Heiðarbúinn

Ég hef áður skrifað um bækur sem ég er að lesa og mun án efa gera þeim bókumsem ég hef rétt lokið við, eða er að lesa núna skil síðar, en bókin sem er efni þessa pistils, er bók sem ég hef tekið að mér að þýða, eða réttara sagt hluta af henni.

Bókin heitir "Haugaeldar", og er skrifuð af Gísla Jónssyni frá Háreksstöðum.  "Haugaeldar var gefin út af Bókaútgáfunni Eddu á Akureyri, árið 1962 og er safn greina og ritgerða eftir fyrrnefndan Gísla.  Ástæðan fyrir því að ég er að þýða hluta hennar er sú að Gísli fluttist eins og margir aðrir íslendingar til Kanada, snemma á 20. öldinni.

Þessar minningar hans og ritgerðir sem gefnar voru út á Akureyri, vekja hinsvegar áhuga eftirkomenda hans hér í Kanada í dag, en þeir geta ekki lesið íslenskuna og þess vegna er ég að vinnna í því að þýða nokkurn hluta bókarinnar, það er að segja þann sem fjallar um uppvöxt hans á austurlandi.  Gísli og fjölskylda hans bjuggu á Jökuldalsheiðinni, á Háreksstöðum og fleiri bæjum. Þar var lífsbaráttan hörð og kjörin kröpp, og litlu mátti muna hvert ár, ef vel átti að fara.

En ég verð að segja að þetta er fróðlegt starf. Að lesa um uppvöxt Gísla, seint á 19. öldinni er holl lesning fyrir þann sem ólst upp á Íslandi á seinni hluta tuttugustu, en fetaði síðar í fótspor Gísla og annarra Vesturfara og settist að í Kanada rétt 100 árum eða svo síðar. 

 Þannig læri ég ekki eingöngu um breytingar þær sem hafa orðið á íslensku samfélagi, heldur líka því Kanadíska, og auðvitað að hluta til um þann þátt sem íslendingar áttu aðild að þeim breytingum á því Kanadíska.

Að hluta til er þetta saga um þrautseigju og ef til vill þrjósku, það var það sem þurfti til, bæði á heiðunum á austurlandi og ef til vill ekki síður til þess að brjóta sér leið í nýju landi með nýju tungumáli og nýjum siðum.

Frásögn Gísla er í merkileg heimild, frásögn af kynslóð sem barðist áfram, í tveimur heimsálfum, og lét fátt aftra sér, í þeirri viðleitni sinn að byggja sér og afkomendum sínum betri tilveru.

Eftir því sem ég kemst næst eru þeir sem teljast afkomendur þeirra íslendinga sem fluttu vestur um haf, svipaðan fjölda og þeir íslendingar sem búa á íslandi í dag.  Flestir þeirra hafa þó blandast öðrum þjóðernum hér vestanhafs, en eigi að síður er þetta nokkuð sem vert er að hafa í huga.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband