Eitt kjördæmi - Einmenningskjördæmi

Reglulega heyri ég talað um að nauðsynlegt sé að breyta kjördæmaskipan á Íslandi, í núverandi skiptingu felist misrétti.  Oftast er talað um að nauðsynlegt sé að breyta Íslandi í 1. kjördæmi, en einstaka sinnum heyri ég aðrar hugmyndir svo sem að skipta yfir í einmenningskjördæmi.

En er misréttið svo mikið og hvað vinnum við með því að breyta landinu í 1. kjördæmi?  Því verður ekki á móti mælt að með því er öllu misvægi atkvæða eytt, án tafar og umsvifalaust.  Það verður vissulega að teljast nokkuð stór ávinningur, enda misrétti eitthvað sem aldrei er til eftirbreytni.

En hvað tapast?

Það er í sjálfu sér ekkert fast í hendi hvað tapast.  Þó má líklegt telja að mörgum finndist "nándin" hverfa.  Það að bjóða fram einn 63 manna lista (varla yrðu boðnir fram 126 manna listar) fyrir landið er nokkur önnur nálgun, en að bjóða fram 22 manna lista í hverju kjördæmi fyrir sig.  Hætt er á því að pólítískar "stórstjörnur" verði meira áberandi og "héraðshöfðingjum" fækki.  Það gefur einfaldlega aðra "vikt" að skipa 15. sætið, heldur en að leiða listann í sínu kjördæmi, jafnvel þó að það sé "úti á landi".  Hætt er við að fyrstu 5 til 10 mennirnir á hverjum lista einoki fjölmiðlaumræðu, aðrir sitji eftir.

Væri það til bóta að færri raddir heyrðust. 

Minni staðir ættu einnig erfiðar með að gera sig gildandi í prófkjörum.  Flokksfélög á stöðum  s.s. Siglufjirði eða Ísafirði, "vikta" ekki mikið í prófkjöri á landsvísu, en geta haft umtalsverð áhrif í sínu kjördæmi. 

Flestir myndu nú líklega taka undir þegar sagt væri að kjördæmapotið væri af hinu illa og það væri til stórra bóta að útrýma því.  Það er þó ekki hægt að líta fram hjá því að hagsmunamál eru ekki nauðsynlega þau sömu alls staðar á landinu og íbúarnir eru að kjósa sína fulltrúa, ekki bara flokkana sem þeir vilja að séu við völd.  Kjördæmapot, eða ekki, það er líklegt að "rödd" hinna smærri byggða heyrðist mun minna en nú er, ef landið yrði gert að einu kjördæmi.

Því er ég ákaflega efins um að til bóta sé að steypa Íslandi öllu í eitt kjördæmi.  Ég held að "nándin" og fjölbreytnin í pólítíkinni yrði mun minni.  Þingmenn sem víða er kallaðir "backbenchers" yrðu mun fleiri. Ég tel jafnvel nokkra hættu á að áhugi á stjórnmálum yrði minna, enda "nándin" mikilvægur þáttur til að vekja áhuga á pólítík.

Vissulega þarf atkvæðavægi að vera eins jafnt og kostur er, helst hnífjafnt.  En þegar allt er tekið með í reikninginn held ég að fleiri kjördæmi gefi okkur ýmislegt sem verra er að vera án. 

Hvað varðar einmenningskjördæmi, þá gagnast þau vel þar sem aðeins 2. stjórnmálaflokkar starfa, en tæplega þó.  Um leið og fleiri stjórnmálaflokkar koma til sögunnar, eru einmenningskjördæmi líklega versta fyrirkomulag sem hægt er að hafa og í raun hálfgerð afskræming á lýðræðinu.  Stór hætta er á að meirihluti kjósenda í hverju kjördæmi sé í raun án fulltrúa.  Jafnframt er hætta á því að minnihluti kjósenda nái hreinum meirihluta, eða jafnvel að flokkur sem lendir í 2. sæti í atkvæðamagni, hafi flesta fulltrúana.

Einmenningskjördæmi er því að mínu mati ákaflega slæmur kostur.  Því miður er það fyrirkomulagið sem við búum við hér í Kanada.

Ég bendi hér á frétt úr Globe and Mail, þar sem fjallað er um nýafstaðnar kosningar í New Brunswick, og hvernig einmenningskjördæmi getur leikið lýðræðið.

Hér eru líka til samtök sem berjast fyrir hlutfallskosningu, þau heita Fair Vote Canada og hér má sjá umfjöllun um sömu kosningar á heimasíðu þeirra.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það sem heillar mig mest við einmenningskjördæmi er það hvernig hvernig hver og einn þingmaður sem nær kjöri í slíku kerfi hefur þurft að berjast fyrir sæti sínu í kosningum, þannig þarf Tony Blair að svara fyrir kjósendum í sínu heimakjördæmi eins og hver annar þingmaður. Listakosningum eins og tíðkast á Íslandi fylgir í raun að stór hluti þingmanna er öruggur með sín sæti löngu áður en kemur að kosningum, raunverulegu úrslitin ráðast í prófkjörunum. Að öðru leyti eru einmenningskjördæmi afleitt kerfi eins og þú bendir á og ekki lýst mér heldur á að landið sé eitt kjördæmi. Núverandi fyrirkomulag er sennilega það skásta sem er í boði þó að alltaf megi ræða um atkvæðavægi, stærð og mörk einstakra kjördæma.

Ég er ekki frá því heldur að það sé hægt að ná fram þessum kosti sem ég minntist á varðandi einmenningskjördæmi innan núverandi kerfis. Kjósendur hafa nú þegar rétt á að strika út einstaka frambjóðendur sem þeim er ekki að skapi, slíkum útstrikunum mætti veita meira vægi.

Bjarki (IP-tala skráð) 24.9.2006 kl. 21:10

2 identicon

Í þessu samhengi má benda á umfjöllun um "opna lista" á Wikipedia: http://en.wikipedia.org/wiki/Open_list

Bjarki (IP-tala skráð) 24.9.2006 kl. 21:20

3 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Þetta er vissulega vandmeðfarið. Sjálfur er ég farinn að hallast að því að betra sé að hafa smærri kjördæmi, sem síðan yrðu endurreiknuð fyrir hverjar kosningar. Þannig þyrftu kjördæmin ekki nauðsynlega að vera alveg eins, kosningar eftir kosningar.

G. Tómas Gunnarsson, 25.9.2006 kl. 00:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband