Bloggfærslur mánaðarins, maí 2006

"Yfirtekur" Samfylking Frjálslynda flokkinn?

Það hafa margir vakið athygli mína á bloggi þar sem rætt er um að Samfylkingin og Frjálslyndi flokkurinn renni saman í eitt.

Persónulega er ég nú ekki mjög trúaður á að þetta gerist.  Ætli það hafi ekki verið fyrir síðustu alþingiskosningar sem ég heyrði fyrst að Margréti Sverrisdóttur hafi verið boðið gott sæti hjá Samfylkingunni.  En ég hef alltaf litið á það sem slúður.

 Vissulega er erfitt að halda litlum flokki gangandi.  En hafi slík sameining einhverntíma staðið til hlýtur vaxandi gengi Frjálslynda flokksins í nýafstöðnum sveitarstjórnarkosningum að hafa dregið úr þeim líkindum.

En vilja Frjálslyndir sameinast einhverjum?  Það er svolítið sérstakt að lesa það haft eftir Magnúsi Hafsteinssyni þingmanni þeirra, að nú sé sameining við Sjálfstæðisflokkinn úr sögunni, en segir jafnframt að það hafi aldrei verið rætt, nema þingmaður á þingmann og ekki með neinum formlegum hætti.  Það má þá líklega skilja það sem svo að sameiningin sem aldrei hefur staðið til sé nú úr sögunni.

Persónulega held ég að næstu kosningar séu úrslitastundin fyrir Frjálslynda flokkinn, oft hefur þriðja kjörtímabilið reynst smá og klofningsflokkum erfitt, ef þeir hafa þá komist það langt. 

Persónulega hef ég ekki trú á því að Sjálfstæðiflokkurinn hefði áhuga á því að fá þingmenn Frjálsyndra í framboð fyrir sig, þó að allir séu velkomnir í flokkinn.  Hvort að aðrir stjórnmálaflokkar hafa áhuga á því er erfitt að spá um, þó má líklega leiða getur að því að þeir ættu betur heima í öðrum flokkum, enda hafa þeir staðið þétt við hlið Samfylkingar í mörgum málum á kjörtímabilinu.  Það verður líklega líka seint sagt að mörg kærleiksorð hafi fallið til Sjálfstæðisflokks, t.d. frá fyrrnefndum Magnúsi, sem meðal annars er þekktur fyrir "Spitfire" áhuga sinn.

En miðað við hvað sá orðrómur um "yfirtöku" Samfylkingar á Frjálslyndum er sterkur, má merkilegt heita að enginn fjölmiðlamaður hafi leitað svars frá þeim um þetta efni, eða hefur það bara farið fram hjá mér?  Ef svo er eru allar ábendingar vel þegnar.


Nauðsyn erfðabreyttra matvæla

Undanfarin ár hefur oft verið rætt um erfðabreytt matvæli.  Umræðan hefur oft verið á þeim nótum að helst má skilja að um eitthvert "Frankenstein fyrirbrigði" sé að ræða, öllu mannkyni standi stór hætta af þessum tilraunum og helst þurfi að stöðva þetta eins og skot.

Ekkert er fjær sanni, að mínu mati.  Þó vissulega sé þörf á því að fylgjast vel með slíkum matvælum og ég sé fyllilega sammála því að neytendur eigi rétt á því að slík matvæli séu merkt, þannig að þeir viti hvað þeir eru að kaupa, eru erfðabreytt matvæli nauðsynleg og af hinu góðu.

Ekki aðeins að erfðabreytt matvæli auki uppskeruna, þau geta einning dregið úr þörf fyrir skordýraeitur og þurkþolin afbrigði geta gjörbreytt afkomumöguleikum margra.

Ég held að það sé því misskilningur að berjast á mótí erfðabreyttum matvælum, hitt er þó eins og ég áður sagði, sjálfsagt að fylgjast með þessari þróun og láta almenning vita hvað hann er að kaupa.

En erfðabreytingar hafa alltaf verið framkvæmdar, þo með öðrum og hægvirkari hætti, og er gulrófan líklega eitthvert besta dæmið um það, sem flestir hafa líklega séð og snætt.

 


mbl.is Nóbelsverðlaunahafi segir að tvöfalda verði matvælaframleiðslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kjósendur hafa alltaf rétt fyrir sér -seinna kjörtímabilið - Nýr meirihluti

Það er ekkert vitlausara en að segja að kjósendur hafi valið rangt.  Það er með kjósendurna eins og sagt er um viðskiptavinina, þeir hafa alltaf rétt fyrir sér.

Það er fátt vitlausara en að láta val kjósenda fara í skapið á sér, hvað þá að saka þá um að hafa ekki vit á hlutunum eða þaðan af verra.  Það borgar sig heldur ekki að kalla þá sem maður óskar að styðji sig, eða sinn flokk síðar, öllum illum nöfnun eða saka þá um greindarskort.

Það þýðir ekkert að láta dóm kjósenda fara í taugarnar á sér, hann er réttur og endanlegur.

Auðvitað voru margir ekki sáttir við niðurstöðu sinna manna þegar atkvæði höfðu verið talin, það er oftast raunin.

Björn Ingi og Framsóknarmenn geta þó verið ánægðir, þó að fylgið sé ekki mikið, er það meira en þeim var spáð og Framsóknarflokkurinn hefur ennþá fulltrúa í borgastjórn.  Nú þegar þeir eru komnir í meirhluta er enn meiri ástæða til að gleðjast.

Frjálslyndir geta sömuleiðis verið ánægðir með sinn atkvæðafjölda.  Þeir sækja á, sem er oft erfitt fyrir smáflokka, sem vilja týnast inn milli þeirra stærri.  Það hlýtur vissulega að vera þeim vonbrigði að komast ekki í meirihluta, en þannig er lífið.  Spurningin er líka hvað þeir voru tilbúnir að gefa eftir?  Vaxandi orðrómur um að Frjálslyndir séu í viðræðum við Samfylkinguna um "yfirtöku" hafa svo ekki hjálpað upp á.

Vinstri grænir ættu einnig að vera nokkuð kátir, þeir stimpluðu sig vel inn í höfuðborginni.  Áföll eins og það að fulltrúi þeirra flutti sig yfir til Samfylkingar virðist ekkert hafa skaðað þá og þeir fá 2. örugga fulltrúa.  Mín skoðun er sú að meirihluti þeirra og Sjálfstæðisflokks hefði verið æskilegur, en VG lét Samfylkinguna mála sig svo lítið út í horn í þeim efnum, og virtist því ekki sækja það fast.  Perónulega myndi ég telja að þetta þyrfti að ræða í VG á næstu árum, og reyna að komast yfir "Sjálfstæðisflokksfóbíuna".

Sjálfstæðisflokkurinn vann á, en það er samt ekki hægt að segja að um raunverulegan sigur hafi verið að ræða, til þess hefði þurft meirihluta.  ca 43% er ekki alveg ásættanlegur árangur.  En þeir komust í meirihluta og það var vissulega það sem stefnt var að.  Nú ríður á að vinna vel á kjörtímabilinu og þá er aldrei að vita hvað getur gerst.  Ég held að Vilhjálmur verði ágætis borgarstjóri en spurningin er, hvort þetta verði hans siðasta kjörtímabil, eða heldur hann áfram og endurnýjar sig sem borgarstjóri?

Samfylkingin er líklega sá flokkur sem síst er ánægður með niðurstöðuna.  Ekki nóg með það að þeir séu í minnihluta, heldur hlýtur fylgi þeirra að valda þeim stórum vonbrigðum.  Þeir ná ekki einu sinni að toppa það fylgi sem Alþýðubandalagið hlaut á sínum besta degi.  Samt var öllu tjaldað til.  Formaðurinn valdi forstumanninn, ýtti til hliðar þeim sem höfðu staðið í eldlínunni.  Talað var um forystu nýrra tíma og það var eins og Ingibjörg væri að reyna að skapa "erfðaprins".  Sú tilraun mistókst herfilega, Dagur kemur ákaflega illa út úr þessum kosningum, og ég yrði ekki hissa þó að þetta yrði hans seinna kjörtímabil í borgarstjórn. 

Svo ég reyni að hljóma gáfulega og tala í líkingum, þá má segja að líklega verður Dagur að kveldi kominn eftir þetta kjörtímabil. Ég hef enga trú á því að Samfylkingarmenn líti til hans sem framtíðarleiðtoga eftir þetta.Að lokum vil ég minnast á það að lýðræðið tapaði örlítið í þessum kosningum, kjörsókn var með eindæmum léleg. Margir hafa minnst á það að málefnaágreiningurinn hafi ekki verið mikill, en skoðankannanir að baráttan var afar hörð og jöfn, og hefði það átt að skila fólki á kjörstað. Svo er það meirihlutinn, mér lýst í sjálfu sér ekki illa á hann, hefði þó líklega frekar kosið Sjálfstæðisflokk/Vinstri grænir, sterkari meirihluti, með ágætis meirihluta kjósenda á bakvið sig. En það er sjaldnast á allt kosið og ég vil minna fólk á að það er rétt að bíða með sleggjudómana, leyfum nýjum meirihluta að komast af stað og dæmum hann af verkum hans. 

 


mbl.is Staðan í Reykjavík breyttist ekki þegar lokatölur birtust
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sekur eða saklaus, frábær eða fól?

Eða ef til vill sittlítið af hverju?

Maðurinn sem rætt er um er auðvitað Michael Schumacher.  Þau sem fylgjast með formúlunni skilja auðvitað hvað ég er að tala um.  "Stóra Schumacher málið", stöðvaði hann bílinn vísvitandi, eða ekki, í tímatökunni um síðustu helgi?

Ekki hef ég nein ákveðin svör við þessu.  Hef ekki aðgang að neinu nema minni mínu, en ég horfði á þetta í beinni útsendingu á laugardagsmorgunin.

En eitt veit ég, menn deila ekki við dómarana.  Auðvitað hafa þeir aðgang að öllum hugsanlegum gögnum, nokkuð sem er auðvitað erftitt að mæla gegn. Samt er ég ekki sannfærður um sekt "Skósmiðsins".    Ekki það að ég hafi neitt fram að færa sem styður sakleysi hans.  En ef þetta er vísvitandi gert, er það svo heimskulega gert, og til þessa hefur mér virst Michael vera eitthvað allt annað en heimskur.

Hvernig hefði maðurinn átt að ímynda sér að hann gæti komist upp með þetta?  Hann var "á pól", í versta falli hefði hann getað átt von á því að vera í 2. sæti í ræsingunni.  Og að hætta þessu með slíkum hætti, sem flestir hefðu vitað að gæti ekki fært honum neitt nema refsingu?

Þess vegna á ég örlítið erfitt með að trúa að þetta hafi verið viljverk.  Og ég læt minn mann njóta vafans, stend með honum nú, eins og ég hef gert í yfir 10 ár.

En hitt vil ég líka að komi fram, að ég styð að flestu leyti ákvörðun dómaranna.  Það er áríðandi að senda þau skilaboð að hart sé tekið á öllu, og það hefði getað sett slæmt fordæmi ef þetta hefði verið látið átölulaust.  Það ber á það að líta að stundum getur líka verið rétt að refsa fyrir klaufaskap, ef sá klaufaskapur kemur öðrum illa.

 Fyrst og fremst er ég þó þeirrar skoðunar að best sé að huga að öðru formi fyrir tímatökurnar, það form sem var t.d. í gangi fyrir ca. 5 árum, var alveg ágætt, svo er að minnsta kosti mín skoðun.


Loksins er kominn mánudagur.....

Helgin var erfið, ég hef enda ekki bloggað síðan á laugardaginn, slíkur hefur atgangurinn verið.  Partýstandið er farið að minna á námsmann (ekki illa meint í þeirra garð), frekar heldur en þann virðulega fjölskylduföður sem ég er.

Rólegt heimboð á föstudagskveldi, hóflega drukkið öl sem gladdi hjartað.  Nú síðan var annað heimboð á laugardagskvöldið, klassa grill, rif og rauðvín og svo einhver torkennilegur eistneskur líkjör sem ég man ekki nafnið á.  Við komum heim rétt fyrir miðnætti, ég þá orðinn hungraður í fréttir og settist niður fyrir framan tölvuna og drakk bjór, alllangt inn í morgunin. 

Reif mig svo á fætur fyrir allar aldir á sunnudeginum, horfði á "Múluna", sá að sá góði drengur Michael hafði verið færður aftur fyrir alla, lét það ekki á mig fá, og hafði nokkuð gaman af kappakstrinum.  Sofnaði aftur. 

Vakinn um 2. leytið til að fara í barnaafmæli.  Sem betur fer eru kanadísk barnaafmæli með bjór, víni og gini, sullupolli í garðinum og léttu snarli.  Kom heim um 8. leytið, slendi kjöthlunk á grillið, nennti ekki einu sinni að hugsa fyrir meðlæti, drakk gott sikileyskt rauðvín.  Fór svo að huga að því að koma foringjanum í svefn,   vaknaði svo aftur klukkan 7 í morgun.

Því er ég kominn langt á eftir með að tjá skoðanir mínar hérna.  A "Stóra Schumachermálinu", á kosningunum, hvort að Frjálslyndi flokkurinn sé að renna inn í Samfylkinguna, hvort að þetta sé ekki seinna tímabilið hans Dags í borgarstjórn, og svo þar fram eftir götunum. 

Fylgist með frá byrjun.


Ég hefði nú haldið.....

Að miðað við hvað á undan hefur gengið, og allar þær fréttir og myndir sem komið hafa á vefnum....

 

 

... að sagt væri frá því í fréttinni hvernig bíl hann hefði verið á og í hvernig stæði hann hefði lagt.


mbl.is Björn Ingi kemur á kjörstað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Stór" og annasöm helgi. Kostar þú framboðslista?

Þetta er annasöm helgi hjá mér.  Formúla og kosningar á sömu helgi, heimboð í gærkveldi, heimboð seinnipartinn í dag, svo förum við öll í barnaafmæli á morgun.

Horfði að tímatökurnar með foringjanum í morgun.  Sá "Skósmiðinn" "taka pól".  Vonandi leggur þetta línuna hjá "mínum mönnum" svona almennt um helgina.  En "Formúlan" verður vonandi spennandi í fyrramálið, þó að Monaco bjóði ekki upp á mikinn framúrakstur þarf svo sannarlega að hafa hugann við aksturinn þar. Ég man ennþá eftir kappakstrinum þar 1996, aðeins 6 bílar luku keppni í rosalegri rigningarkeppni, frakkinn Oliver Panis vann (hans fyrsti og gott ef ekki eini sigur á ferlinum) og frakkar voru kampakátir.  Parísarbúar feykikátir á barnum um kvöldið.

En að kosningunum, sá á mbl.is að kjörsókn sé dræm, í það minnsta hingað til.  Það er ekki nógu gott, auðvitað eiga allir að fara og kjósa, í það minnsta mæta á kjörstað og skila auðu, það er áhrifameira að láta vita af óánægju sinni á þann hátt, en að sitja heima.

Svo þarf ég að nöldra örlítið.  Ég hef séð það í vaxandi mæli á netinu, að íslendingar skrifa "KOSTningar" í stað "KOSninga". Ekki veit ég hverju þetta sætir, en vil þó benda á að orðið er dregið af því "að kjósa", en ekki því " að kosta".

Vissulega er ekki fráleitt að leiða hugann að því hvað þetta allt saman kostar, og hver kosti herlegheitin, en við skulum samt halda áfram að tala um að kjósa og kosningar, það er alla vegna mín skoðun.

Kostunin er reyndar í æ stærri mæli farin að flytjast yfir á kjósendur, eða skattgreiðendur sem eru jú að stærstum hluta sami hópurinn.  Stjórnmál á Íslandi eru rekin æ meir fyrir opinbert fé.  Stjórnmálamennirnir koma saman og ákveða það hið opinbera skuli gefa flokkunum. 

Engan stjórnmálamann hef ég heyrt tala um nauðsyn þess að draga úr þessu eða afnema.  Er það miður.

En það breytir því ekki að mig langar að biðja alla að tala um kosningar, en ekki kostningar.

Vonandi kjósa svo sem flestir D-lista, en það er önnur saga.


Allt opið, litlar breytingingar.

Þá er 5. og síðasta raðkönnun Gallup komin.  Ekki miklar breytingar frá því í gær, þó að % tölurnar flakki svo lítið til og niðurstöðurnar því örlítið "opnari" en áður.

Það munar minna á 8. manni Sjálfstæðisflokks og Framsóknarmanninum en í gær, en allt innan skekkjumarka þó.  En allt getur gerst.  En Sjálfstæðiflokkurinn vinnur á, sömleiðis Samfylkingin, aðrir tapa.  En allt innan skekkjumarka, engar stórar sveiflur.

Fréttablaðið var svo með aðrar niðurstöður í morgun, þar hafði Samfylkingin bætt í, Framsóknarmaðurinn úti og Sjálfstæðisflokkur með meirihluta í könnun NFS.  Það geta því allir fundið haldreypi í einhverjum könnunum.

En "stóra könnunin" er á morgun, það er því spennandi að sjá hvað gerist.

Persónulega tel ég að þetta velti allt á "nýtingunni" og þá vegur Framsóknarflokkurinn náttúrulega þyngst.  Ef hann nær ekki lengra en að fá næstum því mann, þá er afar líklegt að Sjálfstæðisflokkurinn nái meirihluta.

Að lokum fæ ég að láni smá texta af vef ruv.  www.ruv.is

"Athyglisverður munur er á fylgi flokkanna eftir hverfum í Reykjavík. Þannig nýtur Sjálfstæðisflokkurinn tæplega 57% fylgis í Grafarvogi en rétt rúmur þriðjungur kjósenda í 101 Reykjavík kýs Sjálfstæðisflokkinn. Þar kýs hins vegar fjórðungur kjósenda Vinstri græna en sá flokkur fær stuðning 5% kjósenda í Grafarvogi. Þriðjungur kjósenda í austurbænum kýs Samfylkinguna en umtalsvert færri í Árbænum, eða einn af hverjum fimm. Í Breiðholtinu ætla tæp 12% að kjósa Frjálslynda flokkinn en þann flokk kjósa aðeins tæp 3% íbúa í vesturbænum. Í vesturbænum nýtur Framsóknarflokkurinn innan við 2% fylgis en tæp 11% íbúa í Grafarholti ætlar að kjósa Framsókn."

Þetta er dálítið athyglisvert, svo ekki sé meira sagt.

Ég keypti öl og rauðvín í dag, nú er bara "snakkið" eftir og þá er ég klár.

 


mbl.is Allir flokkar fá borgarfulltrúa samkvæmt síðustu raðkönnun Gallup
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Endurtekið efni? Degi hafnað aftur?

Þessi frétt vakti vissulega athygli mína þegar ég "browsaði" mbl.is í morgun.

Ég hef ekki lesið greinina (og á ekki von á því að ég festi kaup á henni), en þessi frétt gefur sýnishorn af þeirri stöðu sem gæti hæglega komið upp eftir kosningar, t.d. ef úrslitin verða eins og nýjast könnun Gallup gefur til kynna.

Bæði Sjálfstæðisflokkur og Samfylking hafa sagt að þau gefi ekki eftir að fá borgarstjórarstólinn, en ég man þó ekki eftir að hafa heyrt það skýrt og skorinort, að það yrði að vera oddviti viðkomandi flokks sem yrði borgarstjóri, en auðvitað getur það hafa farið fram hjá mér.

Þetta sýnir hvað viðræður um meirihutaviðræður eiga eftir að verða erfiðar (ef Sjálfstæðisflokkur nær ekki meirihluta) og þeim mun erfiðari sem fleiri flokkar koma að þeim.

Því tel ég æ meiri líkur á því að Sjálfstæðisflokkur verði í meirihluta, hvort sem það verður einn eða með öðrum (ég hef áður sagt að það tel ég ráðast af skiptingu atkvæða), samanber fyrri skrif hér á síðunni.

En nú er "stóra könnunin" á morgun.

 


mbl.is Líklegast að sátt náist um Steinunni Valdísi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eiga VG eftir að starfa með Sjöllum, eða myndast nýr R-listi, ná Sjallar meirihluta?

Núna ætla ég aðeins að velta því fyrir mér hverjir eru líklegir til að mynda meirihluta í Reykjavík, að loknum komandi kosningum.

Ef kannanir þær sem nýjastar eru þegar þetta er skrifað eru réttar,og Sjálfstæðisflokkurinn fær meirihluta, þá þarf auðvitað ekki að spá né "spegúlera" frekar, en ef  hann fær 7. borgarfulltrúa (kannanir eru ekki eins í þessum efnum) þá upphefst "dansinn".

Hverjir yrðu saman í meirihluta?

Líklega færi það eitthvað eftir úrslitum.  Ef miðað er við að úrslit yrðu þau að Sjálfstæðisflokkur fengi 7, Samfylking 4. , Vinstri grænir 2. Framsóknarflokkur 1. og Frjálslyndir 1, þá myndu líklega margir segja að líklega yrði R-listinn endurreistur með Frjálslyndum til viðbótar, en er það líklegt?. Persónulega tel ég það ekki vera.  Meirihluti með 4. flokkum væri erfitt að berja saman og hann yrði í endalausri "gíslingu" ólíkra skoðana.

En hverjir myndu fara í meirihluta með Sjálfstæðisflokki?

Frjálslyndi flokkurinn?  Held ekki, en þó alls ekki útilokað.  Held þó að Sjallar væru ekki mjög ginkeyptir fyrir því að koma Ólafi í meirihluta og þannig að mörgu leyti festa hann í sessi.  Líklega myndi Ólafur líka vilja selja sig dýrt.

Framsóknarflokkur.  Kæmi sterklega til greina, en ég tel þetta þó ekki fyrsta kost.  Hvorugur flokkurinn hefði líkega of mikinn áhuga að hafa þetta sama samstarfsmunstur í borgarstjórninni og í landsmálunum, en þetta er þó ekki hægt að útiloka.

Samfylkingin.  Verulega ótrúlegt, enda má segja að þetta séu pólarnir tveir í kosningunum.  Þó gæti þetta komið til greina, ef meirihlutaviðræður dragast á langinn og engin önnur lausn er í sjónmáli.  En þó ólíklegt að Samfylking féllist á slíkt.  Ef þeir fara jafn illa út úr kosningunum og skoðanakannanir benda til, vilja þeir líklega horfa fram á veginn og hugsa um næstu alþingiskosningar og vera í minnihluta í borginni.

Vinstri grænir.  Að mörgu leyti líklegasti kosturinn.  Bæði það að meirhlutinn væri aðeins rýmri, heldur en ef Sjálfstæðiflokkur færi í meirihluta með Frjálslyndum eða Framsókn, og því sterkari.  Hitt vegur hins vegar ekki minna, alla vegna þegar ég velti hlutunum fyrir mér, að VG þarf að sýna sjálfstæði og sýna að þeir geti unnið með öllum flokkum, líka Sjálfstæðisflokknum

Ella eru þeir búnir að mála sig út í horn.  Þeir geta aðeins komist til valda ef Samfylkingin vill "vera memm".  Með öðrum orðum, Samfylkingin hefur ölll þeirra ráð í hendi sér.  Samfylkingin hefur haft hátt, og krafið VG um loforð að starfa ekki til hægri, en hefur Samfylkingin gefið slík loforð?  Er Samfylkingin reiðubúin til að gefa loforð um að mynda ekki stjórn með Sjálfstæðisflokknum eftir næstu alþingiskosningar?  Er Samfylkingin reiðubúin til að heita VG ævarandi "tryggðum"? 

Ég reikna ekki með því.

Það er því áríðandi fyrir Vinstri græna að senda kröftug skilaboð.  Að þeir séu sjálfstætt afl, geti unnið með hverjum sem er, jafnt Samfylkingu sem Sjálfstæðisflokki, Framsóknarflokknum sem Frjálslyndum.  Ella verða þeir alltaf með veikari samningsstöðu, ef þeir hafa ekki "leyfi" til að starfa með neinum, án þess að Samfylkingin sé með í samstarfinu.

Vandamálið fyrir Vinstri græna er auðvitað að margir af þeirra stuðningsmönnum ættu erfitt með að styðja samstarf við Sjálfstæðisflokkinn.  Þeir myndu líklega frekar kjósa "eyðimerkurgöngu" heldur en "íhaldið".  Þeir myndu frekar kjósa að vera "jaðarflokkur" sem á litla möguleika á að komast til valda, frekar en að starfa til hægri.  En hver eru áhrif slíks flokks til lengri tíma litið? Er "realpolitik" ekki vænlegri til lengri tíma litið?

Ef flokkarnir verða hinsvegar bara 4. í borgarstjórn, annað hvort myndi Samfylking ná 5. manninum, eða VG þeim þriðja, aukast líkurnar á því að Sjálfstæðisflokkurinn sitji eftir í minnihluta, 4. kjörtímabilið í röð.  Sérstaklega tel ég ef VG fengi 3. menn og gæti því starfað með Samfylkingunni á meiri jafnréttisgrundvelli, en hvaða verði myndi slíkur meirihluti þurfa að kaupa stuðning Frjálslyndra?  Ekki gott að segja.

En allt eru þetta í sjálfu sér vangaveltur út í loftið, það verður ekki fyrr en úrslit liggja fyrir sem hægt er að spá í þetta fyrir alvöru.

Það bendir allt til þess að kosningnóttin verði spennandi, jafnvel fram á morgun í Reykjavík.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband