heimasætuna sem oft er að finna þar stutt undan og ekki þótti verra að þó fylgdi Foringinn mér í neðra, enda vildi hann gjarna lúlla hjá pabba á þessum erfiðu dögum, þegar hitinn og hálsbólgan kvöldu snáðann.

Undanfarin kvöld hef ég hins vegar brúkað rándýra VSOP meðferð við hálseymslunum og er ekki frá því að hún sé farin að virka, alla vegna er mér léttara um andardrátt og geðið talsvert kátara en verið hefur.

Það er því óhætt að mæla með meðferðinni.

Þó kastar það nokkrum efa á meðferðina að Foringinn er líka allur að braggast, þó að hann hafi ekki notið hennar, en þó treysti ég mér ekki til að hallmæla meðferðinni, enda andlega upplyftingin heldur ekki neitt sem gera má lítið úr.

En það er vonandi að þessum leiðindum fari að ljúka, enda ómögulegt að vera með hálsbólgu og hita í steikjandi sól þegar kvikasilfrið leggur af stað á fjórða tuginn, en lengi skal mannin reyna.

 

 


Hollt og heilsubætandi

Það var hollt og heilsubætandi, svona í morgunsárið, að horfa á Kimi vinna sætan sigur í Breska kappakstrinum.  Ekki veitti heldur af, því heilsan hefur verið með daprasta móti undanfarna daga, hiti, beinverkir, bólginn háls og hor lekandi úr nefi.  Foringinn hefur þjáðst af sama kvilla og heimasætan fékk nefrennsli.  Aðrir hafa sloppið.

En aftur að kappakstrinum.  Ég hafði þetta sterkt á tilfinningunni, rétt eins og ég sagði í pistli hér í gær, enda held ég að Ferrari sé að "rísa" aftur.  Það hefur líklega hjálpað að vindgöngin í Maranello eru komin í gagnið aftur eftir að hafa verið óstarfhæf um nokkurt skeið.

Svo er það auðvitað umhugsunarvert, að þegar Ferrari hefur tekist að stoppa upplýsingaflæðið frá liðinu vinnast 2. sigrar.  En vissulega gæti verið um tilviljun að ræða.

En kappaksturinn í dag var skemmtilegur á að horfa, Kimi ók vel, sömuleiðis Alonso, Hamilton átti ágætis dag þrátt fyrir mistök, enda líklega enginn nýliði sem væri óánægður með að vera í þriðja sæti og á verðlaunapalli 9. mótið í röð.

En Massa sýndi líka framúrskarandi akstur, stórkostlegt að enda í 5. sæti eftir að hafa þurft að ræsa frá bílskúrsaðreininni.

En vonandi tákna Enski og Franski kappaksturinn að Ferrari eru komnir á beinu brautina og við náum að sýna Mclaren í tvo heimana það sem eftir lifir Formúluársins.


mbl.is Räikkönen hafði betur í taktískri rimmu við Alonso
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Landið græna

Þetta er nokkuð merkileg uppgötvun, þó að langt sé um liðið að menn hafi gert sér grein fyrir því að hitastig á jörðinni hefur sveiflast verulega til þegar til lengri tíma er litið.  En virðist þó koma í ljós að enn heitara hefur verið á Grænlandi en til þessa hefur verið talið.

En þetta sýnir ef til vill fyrst og fremst hve lítið er vitað um hvernig hitastig á jörðinni hefur þróast og hvað hefur valdið öllum þessum hitabreytingum.

Með þessu vil ég alls ekki gera lítið úr allri umræðunni um "gróðurhúsalofttegundir", en er þó þeirrar skoðunar að áhrif þeirra séu langt í frá sönnuð og líklega ofmetin.  Hitt er þó líka ljóst að full þörf er að draga úr loftmengun, enda slíkt andrúmsloft lítt eftirsóknarvert.

 

 


mbl.is Skógar og fiðrildi voru á Grænlandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Með lífið í lúkunum

Ég hef ekki gert mér grein fyrir því í hve mikilli hættu ég er daglega.  Hve rafmagnstæki sem ég hef á heimilinu eru hættuleg og framleidd samkvæmt lökum stöðlum.

Líklega er ég með lífið í lúkunum (í allt að því bókstaflegri merkingu) þegar ég handfjalla þessi tæki.  Það hlýtur sömuleiðis að hafa verið þrúgandi fyrir hermennina og fjölskyldur þeirra að vera í þessu umhverfi, vitandi að slysin biðu eftir því að gerast.

Hitt er svo augljóst mál að af þessu er mikið óhagræði fyrir þá sem koma til með að búa í þessum íbúðum.  Rafmagnstæki sem menn eiga fyrir er líklega ekki hægt að nota (þó eru sífellt fleiri tæki sem nota straumbreyti, með "universal" straumbreyti.) og ef menn fara að kaupa raftæki sem passa þarna, þá verður erfitt að nota þau þegar flutt er burt.

En það verður að sjálfsögðu að kynna væntanlegum íbúum þetta fyrirkomulag, og það vel og vendilega, því vissulega er hætta til staðar ef notuð eru röng raftæki.

En ég tek auðvitað að mér að kaupa rafmagnstæki og senda heim, gegn vægri þóknun.


mbl.is Spilað með öryggi 350 ungra fjölskyldna segir formaður Rafiðnarsambandsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að hafa það

Ég helt að við værum ekki að hafa það, svo hélt ég að við værum að hafa það, en svo kom í ljós að við vorum ekki að hafa það.

Það er ótrúlegt að fylgjast með Hamilton, það er ekki hægt að sjá að þar sé nýliði í ferð. 

En Kimi virðist hafa snúið aftur.  Ef til vill hefur hann dregið úr vodkaskammtinum? 

En það verður án efa spennandi keppni á morgun, ég hef mikla trú á því að Raikkonen nái að standa uppi sem sigurvegari, hef það eitthvað svo sterkt á tilfinningunni.

En það verður fróðlegt að sjá hvernig keppnisáætlanir verða hjá toppmönnunum.

Það er ljóst að allir verða að vinna.  Alonso verður að sýna að hann sé ekki ökumaður númer 2. hjá liðinu, Massa og Raikkonen sömuleiðis ef þeir ætla að vera með í baráttunni.

Það má því teljas næsta víst að það verður ekkert gefið eftir, enda spennan mikil þessa dagana.


mbl.is Ótrúlegur lokahringur hjá Lewis Hamilton
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Slæmt

Landið er fagurt og frítt, loftið og vatnið svo tært, Íslenskir karlmenn líklega hinir hraustustu í heimi, Íslenskt kvenfólk orðlagt fyrir fegurð, fáir snúast Íslenskum kaupsýslumönnum snúning, hvergi er betra lambakjöt eða ferskari fiskur.

En þegar Íslensk greind vekur athygli er það auðvitað gervi.


mbl.is Íslenskur hugbúnaður sigrar í gervigreindarkeppni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Efnaðir Íslendingar

Það telst ekki til tíðinda lengur að Íslendinga sé að finna á listum yfir hina og þessa ríkustu menn heims.

En Kanadískum kunningja mínum fannst þó nokkuð mikið til koma að finna mætti 2(eða 3) Íslendinga á topp 60 yfir ríkustu menn Bretlands.

Hann fylgist örlítið með Íslensku viðskiptalífi (hefur þó að ég held ekki þorað að reyna að fjárfesta á Íslandi enn) og kannast við nokkur nöfn.  Hann sendi mér þessa tengla á "Thor Bjorgolfsson (23)" og þá "Bakkavararbræður (53) ".

En það er líklega rétt hjá honum, það hefði fáum órað fyrir þessu fyrir áratug eða svo, en þetta sýnir kraftinn sem kemur úr Íslensku viðskiptalífi

 


Gestkvæmt að Bjórá

Nú er "mini" fjölskyldumót hafið að Bjórá, en systur mínar tvær komu nú seinnipartinn frá Noregi, þannig að nú er líf og fjör.  Foringinn tók þeim fálega á flugvellinum en kættist heldur þegar heim var komið og honum færður bíll að gjöf.  Fljótlega ætti hann í þeim hvert bein.

Jóhanna tók þeim heldur fálegar, heimasætan reyndar ekki upp á sitt besta í dag, kom heim með dulítið nefrennsli frá Manitoba.

Það var heldur ekki hægt að segja að Toronto setti upp neinn sparisvip fyrir þær, hér féll hitinn niður í 18 stig og rakinn þvílíkur að það var sem að ganga í vatni.

En það horfir til betri vegar og spáð er hlýnandi (eftir örfáa daga fer ég að kvarta yfir því hve heitt er) og á að fara vel yfir 20 á morgun (fimmtudag) og svo yfir 30 um helgina.

 


Bylting Frakklandi?

Ég verð að viðurkenna að ég varð ákaflega glaður þegar ég heyrði að Kimi hefði unnið í Frakklandi og ekki var verra að Massa skyldi verða í 2. sæti.  Það var komin tími til að Ferrari sýndi sitt rétta andlit.

En það er eitt sem kvelur huga minn og það þó nokkuð.  Þetta er fyrsta keppnin sem ég hef ekki horft á í langan tíma.  Tíminn er eitthvað svo assgoti seinn á sléttunni (ég var í Winnipeg) að það var því sem næst niðdimm nótt þegar keppnin hófst, ég á hótelherbergi og ómegðin sofandi ásamt konunni.  Og ég ekki einu sinni almennilega vaknaður heldur.

En spurningin er auðvitað hvort að það hafi verið það sem þurfti, að ég missti af keppni?  Ef að allt fer á sömu assgotans McLaren leiðina þegar ég horfi á næstu keppni, þýðir það þá að ég verði að sleppa því að fylgjast með til að Ferrari vinni sigra?

En þetta var vissulega kærkominn sigur og akkúrat það sem liðið og við áhangendurnir þurftum á að halda, núna þarf að endurtaka leikinn á Silverstone eftir viku og þá erum við "back in the game".

Það verður líka fróðlegt að fylgjast með þessu máli hvað varðar meintan þjófnað á gögnum frá Ferrari sem virðast hafa endað hjá McLaren.  Líklega eru ekki öll kurl komin af dekkjunum þar.


mbl.is Räikkönen vann taktíska keppni við Massa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband