Bloggfærslur mánaðarins, desember 2007
4.12.2007 | 22:32
Að sakna kerfisins
Eitt af þeim lífsgæðum sem ég sakna frá Íslandi er þótt ótrúlegt megi virðast "kerfið". Þetta gamla góða "kerfi" sem ég bölvaði þó á stundum á meðan ég bjó á Íslandi.
En horft til baka er Íslenska "kerfið" ekkert annað en stórkostlegt, sérstaklega þegar ég ber það saman við "systkyni" þess hér í Kanada.
Gott dæmi er það sem snýr að börnum og skráningu þeirra, en ég var einmitt að reka lokahnykkinn á þá skráningu hér í Kanada í morgun. Þetta hefst auðvitað allt á sjúkrahúsinu. Þá þurfa foreldrar að fylla út skýrslur, nefna barnið (en því er hægt að breyta innan 6. mánaða), hverjir eru foreldrarnir, hvar eru þeir fæddir, hvar er barnið fætt, hvað er það þungt og þar fram eftir götunum, hvað systkyni eru mörg, og hvernig foreldrar vilja að barnið fái kenninafn, svo nokkur dæmi séu nefnd.
Einhver myndi álykta að þetta væri nóg. Þetta myndi síðan malla í kerfinu og þessi skráning síðan notuð af hinum ýmsu stofnunum til þess að bjóða nýjan íbúa velkomin. En því er ekki að heilsa. Næst liggur fyrir að sækja um fæðingarvottorð. Bið eftir því er nú u.þ.b. 4. mánuðir, en telst þó snöggtum skárra en þegar Foringinn kom í heminnn, þá var biðin vel á annað ár, og við þurftum að fá sérstaka flýtimeðferð (með tilheyrandi aukakostnaði, bréfi frá konsúlatinu og tilheyrandi) þegar við þurftum að fá vegabréf fyrir stubbinn þegar hann var 8 mánaða, en slíkt er ekki mögulegt án fæðingarvottorðs.
Síðan þarf að fá "Tryggingakort" og þarf auðvitað að sækja um það sérstaklega, en það er kort sem tryggir það að börnin fái heilbrigðisþjónustu án þess að við þurfum að borga sérstaklega fyrir hana (rétt er þó að taka fram að fyrstu dagana er þeim leyft að dvelja á sjúkrahúsinu á "korti" móður sinnar.
Síðan ef á að opna "menntasparnað" fyrir blessuð börnin þá þurfa þau SIN númer (Social Insurance Number), eða það sem jafngildir kennitölu á Íslandi. Einhver myndi nú halda að það myndi nú til dæmis vera úthlutað með fæðingarvottorðinu, en svo er ekki. Það þarf að heimsækja sérstaka ríkisstofnun til að sækja um SINnið og fylla út sérstök eyðublöð og nota bene, sýna blessað fæðingarvottorðið.
Þetta gerist á sömu skrifstofu og sér um úthlutun atvinnuleysisbóta og ýmsa aðra félagslega þjónusta, þannig að oft er biðröðin nokkuð löng. Síðan þurfti ég að sitja og svara spurningum eins og "what is your mother maiden name", svona til þess að bjúrókratarnir gætu nú verið vissir um að þetta væri ég. (þessum spuringum svaraði ég auðvitað skriflega þegar ég sjálfur sótti um SINnið).
Hvað varðar hinsvegar blessaða þjóðskránna á Íslandi, þá tók þetta eitt símtal og einn tölvupóst. Fæðingarvottorð skannað inn og sent í viðhengi. Þjónustan lipur og góð.
Bæði börnin mín voru komin með kennitölu á Íslandi áður þau fengu SIN og fyrirhöfnin var miklu minni.
Sömu sögu er af því þegar ég hef þurft á fæðingar eða t.d. giftingarvottorði að halda. Þjónustan til fyrirmyndar, fyrirhöfnin lítil og kostnaðurinn á Íslandi miklu minni.
4.12.2007 | 22:08
List, glæpur eða hrein og bein vitleysa
Eins og eðlilegt má teljast hefur umræðan ekki síst snúist um hvað sé list, hvað sé glæpur og hvað sé hreinlega vitleysa. Sjálfur hef ég fengið á mig nokkur skot, sem Íslendingur, og einn kunningi minn spurði mig hvort að ""islömsk list" sé í miklum metum á Íslandi"?
Persónulega hef ég ekki séð neinn í fjölmiðlum réttlæta verknaðinn sem list, nema lögfræðing gerandans og þá sem eru titlaðir vinir hans. Hér má sjá umfjöllun CityNews og "exclusive" viðtal stöðvarinnar við gerandann hér.
Sjálfur er ég svoddan "ókúltiveraður barbari" að ég reikna með því að ef ég sæi eitthvað sem líktist sprengju í neðanjarðarlestinni, nú eða á flugvellinum hérna, eða hreinlega í verslunarmiðstöð, þá myndi ég reikna með því að væri um sprengju að ræða. Mér dytti ekki fyrst í hug að þar væri á ferð sniðugur listamaður sem væri að reyna að fá mig til að velta fyrir mér "stöðu þjóðfélagsins", eða "stöðu mína í í samfélaginu".
Ég myndi því án efa reyna að forða mér í burtu og kalla til lögregluna. Persónulega myndi ég ekki heldur ráðleggja lögreglunni að ef miði væri festur við hlutinn sem segði "þetta er ekki sprengja", að hún einfaldlega hefði sig á brott, og léti húsvörðinn um að fjarlægja hlutinn.
Hér að neðan er smá samtíningur af fréttum er varða þetta mál.
Umfjöllun Globe and Mail má sjá hér, og fréttir National Post hér og hér.
Toronto Star fjallar að sjálfsögðu um málið eins og sjá má hér og Toronto Sun, einnig hér.
The Torantoist, er með umfjöllun hér og skoðanakönnun, um hvort gjörðin sé list eður ei, þegar ég leit þar inn höfðu þó ekki margir tekið þátt.
4.12.2007 | 22:05
Íslendingabók á Háaloftinu
Í þættinum í kvöld var fjallað um á meðal annara hluta, Íslendingbók og gríðarlegan áhuga Íslendinga á ættfræði. Vissulega var umfjöllunin hröð og ekki mjög djúp, en það mátti samt hafa gaman af þessu.
Í þættinum var spallað við væntanleg brúðhjón, Jónas og Lindu, rætt var við Véstein Ólason um Landnámu, Eiríkur Guðmundsson sýndi og ræddi um manntalið frá 1703 og loks var rætt við Friðrik Skúlason um Íslendingabók og ættfræðiáhuga hans.
Allt þetta fólk kom alveg prýðilega fyrir og útskýrði málin svo þekkilegt var.
Þetta er reyndar í fyrsta sinn sem ég sé einhvern af þessum þáttum, enda horfði ég eingöngu vegna þess að fjallað var um Ísland. Ekki er það svo heldur að ég fylgist svona vel með sjónvarpsdagsskránni, heldur er forsagan sú að snemma á árinu hafði einn af þeim sem sinnir rannsóknarvinnu fyrir þáttinn, Chris Robinson, samband við mig til að forvitnast um Íslendingabók. Hann heimsótti mig svo og sýndi ég honum í hvernig vefsíðan virkar og sagði honum frá því sem ég vissi um sögu hennar.
Þessi færsla er endurbirt hér vegna þess að hún féll einhverra hluta út, líklega vegna minna eigin mistaka.
Sjónvarp | Breytt s.d. kl. 22:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Torkennilegur pakki eða taska finnst á Konunglega listasafni Ontario, eftir að hringt var í safnið og sagt að það væri ekki sprengja í andyrinu.
Eins og við var að búast var lögreglan kvödd til, sprengjusveitin ræst út, safnið tæmt, góðgerðardansleik frestað, götunni lokað og þar fram eftir götunum. Þetta gerðist allt í gærkveldi og Bloor street (sem líklega má líkja við Laugaveginn) var lokað í 4. tíma.
Í dag kom svo í ljós að þetta er "hápunktur" í "listrænu lokaverkefni" sem Íslenskur "listamaður" vinnur að í Listaháskóla hér í Toronto. Ef marka má fréttir hafð hann borið "gjörninginn" undir lögfræðing stúdentafélagsins, og það hafði það í för með sér að hann merkti sprengjueftirliíkinguna "Þetta er ekki sprengja".
Skólayfirvöldum var þó ekki skemmt, og hefur nemandanum verið vikið úr skólanum, fyrir brot á siðareglum skólans.
Undarlegu myndbandi sem titlað er "Fake footage of the fake bombing at the ROM, Toronto", var svo póstað á vef Youtube.´
Í dag gaf listastúdentinn sig svo fram við lögreglu, en áður gaf hann sér þó tíma til að koma fram í fjölmiðlum. Viðtal við hann má sjá hér.
Fréttir Kanadískra fjölmiðla má sjá hér, hér, hér og hér.
Það hefur oft vakið undrun mína hvað menn telja sig geta gert í nafni listarinnar, en ég held sjaldan eða aldrei eins og núna.
Þessi færsla er endurbirt hér vegna þess að hún féll einhverra hluta út, líklega vegna minna eigin mistaka. Því miður eru því athugasemdirnar við hana því týndar.