Af varaþingmannsefni og takmörkunum á komu útlendinga

Fyrir nokkru bloggaði ég um blog varaþingmannsefnis Samfylkingar, Guðmundar Steingrímssonar.  Í bloggi sínu fjallaði Guðmundur um uppgang Frjálslynda flokksins í nýrri skoðanakönnun og barði sér á brjóst yfir því hve jákvæðir stuðningsmenn Samfylkingar væru og ekki "svag" fyrir takmörkunum á komu útlendinga til Íslands.  Taldi hann að allir flokkar nema Samfylkingin hefði misst fylgi til Frjálslyndra vegna þessara mála.

Það vakti því nokkra athygli mína þegar ég sá í Fréttablaðinu í morgun niðurstöðu skoðanakönnunar um afstöðu Íslendinga gagnvart komu útlendinga til landsins, og það sem meira er, niðurstöður flokkaðar eftir afstöðu kjósenda til stjórnmálaflokka.

Það hlýtur að vekja varaþingmannsefninu ugg, að í engum stjórnmálaflokki að Frjálslyndum slepptum eru stuðningsmenn meira "svag" fyrir því að setja hindranir í komu útlending til Íslands en í Samfylkingunni. 

Ef til vill er komin þar skýring á því hve illa þeim gekk í prófkjöri Samfylkingar í Reykjavík,  sem duglegastir voru að taka upp hanskann fyrir innflytjendur.

Framsóknarflokkur og Vinstri grænir koma best út í jákvæðni gagnvart útlendingum, en ef til vill má þó leyfa sér að draga þá ályktun að það sé vegna þess að kjósendur sem eru "svag" fyrir takmörkunum hafi þegar yfirgefið flokkinn, fyrir Frjálslynda, en Framsókn og VG töpuðu mestu fylgi í þessari könnun, en Frjálslyndir unnu gríðarlega á.

En í frétt Fréttblaðsins segir m.a.:

"Ef svarendur eru greindir eftir því hvaða flokk þeir segjast myndu kjósa, væri boðað til kosninga nú, kemur í ljós að áberandi margir stuðningsmenn Frjálslynda flokksins segja fjölda útlendinga hér á landi vera mikið vandamál, eða sextíu prósent af öllum stuðningsmönnum Frjálslynda flokksins. 26 prósent stuðningsmanna flokksins segja fjölda útlendinga vera lítið vandamál en fjórtán prósent segja fjöldann vera ekkert vandamál. Með þessum hlutföllum skera stuðningsmenn Frjálslynda flokksins sig frá stuðningsmönnum annarra flokka, sem ýtir undir þá kenningu að fylgisaukning flokksins samkvæmt þessari könnun sé vegna umræðu flokksmanna um innflytjendamál.

Stuðningsmenn eins annars flokks telja að fjöldi útlendinga sé í meira mæli en meðaltal bendir til. Það eru stuðningsmenn Samfylkingar en 38 prósent þeirra sem segjast myndu kjósa flokkinn segja fjölda útlendinga vera orðinn mikið vandamál. 37,2 prósent telja vandamálið lítið og 24,8 prósent telja vandamálið ekkert, sem einnig er yfir meðaltali."

 

"41,9 prósent stuðningsmanna Framsóknarflokks telja fjölda útlendinga vera ekkert vandamál. Sama hlutfall segir fjöldann vera lítið vandamál. Þá telur 16,1 prósent þeirra sem myndu kjósa Framsóknarflokkinn að fjöldi útlendinga sé mikið vandamál.Af stuðningsmönnum vinstri grænna segja 36,2 prósent að fjöldi útlendinga hér á landi sé ekkert vandamál. 46,6 prósent telja að vandinn sé lítill, en 17,2 prósent telja að fjöldi útlendinga sé orðinn að miklu vandamáli.Meirihluti sjálfstæðismanna segir útlendinga lítið vandamálMeirihluti sjálfstæðismanna, eða 51,4 prósent þeirra sem segjast myndu kjósa flokkinn, segir að fjöldi útlendinga sé lítið vandamál nú. 18,1 prósent þeirra telur vandamálið ekkert, en 30,5 prósent segja að fjöldi útlendinga sé nú mikið vandamál."

Frétt Fréttablaðins má finna hér, feitletrun í fréttinni hér að ofan er bloghöfundar.

Það verður fróðlegt að fylgjast með hver viðbrögð Guðmundar og annara Samfylkinga verður við þessari könnun.  Munu þeir breyta málflutningi sínum og taka tillit til skoðanna þessa hluta stuðningmanna flokksins, verður hafin fræðsluherferð til að uppfræða stuðningsmenn Samfylkingarinnar eða verður ekkert gert?

Það vekur mér vissulega ugg að sjá hve hátt hlutfall af heildinni vill takmarka aðgang útlendinga að Íslandi og telur fjölda þeirra sé mikið vandamál.

Hér held ég að allir flokkar þurfi að taka sér tak, en það kemur skemmtilega á óvart að mesta afturhaldið skuli vera í "Frjálslyndum" og "Samfylkingu" en "líberalismann" sé að finna í Framsókn og VG.  Sjálfstæðisflokkurinn siglir svo miðjuna.

Þessu hefðu líklega fáir spáð, svona áður en þessi könnun birtist.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Ja, hvert stefnir?  Er það vandamál að útlendingar hafa leyst vanda fiskvinnslu víða um land?  Er það vandamál að útlendingar hafa leyst vanda byggingariðnaðar víða um land?  Er það vandamál að útlendingar hafa leyst vanda almenns iðnaðar víða um land? 

Það er ljóst að ef útlendingar hefðu ekki komið til Íslands, hefðu störfin flust til þeirra.  Þetta er að mörgu leyti Múhaðmeð og fjallið spurning? 

Er betra að engin keyri strætó en að Pólverjar geri það?  Hvaðan á fólkið að koma til að fullnægja eftirspurninni á íslenskum vinnumarkaði?  Er stefnan að manna þau með því rúmlega 1% sem er á atvinnuleysiskrá?

Hvernig væri staðan, t.d. á Vestfjörðum ef útlendingar hefðu ekki hlaupið undir bagga?

Það er þó rétt að taka það fram, að auðvitað er aðgangur útlendinga að Íslandi stórlega skertur, en það gildir þó ekki um íbúa EES svæðisins, og það eru einmitt þeir sem hafa komið til Íslands, vinna þar mikilvæg störf, greiða sína skatta og skyldur og hafa almennt gott orð á sér.

G. Tómas Gunnarsson, 14.11.2006 kl. 17:32

2 Smámynd: Arnljótur Bjarki Bergsson

Mun Guðmundur keppast við að biðja þá núverandi stuðningsmenn samfylkingarinnar sem um ræðir pent að kjósa ekki samfylkinguna, því hann kæri sig ekki um stuðning þeirra, ég held ekki.

Arnljótur Bjarki Bergsson, 15.11.2006 kl. 09:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband