Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2006

Gönguferð í Kleinburg.

"Foringinn" Leifur Enno

Fór í hressandi gönguferð í Kleinburg í dag.  Það er alltaf hressandi að ganga í skóginum þar.  Þetta var heljarmikill flokkur.  Við hjónin, vinir okkar Willem og Kaire, og svo "foringinn" Leifur Enno og svo Christopher litli.  Með tvær kerrur og Leif Enno þó ýmist labbandi eða hlaupandi með, var þetta ábúðarmikill flokkur.

 Skógurinn iðaði af lífi, froskarnir kvökuðu eins og þeim væri borgað fyrir það, íkornarnir hlupu um og ég meira að segja sá í bjór, en hann kafaði þó jafn harðan.  Haukar flugu um loftið og sólin skein.  Hvað er hægt að fara fram á meira?

 Við vorum að vísu aðeins þreytt þegar heim var komið, en "feit" steik, sem ég skolaði niður með ljómandi spænsku rauðvíni (Bajoz) og konan með ropvatni féll í góðan jarðveg og konan er að koma foringjanum í svefn á meðan ég er að skrifa þetta (held reyndar að þau séu bæði sofnuð) og allt er eins og það á að vera.

 Á morgun verður annar góður dagur!!


Hvað er ég að lesa?

Ég er nú einn af þeim sem alltaf verð að vera að lesa einhverja bók.   Og að kaupa bækur er eitt af mínum uppáhalds áhugamálum. Reyndar kaupi ég yfirleitt ódýrar bækur, gjarna á útsölu, en það er annar handleggur.

 Reyndar er það svo að sé ég að þvælast um þar sem verslanir eru, er það yfirleitt svo að ég dreg yfirleitt heim með mér annaðhvort bækur eða vínflöskur, nema hvorutveggja sé.  Konan mín kvartar stundum yfir þessu.  Ekki það að flöskurnar safnast ekki svo hratt fyrir, en það gera bækurnar.

 En hvað hef ég verið að lesa upp á síðkastið?  Ég er stuttu búinn að lesa "Collapse" eftir Jared Diamond, bók sem ég mæli heilshugar með, vekur lesandann til umhugsunar og er vel þess virði að lesa.

Síðan dreif ég loks í því að kaupa og lesa "The Da Vinci Code", þó að um ágætis afþreyingu sé að ræða, er varla hægt að segja að sú bók verðskuldi allt það írafár sem hún hefur valdið.

En nú er ég að lesa "Communism - A Brief History" eftir Richard Pipes, lofar góðu og heldur vonandi dampi.


Hvar er heima?

Ég er einn af þeim sem er alltaf á leiðinni heim.  Þegar ég er búinn aõ kaupa í matinn, er ég á leiðinni heim, þegar ég er á leiðinni til Íslands er ég á leiðinni heim og  þegar ég fer frá Reykjavík til Akureyrar er ég á leiðinni heim. Svo þegar ég flýg frá Íslandi er ég á leiðinni heim, og hlakka líklega mest til.

 Vissulega á ég ekki heima á öllum þessum stöðum, heimili mitt er Toronto um þessar mundir og líklega um fyrirsjáanlega framtíð.

En samt, Ísland verður líklega alltaf "heim", það sama gildir líklega um Akureyri, þó að ég hafi ekki búið þar í mörg ár er það alltaf "heim".

 En hvar á ég heima?  Einhvern tíma var sagt að heima væri þar sem hjartað væri (home is where the heart is), og er mikið til í því.  En líklega er þó rétt að segja að "heima" sé hjá þeim sem þú tilheyrir og tilheyra þér. 

Því á ég heima hér í Toronto, hjá Kristinu og Leifi Enno, ég tilheyri þeim og þau mér.....


Bjórá 49

c_my_documents_my_ebooks_bb1_1690.jpg

Þá er ég búinn að búa til bloggsíðu fyrir fjölskylduna.  Líklega lendir það þó á mér einum að halda henni við og skrifa, enda sá eini sem skrifar íslensku, í það minnsta enn sem komið er, í fjölskyldunni, en það stendur vonandi allt til bóta.

 Fjölskyldan er auðvitað ég, Tómas Gunnarsson, konan mín, Kristina Pere og svo auðvitað foringinn sjálfur, Leifur Enno Pere Tómasson, rétt rúmlega 2ja ára, en sjálfur fullviss um forystuhlutverk sitt innan fjölskyldunnar.

 Heiti síðunnar, Bjórá 49, er dregið af húsinu sem við erum rétt búin að festa kaup á, 49 Beaverbrook Avenue.  Því miður erum við ekki flutt ennþá, en við fáum húsið afhent þann 7. júlí næstkomandi, og erum öll farin að hlakka til.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband