Færsluflokkur: Heilbrigðismál

Nýsjálenska leiðin?

Ég skrifaði fyrir fáum dögum um "Áströlsku leiðina" í baráttuni við "veiruna".  En nú tala allir um "Nýsjálensku leiðina", og ef ég hef skilið rétt er hafin undirskriftasöfnun slíkr leið til stuðnings.

Margir virðast telja að Nýsjálendingar hafi "einfaldlega lokað landamærunum og lifað hamingjusamir upp frá því".

Svo er þó ekki.  Þar var gripið til fjölmargra mjög harðra aðgerða.

"Lokun" landamæranna er þar vissulega mikilvæg.  En einnig var gripið til umfangsmikilla "lockdowna", þar sem gefnar voru út tilskipanir um bann við því að fara út (stay at home order), nema í nauðsynlegustu erindum, s.s. að kaupa mat og lyf.

Á síðasta ári var "lockdown" frá enda mars, til byrjun júni. Hundruðir ef ekki þúsundir Nýsjálendinga voru sektaðir fyrir að brjóta "lockdownið".

Síðan hefur landið reglulega gripið til harðari samkomutakmarkana og stærsta borgin, Auckland hefur nokkrum sinnið farið í styttri "lockdown, nú síðast yfir mánaðarmótin febrúar/mars 2021.

Það er því alls ekki svo að "lokun" landamæra ein og sér hafi dugað.

Hér má finna sögu takamarkana í Nýja Sjálandi og hvernig mismunandi "Alerts" virka. 2. stigs "Alert" takmarkar mannfjölda t.d. við 100 og 3. stigs við 10 og þá eingöngu fyrir brúðkaup og jarðarfarir.

En það er rétt að taka eftir að mismunandi "Alerts" geta verið í gildi á mismunandi svæðum.  Þannig væri t.d. líklegt að ef reglurnar yrðu yfirfærðar á Ísland, hefðu mun strangari reglur gilt á höfuðborgarsvæðinu en á landsbyggðinni, rétt eins og Auckland hefur þurft að búa við mun meiri takmakanir en önnur svæði á Nýja Sjálandi.

Það getur meira en verið að margir Íslendingar vilji fara "Nýsjálensku leiðina" og ekkert út á slíkt að setja, en það verður að ræða um hana í heild, ekki bara segja að það eigi að "loka landamærunum".

En það verður líka að ræða um afleiðingar eins og lesa má um í viðhengdri frétt, þegar fólk "lokaðist úti"  beið í 400 daga eða þar um bil.

En sjálfsagt finnst mörgum leið Nýsjálendinga athyglisverð, t.d. er aðeins 4. mismundandi stig, þannig að fyrirsjáanleiki er meiri, ekki sama "spennan" um hvað verður á "minnisblaðinu".

En best fyrir Íslendinga að finna sína eigin "leið" og sjálfsagt að leita "áhrifa" víða. 

Hvernig blandast kiwi og hnetusmjör?

P.S. Eitthvað hefur misfarist, því fréttin sem ég hugðist festa þessa færslu við, er hvergi að finna. En hana má finna hér: Fjöl­skyld­ur sam­einaðar eft­ir 400 daga aðskilnað


Það áhugaverðasta sem ég hef lesið í dag

Mér finnst margt áhugavert sem kemur fram í þessari frétt og ég held að margir geri sér ekki grein fyrir því að hvað þáttur Íslenskrar erfðagreiningar, hefur skipt miklu máli fyrir Íslendinga.

Fyrst í skimunum og svo í raðgreiningum.

En ég hafði engin tök á að fylgjast með þessum fyrirlestrum, en í þessari frétt finnst mér tvennt sérstaklega athyglisvert.

Þessi málsgrein finnst mér sérstaklega athyglisverð, haft er eftir Kára:

"Mun­ur­inn á ann­ars veg­ar þess­um miklu ein­kenn­um sem er það sem sjúk­ling­ur­inn kvart­ar und­an og hins veg­ar þess­um ör­fá­um hlut­um sem hægt er að mæla bend­ir til þess að áhrif sýk­ing­ar­inn­ar á and­legt ástand fólks virðist skipta mjög miklu máli," seg­ir hann.

Ég velti fyrir mér hvað þetta þýðir nákvæmlega.

"... að áhrif sýkingarinnar á andlegt ástand fólks virðist skipta mjög miklu máli".

Ég get ekki alveg ákveðið með sjálfum mér hvað þetta þýðir. 

Ég er þó þeirrar skoðunar að vissulega skipti andlegt heilbrigði máli hvað varðar líkamlegt og öfugt.  Ég er orðinn svo gamall að ég man eftir slagorðinu "heilbrigð sál í hraustum líkama", slíkt þótti ekki einu sinni "smánandi þegar ég var að alast upp.

En hvernig hefur "sýkingin áhrif á andlegt ástand"?

Getur það verið (fyrir suma einstaklinga) andlegt áfall að sýkjast af Covid? Getur hræðsla við sjúkdóminn ýkt sýkingu og einkenni sjúkdómsins? Með öðrum orðum veikt ónæmiskerfið?

Ótti og hræðsla er ekki æskilegir félagar í lífshlaupinu og mér finnst ekki ótrúlegt að slíkt geti haft áhrif á heilbrigði, þ.e.a.s. líkamlegt, ég held að fáir efist um hið andlega.

Ég hef reyndar oft velt því fyrir mér þegar fréttir hafa borist af fjölda einstaklinga í smitskimunum, hvað hrjáir allt þetta fólk.

Það hefur komið fram í fréttum að 99%, eða svo af þeim sem hafa komið í skimun á Íslandi, hafa reynst ósmitaðir af Covid.  Hvaða sjúkdómar gáfu þessum fjölda einstaklinga þau einkenni að þeim þótti ástæða að fara í skimun?

Virkilega þess virði að velta þessu fyrir sér.

Hin setningin (og fyrirsögnin) finnst mér einnig athygli virði.  "Hann seg­ir veir­ur alltaf hafa sprottið upp í heim­in­um en ástæðan fyr­ir því að þessi hafi orðið svona stórt vanda­mál sé sú hversu heim­ur­inn er orðinn lít­ill. „Menn eru að fær­ast á milli með svo mikl­um hraða og í svo mikl­um fjölda að ef svona veirupest sprett­ur upp á ein­um stað þá kem­urðu ekki í veg fyr­ir að hún breiðist út um heim­inn með því að setja upp smá girðingu uppi á Holta­vörðuheiði."

Er verulega flóknara að setja upp "girðingu" á Holtavörðuheiði, en á Keflavíkurflugvelli og Seyðisfirði?

Þarf ekki banna ónauðsynleg ferðalög, t.d. má banna bílaumferð einstaklinga um Holtavörðuheiði.  "Nauðsynlegir" ferðalangar sem lenda á Akureyrar- eða Egilstaðaflugvelli eru svo fluttir með rútum á "Sóttkvíarhótel".

Ekki mín tillaga, mér sýnist hún vel framkvæmanleg, skynsamleg er hún þó varla. En ef á að byggja upp veirufrí svæði, gæti hún gagnast.

 

 


mbl.is Girðing á Holtavörðuheiði dugar ekki til
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ástralska leiðin?

Ég fæ það stundum á tilfinninguna að Íslendingar hafi eitthvað óútskýrt blæti fyrir "útlendum leiðum".

En eins og Samfylkingarfólki ætti að vera í fersku minni, reynast þær ekki alltaf eins og lagt er upp með.

Líklega hafa flestir heyrst minnst á "Sænsku leiðina", en hún er til á fleiri en einu sviði, en Portúgalska leiðin (hvað varðar fíkniefni), "Finnska leiðin" í skólamálum, "Skoska leiðin" leiðin í flugsamgöngun hafa einnig verið í umræðunni og fleiri dæmi má líklega finna.

Nú er all nokkuð rætt um "Áströlsku leiðina" í sóttvörnum.

Að því að ég hef séð hefur þó enginn, fjölmiðill eða talsmenn leiðarinnar, haft fyrir því að útskýra hvaða leið Ástralir fóru, nema að sagt að (í stuttri útgáfu) þeir hafi lokað landamærunum, þar séu allir hamingjusamir, borðandi á veitingahúsum og syngjandi á tónleikum.

En Áströlsk yfirvöld hafa gripið til mjög harðra aðgerða hvað varðar landamæraeftirlit.  Ekki eingöngu þurfa allir sem koma til landsins (þeir eru að gera undantekningu nú, hvað varðar Nýsjálendinga) að fara í 14. daga sóttkví undir eftirliti lögreglu/hers, heldur hafa þeir takmarkað þann fjölda sem fær að koma til landsins.

Það kann enda að vera nauðsynlegt til að hafa fulla stjórn á sóttkvíarstandinu.

Þannig hafa aðeins 5000 til 7500 eintaklingar getað komið til Ástralíu í viku hverri, eftir því hvað harðar aðgerðir hafa verið við lýði.

Ástralskir ríkisborgarar, eða þeir sem hafa heimilisfesti þar hafa ekki notið neins forgangs eða sleppa fram hjá þeim kvóta.

Miðað við höfðatöluna margfrægu, reiknast mér til að það samsvari á bilinu 70 til 100 yrði hleypt til Íslands á viku hverri.

Af slíkum kvótum leiða önnur vandamál.  Sökum þess hve fáir mega koma, en flugfélög leitast samt við að halda uppi lágmarksstarfsemi og samgöngum, eru gjarna aðeins hægt að bóka örfáa í hvert flug, en þó notaðar mjög stórar flugvélar, vegna fjarlægðarinnar til áfangastaða.

Mikið er um að 40 til 60 manns séu í hverri flugvél og aðeins seld sæti í "dýrustu klössum".

Sem aftur hefur orðið til þess að aðeins þeir efnameiri hafa efni á sætunum og ferðalög erlendra auðkýfinga og kvikmyndastjarna til Ástralíu, hafa mælst mis vel fyrir á meðal Ástrala, ekki síst þeirra sem hafa ekki efni á að fljúga heim til sín og hafa verið strandaglópar erlendis svo mánuðum skiptir.

Engin sleppur við sóttkví, en kvikmyndastjörnur og auðkýfingar hafa fengið leyfi til að taka út sína sóttkví á búgörðum og lúxus "resortum".

En merkilegt nokk, heyrist mér að málsvara "Áströlsku leiðarinnar" megi á Íslandi ekki hvað síst finna á meðal þeirra sem kenna sig við sósíalisma og stuðngingsmanna fyrrverandi "alþýðuflokka".

En það er allt eins líklegt að slíkar aðgerðir á Íslandi hefðu í för með sér að allar flugsamgöngur, utan fragtflugs og þær flugleiðir sem Ríkissjóður greiddi fyrir, mundu leggjast af.

Talað er um að nú, í kringum ári eftir að reglurnar tóku gildi, sé enn allt að 40.000, Ástralskir ríkisborgarar strandaglópar erlendis, margir búnir að missa atvinnu og búi við þröngan kost.

Þeir hafa leitað til Sameinuðu þjóðanna vegna þess sem þeir telja mannréttindabrot og að Áströlsk yfirvöld brjóti Mannréttindasáttmála samtakanna.

En auðvitað eru skiptar skoðanir um hvort lög, mannréttindi eða annað slíkt sé nokkuð sem þurfi að taka tillit til.

Í janúar síðastliðnum, lækkuðu Áströlsk stjórnvöld vikuleg fjöldan tímabundið, en hleyptu samt inn 1700 tennisspilurum og fylgdarliði þeirra fyrir "Australian Open".

Þeir þurftu í sóttvkí eins og aðrir, en tennisspilarar fengu forgang yfir Ástralska ríkisborgara.

Mér skilst einnig að svo gott sem allar nema nauðsynlegustu samgöngur á milli fylkja í Ástralíu hafi verið bannaðar.

Líklega má færa fyrir því rök að ef Íslandi hefði verið skipt upp í 4 til 5 sóttvarnarsvæði, gætu í það minnsta Norð- og Austlendingar og gott ef ekki Vestfirðingar líka setið á veitingastöðum og sungið á tónleikum, rétt eins og Ástralir.

Spurning sem verður að svara er hins vegar hvort að Íslendingar vilji fara slíkar leiðir og svo má spyrja sóttvarnaryfirvöld hvers vegna þær hafa ekki verið valdar.  Ekki það að ég sé að mæla fyrir þeim.

Persónulega tel varasamt að halda að það sé hægt að "kaupa" pakka að utan, finna bara "töfralausn" sem hægt sé að afrita og allt falli í blóma.

Það sést ef til vill best á þeirri frétt sem þessi færsla er hengd við, þar segir frá baráttu Færeyinga við veiruna.

Þeir virðast í fljótu bragði beita svipuðum vopnum og Íslendingar, en með mikið betri árangri.  "Færeyska leiðin" virðist virka vel, fyrir Færeyinga.

Þar eru líklega að verki einhverjar "breytur" sem blasa ekki við.

Sjálfsagt má líka sitthvað læra af Áströlum, en það er nauðsynlegt að þeirra aðgerðir séu ræddar sem heild og allt komi fram (þessi færsla er ekki heildaryfirlit yfir aðgerðir Ástralskra stjórnvalda).

Þessi færsla byggir á fréttum frá SBS NewsFrance24 og BBC.

P.S. Hitt er svo að þegar þegar stjórnmálamenn, ekki síst ef þeir eru úr Samfylkingunni, boða "töfralausnir", þá tel ég rétt að taka því með miklum fyrirvara.  :-)

 


mbl.is Í Færeyjum er lífið næstum eðlilegt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvernig ættu smit á landamærum að teljast?

Þó að alltaf megi deila um hversu áreiðanlegar talningar og tölulegar upplýsingar sem þessar eru, eru þær þau gagnlegar og gefa vísbendingar sem hægt er að byggja á.

Þó að misjafnlega sé staðið að talningum og skimunum í mismunandi löndum, þá er þetta sannarlega betri en ekkert.

En ég velti því fyrir mér hvernig rökrétt er telja smit sem lönd stöðva á landamærum sínum, rétt eins og gert er á Íslandi.

Ég er eiginlega þeirrar skoðunar að smit á sem eru stöðvuð á landamærum eigi ekki að teljast sem smit í viðkomandi landi.

Ef eitthvað, ættu þau frekar að teljast til landsins sem ferðast er frá.

Þannig eykst hættan af ferðalöngum frá Íslandi ekki við að fjölmargir smitaðir einstaklingar finnist á landamærunum.  Í raun má ef til vill segja þvert á móti.

Það að á annan tug smitaðra einstaklinga finnist um borð í skipi sem kemur til hafnar á Íslandi kallar ekki á frekari aðgerðir á Íslandi, eða gerir Íslenskan ferðamann líklegri líklegri til að bera með sér smit til annars lands.

Það er að segja ef smitin uppgötvast strax og viðeigandi ráðstafanir séu gerðar. (Eins og mér skilst að hafi t.d. tekist vel fyrir Austan.).

Ef flugvél er lent á Keflavíkurflugvelli, vegna þess að einn farþegi hennar hefur veikst og er fluttur á spítala, ætti það ekki að skapa neina hættu á Íslandi (ef vel er að málum staðið, sem ég hef fulla trú á) eða í raun að teljast sem Íslenskt smit.

Ég hugsa að Sóttvarnarstofnunar Evrópu færðist nær því að sýna raunverulega stöðu, ef smit væru talinn á þann máta.

 


mbl.is Ísland grænt á ný
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bóluefni og upplýsingaóreiða

Það hefur mikið verið rætt um upplýsingaóreiðu, falsfréttir og annað í þeim dúr upp á síðkastið, líklega sérstaklega á síðasta ári.

Mikið hefur borið á því að aðilum eins og Rússum, Kínverjum og Írönum séu taldir standa á bakvið óreiðuna og ég tel að vissulega hafi svo verið á stundum.

Það er enda gömul saga og ný að ríki reyni noti margvíslegar aðgerðir til að hafa áhrif í öðrum ríkjum bæði í kosningum sem í öðrum málefnum.

Slíkar tilraunir eru langt í frá bundnar við þau þrjú ríki sem nefnd eru hér að ofan.

En hvað varðar bóluefni og umræðu um þau, sérstaklega í Evrópu, geta Rússar sem aðrir hallað sér aftur og látið sér nægja að fylgjast með umræðunni.

Evrópskir leiðtogar, stjórnmálamenn og vísindamenn hafa alfarið tekið að sér að upplýsingaóreiðina og "vitleysis" fréttirnar.

Fyrst mátti t.d. ekki gefa bóluefni Astra/Zeneca þeim sem voru eldri en 65 ára.  Svo mátti ekki gefa neinum það.

Svo mátti gefa þeim svo voru eldri en 70. ára bóluefni Aztra/Zeneca, svo mátti gefa það körlum á öðrum aldri, en ýmsir vísindamenn segja þó að það sé áhættunnar virði að þyggja títtnefnt bóluefni.

Hverjum viltu trúa?

Svo eru þeir sem segja að bóluefni gefi ekki 100% vörn (sem er líklega rétt), því sé ekki rétt að gefa þeim sem eru bólusettir neinn forgang.

Þannig að þeir sem eru í lítilli hættu á að smitast hagnast lítið sem ekkert á því að láta bólusetja sig, eða er ég að misskilja útreikningana?

Staðreyndin virðist mér vera sú að forsvarsmenn Evrópusambandsins eru gjörsamlega búnir að klúðra bólusetningarmálunum, og með því að "hengja sig" við "Sambandið" deila Íslensk stjórnvöld klúðrinu.

"Faraldurinn" herjar lang verst á Evópulönd.  Þar á eftir i lönd í Ameríku.  Það þarf því enginn að undra að lönd í þeim heimsálfum hafi gengi harðast fram í að tryggja sér bóluefni.

Þó virðast lönd innan Evrópusambandsins (og að hluta EES) hafa gert þau mistök að hafa treyst um of á "miðstýrt apparat" "Sambandsins" sem hefur enga reynslu í slíkum efnum, eða er vant að höndla heilbrigðismál.

Sé afrekaskrá Ursulu Von Der Leyen skoðuð í Varnarmálaráðuneyti Þýskalands, þarf fáum að koma á óvart að hún valdi ekki slíku verkefni.

Sú afrekaskrá byggist ekki hvað síst á því að "ráðast" á þá sem bera ábyrð á mistökunum (rétt eins og Aztra/Zeneca) og fría sjálfan sig.

En hitt er svo rétt að velta fyrir sér, að ef allt það sem sagt hefur verið um bóluefni Astra/Zeneca á mismunandi tímum er rétt, það er ef við göngum út frá því að vísindin byggist á viðbótarþekkingu. 

Hvers vegna í ósköpunum ætti almenningur að sætta sig við að vera þátttakendur í slíkri tilraun, án þess að vera tilkynnt um slíkt fyrirfram og án þess að samþykkis þátttakenda sé aflað?

Er einhver von um að slíkri spurningu sé svarað?

 

 

 


mbl.is Forsætisráðherrar fá efni AstraZeneca
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Forvirkt gæsluvarðhald ólögmætt

Ég get ekki neitað því að mér fannst gleðilegt að heyra að ákvörðun um að að hluti þeirra sem koma til Íslands frá útlöndum þurfi að sæta forvirku gæsluvarðhaldi/sóttkvíarhús hafi verið hnekkt fyrir dómstólum.

Það virðist einfaldlega hafa verið gengið út frá því að ákveðin áhætta væri á því að einstaklingar brytu af sér.

Sú meginregla réttaríkja að í það minnsta rökstuddur grunur þurfi að vera um afbrot, til að megi svipta einstaklinga frelsi var að engu hafður.

Það virðist hafa verið talin hætta á að viðkomandi einstaklingar brytu af sér.  Gæsluvarðhald/sóttkví verður því talin forvirk aðgerð.

Vissulega geta verið rök fyrir því að gera ákveðnar kröfur til dvalarstaðar þeirra sem ætlað er að vera í sóttkví.

Það kann jafnvel að vera talið sé nauðsynlegt að haft sé eftirlit með þeim sem í sóttkví dvelja.

Allt þarf það þó að byggjast á lögum.

Það er hálf skrýtið að sjá alla þá sem hafa stigið fram og talið að lögmenn og dómstólar ættu að fara eftir einhverju öðru en þeim lögum sem gilda í landinu.

Að lög gildi í landinu eða að grundvallarregla sé að einstaklingar séu saklausir þangað til sekt sé sönnuð, hvað þá að ekki sé ástæða til að refsa þeim sem ekkert hafa brotið af sér, virðist ekki vefjast fyrir þeim sem þannig tala.

 

 

 

 

 

 


mbl.is „Ég finn alveg rosalega mikið traust“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stórhættulegir bólusettir ferðamenn, en "litakóði" í lagi?

Það er býsna merkilegt að fylgjast með umræðum um hvort að óhætt sé að hleypa bólusettum einstaklingum sem koma utan Schenge svæðisins inn til Íslands.

Það er rétt að hafa í hyggju að eingöngu er að ræða um bóluefni sem hafa hlotið samþykki innan Evrópusambandsins sem Ísland hefur ákveðið að tengja sig við, sem vissulega væri þarft að ræða.

Skyldu þingmenn eins og t.d. Guðmundur Andri, telja að bólusettur einstaklingur frá Bretlandi sé hættulegri en bólusettur einstaklingur frá Belgíu?

Er bólusettur Íri hættulegri en bólusettur Lithái? 

Er það ekki bólusetninging sem skiptir máli fremur en búsetan?

Hins vegar er sú ákvörðun að leyfa íbúum á Scengen svæðinu að koma til Íslands byggt á "litakóðum" skiljanleg, en þó mikið umdeilanlegri.

En þá bregður svo við að stór hluti stjórnarandstöðunnar lætur sig það littlu skipta, enda í raun verið að framselja vald til að ákvaða hverjir geti komið til Íslands í hendur stofnunar Evrópusambandsins.  

Og í mörgum flokkum stjórnarandstöðunnar þykir ekki tilhlýðilegt að tala á móti slíku fyrirkomulagi.

Þannig blandast saman pólítík og sóttvarnir, þó að flestir reyni að klæða slíkt í "vísindalegan búning".

Það er hins vegar flestum ljóst að "litakóðinn" byggir á hæpnum grunni, enda ekki til nein ein aðferð sem notuð er til skrásetningar á þeim tölum sem hann byggir á.

Skimanir eru mis víðtækar, og "áreiðanleiki" heilbrigðiskerfa einnig.

En allir vilja trúa vísindamönnunum, bara ekki nauðsynlega þeim sömu, enda skoðanir þar skiptar eins og víða annars staðar.

En það styttist vissulega í kosningar.

P.S. Hér má hlusta á viðtal við Guðmund Andra á Bylgjunni um málið.  Þar hamrar hann enn á því vafasamt sé að hleypa einstaklinum utan Schengen svæðisins til Íslands, en ekkert er talað um "litakóðann" væntanlega.

Þar er haft eftir Guðmundi Andra í fyrirsögn, að hann vilji að "Þórálfur" ráði þessu.  Ég ætla ekki að dæma um hvort að þar er um "Freudian slip" að ræða hjá þeim Bylgjumönnum.

 

 

 


mbl.is Brot á sóttvarnalögum eða eðlileg ráðstöfun?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Útöngubanni hafnað í Noregi

Ég get ekki annað en fagnað þesaari niðurstöðu.  Ég get ekki séð rök fyrir því að Norsk stjórnvöld þurfi á heimild til að setja á útgöngubann að halda.

Það er erfitt að sjá fyrir sér þær kringumstæður sem slíkt yrði nauðsynlegt.

Útgöngubann hefur enda í gegnum söguna helst verið notað af hernámsyfirvöldum hér og þar um heiminn.

Líklega er það ekki síst sú saga sem hefur fengið Norðmenn til að tala gegn lagasetningu um útgöngubann.

Reyndar eru útgöngubönn í gildi hreint ótrúlega víða í faraldrinum, en það er önnur saga.

Hitt er svo að ef að stjórnvöld njóta trausts almennings er líklegt að tilmæli um að halda sig heima og fara ekki út muni ná til yfirgnæfandi meirihluta íbúanna, hvort sem er í Noregi eða annars staðar.

En eing og í mörgum öðrum tilfellum er traust, upplýsingar og fræðsla lykilatriði og mun vænlegri leið en bönn og lagasetningar.

 

 

 


mbl.is Útgöngubannið kolfellt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ef sala og auglýsingar "fíkniefna" væri lögleg en ekki neysla þeirra.

Ef sala fíkniefnum væri lögleg á Íslandi, en neysla þæirra væri refsiverð mætti líklega lesa svipaða frétt og þá sem hér fer á eftir á Íslenskum miðlum.
 
Á fimmta tug manna hafa nú réttarstöðu sakbornings vegna kaupa á fíkniefnum  á höfuborgarsvæðinu eftir umfangsmiklar aðgerðir lögreglunnar í desember. Fylgst var með auglýsingum 11 fíkniefnaasala í nokkrar vikur. Engin fíkniefnasalanna sagðist vera fórnarlamb mansals í skýrslutöku hjá lögreglu. Sakborningar eiga yfir höfði sér sektir og eða dóm eftir alvarleika brotanna. 
 
Í desember síðastliðnum réðst lögreglan á höfuðborgarsvæðinu í umfangsmiklar aðgerðir við að kortleggja framboð á fíkniefnum. Leitað var að auglýsingum hjá meintum fíkniefnasölum og unnið út frá þeim.
Einar Guðberg Jónsson, lögreglufulltrúi segir að á fimmta tug manna hafi nú réttarstöðu sakbornings.
„Það voru einhverjir handteknir í þessum aðgerðum, en ég er því miður ekki með tölurnar á því en það voru ekki margir. Yfirheyrslur yfir þessum mönnum sem njóta réttarstöðu sakbornings eru nú á lokametrunum.“
Málunum lyktar með sektum og eða dómi eftir alvarleika brota.
„Þetta voru 11 auglýsingar sem við fylgdum eftir. Við ræddum við nokkra af þeim fíkniefnasölum sem að voru á bak við þær auglýsingar. Engin þeirra taldi sig í viðtölum við lögreglu vera fórnarlamb eins né neins og ekki fórnarlömb mansals og allir neituðu því að einhver þriðji aðili væri að hagnast á þeirra starfsemi. Þeir sögðust allir vera hér af fúsum og frjálsum vilja. Og þær sem við töluðum við þá viðurkenndu allir að vera hér til þess eins að stunda fíkniefnasölu. Þeir voru allir af erlendu bergi brotnir þeir sem við töluðum við.“
Lögreglan fer reglulega í aðerðir sem þessar til að fylgjast með málum.
„Og við munum alveg klárlega halda því áfram efir því sem fram vindur.“

 

Þessi frétt er tekin af vef RUV, en í stað vændisseljenda er sett fíkniefnaseljendur.

Hvernig skyldi ástandið vera á Íslandi ef það væri löglegt að selja fíkniefni en ekki að neyta þeirra?

Hvað ef fíkniefnasalar gætu starfað þar óáreittir, auglýst þjónustu sína án vandkvæða, en lögregla fylgdist með auglýsingum og handtæki þá sem vildu kaups sér efni?

Þetta er svo kölluð "Sænsk leið" sem er í gildi á Íslandi.

Það er löglegt að selja, það er löglegt að auglýsa, en það þeir sem "neyta" eru sakfelldir.

Er það rökrétt?

Er ekki rökréttara að annaðhvort sé starfsemi lögleg, eða allar hliðar hennar séu bannaðar?

Skyldu einhverjir þeirra sem nú eru ákærðir fyrir vændiskaup fá vægari dóm á þeirri forsendu að þeir séu kynlífsfíklar?

Er rökrétt að refsa fíklum?

Eykur framboð eftirspurn?

Er það bara eftirspurnin sem drífur áfram framboðið?

Hefur framboðið aukist eða minnkað eftir að framboðshliðin var gerð lögleg?

En eftirspurnin?

Það má ekki auglýsa áfengi, en það má selja og  neyta þess á Íslandi.

Það má selja og auglýsa vændi á Íslandi, en ekki "neyta" þess?

Það má ekki selja, auglýsa eða neyta "fíkniefna" (nema auðvitað áfengis, kaffis, tóbaks, sykurs o.s.frv., eftir skoðun hvers og eins) á Íslandi.

Vill einhver rökstyðja þetta í athugasemdum?

P.S. Bætt við 20. febrúar. 

Það er varla hægt annað en að velta því fyrir sér, hvort að í miðjum faraldri, lögreglan hafi gengið úr skugga um að vændisseljendur hafi virt sóttkví, grímuskyldu og aðrar sóttvarnarreglur sem giltu í desember.

En líklega er auðveldara að reka vændissölu á Íslandi, en að hafa opinn "pub".

 

 


Að dæsa yfir Pfizer, bóluefni og siðferði

Í sjálfu sér þarf það ekki að koma neinum á óvart (og allra síst svona eftir á, lol) að Pfizer hafi ekki þótt það fyrirhafnarinnar virði að efna til rannsóknar á Íslandi.

Eftirspurnin eftir bóluefni er næg.  500.000 skammtar eru líklega nokkra miljarða (ISK) virði.

Þess utan, þegar framleiðslugetan er takmörkuð og ríki og ríkjasambönd allt að því hóta bóluefnaframleiðendum og "reida" verksmiðjur þeirra, þá verður að stíga varlega til jarðar.

Ég er einnig sammála því að því er líklega (ég er nú langt frá því sérfræðingur) lítið rannsóknargildi í því að bólusetja þjóð þar sem sárafáir hafa veikst og smit eru fá.  Hvernig leiðir slók rannsókn fram gagnsemi bólusetningar?

Ja, ekki nema að hugsunin hafi verið að flytja inn smitaða einstakinga gagngert til að sjá hvernig bólusetningin virkaði.

Sem félags- eða mannfræðirannsókn hefði það hins vegar líklega verið áhugavert, það er að sjá hvernig hegðun og upplifun heillar þjóðar hefði hugsanlega breyst.

En rannsóknin í Ísrael virðist ganga vel og þar má sjá beinan árangur af bólusetningum ef marka má fréttir.  Þó er merkilegt að lesa að smitum fjölgi samhliða því sem fjöldi bólusettra eykst.

Ef til vill má rekja það til bjartsýns atferlis í kjölfar bólusetningar, en um slíkt er erfitt að fullyrða.

Það sem ég á hins vegar erfiðara með að skilja (þó að ég sé meðvitaður um ýmis þau rök sem fram eru færð), er sá siðferðislegi "vinkill" sem mátt hefur heyra nokkuð víða, í fræðasamfélaginu og einnig í hinu pólítíska.

Þá er spurt hvort að réttlætanlegt sé að Íslendingar "fari fram fyrir í röðinni" og yrðu hugsanlega bólusettir á undan öðrum þjóðum.

Þá er ef til vill rétt að velta fyrir sér hvort að Íslendingar hafi hikað við að "fara fram fyrir í röðinni" hingað til?

Nokkurn veginn á sama tímabili og liði hefur frá því að einhver svakalegasti heimsfaraldur (Spænska vekin) geysaði, hafa Íslendingar stigið fram á við, frá því að vera á meðal fátækari þjóða heims til þess að vera á meðal hinna best settu.

Á þeim tíma hafa Íslendingar "farið fram fyrir í röðinni" og menntað íbúa sína betur en flestar aðrar þjóðir.

Íslendingar hafa fjárfest í heilbrgðiskerfi sínu sem hefur sett þá "framar í röðina" en flestar aðrar þjóðir.

Er það siðferðislega rangt?

Fjárfest hefur verið í menntun og tækjabúnaði sem margar aðrar þjóðir hafa ekki, sem t.d. hefur leitt af sér að ungbarnaadauði hefur snarminnkað og lífslíkur Íslensku þjóðarinnar hafa aukist.

Er að siðferðislega rangt?

Miklum fjármunum hefur verið varið til forvarna og lækninga á hinum ýmsu krabbameinum, sem hefur stórlega aukið líflíkur þeirra sem slík mein hrjá á Íslandi.  En vissulega standa krabbameinssjúklingum í mörgum öðrum löndum ekki til boða sömu úrræði.

Er það siðferðislega rangt?

Flestir Íslendingar eru bólusettir við fjölda sjúkdóma, jafnvel þó að íbúum ýmissa annara landa standi slíkt ekki til boða (og alls ekki án gjalds) sömu bólusetningar.

Er það siðferðislega rangt?

Auðvitað er það vinsælt (og Woke, lol) að tala í sífellu um sjálfan sig sem "forréttindapakk", en staðreyndin er sú að vissulega er gæðum heimsins misskipt.

Íslendingar (eins og margar aðrar þjóðir) hafa notað þann auð sem skapast í landinu til að setja íbúa sína "fram fyrir í röðinni" í mörgum efnum.

Er það siðferðislega rangt?

Að þessu sögðu er að sjálfsögðu eðlilegt að Íslendingar hjálpi fátækari þjóðum með að kaupa bóluefni.

En ég hygg að Íslendingar vilji flestir að Íslenskir hagsmunir séu settir ofar alþjóðlegum, ella væri jú rökrétt að Íslenskum fiskimiðum væri deilt út á milli þjóðanna eftir fólksfjölda eða efnahag.

 

 

 


mbl.is Rannsókn Pfizer í Ísrael lofar góðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband