Færsluflokkur: Matur og drykkur

Framboð og eftirspurn

Einhvern veginn finnst mér lögmálið um framboð og eftirspurn óvíða koma betur fram hér í Kanada en í verði á svínakjöti, eða öllu heldur á mismunandi hlutum svínsins.

Kemur þar ákaflega sterkt inn hve hrifnir Kanadabúar eru af svínarifum.  Einhver mundi líklega segja að þeir séu óðir í rif.  Það veldur því að gjarna er svipað verð á svínarifum og svínalundum.

Þannig var það í dag þegar ég fór að versla í matinn.  Tilboð var á bæði svínarifum og lundum.  6.59 dollarar kílóið, hvort sem var rif eða lundir.

Á meðan ég stoppaði við og velti fyrir mér hvaða bakka af lundum ég ætti að taka, komu 5 aðrir að kælikistunni  og tóku bakka, og allir - nema ég - völdu rif.

En hér verða lundir í matinn í kvöld.

 

 


En hver er raunkostnaðurinn?

Mér er sagt að mjólk eigi eftir að hækka í verði víðast hvar um heiminn, vegna þess að nú vilja Kínverjar að börnin þeirra fari líka að drekka mjólk.

En það sem vantar í þessa frétt er hver raunkostnaðurinn er í hvoru landi um sig.  Hvert er raunverulega verðið?  Hvað nemur niðurgreiðsla á mjólk háum upphæðumá lítra á Íslandi og hvað í Bretlandi.

Á þeim grunni á að ræða málin.

Hitt er svo annað mál að mjólk er ekki sama og mjólk.  Mér stendur til boða að kaupa "venjulega" mjólk hér á u.þ.b. 70 kr lítrann.  En ég vel að kaupa mjólk sem kostar u.þ.b. 150 kr lítrinn.

"Venjuleg" mjólk hér í Kanada hefur aðeins 3.25% fituinnihald eða minna.  Þess vegna vel ég að kaupa "lífræna" mjólk sem hefur 3.8% fituinnihald og bragðast mun betur. 

Hlutirnir eru aldrei eins einfaldir og þeir sýnast.


mbl.is Mjólk ódýrari hérlendis en í Bretlandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að selja

Bjórárfjölskyldan hefur verið í mikilli yfirreið um sveitirnar hér í nágrenninu undanfarna daga, enda ætlunin að finna sér borðstofuborð sem passar í stofuna og þolir sömuleiðis ágang fjölskyldunnar.  Þeirri leit er nú lokið, gengið verður frá pöntun á föstudaginn, en það sem vakti athygli mína svona umfram borðin er það að allir eru að selja eitthvað í sveitinni.

Ja reyndar ekki alveg allir, en ótrúlega margir.  Þegar ég hugsaði til síðustu færslu hér, þá gladdi það mig að sjá hve margir voru að selja beint.  Brún egg á einum bæ, sýróp á öðrum, maís og annað grænmeti á þeim þriðja, kjöt á þessum bæ og blóm á öðrum.

Sumir voru með lítla söluskála, en aðrir höfðu þetta einfalt í sniðum, bara pallur þar sem á voru nokkrir pokar með tómötum, blómum eða eplum og fólk beðið að setja peningana í gamla vindlakassann sem þarna var við hliðina.  Einfaldara gerist það ekki.

Ég veit ekki hvað skatturinn segir við þessu, en vissulega gerir það öll mál einfaldari hér í Kanada að enginn virðisaukaskatur er á matvælum.

Við keyptum sittlítið af hverju á nokkrum stöðum allt saman yndælis vörur.  Maísinn er ótrúlega góður svona "beint af akrinum" og fátt er betra en að kaupa nýtínd epli, ja nema að tína þau sjálfur.

Það er ljómandi hugmynd að Íslenskir bændur fari að selja beint til neytenda í auknum mæli.

 

 


Horfir til framfara?

Það myndi verða stórt framfaraspor, fyrir bæði bændur og neytendur ef það tækist að efla heimaslátrun í Íslenskum sveitum, og bændur gætu unnið og selt kjöt sitt beint til neytenda.

Það væri án efa heillaríkt að samband bænda og neytenda yrði nánara, það myndi skila sér í auknum skilningi og líklegra betri og örari þróun á framleiðsluvörum bænda.  Það að bændur myndu þannig standa þétt að baki sinni vöru og enginn væri í vafa um hvaðan varan væri upprunin væri líka líklegt til að skila árangri.

Persónulega gæti ég líka trúað því að þetta leiddi til lægra vöruverðs þegar fram liðu stundir, enda treysti ég bændum fullkomlega til að gera þetta á hagkvæmari hátt en milliliðakerfið býður upp á í dag.

Auðvitað má að nokkru leyti segja að þetta sé ekkert nýtt, heldur aðeins lögleg útfærsla á því sem hefur verið að gerast í sveitum landsins í mörg ár.  Alla vegna var það svo að á meðan ég bjó á Íslandi keypti ég gjarna kjöt beint frá bónda og var ekki svikinn af þeim viðskiptum.  Keypti enda af sama bóndanum haust eftir haust.

P.S.  Ekki þekki ég vel til í reglugerðarfargani ESB, en mér þykir það nokkuð merkilegt að það sé spurning um að "endurtúlka" gildandi reglur til að heimaslátrun sé möguleg.  Ef til vill þarf sambandið aðeins að fá sér fleiri "túlka", þá færi reglugerðirnar líklega strax að verða bærilegri.

 


mbl.is Vilja slátra heima
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að éta elginn

Það verður að segja það eins og er að það er ólíkt huggulegra að éta elginn en að vaða hann.  En það var einmitt það sem fjölskyldan að Bjórá gerði í kvöld.  Það er að segja át elginn.

En við Bjórárhjónin höfum verið á faraldsfæti undanfarna daga, verið að leita að borðstofuhúsgögnum.  Þar sem hugurinn hefur helst staðið til massívra timburhúsgagna, þá höfum við keyrt hér um nærsveitir Toronto og skoðað húsgögn sem flest hver eru framleidd af Mennonitum, en þeir framleiða húsgögn upp á "gamla mátann", ef svo má að orði komast.

Við erum enn á "skoðunarstiginu" en höfum séð ýmis athygliverð húsgögn, en það sem skiptir þó ekki minna máli er að skondrið um sveitirnar og smábæina er harla skemmtilegt.  Það þarf líka að stoppa reglulega, til að kaupa ís, nú eða synda í einhverju vatninu, það þarf líka að kaupa eitthvað að borða, nú eða bara pissa í vegarkantinn.

En hér og þar má finna "köntrí stors" og í einni slíkri rákumst við á elgskjöt ásamt ýmsu öðru góðgæti.  Það voru keyptar tvær steikur sem eru búnar að bíða í ísskápnum þangað til í kvöld. 

Í stuttu máli sagt, þá var þetta hið ljúfasta kjöt, fíngert og bragðgott.  Hóflega kryddað með salti, pipar og olívuolíu og hent á grilið.  Grillaður maís með, tómatsósa (gerð úr tómötum og kryddjurtum úr garðinum) og Franskt rauðvín.  Ákaflega hugguleg blanda.

Í fyrsta skipti, en ábyggilega ekki að síðasta sem elgur verður á borðum hér að Bjórá.


Að lækka verðið eða ekki lækka verðið, það er...

Það er óneitanlega nokkuð algengt að sjá fréttir sem þessa, annað hvort eru kaupmenn/veitingahúseigendur sakaðir um að "skila" ekki til neytenda virðisaukaskatti, gengishækkun, nú eða hreint og beint um að vera almennt séð okrarar.

Mér finnst þetta bera nokkuð mark af tvennu, í fyrsta lagi eru "sökudólgafréttir" nokkuð vinsælar og hitt svo að lítill skilningur er á rekstri veitingastaða og verslana.  Ef til vill má svo bæta að við fréttir í þessum flokkum hafa aukist nokkuð í réttu hlutfalli við fjölgun "stofa" í samfélaginu, sérstaklega auðvitað ef viðkomandi "stofur" hafa þjónustusamninga við einhver ráðuneyti.

Þó ætla ég ekki að segja að ég myndi ekki verða glaður, rétt eins og flestir aðrir, ef kaup og veitingamenn lækkuðu vörur sínar, það myndi ég vissulega verða, en ég geri mér grein fyrir því að ég á enga heimtingu á slíku, og það er margir aðrir "kraftar" þarna að verki en virðisaukaskattur og gengismál.

Hefur einhver hugleitt hvort að húsaleiga hafi hækkað frá því í mars?  Nú eða kaup?  Hvernig skyldi hráefnisverð hafa þróast á þessum tíma?

Þess utan reka veitingastaðir, sem og verslanir sig ekki einvörðungu á ákveðinni %, heldur spilar ákveðin sálfræði sína rullu. 

Hafi einhver réttur kostað 1990 kr. fyrir vsk lækkun, ætti hann líklega að lækka niður 1810 eða álíka.  Það er einfaldlega ekki "sálfræðilega" rétt verð, þar sem "sálfræðiþröskuldurinn" er líklega álitinn liggja um 2000 krónurnar.  Þó væri hugsanlegt að fara í 1890, en flestir myndu líklega halda sig við 1990 krónurnar, auka hagnaðinn örlítið í það minnsta tímabundið og vera betur búinn undir að þola smá "verðþrýsting" á 1990 krónurnar.

Það kann því að vera að lækkunin skili sér með því móti á mun lengri tíma.

Hitt ber svo líka að hafa í huga að frjáls álagning ríkir á Íslandi, en að sama skapi er enginn bundinn við að skipta við önnur veitingahús/kaupmenn en þeim líkar, spurningin er hvað verðið vegur þungt þegar þau eru valin?

 


mbl.is Verðlækkun hjá 4% veitingahúsa frá því í mars
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Veðurspáin

vedurspaVeðurspáin fyrir næstu sólarhringa er ekki beint á besta máta.  Hiti og raki.  Hitaaðvörun

Líklega er best að fara í "ríkið" strax í fyrramálið.  Rýma til í ísskápnum.  Setja vatn í busllaugina strax í dag.

Besta vörnin gegn rakanum er bjór innvortis.

 

Sjá betur hér.


Brennivins Rulapizza Eating Contest

Brennisvins Pizza hus

Ég er ekki alveg klár á því hvað "Brennivins Rulapizza" er, en fæ það sterklega á tilfinninguna að um sé að ræða pizzu með rúllupylsu.  Hljómar spennandi ekki satt?

En eftir því sem ég kemst næst er kappát með slíkri pizzu eitt af dagskráratriðum á Íslendingadeginum (sem er reyndar orðinn nokkrir dagar) sem haldinn er í Gimli ár hvert. 

Sjálfur hef ég aldrei verið á Íslendingadeginum, en fór í fyrsta skipti nú nýverið til Winnipeg og Gimli og ók þar um Íslendingaslóðir.

Þá tók ég meðfylgjandi mynd af pizzastað í Gimli, sem heitir því frábæra nafni "Brennivins Pizza Hús", sem ég hef sömuleiðis grun um að tengist fyrrnefndri keppni.

En Íslendingadagurinn er um næstu helgi, löng helgi hér í Kanada líkt og á Íslandi.  Dagskrá hátíðarhaldanna má finna hér.


Blessað lambakjötið

Ég viðurkenni fúslega að mér þykir lambakjöt ágætt, ef til vill ekki jafn gott og vel valinn nautavöðvi, nú eða hreindýrakjöt, eða kjöt af villigelti, en samt finnst mér lambakjöt ákaflega gott.

Íslenskt lambakjöt er fínn matur, en sérstaklega hef ég þó hrifist af því þegar búið er að láta það hanga í reyk af þess eigin skít.  Það er "árstíðabundið lostæti" ef svo má að orði komast, enda erfitt að halda jól án þess, vöntun á því á þeim árstíma veldur andlegum erfiðleikum.

Það voru því góðar fréttir sem ég las á visir.is, þess efnis að nú hafi náðst samningar þess efnis að flytja megi umrætt lambakjöt til Kanada.

Það fylgir að vísu með í fréttinni að engin framleiðandi hafi áhuga á því að sinna Kanadamarkaði, en ætli sér að fylgjast með.

Þetta er líklega vandi Íslensks landbúnaðar í nokkurri hnotskurn.  Flestum þykir afurðirnar ágætar, sumar verulega góðar aðrar að vísu síðri, en fáir eru reiðubúnir til að greiða það verð sem Íslenskir bændur þurfa.  Því hefur flest árin verið tap á sölu lambakjöts til Bandaríkjanna og því eðlilegt að afurðastöðvum þyki ekki álitlegt að leggja í markaðssetningu í Kanada.

Það eru þeir sem stendur lítið annað til boða, vegna verndartolla og innflutningshafta, sem kaupa framleiðsluna, borga hana í tveimur hlutum, fyrst með sköttunum sínum og svo "seinnihlutann" við kassann.

Hitt er þó ljóst að alltaf yrði einhver sala í Íslensku lambakjöti, bæði vegna þess að vissulega eru gæðin til staðar og margir yrðu til þess að gera sér dagamun með slíku.  En oft yrði það líka buddan sem myndi ráða, ef ekki væri slík ofur neyslustýring eins og á sér stað í dag.

En það verður ágætt að geta kippt með sér einu og einu hangikjötslæri, svona ef auðvelt verður að verða sér út meðfylgjandi pappíra.  Jafn líklegt er þó að það verði flutt hingað að Bjórá á gamla mátann, þ.e.a.s. smyglað.


Samstaða?

Ég fagna því auðvitað ef fylgi við lækkun áfengisskatts er að aukast á Alþingi.  Það er löngu tímabært að ríkið slaki á klónni hvað áfengið varðar.

En það er eitthvað sem segir mér að það sé sömuleiðis "pólítísk samstaða" um að hafa álögurnar óbreyttar eða hækka þær.  Áfengismál hafa löngum gengið þvert á flokkslínur og hafa þingmenn gjarna ákveðnar skoðanir í þessu efni.

En áfengisverð á Íslandi er alltof hátt, og finnst mörgum Íslendingum þetta vera óþarfa áþján sem á þá er lögð. 

Það þekkist líklega ekki víða að þegar menn ræði um sumarleyfi sitt, þá komi áfengisverð á sumarleyfisstaðnum sterkt inn í umræðuna. 

Ennfremur má nefna að hið opinbera sem stendur jú fyrir þessari álagningu, þykir sjálfsagt að selja þeim sem hafa tök og efni á því að ferðast erlendis áfengi með lægri álagningu við heimkomuna.

Það væri vissuleg fróðlegt að sjá tölur yfir hvað mikið áfengi kemur til Íslands með þeim hætti. 

Lægra áfengisverð gæti sömuleiðis dregið úr smygli og heimabruggi og væri hvoru tveggja tvímælalaust til bóta.

Nú er bara að vona að "pólítíska samstaðan" sé víðtæk og sú fylking sem vill lækka verðið, sé stærri en sú sem vill halda í horfinu.


mbl.is Pólitísk samstaða um lækkun áfengisverðs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband