Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2006
20.8.2006 | 02:29
Þetta er allt saman eitt stórt samsæri!!
Það hefur oft vakið athygli mína hve áfjáðir margir virðast að telja sannleikann alla jafna hulinn, það sem fram komi í fréttum sé ekki sannleikurinn og um margskonar samsæri og sé að ræða og "leikrit" sett á svið til að villa um fyrir almenningi.
Nýjasta dæmið um þetta er auðvitað fullyrðingar um að handtökur á meintum hryðjuverkamönnum í Bretlandi og Pakistan sé aðeins blekkingarleikur, partur af stærra samsæri til að beina athyglinni frá þeim vandamálum sem umlykja þá félaga Bush og Blair, og jafnframt réttlæta áfram haldandi hernað gegn múslimum og svo til að skerða lýðréttindi almennings.
Þetta er líklega nýjasta samsæriskenningin í langri röð. Þar er líklega fyrst að telja 9/11, en ekki eru síður til margar samsæriskenningar um t.d. morðið á Kennedy, andlát Diönu, AIDS (hef séð kenningar um að veiran hafi ýmist verið smíðuð af Bandaríkjamönnum eða Sovétríkjunum heitnum), að "fyrsta" tunglferðin hafi aldrei verið farin, morðið á Lincoln, svo er það líka bílvélin sem gengur fyrir vatni og bílaframleiðendur hafa "grafið" í gleymskunni, og ennfremur er vert að minnast á geimverurnar sem bandaríski flugherinn geymir í skýlum sínum.
Þetta er auðvitað langt í frá tæmandi listi, og ekki má heldur gleyma öllum þeim samtökum sem stefna á heimsyfirráð, eða svo gott sem stjórna heiminum nú þegar. Þar má nefna "gyðinga", frímúrara, Bilderberg og svo Illuminati sem hafa fengið "uppreisn æru" með bókum Dan Brown.
En um samsæriskenningar má lesa t.d. á Wikipedia.org Síðan má finna aragrúan allan af vefsíðum, annaðhvort tileinkaðar einni ákveðinni samsæriskenningu, nú eða mörgum. Samsæriskenningar hafa enda öðlast líf sem aldrei fyrr eftir tilkomu internetsins.
En hvað skyldi það nú vera sem gefur öllum þessum samsæriskenningum líf og fær fólk til að trúa á þær? Þegar stórt er spurt verður oft lítið um svör.
Líklega er það þó oft vegna þess að sannleikurinn passar ekki inn í það sem fólk vill trúa. Einfaldur sannleikurinn styður ekki heimsmynd þess. Stundum kann sannleikurinn að hljóma ótrúlegar en samsæriskenningar. Ef til vill er fólk stundum líka áfjáð í að sjá eitthvað sem aðrir ekki sjá, vera gleggri en "illa upplýstur pöpullinn", láta ekki "blekkjast" af áróðri stjórnvalda og annara "illra afla". Aðrir hafa illan bifur á stjórnvöldum og sumir virðast trúa því að ekkert illt hendi án þess að stjórn Bandaríkjanna (eða CIA) standi á bakvið það.
Ef allar þessar kenningar eru sannar er líklega staðan sú að u.þ.b. helmingur hinn vestræna heims er í fullri vinnu við að viðhalda "leiktjöldum" fyrir hinn helmingin. Alla vegna þarf drjúgan starfskraft og fé til að viðhalda "blekkingunni" sem margir vilja meina að sé í gangi. Það er líka ljóst að enginn "hlekkur" í þeirri keðju má bresta, þá kemur "sannleikurinn" fram.
En hvað sem veldur er það ljóst að samsæriskenningar eru ekki að hverfa. Líklega eru þær sterkari nú um stundir en nokkru sinni fyrr. Líklega má þakka það internetinu.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 03:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.8.2006 | 20:19
Skilaréttur til fyrirmyndar
Það verður að segjast eins og er að mér þykir margt skemmtilegra en að versla. Helst er að það kitli aðeins að kaupa einhver ný tæki og "gadgets", en að öllu jöfnu þykir mér ekki eftirsóknarvert að þvælast í verslunum, allra síst þar sem afgreiðslufólk er sífellt að bjóða fram aðstoð sína, spyrja hvernig mér líði (how are you today?) og þar fram eftir götunum.
Eitt verð ég þó að minnast á sem gerir það heldur betra en ella að versla hér í Kanada, en það er hvað kaupmenn eru liðlegir við að taka vörur sínar til baka, og það jafnvel þó að þær hafi verið notaðar örlítið. Þetta er atriði sem íslenskir starfsbræður þeirra mættu athuga.
Ég keypti mér til dæmis rakaeyði fyrir u.þ.b. 10 dögum síðan. Það var þessi hér. Hann keypti ég í Rona. Hann virkaði ágætlega, en þó var hann fullmikið í gangi að mínu mati, varla slökkti á sér. Síðan rakst ég á þennan hér í Costco, bæði afkastmeiri og í þokkbót örlítið ódýrari.
Ég pakkaði þeim "gamla" saman, í upprunalega kassann, og skundaði í í Rona, sagðist hafa keypt þennan rakaeyði fyrir u.þ.b. 10 dögum, en ég þyrfti afkastameir og vildi skila þessum. Sýndi kvittunina og ekkert mál, rétti yfir kreditkortið mitt (sem ég hafði borgað með) og þeir bakfærðu gripinn. Keyrði yfir í Costco og keypti hinn, sem nú malar eins og köttur hér í kjallaranum.
Sömu sögu er að segja af reykskynjurum sem ég keypti í Home Depot. Fyrir mistök þá keypti ég reykskynjara sem þurfti að beintengja í rafmagn, og það sem verra var, ég klippti plastið af öðrum þeirra. Síðan fór ég að skila, tók þann sem var í ónýtu umbúðunum með og spurði hvort að þeir myndu taka hann til baka, t.d. fyrir hálfvirði? Táningsstrákurinn sem var að vinna þarna spurði hvort að allir hlutirnir væru með og þegar ég gaf jákvætt svar við því, svaraði hann ekkert mál og endurgreiddi mér fullt verð.
Það sem meira er, ef að viðskiptavinurinn framvísar kvittun, er alltaf greitt til baka "í sama". Ef þú hefur greitt með korti er bakfærrt, ef þú hefur greitt með peningum færðu peninga til baka. Ef þú hins vegar hefur ekki kvittun, þá gefa þeir þér kreditnótu sem gildir aðeins í viðkomandi verslun.
En þetta fyrirkomulag kann ég vel að meta, og það sem meira er, ég held að það skili sér í viðskiptavild, ég er t.d. óhræddari við að kaupa hlutina, þar sem ég veit að ég get skilað þeim.
19.8.2006 | 15:08
Ný framvarðarsveit
Þá er það orðið ljóst hvernig ný forysta Framsóknarflokksins eru skipuð.
Jón Sigurðsson er formaður, Guðni Ágústsson er varaformaður og Sæunn Stefánsdóttir er ritari. Það er rétt að óska þeim öllum til hamingju með kosninguna.
Ekki var spá sú sem ég setti fram hér fyrir nokkru, nema 33.3% rétt. Ég spáði réttilega að Jón yrði formaður, en gaf þeim Jónínu og Birki Jóni hin embættin. Það er því ljóst að sú spá er ekki til að stæra sig af.
Ég er þó ekki frá því að það hefði verið gæfuríkara fyrir framsóknarmenn að fara eftir minni spá. Jónína hefði sómt sér betur sem varaformaður en Guðni. Á hitt ber þó að líta að kosning Guðna tryggir líklega meiri frið innan flokksins og gamla bændaafturhaldið (sem ég tel Guðna til) fær "bein að naga" og getur sæmilega unað við sitt.
Þetta verður því líklega að teljast ósigur fyrir hinn almenna neytanda, ólíklegt verður að teljast annað en að Guðni telji sig hafa fengið umboð til að berjast með "kjafti og klóm" gegn nútímavæðingu verslunar með landbúnaðarafurðir. En Halldór gaf ádrátt um slíkt í kveðjuræðu sinni, en það verður fróðlegt að fylgjast með hvaða stefnu Framsóknarflokkurinn tekur í þessu máli.
Það var lítið annað hægt í stöðunni fyrir alþingismennina Kristin og Birki Jón, en að draga sig í hlé, þeir enda líklega talið að það liti afleitlega út fyrir flokkinn ef forystusveitin hefði verið skipuð 3. karlmönnum. Það hlýtur líka að teljast gott fyrir Jón að fá eindreginn stuðningsmann sinn í framvarðarsveitina.
Ég efa ekki að við eigum eftir að sjá vinstri væng stjórnmálanna tala um að konum hafi verið hafnað og þar fram eftir götunum. Bæði Siv og Jónínu hafi verið hafnað af Framsóknarfólki og og tveir karlar valdir. Persónulega gef ég ekkert fyrir svona málflutning. Ég lít svo á að Jón og Guðni, ásamt Sæunni auðvitað hafi verið valin. Hér sem allsstaðar annarsstaðar stendur valið á milli einstaklinga, kjörið er ekki á milli kynja. Hefði Siv eða Jónína unnið kjörið, hefði líklega engin staðið upp og sagt að þær hefðu verið kjörnar af því að þær eru konur, það er jafn órökrétt að halda því fram að þeim hafi verið hafnað vegna þess.
Sjálfur er ég ekki sammála vali framsóknarfólks (en ég er ekki framsóknarmaður og hef því einungis umsagnarrétt um málið) en það gildir sem áður, kjósendur hafa alltaf rétt fyrir sér. Í þessu tilfelli þeir sem höfðu atkvæðisrétt á flokksþingi Framsóknarflokksins.
Guðni Ágústsson endurkjörinn varaformaður Framsóknarflokksins | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.8.2006 | 21:57
Bláber - Júgóslavar ei meir - Ný heimasíða ISG - Icarus
Fór með foringjanum og tendamömmu til bláberja í dag. Skyldum mæðgurnar eftir heima að Bjórá. Ef til vill ekki besti dagurinn til þessa arna, alltof heitt, en við skelltum okkur samt. Reyndar er þetta ekki alveg sama stemmningin og á Íslandi. Hér förum við á bóndabæ, og borgum svo kílóverð fyrir það sem við tínum. Þetta eru svo "high bush" ber, sem eru að mínu mati ekki alveg sambærileg við þessi bláber sem við þekkjum að heiman.
Hitastigið var eitthvað ríflega 30°C, þannig að jafnvel berjatínsla kallaði fram dágóðan svita. En við tíndum samt eitthvað um 4. kíló af bláberjum. Það var því nauðsynlegt að stansa á heimleiðinni og kaupa rjóma og smá jógúrt sem ég er í þessum töluðum orðum að reyna að breyta í eitthvað sem líkist skyri í ísskápnum.
Við stönsuðum svo í króatískri kjötbúð á leiðinni heim, ég keypti pylsur, smá þurkað/saltað svinakjöt og pítubrauð. Ekki svo sem í frásögur færandi nema það að konan hringir í mig á meðan ég er vafra þarna inni. Ég segi henni að við séum á leiðinni heim, ég sé bara að versla í júgóslavnesku búðinni. Afgreiðslukonan starði á mig á sagði með þungri áherslu: Króatísku búðinni.
Síðan lauk ég samtalinu við konuna. Þá sagði ég við konuna, að ég hefði hreinlega ekki vitað betur og bæðist afsökunar á fáfræði minni. Þá bættist í hópinn karlmaður sem var klæddur í slátrarsvuntu og sagði að það væri minni móðgun að vera kallaður serbi en júgóslavi. Ég ítrekaði afsökunarbeiðni mína, sagðist nú vera saklaus sveitadrengur ofan af Íslandi og ég vissi hreinlega ekki betur.
Það lifnaði yfir þeim þegar ég minntist á Ísland. Lofuðu bæði Ísland fyrir að hafa verið fyrsta landið til að viðurkenna sjálfstæði Króatíu og sögðu að fáfræði mín væri ekkert til að æsa sig yfir og þeim hefði alltaf langað til að heimsækja Ísland.
Sögðu mér þó að það færi alltaf í skapið á þeim að vera kölluð júgóslavar og þeim gengi illa að koma kanadabúum í skilning um að það væri munur á. Ég sagði að þau hefðu gert rétt í að koma mér í skilning um þennan misskilning og það væri fyrsta skrefið. Ef þau leiðréttu ekki fólk, breyttist aldrei neitt. Við skildum sem bestu vinir.
Fékk senda í pósti slóðina á nýja heimasíðu ISG - Íslenskra Skatt Greiðenda. Veit ekki hverjir standa að síðunni, en þetta er ágætis framtak. Fékk mig alla vegna til að brosa út í annað.
Var latur í gærkveldi og glápti á sjónvarpið. "Sögu rásin" varð fyrir valinu sem oft áður. Datt þar inn á heimildarmynd um langanir þýskra nazista til að ráðast gegn Bandríkjunum í seinni heimstyrjöldinni. Þeir höfðu víst sterka löngum - vel umfram getu - til að ráðast á New York með sprengjuregni og drepa og limlesta sem flesta þar til að sá hræðslu í hinn almenna borgara.
Var farið yfir hin margvíslegustu plön, Messerschmitt 264 fékk auðvitað mikla umfjöllun, sem og skemmdarverkaáætlanir og þeir þýsku hryðuverkamenn sem voru gripnir.
Hitt vakti þó mesta athygli mína, þegar fjallað var um áætlanir þjóðverja til að hernema Ísland og fá þannig aðstöðu til að senda sprengjuflugvélar vestur um haf. Þó ég hafi áður heyrst minnst á áhuga nazista til að hernema Ísland, man ég ekki eftir því áður að hafa heyrt "codenamið" fyrir þessa áætlun, en henni gaf þýski herinn nafnið "Icarus".
Ég var eitthvað að reyna að "googla" þetta í dag, með afskaplega litlum árangri. Þannig að ef einhver getur bent mér á eitthvað lesefni um "Icarus" væri það afskaplega vel þegið, sérstaklega ef það væri nú aðgengilegt á netinu.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 23:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.8.2006 | 21:32
Nú hlýtur það að fara að hafast....
... að innflutningur á landbúnaðarafurðum fari að aukast til Íslands, og að vörugjöldum, tollum og kvótum verði breytt til hins betra.
Þegar formaður Framsóknarflokksins (Halldór er formaður þangað til á morgun) heldur ræðu á flokksþingi Framsóknarflokksins og kemur inn á þessi mál, geta ekki verið margara hindranir eftir.
Þetta er enda hið þarfasta og besta mál, eitthvað sem þarf að drífa í sem allra fyrst.
Auðvitað er það "ódýrt" fyrir fráfarandi formann að koma inn á þetta, og ekki þarf hann að taka tillit til Guðna lengur, en það væri óskandi að Framsóknarflokkurinn yrði áfram um þetta málefni.
Þetta er líka gott verkefni fyrir ríkisstjórnina, betra seint en aldrei. Það mætti til dæmis stefna á að fella niður vörugjöld um næstu áramót. En maður á mínum aldri trúir þó ekki á það fyrr en hann sér það gerast.
Halldór Ásgrímsson: Fella þarf niður vörugjöld og breyta innflutningsvernd landbúnaðarvöru | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
15.8.2006 | 22:12
Fórnarlömb fórnarlambanna
Á vef spiegel má oft finna athygliverðar greinar. Að þessu sinni langar mig að vekja athygli á grein sem fjallar um sýningu tileinkaða þeim þjóðverjum sem voru gerðir brottrækir af heimilum sínum í eftirmála síðustu heimstyrjaldar, þegar landamæri voru dregin að nýju.
Þessi sýning hefur vakið blendin viðbrögð, og segja margir að hún sé tilraun til að gera þjóðverja að fórnarlömbum, sem sé ekki rétt, þeir hafi verið árásaraðilinn.
En þetta er þó varla svona einfalt, eða hvað? Má ekki að sumu leiti segja að þjóðverjar hafi verið fórnarlömb nazismans, fengið jafn illa meðferð af þeirra hendi og margir aðrir? Að sama skapi voru íbúar Sovétríkjanna fórnarlömb kommúnismans og það sama má segja um kínverja og t.d. íbúa Kampútseu.
Hinu verður þó ekki á móti mælt að vissulega voru það fleiri þjóðverjar en þeir sem voru nazistar sem bera ábyrgð á hörmungunum, en samverkamenn þeirra mátti líka finna á meðal flestra þeirra þjóða sem þeir hernumdu. Þess vegna má segja að það er aldrei neitt eins einfalt og það sýnist.
En skoðum nokkur sýnishorn úr greininni:
"But the exhibition -- called "Forced Paths: Flight and Expulsion in 20th Century Europe" -- also has a large section on the post-World War II expulsion of some 12 to 14 million Germans from Poland and other Eastern European countries. In other words, say critics, the exhibition seeks to portray Germans as victims of World War II and to rewrite history. Plus, they point out, there's already an exhibition dedicated to the German expellees across the street in the German History Museum."
"The ongoing debate is not primarily about the historical facts. When the Soviets under Stalin agreed with the Western Allies to move the Polish border west to the Oder and Neisse rivers, millions of Germans who had long lived in areas now belonging to Poland were forced to leave. As many as 2 million died on the trek westwards and those who arrived in Germany had to live for years in temporary shelters and even in former concentration camps due to post-war housing shortages."
"And the exhibition itself -- which will run through October 29 -- is rather modest. The fate of the German expellees is presented along with that of eight other groups that were victims of forced resettlement in 20th century Europe. The result is a lot of text, a few items on display -- the centerpiece being the bell from the ship Wilhelm Gustloff which sank in January 1945 killing 9,343 Germans fleeing Poland -- and not a lot of clarity. If anything, it seems as though Steinbach's group is trying to keep the issue alive without stepping on any toes."
"But Eastern European fears are not so easily quelled. The Polish papers on Thursday ramped up their anti-German rhetoric to mark the exhibition's opening. "The biggest difference (between Germany and Poland) in their approach to history," writes the weekly Wprost, "is that in Poland and in other countries, one thinks primarily about those things the Germans would rather forget.""
Nú verður það að teljast líklegt að á meðal þeirra sem þurftu að yfirgefa heimili sín hafi verið bæði dyggir stuðningsmenn nazista og svo þeir sem hefur verið lítið um þá gefið. Um þá síðari má því ef til vill segja að þeir hafi verið fórnarlömb fórnarlambanna.
En sagan geymir margt óréttlætið og það er oft erfitt að finna lausnir sem að hentar öllum og allir halda sínu. Málamiðlanir og samningar fela það því miður oft í sér að ekki eingöngu gefi allir eitthvað eftir, heldur verður hlutur þeirra sem ekki sitja við borðið frekar rýr.
15.8.2006 | 18:40
Það er sitthvað Jón eða ayatollah Jón, líka á internetinu.
Nokkuð hefur verið fjallað um blog Íransforseta í fjölmiðlum nú nýverið. En hann er langt í frá eini bloggarinn í Íran. Þó má líklega reikna með að hann njóti meira frelsis við blogskrif sín en margir aðrir íranir.
Það má því snúa út úr gömlu íslensku máltæki og segja, það er sitthvað Jón, eða ayatollah Jón. En þetta er langt í frá einsdæmi í veröldinni. Víða reyna alræðisstjórnir að hefta aðgang þegna sinna að upplýsingum, enda byggir vald þeirra oftar en ekki, að hluta til á fáfræði almennings.
Hvað þekktustu dæmin eru líklega Kína og Kúba, en mörg fleiri mætti nefna.
Hér tengi ég á fréttir úr Globe and mail, fyrst þá sem segir frá bloggi Íransforseta, og svo þá sem segir frá raunum og hlutskipti almennra borgara.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.8.2006 | 01:21
"Hæglát sumarpólítík" annar hluti
Fyrir einhverjum vikum bloggaði ég með sama titli og hleypti út vangaveltum um hverjir yrðu á framboðslistum í næstu alþingiskosningum og hvort einhverjir myndu hætta.
Ég fékk nokkur viðbrögð við þessum vangaveltum og fékk í síðustu viku tölvupóst frá tveimur aðilum sem bættu nokkuð við þessar vangaveltur.
Annar vildi meina að það væri nokkuð ljóst að varaformaður Samfylkingarinnar hyggðist ekki fara fram í Reykjavík, enda ætti þangað lítið erindi, heldur hyggði á framboð í "kraganum". Þar væri tómarúm sem hann stefndi í. Það væri þó eftir að sjá hvað hafnfirðingar segðu um það.
Hann bætti um betur og sagði að sögur hermdu að litlir kærleikar væru á milli varaformannsins og formannsins, og myndi henni lítt leiðast þó að hann rataði í einhverjar framboðsraunir.
Í hinum tölvupóstinum var því haldið fram að Samfylkingin hefði mikinn áhuga á að fá rithöfundinn Andra Snæ Magnason ofarlega á lista. Þar færi frambjóðandi sem gæti hjálpað "hnípnum flokki í vanda". Hvort að sá áhugi væri gagnkvæmur var tölvubréfsritari síður viss.
Báðir tölvupóstarnir sögðu það altalað að borgarfulltrúarnir Stefán Jón Hafstein og Steinunn Valdís Óskarsdóttir gætu líka alveg hugsað sér að fara fram. Það er því líklegt að framboð fari nokkuð fram úr eftirspurn í reykjavíkurkjördæmunum.
Svona að lokum er auðvitað rétt að setja hér "disclaimer". Lesendur bið ég að hafa í huga að hér er ég einungis að hafa eftir "sögusagnir" og ber ekki að líta á þetta sem staðfestar fregnir. En auðvitað eiga svona vangaveltur rétt á sér, og geta verið til yndisauka.
15.8.2006 | 00:41
Er ennþá hægt að fá undir 3% vexti til húsnæðiskaupa í Evrópusambandinu?
Fyrir nokkru bloggaði ég hér, um grein sem alþingismaðurinn Björgvin Sigurðsson hafði ritað á heimasíðu sína og bar saman vexti til húsnæðiskaupa á Íslandi og í Evrópusambandinu.
Í dag fékk ég svo tölvupóst þar sem mér var bent á að Björgvin hefði skrifað nýja grein, þar sem sama dæmi er tekið. Þar er hann að fjalla um hve krónan sé íslendingum dýr og nefnir enn og aftur að vextir í ESB séu 3% og jafnvel lægri.
Sem fyrr nefnir Björgvin engin dæmi máli sínu til stuðnings, og mér hefur reynst ómögulegt að finna dæmi um vexti til húsnæðiskaupa sem eru 3% eða lægri.
Vextir hafa enda verið á uppleið í ESB, enda hagvöxtur allur að koma til eins og kemur fram í frétt mbl.is, sem hér er tengd við, og eftirspurn eftir vörum og fjármagni að aukast.
Því langar mig enn og aftur að biðja þá sem þetta kunna að lesa, að setja inn tengingar hér í athugasemdir, ef þeir hafa upplýsingar um vexti á þessum nótum.
Hagvöxtur ekki meiri í sex ár á evrusvæðinu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
14.8.2006 | 16:54
Ekki "sleggja", heldur "hamar"?
Það eykst spennan og stemningin fyrir flokksþing Framsóknarflokksins. Nú eru komnir fram 3. formannskandídatar, 2. vilja vera varaformenn og 3. vilja vera ritarar.
Fékk tölvupóst fyrir stundu frá góðum kunningja mínum. Honum fannst lítið leggjast fyrir Kristinn, að vera að fara í "slag" við einhverja "smástráka" eins og hann orðaði það í tölvupóstinum. Sagði að líkega yrði að "downgrada" viðurnefni Kristins. "Sleggja" væri ekki notuð í svona slag, þar þyrfti bara "hamar" og því rétt að það yrði viðurnefni Kristins í framtíðinni.
En vissulega er Kristni nokkur vorkunn, hann gat varla sóst eftir nokkru öðru embætti, þá hefði hann aðeins tekið atkvæði frá þeim Siv eða Guðna, og það er líklega það sem hann vill síst.
En þetta er auðvitað viss mæling á því hver raunverulegur styrkur Kristins er, nokkuð sem hefur ekki verið mælt, ja ekki nýlega, en menn tala gjarna fjálglega um. Það er því nokkuð ljóst að ef Kristinn hefur ekki "slaginn" er það nokkuð áfall fyrir hann og hans pólítísku framtíð.
Ég hef ekki fengið margar fréttir af undirbúningi í félögunum "heima í héraði", en þó mun víst víða hafa verið minni barátta um sæti, en menn áttu von á, sumpart líklega út af sumarfríum.
Það verður fróðlegt að sjá hver niðurstaðan verður, en mín persónulega spá (sem er þó í sjálfu sér ekki mikils virði, eða byggð á vísindalegum rannsóknum) er að Jón, Jónína og Birkir Jón, nái kosningu.
Mikið um jón í því.
Ég hef tekið eftir því að þeir sem tjá sig um málefni Framsóknar, af vinstri vængnum, virðast flestir vilja fá Siv/Guðna til forystu, Staksteinar Morgunblaðsins virðast svo eitthvað fara í taugarnar á Kristni Gunnarssyni , eins og lesa mátti í frétt mbl.is.
Persónulega finnst mér þetta óþarfa taugatitringur í Kristni, það er ekkert óeðlilegt að pólítískur dálkur eins og Staksteinar, láti í ljós skoðanir, ekkert við það að athuga.
En það verður spennandi að sjá hvaða stjórnendur framsóknarmenn velja sér, nú er bara að bíða.
Kristinn H. Gunnarsson býður sig fram í embætti ritara | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)