Að sakna kerfisins

Eitt af þeim lífsgæðum sem ég sakna frá Íslandi er þótt ótrúlegt megi virðast "kerfið".  Þetta gamla góða "kerfi" sem ég bölvaði þó á stundum á meðan ég bjó á Íslandi.

En horft til baka er Íslenska "kerfið" ekkert annað en stórkostlegt, sérstaklega þegar ég ber það saman við "systkyni" þess hér í Kanada.

Gott dæmi er það sem snýr að börnum og skráningu þeirra, en ég var einmitt að reka lokahnykkinn á þá skráningu hér í Kanada í morgun.  Þetta hefst auðvitað allt á sjúkrahúsinu.  Þá þurfa foreldrar að fylla út skýrslur, nefna barnið (en því er hægt að breyta innan 6. mánaða), hverjir eru foreldrarnir, hvar eru þeir fæddir, hvar er barnið fætt, hvað er það þungt og þar fram eftir götunum,  hvað systkyni eru mörg, og hvernig foreldrar vilja að barnið fái kenninafn, svo nokkur dæmi séu nefnd.

Einhver myndi álykta að þetta væri nóg.  Þetta myndi síðan malla í kerfinu og þessi skráning síðan notuð af hinum ýmsu stofnunum til þess að bjóða nýjan íbúa velkomin.  En því er ekki að heilsa.  Næst liggur fyrir að sækja um fæðingarvottorð.  Bið eftir því er nú u.þ.b. 4. mánuðir, en telst þó snöggtum skárra en þegar Foringinn kom í heminnn, þá var biðin vel á annað ár, og við þurftum að fá sérstaka flýtimeðferð (með tilheyrandi aukakostnaði, bréfi frá konsúlatinu og tilheyrandi) þegar við þurftum að fá vegabréf fyrir stubbinn þegar hann var 8 mánaða, en slíkt er ekki mögulegt án fæðingarvottorðs.

Síðan þarf að fá "Tryggingakort" og þarf auðvitað að sækja um það sérstaklega, en það er kort sem tryggir það að börnin fái heilbrigðisþjónustu án þess að við þurfum að borga sérstaklega fyrir hana (rétt er þó að taka fram að fyrstu dagana er þeim leyft að dvelja á sjúkrahúsinu á "korti" móður sinnar.

Síðan ef á að opna "menntasparnað" fyrir blessuð börnin þá þurfa þau SIN númer (Social Insurance Number), eða það sem jafngildir kennitölu á Íslandi.  Einhver myndi nú halda að það myndi nú til dæmis vera úthlutað með fæðingarvottorðinu, en svo er ekki.  Það þarf að heimsækja sérstaka ríkisstofnun til að sækja um SINnið og fylla út sérstök eyðublöð og nota bene, sýna blessað fæðingarvottorðið.

Þetta gerist á sömu skrifstofu og sér um úthlutun atvinnuleysisbóta og ýmsa aðra félagslega þjónusta, þannig að oft er biðröðin nokkuð löng.  Síðan þurfti ég að sitja og svara spurningum eins og "what is your mother maiden name", svona til þess að bjúrókratarnir gætu nú verið vissir um að þetta væri ég.  (þessum spuringum svaraði ég auðvitað skriflega þegar ég sjálfur sótti um SINnið).

Hvað varðar hinsvegar blessaða þjóðskránna á Íslandi, þá tók þetta eitt símtal og einn tölvupóst.  Fæðingarvottorð skannað inn og sent í viðhengi.  Þjónustan lipur og góð.

Bæði börnin mín voru komin með kennitölu á Íslandi áður þau fengu SIN og fyrirhöfnin var miklu minni.

Sömu sögu er af því þegar ég hef þurft á fæðingar eða t.d. giftingarvottorði að halda.  Þjónustan til fyrirmyndar, fyrirhöfnin lítil og kostnaðurinn á Íslandi miklu minni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband