Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2006
13.11.2006 | 07:59
Af hreppapólítík
Það hefur varla farið fram hjá nokkrum þeim sem fylgst hefur með prófkjörum undanfarnar vikur að "hreppapólítík" hefur spilað þar nokkuð stóra rullu.
Það má líklega segja að einu kjördæmin sem séu ekki snert af "hreppapólítíkinni" séu Reykjavíkurkjördæmin, og þó hafa stundum heyrst þar raddir um að Grafarvogurinn og önnur hverfi þurfi nauðsynlega á þingmanni að halda.
En oft er talað niðrandi um "hreppapólítíkina", hún og "fyrirgreiðslupólítíkin" eru spyrt saman og þykja ákaflega óheilbrigð og óæskileg.
En það er hægt að líta á þetta frá fleiri en einu sjónarhorni. Sé það haft í huga að á Íslandi ríkir fulltrúalýðræði, það er að segja að almenningur kýs sér fulltrúa sína á þing, þá er ekki óeðlilegt að kjósendur hafi nákvæmlega það í huga, að fulltrúinn sé þeirra og þeir vilji að hann beri hagsmuni sinna kjósenda og heimkynna þeirra í huga og beri þau upp á Alþingi.
Því fer auðvitað fjarri að hagsmunir meginþorra Íslendinga liggi saman, nema í stærri málum, og það er því nauðsynlegt fyrir kjósendur og byggðarlög að hafa fulltrúa sína á þingi til að gæta sinna hagsmuna.
Því nauðsynlegra hefur þessi "hreppapólítík" orðið eftir því sem hið opinbera hefur bólgnað út, sjóðir þess stækkað og verkefnin eftir því orðið "tröllaukin" og fátt gerist "heima í héraði" án þess að ráðherrar og þingmenn "véli" þar um.
Við getum líka ímyndað okkur að ef höfuðborgarsvæðið væri nú gert að einu kjördæmi, þá færi líklega fljótt að heyrast hljóð úr horni, ef allir þingmennirnir kæmu úr Hafnarfirði, Garðabæ, Seltjarnarnesi og Kópavogi.
Við höfum líka heyrt í akureyringum, sem telja sig hlunnfarna í skiptingu þingmanna í Norð-Austur kjördæminu. Þeir benda á að þeir séu u.þ.b. 42% atkvæðabærra þingmanna í kjördæminu, en margir þar vilja meina að þeir hafi ekki haft neinn þingmann, síðan Tómas Ingi Olrich hætti.
En tveir af þingmönnum kjördæmisins koma frá Siglufirði, svo dæmi sé nefnt. Skyldi það hafa haft áhrif á það að nú er byrjað á tröllaukinni framkvæmd sem er göng á milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar?
5 af núverandi þingmönnum í kjördæminu koma frá Austurlandi, 2. þingmenn frá Þingeyjarsýslum og 1. þingmaður hefur lögheimili sitt á Akureyri, en þó eru skiptar skoðanir þar, hvort menn vilja líta á hann sem akureyring eður ei.
Er það skrýtið að akureyringar vilji rétta hlut sinn?
Í "Kraganum" svokallaða eru nokkur sterk sveitarfélög. Það sagði mér trúverðugur maður að í prófkjöri Samfylkingarinnar hefði auðveldlega mátt þekkja í sundur atkvæðaseðla úr Kópavogi og Hafnarfirði. Gunnar Svavarsson var einfaldlega ekki á seðlunum úr Kópavogi.
Í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins var hringt út og sagt að Hafnarfjörður fengi 1. sætið, Garðabær 2. sætið og því væri það áríðandi að Kópavogur fengi það 3. Það væri blátt áfram nauðsynlegt fyrir bæjarfélagið, og fyrir Sjálfstæðisflokkinn til að fá þar atkvæði í vor. Kópavogur er stærsta sveitarfélagið í kjördæminu.
Við höfum séð svipaða hluti gerast bæði í "Suðrinu" og Norð-Vestur kjördæmi. Má þar til dæmis nefna slagkraft vestmanneyinga, sem hefur þó ekki dugað alltaf. Einnig heyrist vaxandi óánægja frá Suðurnesjum.
En hvað er til ráða?
Ég er alltaf að verða hrifnari og hrifnari af smærri kjördæmum, þó hrífst ég ekki af einmenningskjördæmum, ég held að þau geti orðið hættuleg lýðræðinu. Það mætti jafnvel hugsa sér "þéttbýliskjördæmi" og svo aftur "dreifbýliskjördæmi". Stærri staðir svo sem Akureyri, Egilsstaðir, Fjarðabyggð, Hafnarfjörður, Kópavogur, Akranes (eða Akranes og Borgarnes saman) og síðan yrði dreifbýlið í víðfeðmari kjördæmum.
En ég held að fleiri og fleiri séu að sjá að núverandi kjördæmi eru alltof víðfeðm.
Ég hef áður bloggað um kjördæmamál, sem finna má hér og hér.
13.11.2006 | 05:07
Af prófkjörum
Það eru margar hugsanair sem fljúga í gegnum hugann að þessari stóru prófkjörshelgi lokinni.
Ekki get ég neitað því að mér kom það nokkuð á óvart að Árni Johnsen skyldi ná öðru sætinu, en kjósendur haf ekki rangt fyrir sér. Þeir velja listann. Sjálfur hefði ég ekki kosið hann til að gegna þingmennsku, en það er vissulega misjafn smekkurinn. En það má ekki vanmeta "hreppapólítíkina" og styrk eyjamanna í henni.
Ég held að ég verði að blogga meira um "hreppapólítíkina" seinna.
Persónulega líst mér ekkert sérstaklega á lista sjálfstæðismanna í "suðrinu", en ég hef svo sem ekki sterka tilfinningu fyrir því kjördæmi, eða mikil tengls eða upplýsingar þaðan, en ég yrði ekki hissa þó að það yrði það kjördæmi sem myndi verða "vonbrigðin" fyrir Sjálfstæðisflokkinn í vor.
"Kraginn" kemur hins vegar með feykisterkan lista, þó að ekki sé hann laus við "hreppapólítíkina" frekar en aðrir listar (að Reykjavíkurlistunum undanskildum). Ég sé Sjálfstæðisflokkinn vinna einn einn stórsigurinn í vor í "Kraganum", þar gætu hafst 6 þingmenn á góðum degi.
Prófkjör Samfylkingarinnar í Reykjavík vekur líka margar spurningar. Ég held (eins og svo margir aðrir) að stóri sigurvegarinn í því prófkjöri sé Össur Skarphéðinsson. Ég get ekki litið öðruvísi á málin. Það er engin ósigur þó að formaður fái ekki nema 70% atkvæða í 1. sætið, en formaður sem enginn býður sig fram á móti?
Og hver er staða varaformanns, þegar talað er um það sem stórsigur að hann nái 4. sæti í prófkjöri? Ég held að sigur Helga Hjörvars teljist meiri en varaformannsins, hann kemur sterkur inn.
Það hlýtur líka að vekja athygli að öll forysta flokksins er í Reykjavík. Formaður, varaformaður og þingflokksformaður. Og forystan trekkir ekki nema tæplega 4900 manns til að taka þátt í prófkjöri í Reykjaví, sem var hálf opið í þokkabót. Færri greiða atkvæði í prófkjöri Samfylkingarinnar í Reykjavík en gerðu hjá sama flokki í bæði Suðurkjördæmi og "Kraganum".
Er það dómur yfir þeim frambjóðendum sem voru í boði, ekki síður en hvernig atkvæðin skiptust á milli þeirra?
8. sætið er "bólstrað" með "nýjum" frambjóðenda, en það verður líklega að teljast baráttusætið, hljómar kunnuglega fyrir fyrrverandi R-listamenn, en það er eitthvað sem segir mér að borgarstjórinn fyrrverandi verði ekki þingkona, alla vegna ekki í bráð.
Jamm, þetta var skrýtin helgi.
Kjartan endaði í þriðja sæti í Suðurkjördæmi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
13.11.2006 | 04:03
Til Jóhönnu
Það er svo ljúft að lúlla
og leggja aftur augun sín
Þá lítil dekruð dúlla
dreymir gullin sín.
Svefninn er sæll og góður
sæl eru draumalönd
þar hittir þú þinn bróður
þið leiðist hönd í hönd
13.11.2006 | 03:47
Að fara upp í kjallarann
CN turninn er merkileg bygging og þangað er gaman að koma. Turninn er enda "must see" fyrir þá sem koma hingað til Toronto.
Þetta er samt nokkuð merkileg frétt sem sést hefur víða. Það virðist sem sé að vín geti ekki verið geymt nema í kjallörum. Hvar það sem vín er, þar er kjallari myndi þetta líklega hljóma úr munnum sunnlenskra ráðherra.
Vín eru ekki geymd í víngeymslum, þau eru geymd í kjallörum, hvort sem "kjallarinn" er í hálfs kílómetra hæð eður ei.
Líklega verð ég að fara að flytja allt vín af jarðhæðinni, ella verðfellur húsið þar sem ég hefði aðeins upp á að bjóða kjallara á tveimur hæðum.
Hitt efast ég ekki um að víngeymsla 360° er án efa hæst staðsetta víngeymsla í heimi, enda CN turninn hæsta bygging heims, þó að mér skiljist að sá titill glatist innan tíðar. En það breytir því ekki eins og áður sagði, að þangað er gaman að koma, hvort sem drukkið er kjallaravín eður ei.
Vínkjallari í 351 metra hæð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
12.11.2006 | 15:03
Af armapólítík og Goðmundi kóngi
Fyrir alla áhugmenn um "armapólítík" og greiningar á henni er nauðsynlegt að halda til haga þeirri dagbók Þráins Bertelssonar sem birtist í Fréttablaðinu í gær, á prófkjörsdegi Samfylkingarinnar þann 11. nóvember 2006.
Þar fer "Tógóski töfralæknirinn" og "Spes" vinur Össurar á nokkrum kostum, og verður varla séð að að af meiri innlifun hafi verið skrifað um "armapólítík" síðan sá hinn sami Össur skrifaði um Sjálfstæðisflokkinn. Þó er Þráinn heldur stífari í stílnum og lætur hann síður taka framsætið frá sannleikanum en Össur og munu menn líklega skiptast í tvær fylkingar um hvort sé æskilegra.
En birtum hér part úr fyrrnefndri dagbók:
"Össur er ekki af Sturlungaætt heldur af hinu friðsama Fremrahálskyni og hefur sérhæft sig í eitursnjöllum greiningum á innvortis átökum íslenskra stjórnmálaflokka, einkum svíður sjálfstæðis- og framsóknarmenn undan penna hans.Í kröníku Össurar um íslenska samtímapólitík er þó ein eyða sem sagnfræðingar framtíðarinnar eiga eftir að harma mjög. En þannig er að þessum snilldarpenna hefur alveg láðst að beina broddi sínum að ástum sinna samlyndu samherja í Samfylkingunni. Enda er það svo að mala domestica graviora sunt lachrimis eins og Brynjólfur heitinn biskup sagði þegar búið var að fífla heimasætuna og ku útleggjast þannig: Heimilisböl er þyngra en tárum taki.Ekki svo að skilja að ég hafi innsýn Össurar í vargöld íslenskra stjórnmála en þegar ég lít í átt til hans og Samfylkingarinnar kemur mér í hug prýðilegt kvæði eftir Grím Thomsen (fyrrum alþingismann) þar sem segir m.a.Horn skella á nösum
og hnútur fljúga um borð,
hógvær fylgja orð,
en þegar brotna hausar og blóðið litar storð
brosir þá Goðmundur kóngur.
Dagbókina má finna í Fréttablaðinu hér.
Reykjavík er eftir, eru lokaorðin í tilvitnuninni, en allir vita nú hvernig fór þar. "Goðmundur kóngur" vann þar nokkurn sigur, þó hann reyndi eigi að endurheimta hásæti sitt.
Ef til vill fer best á að enda þetta blog með vísunni sem kemur á undan þeirri sem Þráinn birti í dagbókinni, en hún hljóðar svo:
Á Glæsivöllum aldrei
með ýtum er fátt,
allt er kátt og dátt.
En bróðernið er flátt mjög og gamanið er grátt,
í góðsemi vegur þar hver annan.
12.11.2006 | 12:07
Ég verð líklega að athuga minn gang
Nú er ég að fara að hrósa framsóknarmanni, í annað skipti á fáum dögum. En það verður að gera fleira en gott þykir, og hrós á hann skilið.
Það að leggja niður mannanafnanefnd og taka upp "líberalisma" (á ekkert skylt við íslenska "líberal" flokka) hvað varðar mannanöfn yrði tvímælalaust til bóta á Íslandi. Sú ábyrgð að meta hvort að nafn sé við hæfi er mun betur komin hjá foreldrum en opinberri nefnd.
Vitanlega munu koma upp nöfn sem mörgum eiga eftir að finnast skrýtin jafnvel undarleg, en þannig er lífið einfaldlega, smekkur manna er misjafn og á að vera það, en ekki einn sameiginlegur ríkisamsettur.
Þetta er líka stórt hagsmunamál fyrir innflytjendur sem geta gefið börnum sínum nöfn sem minna á upprunann. Því þótt að rétt sé að hvetja innflytjendur til að aðlagast, er full ástæða fyrir þá að leggja rækt við uppruna sinn.
Þeir sem lesa þessa síðu reglulega, vita líklega að ég er innflytjandi, í Kanada nánar tiltekið. Tvisvar á síðustu 3. árum hef ég valið börnum nafn með eiginkonu minni. Við höfum haft í huga að við viljum að börnin hafi nöfn sem geti gengið jöfnum höndum á Íslandi, Eistlandi og hér í Kanada. Einnig hafði ég mikinn áhuga á því að börnin yrðu kennd við mig, en tækju ekki upp eftirnafnið Gunnarsson.
Og viti menn, kerfið hér í Kanada er til fyrirmyndar. Hér er fyllt út form, enginn skiptir sér af því hvað börnin eiga að heita, og þegar kemur að eftirnafni, er einfaldlega boðið upp á það að ef þú villt ekki fara eftir kanadískum hefðum hvað það varðar, þá merkir þú við í annan af tveimur reitum, sem segir að óskin sé annað hvort af "ethnic" eða "religious" ástæðum.
Því eru börnin mín Tómasson og Tómasdóttir, rétt eins og við höfum kosið og engin vandamál því fylgjandi.
Verði nafnafrelsi leitt í lög á Íslandi er það tvímælalaust til bóta og fagna ég þessu frumvarpi ákaflega.
Vilja leggja mannanafnanefnd og mannahafnaskrá niður | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
10.11.2006 | 20:28
68 árum seinna
Það er víðar en á Íslandi sem að umræða um innflytjendur er fyrirferðarmikil. Það er sjálfsagt að fagna þeirri umræðu, og fari hún fram á skynsamlegum og friðsömum nótum er hún án efa til mikilla bóta og verður vonandi til framfara.
En gyðingar í Munchen fögnuðu bæði og syrgðu í gær. Þeir fögnuðu nýju samkomuhúsi sínu, en syrgðu þá sem létu lífið og þeirra sem voru grátt leiknir fyrir 68 árum, þegar "Kristalnóttin" svokallaða var, þegar nazistar slepptu lausum liðsmönnum sínum á gyðinga. Það sem á eftir fylgdi er líklega flestum kunnugt.
Það var ágætis frétt á vef Times um atburðinn, þar segir meðal annars:
"A huge new synagogue, Europes largest Jewish centre, was opened in the heart of Munich yesterday to mark the 68th anniversary of Kristallnacht the Night of Broken Glass when Nazis went on an anti-Semitic rampage across Germany.
The cube-shaped building is an act of defiance at a time when anti-Semitic sentiment is again beginning to bubble below the surface.
""This building shows that we Jews are again part of German society, said Charlotte Knobloch, the leader of Germanys Jewish community. She choked back tears as she recalled how, as a frightened six-year-old, she had clutched her fathers hand and run past burning Jewish shops in Munich on November 9, 1938. Now I have just handed the key to this new synagogue to a child who is the same age as I was on that night. The circle has been closed.
A survey published by the Friedrich Ebert Foundation, a social justice charity, demonstrates how controversial the new centre will be among Germans: 39 per cent of those questioned say that the country is being dangerously swamped by foreigners, 18 per cent that the influence of Jews is too great while 15 per cent want a strong leader, literally a Führer.
Fréttina í heild má finna hér.
10.11.2006 | 15:35
Að skilja - á milli
Það má svo sem segja að það sé ekki mikil fórn að gefa eftir 2. sætið á lista Framsóknar í Reykjavík til að einbeita sér að borgarmálunum, en samt vil ég segj að það sé hárrétt ákvörðun og til fyrirmyndar.
Það er orðið allt of algengt að íslenskir stjórnmálamenn ætli sér að sitja bæði í sveitarstjórnum og á Alþingi. Það hefur og verið nokkuð algengt undanfarin ár.
Það er nóg mannval í flestum flokkum þannig að þess á ekki að þurfa.
Það er líka rík ástæða fyrir kjósendur (og líka fjölmiðlafólk) að fá allt það sveitarstjórnarfólk sem nú býður sig fram til starfa í landsmálunum, hvað það ætlar sér að gera? Ætlar það að sitja á báðum stöðum, eða segja sig frá sveitarstjórnunum?
Persónulega mæli ég myndi ég ekki kjósa neinn sem ætlar að sitja á báðum stöðum, þess vegna fagna ég þessari ákvörðun Björns Inga og vona að sem flestir taki sér hana til fyrirmyndar.
Framsóknarmenn stilla upp í Reykjavík suður | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
9.11.2006 | 14:23
Hvíta bandið?
Ný skoðanakönnun Fréttablaðsins í kjölfar mikillar umræðu um innflytjendamál hefur réttilega vakið mikla athygli.
Frjálslyndir eru þar á góðri siglingu, Samfylking bætir við sig örlitlu, Sjálfstæðisflokkur tapar örlitlu, en Framsóknarflokkur og jafnvel enn frekar Vinstri grænir "borga" fyrir uppgang Frjálslyndra.
En blog varaþingmannsefnis Samfylkingar vakti líka athygli mína. Guðmundur Steingrímsson virðist nú þegar vera orðinn "atvinnupólítíkus" miðað við hvernig hann höndlar tölurnar úr þessari könnun.
Hann segir ekki ósatt (og þó?), en segir þó ekki nema hálfan sannleikann eins og stjórnmálamönnum er tamt þegar rætt er um "pólítíska landslagið". Hann segir:
"Greinilegt er að stór hluti fylgismanna Sjálfstæðisflokks, Framsóknar og Vinstri grænna eru líka svag, eins og Frjálslyndir, fyrir takmörkunum á komu útlendinga hingað til lands."
Þannig að stór hluti fylgismanna Sjálfstæðisflokks eru svag fyrir takmörkunum á komu útlendinga til Íslands?
Látum það vera að varaþingmannsefnið virðist treysta sér til að lesa út úr könnuninni hvaðan fylgið kemur til Frálslyndra, þó að það komi að sjálfsögðu ekki fram, enda gæti jafn auðveldlega hafa kvarnast úr fylgi Sjálfstæðisflokks yfir til Samfylkingar, því einhversstaðar verður sú fylgisaukning að koma, ekki satt?
En í frétt Fréttablaðsins á bls. 4. í dag segir:
"Fylgi Sjálfstæðisflokks minnkar lítillega frá síðustu könnun blaðsins. Nú segjast 38,5 prósent þeirra sem tóku afstöðu myndu kjósa Sjálfstæðisflokkinn, en fylgið var 39,7 prósent í síðustu könnun."
Telst þetta fylgistap, sem er auðvitað vel innan skekkjumarka, vera "stór hluti" fylgismanna Sjálfstæðisflokks?
Ennfremur segir í sömu frétt Fréttablaðsins:
"Framsóknarflokkurinn mælist nú með 6,8 prósenta fylgi og hefur ekki mælst með minna fylgi í könn-unum blaðsins. Flokkurinn myndi samkvæmt því fá fjóra þingmenn kjörna. Í síðustu könnun mældist fylgið 10,7 prósent og hefur það því dregist saman um 3,9 prósentustig. Framsóknarflokkurinn hlaut 17,7 prósent atkvæða í síðustu þingkosningum og tólf þingmenn. Fylgi Vinstri grænna dregst hins vegar saman um 5,6 prósentustig frá síðustu könnun blaðsins. Nú segjast 13,3 prósent þeirra sem tóku afstöðu myndu kjósa flokkinn og fengi flokkurinn samkvæmt því átta þingmenn. Vinstri grænir mælast hins vegar umfram kjörfylgi, en flokkurinn hlaut 8,8 prósent atkvæða í þingskosningunum 2003 og fimm menn kjörna."
Það væri því frekar ástæða til að draga þá ályktun að fylgisaukning Frjálslyndra hafi komið frá Vinstri grænum og Framsóknarflokki, heldur en Sjálfstæðisflokki. Vinstri grænir eru þeir sem missa hæstu %töluna, en Framsóknarmenn hæsta hlutfallið. Þetta er þó sagt með þeim fyrirvara af minni hálfu að auðvitað er ekki hægt að fullyrða um svona, Samfylking gæti auðvitað hafa misst mikið fylgi til Frjálslyndra, en unnið það af VG.
En sé rýnt "hrátt" í tölurnar, virðist sem svo að fylgi sem sé afhuga útlendingum hafi flutt sig frá Vinstri grænum (stærsti hópurinn) og Framsókn yfir til Frjálslyndra. Örlítið hefur það fylgi einnig komið frá Sjálfstæðisflokki.
En það er líka annað sem varaþingmannsefnið minnist ekkert á. Flokkur hans, Samfylkingin er nefnilga í bandalagi við tvo af þeim flokkum sem þarna er minnst á, Vinstri Græna og Frjálslynda. Það bandalag hefur gjarna verið nefnt "Kaffibandalagið".
Sé þessi nýjasta skoðanakönnun höfð til hliðsjónar er það ljóst að núverandi ríkisstjórn er fallin. "Kaffibandalagið" er við völd.
En miðað við málflutning Frjálslyndra og hvernig fylgið flyst á milli þeirra og Vinstri grænna, þá virðist heitið á bandalaginu ekki vera vel viðeigandi.
Má ég stinga upp á "Hvíta bandinu"?
Hvernig lýst Guðmundi Steingrímssyni og öðrum Samfylkingarmönnum á bandalagsmenn sína?
Nei, þetta eru auðvitað ekki niðurstöður kosninga, en vonandi kemst "Hvíta bandið" ekki til valda á Íslandi í vor.
P.S. Hér að ofan er ekkert minnst á þær venjulegu útskýringar að skoðanakannanir dragi dám af sterkri umræðu í þjóðfélaginu og yfirstandandi prófkjörum. Ætla má að bæði Samfylkingin og Frjálslyndir hagnist á því.
Fylgi Frjálslynda flokksins eykst mikið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
8.11.2006 | 02:53
Af smjörlíkisgerð
Það hugtak sem hefur verið hvað ríkast í pólítískri umræðu á Íslandi þetta haustið er "smjörklípuaðferðin". Allt frá því að Davíð Oddsson lýsti þessari aðferð í frægu Kastljósviðtali hefur þetta hugtak verið sterkt í umræðunni.
Ekki þar fyrir að auðvitað er þetta ekkert nýtt. Það er líklega einhvert elsta bragð í stjórnmálum að leiða talið að öðru, sem þá kemur andstæðingnum í nokkra klípu, eða hann þarf í það minnsta að útskýra hvers vegna er, eða þá að það sé ekki satt.
En þótt að "smjörklípuaðferðin" sé líklega "skrásett vörumerki" hjá Davíð, þá þýðir það auðvitað ekki að fleiri hafi ekki notað og noti sömu aðferðir. Þær eru þá sjálfsagt notaðar undir öðrum vörumerkjum, eða flokkast undir "smjörlíkisaðferðir".
Einn af öflugri og lúnknari "smjörlíkisframleiðendum" er Össur Skarphéðinsson. Hann fer enda mikinn á "smjörlíkisgerð" sinni (www.ossur.hexia.net) og er þar tíðrætt um ósamlyndi og eftirmála prófkjörs Sjálfstæðisflokks og hina ýmsu arma flokksins.
Minna fer fer þar fyrir greiningum á niðurstöðum í prófkjörum eigin flokks, enda afurðir "smjörlíkisgerðarinnar" ætlaðar til að leiða huga neytenda frá þeim hugleiðingum. En á meðan Össur þeytir "smjörlíkinu" í allar áttir, fara "hans menn" með sigur í prófkjörunum, "Fagra Ísland" stefnumörkunin er teigð og toguð á milli landshluta, formaðurinn er ekki að gera sig, konur fá dræmar undirtektir og fylgið er ekki að skila sér.
Hve fylgið skilar sér illa er svo farið að fara ákaflega í skapið á Samfylkingarfólki, sérstaklega framkvæmdarstjóranum, ef marka má þetta blog. Það er reyndar ólíklegt að um þetta verið fjallað á "smjörlíkisgerð" Össurar, en við skulum þó vona að framkvæmdastjórinn svari þessum ásökunum og geri hreint fyrir sínum dyrum.
En á meðan Suðurnesjamenn segja sig frá listum Samfylkingar, konum er hafnað vegna þess að það eru svo margir karlar í framboði, fylgismenn stóriðju vinna hvern sigurinn á fætur öðrum í prófkjörum flokksins og fylgismenn Össurar vinna góða sigra, þá spýtir "smjörlíkisgerðin" út "klípum" á Sjálfstæðisflokkinn.
En þannig er pólítíkin og þannig vinna öflugir stjórnmálamenn.
En það er líka merkilegt að formaðurinn, varaformaðurinn og þingflokksformaðurinn eru öll að bjóða sig fram í Reykjavík, þar er líka fylgistapið mest, ef marka má skoðanakannanir.