Ástralska leiðin?

Ég fæ það stundum á tilfinninguna að Íslendingar hafi eitthvað óútskýrt blæti fyrir "útlendum leiðum".

En eins og Samfylkingarfólki ætti að vera í fersku minni, reynast þær ekki alltaf eins og lagt er upp með.

Líklega hafa flestir heyrst minnst á "Sænsku leiðina", en hún er til á fleiri en einu sviði, en Portúgalska leiðin (hvað varðar fíkniefni), "Finnska leiðin" í skólamálum, "Skoska leiðin" leiðin í flugsamgöngun hafa einnig verið í umræðunni og fleiri dæmi má líklega finna.

Nú er all nokkuð rætt um "Áströlsku leiðina" í sóttvörnum.

Að því að ég hef séð hefur þó enginn, fjölmiðill eða talsmenn leiðarinnar, haft fyrir því að útskýra hvaða leið Ástralir fóru, nema að sagt að (í stuttri útgáfu) þeir hafi lokað landamærunum, þar séu allir hamingjusamir, borðandi á veitingahúsum og syngjandi á tónleikum.

En Áströlsk yfirvöld hafa gripið til mjög harðra aðgerða hvað varðar landamæraeftirlit.  Ekki eingöngu þurfa allir sem koma til landsins (þeir eru að gera undantekningu nú, hvað varðar Nýsjálendinga) að fara í 14. daga sóttkví undir eftirliti lögreglu/hers, heldur hafa þeir takmarkað þann fjölda sem fær að koma til landsins.

Það kann enda að vera nauðsynlegt til að hafa fulla stjórn á sóttkvíarstandinu.

Þannig hafa aðeins 5000 til 7500 eintaklingar getað komið til Ástralíu í viku hverri, eftir því hvað harðar aðgerðir hafa verið við lýði.

Ástralskir ríkisborgarar, eða þeir sem hafa heimilisfesti þar hafa ekki notið neins forgangs eða sleppa fram hjá þeim kvóta.

Miðað við höfðatöluna margfrægu, reiknast mér til að það samsvari á bilinu 70 til 100 yrði hleypt til Íslands á viku hverri.

Af slíkum kvótum leiða önnur vandamál.  Sökum þess hve fáir mega koma, en flugfélög leitast samt við að halda uppi lágmarksstarfsemi og samgöngum, eru gjarna aðeins hægt að bóka örfáa í hvert flug, en þó notaðar mjög stórar flugvélar, vegna fjarlægðarinnar til áfangastaða.

Mikið er um að 40 til 60 manns séu í hverri flugvél og aðeins seld sæti í "dýrustu klössum".

Sem aftur hefur orðið til þess að aðeins þeir efnameiri hafa efni á sætunum og ferðalög erlendra auðkýfinga og kvikmyndastjarna til Ástralíu, hafa mælst mis vel fyrir á meðal Ástrala, ekki síst þeirra sem hafa ekki efni á að fljúga heim til sín og hafa verið strandaglópar erlendis svo mánuðum skiptir.

Engin sleppur við sóttkví, en kvikmyndastjörnur og auðkýfingar hafa fengið leyfi til að taka út sína sóttkví á búgörðum og lúxus "resortum".

En merkilegt nokk, heyrist mér að málsvara "Áströlsku leiðarinnar" megi á Íslandi ekki hvað síst finna á meðal þeirra sem kenna sig við sósíalisma og stuðngingsmanna fyrrverandi "alþýðuflokka".

En það er allt eins líklegt að slíkar aðgerðir á Íslandi hefðu í för með sér að allar flugsamgöngur, utan fragtflugs og þær flugleiðir sem Ríkissjóður greiddi fyrir, mundu leggjast af.

Talað er um að nú, í kringum ári eftir að reglurnar tóku gildi, sé enn allt að 40.000, Ástralskir ríkisborgarar strandaglópar erlendis, margir búnir að missa atvinnu og búi við þröngan kost.

Þeir hafa leitað til Sameinuðu þjóðanna vegna þess sem þeir telja mannréttindabrot og að Áströlsk yfirvöld brjóti Mannréttindasáttmála samtakanna.

En auðvitað eru skiptar skoðanir um hvort lög, mannréttindi eða annað slíkt sé nokkuð sem þurfi að taka tillit til.

Í janúar síðastliðnum, lækkuðu Áströlsk stjórnvöld vikuleg fjöldan tímabundið, en hleyptu samt inn 1700 tennisspilurum og fylgdarliði þeirra fyrir "Australian Open".

Þeir þurftu í sóttvkí eins og aðrir, en tennisspilarar fengu forgang yfir Ástralska ríkisborgara.

Mér skilst einnig að svo gott sem allar nema nauðsynlegustu samgöngur á milli fylkja í Ástralíu hafi verið bannaðar.

Líklega má færa fyrir því rök að ef Íslandi hefði verið skipt upp í 4 til 5 sóttvarnarsvæði, gætu í það minnsta Norð- og Austlendingar og gott ef ekki Vestfirðingar líka setið á veitingastöðum og sungið á tónleikum, rétt eins og Ástralir.

Spurning sem verður að svara er hins vegar hvort að Íslendingar vilji fara slíkar leiðir og svo má spyrja sóttvarnaryfirvöld hvers vegna þær hafa ekki verið valdar.  Ekki það að ég sé að mæla fyrir þeim.

Persónulega tel varasamt að halda að það sé hægt að "kaupa" pakka að utan, finna bara "töfralausn" sem hægt sé að afrita og allt falli í blóma.

Það sést ef til vill best á þeirri frétt sem þessi færsla er hengd við, þar segir frá baráttu Færeyinga við veiruna.

Þeir virðast í fljótu bragði beita svipuðum vopnum og Íslendingar, en með mikið betri árangri.  "Færeyska leiðin" virðist virka vel, fyrir Færeyinga.

Þar eru líklega að verki einhverjar "breytur" sem blasa ekki við.

Sjálfsagt má líka sitthvað læra af Áströlum, en það er nauðsynlegt að þeirra aðgerðir séu ræddar sem heild og allt komi fram (þessi færsla er ekki heildaryfirlit yfir aðgerðir Ástralskra stjórnvalda).

Þessi færsla byggir á fréttum frá SBS NewsFrance24 og BBC.

P.S. Hitt er svo að þegar þegar stjórnmálamenn, ekki síst ef þeir eru úr Samfylkingunni, boða "töfralausnir", þá tel ég rétt að taka því með miklum fyrirvara.  :-)

 


mbl.is Í Færeyjum er lífið næstum eðlilegt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Það hefur jú löngum verið þannig að ríkidæmi og/eða frægð setur fólk skör ofar en "meðalmennin", og á þessari efri skör gilda einfaldlega önnur lögmál og reglur en neðan við hana.

Þess vegna sækist fólk eftir ríkidæmi og frægð - ekki til að geta keypt sér allt sem hugurinn girnist heldur til þess að verða partur af "Herrenvolk" nútímans.

Athugaðu að þetta hefur ekkert með pólitík að gera. Síst af öllu íslenska flokkapólitík. Sennilega hefur þetta eitthvað að gera með mannlegt eðli. Þetta hefur í gegnum tíðina birst í hugmyndinni um guði, t.d. grísku guðina og norrænu goðin (og núna í bandarískum ofurhetjumyndum og hugmyndinni um afreksíþróttafólk) að ekki sé nú minnst á hugmyndina um Guð almáttugan og himnaríkið hans, sem bara sumir komast inn í.

Kristján G. Arngrímsson, 19.4.2021 kl. 16:24

2 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kristján, þakka þér fyrir þetta. Það segir sig nokkuð sjálfst að það er þungt fyrir almúgafólk að kaupa sér flugfar á allt að eina og hálfa milljón, og bæta svo við 300.000, króna reikningi við fyrir sóttkví.

Svo ekki sé minnst á "fjölskyldureikning".

Að auka kostnaðinn með "búgarðsgistingu" eða lúxus "resortum" er ekki eitthvað sem hvarflar að mörgum.

En allt er þetta partur af "Áströlsku leiðinni".

En sumir pólítíkusar virðast ginkeyptari en aðrir fyrir "patent lausnum".  Það þarf "bara" að finna "töfralausn", eitthvað sem hljómar vel.

Hefur eitthvað komið fram í umræðum um "Áströlsku leiðina" á Íslandi, en að Ástralir séu "elskusáttir"?

En stundum eiga stjórnmálamenn til að vera svo uppteknir við sð "selja" kostina að þeim þykir ekki taka því að minnast á gallana.

G. Tómas Gunnarsson, 19.4.2021 kl. 16:51

3 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Ég hafði reyndar ekki heyrt minnst á þessa "áströlsku leið" fyrr en hjá þér núna. En hvað þessi frasi nákvæmlega merkir er kannski ekki alveg á hreinu, t.d. mætti ímynda sér að við fáum "áströlsku leiðina - Icelandic edition", hvað sosum það myndi fela í sér.

Allt um það er líklegt að um ríka og fræga gildi aðrar reglur, sbr. það sem ég skrifaði í fyrstu athugasemdinni. 

Annars er ég alveg sammála gagnrýni þinni á ginnkeypni (er það orð?) pólitíkusa á töfralausnir. Eitthvað sem hljómar vel og einfalt. En eins og við vitum er raunveruleikinn það sjaldnast.

Kristján G. Arngrímsson, 19.4.2021 kl. 17:12

4 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kristján, þakka þér fyrir þetta. Sumir hafa þar sem ég hef heyrt talað um "Ástralska leið" aðrir tala um fyrirmyndar sóttvarnir í Ástralíu og Nýja Sjáland er oft haft með í umræðunni. Stundum hefur verið talað um "Asíska leið".

Þetta hefur verið sérstaklega áberandi í umræðunni um "harða lokun" á landamærunum.  Því verður enda varla móti mælt að lokunin er "grjóthörð".

Eins og með marga aðra frasa þá er oft óljóst hvað býr að baki þeim, og því fannst mér þörf á að tala frekar um sóttvarnaraðgerðir í Ástralíu og hvaða áhrif þau hafa haft.

Eins og alls staðar annars staðar er það mjög mismunandi á milli hópa.

Ég held að í þessu eins og mörgu öðru, þurfi Íslendingar að finna "Íslensku leiðina".

Hvers vegna er svona mismunandi árangur af svipuðum aðgerðum í Færeyjum og Íslandi?

Það er reyndar áberandi víða um lönd finnst mér hvað svipaðar aðgerðir skila mismunandi niðurstöðum í baráttu við veiruna.  En að hluta til getur það verið vegna þess að upplýsingar vantar í púslið.

Hvernig tækju Íslendingar því er að vinir og ættingjar sem hefðu verið staddir á ferðalögum þegar landamærin hefðu lokast í fyrra (ef sú leið hefði verið farin) hefðu ekki enn komist heim?

Eftir því sem ég heyri frá mínum kunningjum, er vaxandi óþol í Ástralíu, ekki síst vegna slælegrar frammistöðu yfirvalda í bólusetningum.

Þar hafa einungis verið gefnar 6 sprautur per 100 íbúa, á móti t.d. 28 á Íslandi og finnst Íslendingum hægt ganga.  Nýja Sjáland er með 2.8.

https://www.nytimes.com/interactive/2021/world/covid-vaccinations-tracker.html

En umfram allt er æskilegt og nauðsynlegt að ræða málin og sem mest of upplýsingum komi fram.

G. Tómas Gunnarsson, 19.4.2021 kl. 18:00

5 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Takk fyrir góðan pistil. Það er mikilvægt að einhverjir sinni því hlutverki að upplýsa fólk, því ekki gera yfirvöld það, né heldur fjölmiðlar, því miður.

Þorsteinn Siglaugsson, 19.4.2021 kl. 18:06

6 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Ef "ástralska leiðin" merkir fyrst og fremst stífa lokun landamæra þá myndi ég vera fylgjandi því. Að minnsta kosti að þeir sem fá að koma til landsins verði lokaðir inni á lúxushóteli á meðan þeir eru í sóttkví og verði skimaðir í bak og fyrir.

Að tala um að þetta væru brot á réttindum er náttúrulega bara eitthvað sem yrði að engu þegar á reyndi. En við erum sosum búnir að ræða þetta.

Hugsanleg bylgja sem nú er í uppsiglingu hérna með tilheyrandi skerðingum og lokunum er rakin til þess að heimasóttkví var ekki virt. Sá hinn sami hefði betur verið lokaður inni á lúxushótelinu.

Kominn tími til að sækja heygafflana, er ég hræddur um. Alveg eins og einstaklingarnir eiga rétt á því að vera ekki kúgaðir af samfélaginu þá á samfélagið rétt á að verja sig gegn siðlausum einstaklingum.

Kristján G. Arngrímsson, 19.4.2021 kl. 18:22

7 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

PS: í öllu þessu endalausa tali um réttindi einstaklingsins vill alveg fara forgörðum að nefna óteljandi raunveruleg dæmi um einstaklinga sem í krafti réttinda sinna valda heilum samfélögum óheyrilegu tjóni. Gleggsta dæmið er náttúrulega stjórnarskrárvarinn réttur Bandaríkjamanna til að bera skotvopn. Dæmin sanna að Bandaríkin eru samfélag (eða samfélög) þar sem þessi réttur væri betur afnuminn. 

Til eru - að mér skilst - samfélög þar sem byssueign er almennt meiri en í USA og rétturinn til að eiga þau ekkert minni (einhver nefndi Sviss, skal þó ekki fullyrða um það) en samt eru dauðsföll af völdum skotvopna hvergi nærri jafn tíð og í USA.

Afsakaðu að ég fer svona langt út fyrir efnið.

Kristján G. Arngrímsson, 19.4.2021 kl. 18:28

8 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Þorsteinn, þakka þér fyrir þetta.

@Kristján, þakka þér fyrir þetta. En "Ástralska leiðin" í sóttvörnum er ekki bara "lokin landamæranna", heldur að neita ríkisborgurum um að snúa heim, nema samkvæmt kvótum sem sprengja upp ferðakostnað o.s.frv.  "Ástralska leiðin" er bann við ferðalögum á milli fylkja o.s.frv.

Þegar verið að að bera saman aðgerðir í löndunum tveimur, eða verið að hvetja til að "gera eins" og Ástralir, þá er áríðandi að allar upplýsingar komi fram eins og mögulegt er.

Það er hægt að setja lög um alls kyns efni, en áríðandi að þeim sé fylgt.  Mannréttindi "hverfa" ekki heldur í einu vettfangi.

Slíkt þarf að gera með lögum, en það eru víst skiptar skoðanir um hvort að slíkar lagabreytingar (svipting mannréttinda) séu innanríkismál eða ekki.

Hvað varðar skotvopn er nú eitthvað málum blandið um stjórnarskrárvarðan rétt Bandaríkjanna til vopnaburðar, enda hafa mörg ríki sett kaupum og meðhöndlun vopna margvísleg skilyrði.  Það er þó ekki saman að ríki með ströngustu reglurnar séu með færri morð.

Svissneskur kunningi minn er með hríðskotarifil á heimilis sínu, var sendur með hann heim úr herþjónustunni.  Þannig skilst mér að sé ástatt með marga, ef ekki flesta Svissneska karlmenn sem hafa lokið skyldunni.

Þó er morðtíðni þar (höfðatala) örlítið lægri en á Íslandi. Á sama mælikvarða eru morð algengari á Grænlandi en í Bandaríkjunum, en ég þekki ekki til stjórnarskrármála í Grænlandi.

Ísland er almennt talið mjög ofarlega hvað varðar hlutfallslega skotvopnaeign.  Ef ég man rétt oft talið á top20 í heiminum hvað það varðar.

Síðasti listi sem ég sá hafði Ísland ofar en Sviss. En ég hugsa að það sé verulega auðveldara að verða sér út um ólögleg vopn í Bandaríkjunum en á Íslandi eða í Sviss.

G. Tómas Gunnarsson, 19.4.2021 kl. 19:15

9 identicon

Held að það sé ekki stemning fyrir að fara svona róttækar leiðir hér, helst að það sé frekar í myndinni að reyna að tryggja eitthvað betur að menn virði fimmdaga sóttkvína. T.d. má (held ég) ekki banna íslenskum ríkisborgurum að koma heim.

Ég hef ekki tekið eftir öðru en nokkuð almennum stuðningi við aðgerðir stjórnvalda hér, en kannski finnst mér það bara af því mér hefur sjálfum fundist þeim takast yfirleitt vel til.

ls (IP-tala skráð) 19.4.2021 kl. 21:57

10 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Ég hugsa að ef ríkisstjórnin nær því í gegnum þingið að skylda skuli alla til varðhalds á lúxushótelinu eftir komu til landsins muni kjósendur verðlauna það í haust.

Nú virðist allt benda til að einn einstaklingur - í krafti réttar síns til heimasóttkvíar - hafi byrjað næstu bylgju smita hérlendis. Sem betur fer verður nafn "smitdólgsins" ekki gefið upp.

Mér finnst eiginlega alveg eðlilegt að samfélagið verndi sig gegn svona einstaklingum. 

Kristján G. Arngrímsson, 19.4.2021 kl. 22:30

11 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

 @ls, þakka þér fyrir þetta. Ég ætla ekki að dæma "stemninguna" á Íslandi, en flestir þeir sem ég er í sambandi við hafa engan áhuga á svo róttækum aðgerðum.

En er ekki partur af vandamálinu sem enginn virðist þora á nefna, nema Kári Stefánsson, að "Troikunni" og Íslenskum yfirvöldum virðist ekki hafa tekist að "tengja" við Pólska samfélagið á Íslandi?

Svo virðist vera ef marka má "vínviðinn" og einstaka fjölmiðla.

Hvernig er best að leysa slíkt vandamál?

Með því að setja alla þá sem hafa stigið um borð í flugvél eða millilandaskip í "varðhald" á "lúxushóteli", eða er möguleiki á öðrum lausnum?

Ég er alveg sammála Kára í því að þetta er ekki ástæða til "heykvíslarviðbragða" gegn Pólverjum, en oft gefst vel að horfast í augu við vandamálið og reyna að glíma við það.

@Kristján, þakka þér fyrir þetta.  Er frekari ástæða til að brotamenn gegn sóttvörnum, njóti nafnleyndar eða verndar, frekar en aðrir brotamenn?

Er rétt að vernda hann en refsa öllum þeim sem ekki brjóta af sér?  Er það ekki einhver þversögn fólgin í því?

Þeim sem virða lögin er refsað, en brotamennirnir eru verndaðir?  Fær þetta þig ekki til að "pússa heygaffalinn"?

G. Tómas Gunnarsson, 20.4.2021 kl. 00:46

12 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Því má svo bæta við hér að þúsundir Íslendingar virðast brjóta reglur um "einangrun" þessa dagana.

https://www.mbl.is/frettir/innlent/2021/04/19/einangrun_thar_til_nidurstada_berst_ur_synatoku/

Er ekki best að moka "þessu liði sem ekki getur farið eftir reglum" í "fyrirbyggjandi gæsluvarðhald"?

Það þarf ekki nema eitt smit?

Það lýtur út fyrir að "guð hafi blessað Ísland", með öllum þessum hótelum.

G. Tómas Gunnarsson, 20.4.2021 kl. 01:02

13 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Að nafngreina "smitdólginn" væri soldið að byrgja brunninn þegar barnið er dottið ofan í, ekki satt?

Málið snýst um forvarnir, ekki hefndir. Honum verður vísast refsað, en látum lögregluna og dómstóla um það, ekki múginn.

En ég átta mig ekki á því hvað Pólverjarnir hérna koma málinu við? Áttu við að það séu þeir sem bera smitin til landsins?

Kristján G. Arngrímsson, 20.4.2021 kl. 07:38

14 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Hann Gallup hefur sennilega manna mesta reynslu og þekkingu í því að taka púlsinn á þjóðinni þannig að ég mynd telja eitthvað að marka þetta:

https://www.ruv.is/frett/2021/04/20/um-62-prosent-landsmanna-vildu-sottkviarhotelskyldu

En vissulega, ef þú gerðir könnun meðal þeirra sem tjá sig hérna á blog.is yrðu útkoman allt önnur held ég - þetta hérna er sýnist mér einn helsti vettvangur þeirra sem eru á móti sóttvarnaaðgerðum, skal ekki segja hvers vegna.

Kristján G. Arngrímsson, 20.4.2021 kl. 10:26

15 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kristján, þakka þér fyrir þetta. Gilda einhver önnur lögmál um þessi afbrot en önnur?

Eru þeir sem brjóta lög ekki jafnan sektaðir, fangelsaðir og nafngreindir eftir að þeir hafa brotið af sér?

Til að refsingar hafi "forvarnargildi" þarf að láta vita af þeim og þeim sé beitt.

En á þá í þessu tilfelli að treysta á lögin en ekki múginn?

Þarf þá Gallup könnun til að ákveða hvort ætti að segja frá nafni brotamanna? 

Í gær sá ég "æsta í athugasemdum" tala um sóttvarnarbrot eins hryðjuverk gegn þjóðinni.  Heldur þú að þeir séu þeirrar skoðunar að ekki eigi að nafngreina hryðjuverkamenn?

Ég tel reyndar afar líklegt að að Gallup könnun hefði leitt í ljós að meirihluti þjóðarinnar hefði talið að "Lúkas hefði verið myrtur á grimmilegan máta", en það er önnur saga.

Kári hefur í það minnsta 2. talað um þátt Pólverja og Póllands hvað varðar smithættu og útbreiðslu smita.

Ég man ekki betur en í fyrst sinn sem ég heyrði hann tala um þetta hafi verið í Kastljósinu. Fylgist þú ekkert með RUV?

https://www.mannlif.is/frettir/naestum-allir-sottkviarbrjotar-eru-utlendingar-sem-starfa-her-og-kari-segir-thad-okkur-ad-kenna/

https://www.visir.is/g/20212089617d

https://stundin.is/grein/13278/tengir-smit-vid-einstaklinga-sem-ekki-hafi-verid-adlagadir-ad-samfelaginu/

https://www.ruv.is/frett/2021/03/24/hatt-hlutfall-smita-vegna-folks-sem-ferdast-vegna-bota

Þetta er nú svona það sem tók mig 30 sec að finna á með aðstoð Hr. Google.  Sjálfsagt má finna fleira.

Ég held að þú þurfir að lesa fleiri blogg hér, mér sýnist meirihluti þeirra vera fyljgandi "sóttkvíarhóteli" og hörðum aðgerðum.

En sú afstaða þeirra klagar ekkert upp á mig, enda blog.is, í mínum augum aðeins ókeypis vettvangur, en ekki "samfélag".

G. Tómas Gunnarsson, 20.4.2021 kl. 10:53

16 identicon

Það er enginn læstur inni í sóttkví, hvort sem menn eru heima hjá sér eða á hóteli. Ef einhver ætlar ekki að virða sóttkví þá gerir hann það. Ef hann er á hótelinu kemst mað að vísu fyrr upp, og hægt að reyna að gera eitthvað í málinu.

ls (IP-tala skráð) 20.4.2021 kl. 11:41

17 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@ls, þakka þér fyrir þetta. Og gluggarnir eru ekki opnanlegir til að varna því að menn renni sér niður á "lökunum"?  :-)

Það er auðveldara að þurfa bara að fylgjast með stigunum og lyftunum. 

Datt í hug þessi skemmtilega frétt sem ég las fyrir nokkrum árum. https://news.err.ee/110682/man-falls-in-8th-story-window-escape-after-being-locked-in-by-wife

Það getur haft óvæntar afleiðingar að ætla að koma í veg fyrir að eiginmaðurinn fari á barinn.

En er umræðan um "sóttkvíarbrot" svo mikil nú, vegna þess að þeim fer fjölgandi, eða vegna þess að umræðan um "lúxushótelið" er svo hávær?

G. Tómas Gunnarsson, 20.4.2021 kl. 13:10

18 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Ég held að það sé vegna persónuverndarlaga sem smitdólgurinn verður ekki nafngreindur. Að minnsta kosti ekki opinberlega. Hver veit hvað múgurinn gerir. En sennilega gæti dólgurinn þá lögsótt þann sem nafngreinir hann.

Talandi um réttindi einstaklinga. Ha!

Kristján G. Arngrímsson, 20.4.2021 kl. 13:38

19 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Og hvað á svo að gera við þær þúsundir sem eru grunuð um sóttkvíarbrot eftir sýnatöku? 

https://www.mbl.is/frettir/innlent/2021/04/19/einangrun_thar_til_nidurstada_berst_ur_synatoku/

Vernda persónuverndarlög eina gerð afbrotamanna frekar en aðra?

Er ástæða til þess?

Er ekki óþarfi að fara eftir lögum, þegar um sóttvarnir er að ræða?

G. Tómas Gunnarsson, 20.4.2021 kl. 13:55

20 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Því má bæta við að fyrst þarf að mínu mati að finna þann sem talinn er hafa brotið af sér sekan.

En ef ég hef skilið rétt varða brot á sóttvarnarlögum sektum, eða allt að 3ja mánaða fangelsi.

En ef um alvarleg brot er að ræða, get ég ekki séð nokkra ástæðu til annars en að til ákæru komi.

G. Tómas Gunnarsson, 20.4.2021 kl. 14:05

21 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Eðli málsins samkvæmt ætti að rannsaka hvort grunur um sóttkvíarbrot er á rökum reistur. En hvort sú rannsókn er framkvæmanleg af ýmsum praktískum ástæðum er svo önnur saga. 

Og eins víst að mörg málanna reynist ekki líkleg til sakfellingar og falli því niður.

Ég er bara ekki vel kunnugur persónuverndarlögum, enda ekki lögfróður, en það hlýtur að teljast ólíklegt að þau mismuni afbrotamönnum.

Kristján G. Arngrímsson, 20.4.2021 kl. 17:04

22 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kristján, þakka þér fyrir þetta. Auðvitað á sá sem er TALINN, rétt að undirstrika það, hafa brotið sóttvarnarlög að farið sé eftir lögum og "prótokolum" við rannsókn á málin og síðan kemur ekki til ákæru nema sakfelling sé líklegri en ekki.

Þannig virka réttarríki.

Sóttvarnaryfirvöld tala reyndar eins og engin spurning sé um sekt viðkomandi einstaklings, en ég hef ekki séð þau leggja fram neinar sannanir, né tala mikið um ákæru.

Í sjálfu sér veit engin (nema sóttvarnaryfirvöld) hvort að "umræddur einstaklingur" er til eður ei.

En ég hef þó fulla trú á því.

En ef brotið er skýrt og augljóst, finnst mér eðlilegt að yfirvöld komi í í ákæruferli.

Ekki er ég sérfræðingur í persónuverndarlögum, en við höfum líklega báðir séð fjöldan allan af þeim sem hafa verið dæmdir sekir nafngreinda, og jafnvel þá sem hafa verið fundnir saklausir einnig.

En sakfelling um sóttvarnarbrot getur falið í sér að upplýst sé um að veikindi viðkomandi einstaklings, en þarf ekki að gera það, þar sem það getur ekki talist grundvöllur ákæru að viðkomandi hafi verið smitaður.

Ósmitaðir einstaklingar geta líka brotið sóttvarnarlög.

G. Tómas Gunnarsson, 20.4.2021 kl. 17:21

23 identicon

https://www.mbl.is/frettir/innlent/2021/04/21/118_sottkviarbrot_a_bordi_logreglu/

ls (IP-tala skráð) 21.4.2021 kl. 19:59

24 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@ls, þakka þér fyrir þetta.  Ef 118 sóttvarnarbrot hafa komið á borð lögreglu, þar af 24 á þessu ári, þýðir það að 94. sóttvarnarbrot hafa verið á síðasta ári.

Það væri fróðlegt að vita hvernig þeim öllum hefur verið lokið.  Er þeim öllum lokið?

Hvað voru sektargreiðslur í mörgum tilfellum, hefur komið til ákæru í einhverjum tilfellum, o.s.frv.

Það væri líka fróðlegt að vita hvað langur meðaltími vinnslu hvers máls er.

Bæti því svo við hér að ég las að sá sem er sakaður um brot varðandi leiksskólann, hafi verið "skikkaður" til dvalar í sóttvarnarhúsi.  Hann hafi krafist lausnar, og farið hafi verið með málið fyrir dómara, sem hafi úrskurðað "skikkunina" lögmæta.

Allt eins og það á á vera, að mínu mati.

En svo hlýtur að vakna spurning um refsingu fyrir brot á sóttvarnarlögum.

G. Tómas Gunnarsson, 22.4.2021 kl. 13:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband