Það áhugaverðasta sem ég hef lesið í dag

Mér finnst margt áhugavert sem kemur fram í þessari frétt og ég held að margir geri sér ekki grein fyrir því að hvað þáttur Íslenskrar erfðagreiningar, hefur skipt miklu máli fyrir Íslendinga.

Fyrst í skimunum og svo í raðgreiningum.

En ég hafði engin tök á að fylgjast með þessum fyrirlestrum, en í þessari frétt finnst mér tvennt sérstaklega athyglisvert.

Þessi málsgrein finnst mér sérstaklega athyglisverð, haft er eftir Kára:

"Mun­ur­inn á ann­ars veg­ar þess­um miklu ein­kenn­um sem er það sem sjúk­ling­ur­inn kvart­ar und­an og hins veg­ar þess­um ör­fá­um hlut­um sem hægt er að mæla bend­ir til þess að áhrif sýk­ing­ar­inn­ar á and­legt ástand fólks virðist skipta mjög miklu máli," seg­ir hann.

Ég velti fyrir mér hvað þetta þýðir nákvæmlega.

"... að áhrif sýkingarinnar á andlegt ástand fólks virðist skipta mjög miklu máli".

Ég get ekki alveg ákveðið með sjálfum mér hvað þetta þýðir. 

Ég er þó þeirrar skoðunar að vissulega skipti andlegt heilbrigði máli hvað varðar líkamlegt og öfugt.  Ég er orðinn svo gamall að ég man eftir slagorðinu "heilbrigð sál í hraustum líkama", slíkt þótti ekki einu sinni "smánandi þegar ég var að alast upp.

En hvernig hefur "sýkingin áhrif á andlegt ástand"?

Getur það verið (fyrir suma einstaklinga) andlegt áfall að sýkjast af Covid? Getur hræðsla við sjúkdóminn ýkt sýkingu og einkenni sjúkdómsins? Með öðrum orðum veikt ónæmiskerfið?

Ótti og hræðsla er ekki æskilegir félagar í lífshlaupinu og mér finnst ekki ótrúlegt að slíkt geti haft áhrif á heilbrigði, þ.e.a.s. líkamlegt, ég held að fáir efist um hið andlega.

Ég hef reyndar oft velt því fyrir mér þegar fréttir hafa borist af fjölda einstaklinga í smitskimunum, hvað hrjáir allt þetta fólk.

Það hefur komið fram í fréttum að 99%, eða svo af þeim sem hafa komið í skimun á Íslandi, hafa reynst ósmitaðir af Covid.  Hvaða sjúkdómar gáfu þessum fjölda einstaklinga þau einkenni að þeim þótti ástæða að fara í skimun?

Virkilega þess virði að velta þessu fyrir sér.

Hin setningin (og fyrirsögnin) finnst mér einnig athygli virði.  "Hann seg­ir veir­ur alltaf hafa sprottið upp í heim­in­um en ástæðan fyr­ir því að þessi hafi orðið svona stórt vanda­mál sé sú hversu heim­ur­inn er orðinn lít­ill. „Menn eru að fær­ast á milli með svo mikl­um hraða og í svo mikl­um fjölda að ef svona veirupest sprett­ur upp á ein­um stað þá kem­urðu ekki í veg fyr­ir að hún breiðist út um heim­inn með því að setja upp smá girðingu uppi á Holta­vörðuheiði."

Er verulega flóknara að setja upp "girðingu" á Holtavörðuheiði, en á Keflavíkurflugvelli og Seyðisfirði?

Þarf ekki banna ónauðsynleg ferðalög, t.d. má banna bílaumferð einstaklinga um Holtavörðuheiði.  "Nauðsynlegir" ferðalangar sem lenda á Akureyrar- eða Egilstaðaflugvelli eru svo fluttir með rútum á "Sóttkvíarhótel".

Ekki mín tillaga, mér sýnist hún vel framkvæmanleg, skynsamleg er hún þó varla. En ef á að byggja upp veirufrí svæði, gæti hún gagnast.

 

 


mbl.is Girðing á Holtavörðuheiði dugar ekki til
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Ég held að það hafi nú ekki farið neitt á milli mála hvaða hlutverki ÍE hefur gegnt í þessu öllu saman. Kári hefur sjálfur séð til þess að allir viti um það. Ekki af því held ég að hann vilji endilega auglýsa fyrirtækið sitt, heldur bara af því hvernig hann er af guði gerður, blessaður.

Hitt er svo spurning hvers vegna það er svona mikilvægt að halda því til haga hvað þáttur ÍE hefur verið stór og mikilvægur. Er það bara vegna þess að ÍE er einkafyrirtæki - eða eru einhverjar meira "sinister" ástæður fyrir því? (Til eru jú samsæriskenningar um að Kári gangi erinda illa innrættra vogunarsjóðsstjóra).

Kristján G. Arngrímsson, 20.4.2021 kl. 10:33

2 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kristján, þakka þér fyrir þetta. Ég held að það sé vert að vekja athygli á því sem vel er.  Ég held að raðgreiningarnar séu býsna merkilegt fyrirbrigði, og ef ég hef skilið rétt er Ísland eina landið sem hefur raðgreint öll veirutilfelli.

Telur þú að það hefði verið gert ef ekki væri til fyrirtæki sambærilegt Íslenskri erfðagreiningu í landinu?

Telur þú að það skipti einhverju máli, t.d. hvað varðar smitrakningu?

Svo sýnist mér þú alls ekki fylgjast nógu vel með orðum Kára, eins og vanþekking þín á orðum hans í athugasemdum við síðustu færslu mína leiddi í ljós.  :-)

Því er auðvitað þarft að vekja athygli á þeim.

Ég þekki Kára ekki neitt en á erfitt með að sjá hann fyrir mér sem "snata" einhvers.

Hef engin afskipti af honum, né hans fyrirtækjum fyrir utan afnot mín af Íslendingabók.

G. Tómas Gunnarsson, 20.4.2021 kl. 13:36

3 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Persónulega er ég þeirrar skoðunar að hlutverk ÍE í þessu öllu saman, eins og þú útskýrir, sé stórt og merkilegt, t.d. varðandi raðgreiningu og smitrakningu, og það er einmitt smitrakningin sem hefur skilað hvað mestum árangri hérna, skilst mér.

Ég held bara að það sé misskilningur í þér að fólk almennt sé ekki meðvitað um þetta stóra hlutverk.

Kristján G. Arngrímsson, 20.4.2021 kl. 13:41

4 Smámynd: Rúnar Már Bragason

Það er mikill business í þessu ef tekst að búa til módel sem getur sýnt fram á smit milli fólks. Hlutverk ÍE er að búa til lyf og þetta er góður liður í skilja betur smit milli fólks sem síðan gagnast þegar lyf eru búin til.

Hins vegar mætti Kári tala minna enda eitt í dag og annað á morgun, og svo bætast fordómarnir við.

Rúnar Már Bragason, 20.4.2021 kl. 14:00

5 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kristján, þakka þér fyrir þetta. Stórt og merkilegt hlutverk segir þú, en alger óþarfi að minnast á það.  Það vita þetta allir.  Oft má satt kjurt liggja, eða hvað?

@Rúnar, þakka þér fyrir þetta. Mér finnst gott ef það einhver sér "business" tækifæri í því að læra meira um hegðun veira og reyna að byggja á lærdómnum varnir gegn þeim.

Hvort að Kári eigi að tala minna, ætla ég ekki að dæma um, mér sýnist eftirspurnin eftir tali hans jafnvel meira en framboðið, sem er all nokkuð.

Hef ekki orðið var við fordóma af hans hálfu, en það gæti hæglega hafa farið fram hjá mér.

G. Tómas Gunnarsson, 20.4.2021 kl. 16:36

6 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Hvaða dylgjur eru þetta nú? Ég er ekkert að reyna að þagga niður umræðu um þátt ÍE, bara að segja að ég er ósammála þér um að fólk viti þetta almennt ekki.

Mér finnst bara mjög jákvætt að þetta stóra og mikilvæga hlutverk ÍE sé á almannavitorði.

Kári getur ekkert gert að því þótt hann sé sjálfhverfur. Og hann er samt þjóðargersemi.

Kristján G. Arngrímsson, 20.4.2021 kl. 16:58

7 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kristján, þakka þér fyrir þetta.  Skipti þá einhverju máli hvort að minnst væri á það einu sinni enn - í þetta skiptið af minni hálfu?

Eða fór þá allt í einu að flæða yfir barma "umræðufötunnar"?

G. Tómas Gunnarsson, 20.4.2021 kl. 17:10

8 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Nei, auðvitað skipti það engu máli, enda var ég alls ekki að finna að því að þú nefndir þetta. Eða það var amk. ekki ætlunin. 

Þetta með barma umræðufötunnar skil ég ekki.

Kristján G. Arngrímsson, 20.4.2021 kl. 17:16

9 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Ég hef áður séð umfjöllun um fylgni milli slæms andlegs ástands og meiri lengri tíma afleiðinga covid. Þetta er ekki fyrsta rannsóknin sem sýnir þessa fylgni.

Orðalagið sem þú vitnar til, að sýkingin hafi áhrif á andlegt ástand er hins vegar afar einkennilegt. Fylgni segir nefnilega ekkert um orsakasamband. Það gæti sumsé allt eins verið að fólk sem er óstöðugt andlega finni fremur fyrir einkennum (þau eru mestan part ómælanleg og gjarna óræð) en fólk sem er andlega heilbrigt, og að það að sýkjast leiði af sér verra andlegt ástand. Þetta vitum við ekkert um og hvorugt hægt að fullyrða. Því er skrítið að verið sé að fullyrða að orsakasamband sé til staðar þegar það hefur ekki verið sýnt fram á það.

Hitt, að covid hafi orðið "stórt vandamál" vegna þess hversu heimurinn sé orðinn lítill orkar svo líka tvímælis. Ég var einmitt um daginn að lesa grein þar sem meðal annars er fjallað um bók Dr. Sunetra Gupta, sem kom reyndar út 2013, löngu áður en Covid kom upp. Bókin heitir "Pandemics - Our Fears and the Facts" og mér skilst að þar styðji höfundur einmitt þá tilgátu sína að þessi "minnkun" heimsins hafi gert að verkum að ónæmiskerfi okkar hafi styrkst og við því betur undirbúin að taka við nýjum afbrigðum sjúkdóma en meðan við vorum einangraðri. Ég tek fram að ég hef ekki lesið bókina, en hana má fá hjá Amazon eins og flest annað. Hún fæst meira að segja fyrir frítt ef maður hefur Prime áskrift, og ég ætla að nýta mér það.

Þorsteinn Siglaugsson, 21.4.2021 kl. 15:44

10 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kristján, þakka þér fyrir þetta.  "Fatan" var nú einfaldlega tilraun af minni hálfu til "myndlíkingar".  En hefur augljóslega ekki virkað.

Svona í þá átt að þeir hefði þótt nóg um að minnst væri á þetta hlutverk ÍE "einu sinni enn".

@Þorsteinn, þakka þér fyrir þetta.  Ég hef ekki lesið neinar rannsóknir í þessa átt, enda haft lítinn tíma til að lesa slíkt upp á síðkastið.

En það eru gömul sannindi og ný að sálrænt ástand getur haft áhrif á áhrif sjúkdóma.

En ég þekki ekkert til þeirra rannsókna sem var verið að fjalla um á fundinum, þannig að ég ætla ekki að dæma um þær.

Þetta vakti einfaldlega athygli mína.

Hvað varðar "smækkun" heimsins, þá finnst mér tilgáta/kenning Gupta ekki ólíkleg.

Kunningi minn, sem er læknismenntaður, minntist einmitt á við mig fyrir nokkru síðan, að hættan væri að miklar "umgangspestir" myndu fara á kreik, eftir að "kófinu" lýkur.

Hann sagði að vegna "einangrunar", óhóflegar sprittnotkunar og svo framvegis, væri möguleiki að margir hefðu ekki "þjálfað" ónæmiskerfi sitt líkt og venjulega.

Unglingar, sem í sumum löndum hafa ekki komið í skólann í rúmt ár, o.s.frv.

Umgangspestirnar gætu því orðið umfangsmiklar, þegar og ef almenningur sleppir fram af sér "beislinu".

G. Tómas Gunnarsson, 22.4.2021 kl. 13:44

11 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Það má velta ýmsum möguleikum fyrir sér varðandi "eftir-covid". Til dæmis þeim möguleika að hegðun stórs hluta íbúa þeirra landa sem verst hafa lent í þessu sé orðin svo skilyrt eftir allan þennan tíma að aukið hreinlæti (handþvottur og sprittun) haldi áfram þótt hættan á að sýkjast af Covid verði orðin margfalt minni en hún er nú.

Ég held að sálfræðingar séu löngu búnir að sýna fram á það, á mjög sannfærandi hátt, að mannlegt atferli stjórnast ekki nema að litlu leyti af yfirvegun og rökhugsun. Það stjórnast ekki síður af ómeðvituðum vana og stöðugleikaþörf.

Fyrir nú utan það að við erum öll búin að læra vel og vandlega hvað það er gagnlegt að vera duglegur að þvo á sér hendurnar. Hafðirðu ekki einhverntíma eftir einhverjum lækni að nú væru allir búnir að læra mikilvægi handþvottar?

Kristján G. Arngrímsson, 22.4.2021 kl. 17:20

12 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kristján, þakka þér fyrir þetta. Það verður fróðlegt að sjá hvað gerist "eftir kófið", hvenær sem það verður.  Ef við gefum okkur að það verði eitthvað "eftir kófið".

Hvenær hætta þeir að finna ný "afbrigði" sem eru "enn hættulegri".  Reyndar eru farnar að sjást greinar nú sem fullyrða að "breska afbrigðið" sé ekkert hættulegra, eins og margir sögðu reyndar strax í upphafi. 

Það væri gott ef handþvottur helst og hann er gjarna stórlega vanmetin.  Ég man reyndar eftir rannsókn, sem var gerð í Kanada (myndavélar við vaska á almenningsalernum), sem sýndi að ári eftir SARS 1.0 (lol) sem kom 2003, voru ótrúlega margir sem ekki þvoðu sér um hendurnar.

En við getum leyft okkur að vera bjartsýn.

Las grein um næturlíf, þar var haft eftir einum viðmælanda að hún væri ekki alveg reiðubúin enn til að láta svita af ókunnugum skvettast á sig.  En það kæmi að því.

G. Tómas Gunnarsson, 22.4.2021 kl. 18:00

13 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Held reyndar að fólk sé ekkert að þvo sér mikið um hendurnar lengur. En það apast um með þessar kjánalegu tuskur yfir trantinum og heldur að það tryggi "veirulaust sumar"!

Þorsteinn Siglaugsson, 22.4.2021 kl. 21:10

14 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Þorsteinn, þakka þér fyrir þetta. Ég held að handþvottur sé býsna algengur enn, og vona það.

Grímunotkun er annar handleggur. Rétt notuð gríma kemur að góðum notum tel ég.  En þegar ég sé fólk draga skítuga grímuna úr vasanum þegar það nálgast dyr verslunar, fyllist ég efa um hvetja til grímunotkunar.

Grímur virðast einnig vera búnar að taka yfir "teninga og tuskudýr", sem vinsælasta speglaskraut í bifreiðum.

Þegar ég fer út að ganga mætti ég oft fólki með grímur.  Sumir jafnvel tosa grímuna upp og niður þegar það mætir öðru fólki.

Hversu margir þvo svo taugrímuna sína reglulega?  Sama gríman getur aldrei dugað klukkustundum saman.

Svo eru það blessuð börnin, sem alltof margir vilja setja grímu á.  Þau eiga það til að skipta á grímum.

Auðvitað set ég upp grímu þar sem þess er krafist og á nóg af þeim.  En þetta er ama valdandi.

G. Tómas Gunnarsson, 23.4.2021 kl. 01:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband