Þorrablót og afslöppun

Fjölmenni var á Thorrablótinu

Eins og áður hefði verið minnst á var Thorrablót Íslendingafélagsins hér í Toronto haldið síðastliðinn laugardag.

Ég fór með fjölskylduna alla og höfðum við gaman af, átum vel og drukkum, hittum mann og annan, skeggræddum og skröfuðum. Aðsóknin var  með mesta móti eða rétt ríflega 200 manns.

 Við vorum þó, rétt eins og Öskubuska komin heim fyrir miðnætti, þannig að ekki er hægt að segja að sollurinn hafi verið sopinn af mikilli ákefð.

En Thorrablótið var hin besta skemmtun, Leifur Enno skemmti sér manna best, enda mikið af krökkum sem hann gat leikið sér við, á milli þess sem hann át harðfisk, hangikjöt og ávexti af mikilli ákefð.

Dagskráin fór vel fram, mikið um söng og afhentir voru námsstyrkir og styrkir til handa unglingum til að fara til Íslands og taka þátt í Snorra prógramminu, sem gerir unglingum af íslenskum ættum kleyft að heimsækja Ísland, vinna þar um tíma og kynnast ættingjum sínum og íslenskum uppruna (http://www.snorri.is/)

Fólk fór að tygjast til heimferðar um 10 leytið, og ekki er hægt að segja að vín hafi sést á nokkrum manni, þó að ekki hafi verið örgrannt um að roði hafi verið farinn að sjást í kinnum nokkurra námsmanna frá heimalandinu, sem stunda nám vítt og breitt um Ontario.

En þetta var allt saman ljúft og gott, á sunnudaginn fór ég svo eldsnemma á fætur, sótti bókahillur sem okkur hafði áskotnast að gjöf, en eftirmiðdeginum eyddum við feðgar í leti heimafyrir á meðan konan fór í afmælisveislu.  Okkar sameiginlegi miðdegislúr var einn af hápunktum helgarinnar og endurnærði okkur báða til líkama og sálar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband