Eiga VG eftir að starfa með Sjöllum, eða myndast nýr R-listi, ná Sjallar meirihluta?

Núna ætla ég aðeins að velta því fyrir mér hverjir eru líklegir til að mynda meirihluta í Reykjavík, að loknum komandi kosningum.

Ef kannanir þær sem nýjastar eru þegar þetta er skrifað eru réttar,og Sjálfstæðisflokkurinn fær meirihluta, þá þarf auðvitað ekki að spá né "spegúlera" frekar, en ef  hann fær 7. borgarfulltrúa (kannanir eru ekki eins í þessum efnum) þá upphefst "dansinn".

Hverjir yrðu saman í meirihluta?

Líklega færi það eitthvað eftir úrslitum.  Ef miðað er við að úrslit yrðu þau að Sjálfstæðisflokkur fengi 7, Samfylking 4. , Vinstri grænir 2. Framsóknarflokkur 1. og Frjálslyndir 1, þá myndu líklega margir segja að líklega yrði R-listinn endurreistur með Frjálslyndum til viðbótar, en er það líklegt?. Persónulega tel ég það ekki vera.  Meirihluti með 4. flokkum væri erfitt að berja saman og hann yrði í endalausri "gíslingu" ólíkra skoðana.

En hverjir myndu fara í meirihluta með Sjálfstæðisflokki?

Frjálslyndi flokkurinn?  Held ekki, en þó alls ekki útilokað.  Held þó að Sjallar væru ekki mjög ginkeyptir fyrir því að koma Ólafi í meirihluta og þannig að mörgu leyti festa hann í sessi.  Líklega myndi Ólafur líka vilja selja sig dýrt.

Framsóknarflokkur.  Kæmi sterklega til greina, en ég tel þetta þó ekki fyrsta kost.  Hvorugur flokkurinn hefði líkega of mikinn áhuga að hafa þetta sama samstarfsmunstur í borgarstjórninni og í landsmálunum, en þetta er þó ekki hægt að útiloka.

Samfylkingin.  Verulega ótrúlegt, enda má segja að þetta séu pólarnir tveir í kosningunum.  Þó gæti þetta komið til greina, ef meirihlutaviðræður dragast á langinn og engin önnur lausn er í sjónmáli.  En þó ólíklegt að Samfylking féllist á slíkt.  Ef þeir fara jafn illa út úr kosningunum og skoðanakannanir benda til, vilja þeir líklega horfa fram á veginn og hugsa um næstu alþingiskosningar og vera í minnihluta í borginni.

Vinstri grænir.  Að mörgu leyti líklegasti kosturinn.  Bæði það að meirhlutinn væri aðeins rýmri, heldur en ef Sjálfstæðiflokkur færi í meirihluta með Frjálslyndum eða Framsókn, og því sterkari.  Hitt vegur hins vegar ekki minna, alla vegna þegar ég velti hlutunum fyrir mér, að VG þarf að sýna sjálfstæði og sýna að þeir geti unnið með öllum flokkum, líka Sjálfstæðisflokknum

Ella eru þeir búnir að mála sig út í horn.  Þeir geta aðeins komist til valda ef Samfylkingin vill "vera memm".  Með öðrum orðum, Samfylkingin hefur ölll þeirra ráð í hendi sér.  Samfylkingin hefur haft hátt, og krafið VG um loforð að starfa ekki til hægri, en hefur Samfylkingin gefið slík loforð?  Er Samfylkingin reiðubúin til að gefa loforð um að mynda ekki stjórn með Sjálfstæðisflokknum eftir næstu alþingiskosningar?  Er Samfylkingin reiðubúin til að heita VG ævarandi "tryggðum"? 

Ég reikna ekki með því.

Það er því áríðandi fyrir Vinstri græna að senda kröftug skilaboð.  Að þeir séu sjálfstætt afl, geti unnið með hverjum sem er, jafnt Samfylkingu sem Sjálfstæðisflokki, Framsóknarflokknum sem Frjálslyndum.  Ella verða þeir alltaf með veikari samningsstöðu, ef þeir hafa ekki "leyfi" til að starfa með neinum, án þess að Samfylkingin sé með í samstarfinu.

Vandamálið fyrir Vinstri græna er auðvitað að margir af þeirra stuðningsmönnum ættu erfitt með að styðja samstarf við Sjálfstæðisflokkinn.  Þeir myndu líklega frekar kjósa "eyðimerkurgöngu" heldur en "íhaldið".  Þeir myndu frekar kjósa að vera "jaðarflokkur" sem á litla möguleika á að komast til valda, frekar en að starfa til hægri.  En hver eru áhrif slíks flokks til lengri tíma litið? Er "realpolitik" ekki vænlegri til lengri tíma litið?

Ef flokkarnir verða hinsvegar bara 4. í borgarstjórn, annað hvort myndi Samfylking ná 5. manninum, eða VG þeim þriðja, aukast líkurnar á því að Sjálfstæðisflokkurinn sitji eftir í minnihluta, 4. kjörtímabilið í röð.  Sérstaklega tel ég ef VG fengi 3. menn og gæti því starfað með Samfylkingunni á meiri jafnréttisgrundvelli, en hvaða verði myndi slíkur meirihluti þurfa að kaupa stuðning Frjálslyndra?  Ekki gott að segja.

En allt eru þetta í sjálfu sér vangaveltur út í loftið, það verður ekki fyrr en úrslit liggja fyrir sem hægt er að spá í þetta fyrir alvöru.

Það bendir allt til þess að kosningnóttin verði spennandi, jafnvel fram á morgun í Reykjavík.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband