"Hæglát sumarpólítík" annar hluti

Fyrir einhverjum vikum bloggaði ég með sama titli og hleypti út vangaveltum um hverjir yrðu á framboðslistum í næstu alþingiskosningum og hvort einhverjir myndu hætta.

Ég fékk nokkur viðbrögð við þessum vangaveltum og fékk í síðustu viku tölvupóst frá tveimur aðilum sem bættu nokkuð við þessar vangaveltur. 

Annar vildi meina að það væri nokkuð ljóst að varaformaður Samfylkingarinnar hyggðist ekki fara fram í Reykjavík, enda ætti þangað lítið erindi, heldur hyggði á framboð í "kraganum".  Þar væri tómarúm sem hann stefndi í. Það væri þó eftir að sjá hvað hafnfirðingar segðu um það.

Hann bætti um betur og sagði að sögur hermdu að litlir kærleikar væru á milli varaformannsins og formannsins, og myndi henni lítt leiðast þó að hann rataði í einhverjar framboðsraunir.

Í hinum tölvupóstinum var því haldið fram að Samfylkingin hefði mikinn áhuga á að fá rithöfundinn Andra Snæ Magnason ofarlega á lista.  Þar færi frambjóðandi sem gæti hjálpað "hnípnum flokki í vanda".  Hvort að sá áhugi væri gagnkvæmur var tölvubréfsritari síður viss.

Báðir tölvupóstarnir sögðu það altalað að borgarfulltrúarnir Stefán Jón Hafstein og Steinunn Valdís Óskarsdóttir gætu líka alveg hugsað sér að fara fram.  Það er því líklegt að framboð fari nokkuð fram úr eftirspurn í reykjavíkurkjördæmunum.

Svona að lokum er auðvitað rétt að setja hér "disclaimer".  Lesendur bið ég að hafa í huga að hér er ég einungis að hafa eftir "sögusagnir" og ber ekki að líta á þetta sem staðfestar fregnir.  En auðvitað eiga svona vangaveltur rétt á sér, og geta verið til yndisauka.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband