Færsluflokkur: Matur og drykkur
10.2.2013 | 10:45
Þarf þá ekki bara mikið meira eftirlit?
Hrossakjötssala hefur víst verið mun meiri í Bretlandi en þeir höfðu hugmynd um. Það var ekki einu sinni að þeir kvörtuðu yfir því. Þeir höfðu einfaldlega ekki hugmynd um það.
Það er ekki til eftirbreytni að svíkja neytendur og fá þá til að leggja sér til munns matvæli sem þeir kæra sig ekki um.
Sumir tala jafnvel um að þetta athæfi geti verið hættulegt heilsu þeirra sem neyta hrossakjötsins, þar sem meira hætta sé á "lyfjaleifum" í hrossakjöti, vegna mismunandi reglugerða. Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki vit á því.
En mér flaug hins vegar í hug þegar ég hef verið að sjá fréttir um hið "hneggjandi nautakjöt" sem Bretar hafa verið gabbaðir til að snæða, "stóra Íslenska iðnaðarsaltshneykslið".
Þá voru ýmsir sem veltu upp þeim fleti að þetta væri eitt af því sem sannaði að Íslendingar væru betur komnir í "Sambandinu". Þeir væru ekki þess umkomnir að hafa eftirlit með sjálfum sér og matvælum.
Það væri sko eitthvað annað í "Sambandinu" þar væri matvælaeftirlit ekkert grín.
En hrossakjötssvindlið er auðvitað "Sambandshneyksli". Neyslan fer fram í Bretlandi og Írlandi, en þræðirnir berast til Póllands, Frakklands, Hollands, Rúmeníu og ef ti vill víðar.
Ekki er heldur langt síðan "litað" svínakjöt frá A-Evrópu var selt sem nautakjöt innan Evrópusambandsins.
En er þetta þá ekki allt Evrópusambandinu að kenna?
Þarf ekki einfaldlega að stórauka allt eftirlit? Ráða fullt af fólki sem fer yfir alla "ferla" og leysir vandamálið?
Það er ekki mín skoðun.
Það er engan vegin rétt að kenna "Sambandinu" um málið, ekki frekar en að það var rétt að segja að Íslensk stjórnvöld eða Íslenskt kerfi væri óhæft.
Það er heldur ekki þörf á því að stórauka eftirlitið.
Það er einfaldlega þörf á því að breyta vinnubrögðunum.
Fyrirtæki eiga að hætta að treysta á "ferlið". Framleiðandi á að vera ábyrgur fyrir sinni vöru. Vottorð sem er gefið út fyrir kjöt í einu landi og búið að fara í gegnum nokkur önnur er einfaldlega ekki nóg, jafnvel þó að öll löndin séu í "Sambandinu".
Það ku finnast breyskir einstaklingar þar sem annars staðar.
Lausnin er ekki að auka eftirlitið þangað til það verður óþarft vegna þess að enginn hefur efni á því að kaupa kjöt.
Líklega er betra að eftirlitið sé "lókal", en það sem miðstýrt. Rétt eins og í bankamálunum er betra að eftirlitið fyrir matvæli sem neyta á í Bretlandi, sé í Bretlandi, en að það sé í Búlgaríu, Rúmeníu eða Frakklandi.
Ef til vill er meiri þörf fyrir að "rannsaka" vöruna sem er til sölu í kæli- og frystiborðum, en að fylgjast með þeim húsakynnum þar sem hún er unnin.
Sama gildir um rökin að Ísland þurfi að ganga í "Sambandið" til að uppræta spillngu á Íslandi. Skora á þá, sem það halda að fylgjast með fréttum úr frá ríkjum "Sambandsins.
Hóta að fara í mál vegna hrossakjöts | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
22.12.2012 | 20:45
Shandy í bjórlausu landi? = Malt og appelsín?
Á þessum tíma árs má oft sjá vangaveltur um hvaðan siðurinn að blanda saman malti og appelsíni sé upprunnin og hvar þetta hafi allt byrjað.
Án þess að ég sé í nokkurri aðstöðu til að fullyrða um uppruna þessa skemmtilega siðar, þá leyfi ég mér að efast um að uppruni hans sé jafn rammíslenskur og margir telja. Það er nefnilega með þessa blöndu, eins og svo margt annað sem oft er talið "sér íslenskt", að til eru til svipaðir og mun eldri erlendir hlutir eða siðir.
Þannig þekkist drykkjarblandan "shandy" víða um heim, er líklega þekktust á Bretlandseyjum, þar sem hún á líklega uppruna sinn (um það ætla ég þó ekki að fullyrða).
Blandan samanstendur líkt og malt og appelsín, af tveimur drykkum, bjór og sítrusgosi. Hvað algengast er að blanda saman bjór og límonaði, eða eins og algengt er í dag, bjór og 7Up. En einnig mun það vera algengt að blanda saman bjór og appelsínulímonaði.
Í Kanada er stundum talað um "Black shandy", eða "Guinness Shandy", sem er blanda af hinum geðþekka Írska mjöð og sítrónugosi.
Eins og áður sagði þætti mér ekki ótrúlegt að malt og appelsín sé einfaldlega Íslenskt afbrigði af shandy, sem einhver á Fróni hefur kynnst erlendis og varð að aðlaga Íslenskum bjórlausum aðstæðum.
En þetta er bara tilgáta.
En fyrir þá sem vilja fræðast örlítið um shandy, bendi ég á þess wikpedia síðu.
12.12.2012 | 13:21
Hækkar þá matvælaverðið ef Ísland gengur í "Sambandið" Jóhanna?
Á vef forsætisráðuneytisins má finna merkilega tilkynningu.
Þar sendir forsætisráðherra tóninn til Ríkisútvarpsins (hvenær skyld því nafni verða breytt í Þjóðrarútvarpið?), vegna þess sem ráðuneytinu þykir misvísandi fréttaflutningur. Undir það má taka.
Í tilkynningunnii segir að Ísland sé ódýrast af Norðurlöndunum.
Sagt er skýrum stöfum að það eigi að bera verð saman á svokölluðu jafnvirðisgengi sem er iðulega gert þegar lönd eru borin saman. Þá er tekið tillit til mismunandi kaupmáttar gjaldmiðilsins á hverjum stað.
Í þessum samanburði er sérstaklega tekið fram í skýrslunni að Ísland sé ódýrast Norðurlandanna ásamt Finnum þegar kemur að matarkörfunni". Og sé litið til allrar vöru og þjónustu sem könnunin náði til er Ísland ódýrast Norðurlandanna". Á þessar staðreyndir var ekki minnst einu orði í fréttinni.
Þetta er vissulega merkileg staðreynd og nokkuð á skjön við margt sem hefur mátt lesa í fjölmiðlum undanfarin misseri.
Sé þetta rétt, hlýtur annað hvort að vera, að matvæli séu almennt dýrari á Norðurlöndunum en Íslandi, eða hitt að kaup sé almennt hærra á Íslandi.
Hvort skyldi nú vera rétt?
Ekki hef ég trú á því að laun séu almennt lægri á Norðurlöndunum, alla vegna ekki miðað við frásagnir brottfluttra Íslendinga. Þá hlýtur niðurstaðan eiginlega að vera sú að matarkarfan sé eitthvað ódýrari á Íslandi.
En getur það verið að matarkarfan sé ódýrari á Íslandi en í Evrópusambandslöndunum Danmörku og Svíþjóð?
Eitt er að stæra sig af því að matarkarfan á Íslandi sé ódýrari í tveimur af "Sambandslöndunum", annað er að fullyrða að matarverð lækki á Íslandi ef gengið er í það sama "Samband". Hvað skyldi þurfa að leita lengi af frétt þar sem Jóhanna (og Samfylkingin) fullyrðir að matvæla lækki við inngöngu í "Sambandið"?
Einhvern veginn finnst mér þetta stangast örlítið á.
Það skyldi þó aldrei vera að matvælaverð myndi hækka á Íslandi, ef gengið er í "Sambandið"? Myndi það ef til vill verða eins og í Danmörku og Svíþjóð?
P.S. Matvælaverð í Evrópusambandinu er töluvert lægra en á Íslandi, þegar tekið er meðaltal af löndum þess. Þegar reiknað er inn matvælaverð í löndum eins og Búlgaríu, Ungverjalandi og svo frv. En auðvitað er mun eðlilegra að bera saman verð í nágrannalöndum Íslendinga, eins og Danmörku og Svíþjóð. En eðlilega hentar það "Sambandssinnum" ekki jafn vel í áróðursskyni.
En ef til vill mun forsætisráðuneytið og flokkur forsætisráðherra breyta málflutningi sínum nú. Mér þykir það þó ekki líklegt.
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 13:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
26.9.2012 | 20:07
Mysu áfengi
Það er alltaf ánægjulegt að lesa fréttir um nýjungar og framþróun. Sérstaklega þegar um er að ræða að nýtingu á því sem áður hefur verið talið lítils eða einskis virði, eða jafnvel úrgangur.
Nýting á hráefni bæði í sjávarútvegi og landbúnaði er allt önnur en var og er það vel. Bæði hafa Íslendingar komist að því að margt af því sem þótti lítils virði er herramannsmatur og svo hitt að nýjar aðferðir og tækni hafa gert fyrirtækjum kleyft að nýta hráefnið betur.
Það verður fróðlegt að sjá hvar þetta endar, Eyfirskur vodki hljómar ekki sem verst, myndi líklegast bragðast engu síður. Eldsneyti er heldur ekkert til að fúlsa við á þessum síðustu og.....
Hið besta mál.
Breyta mysu í vín | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
21.9.2012 | 16:53
Áfengissala í matvörubúðum
Nú er ég búinn að vera hér í Eistlandi í rúman mánuð. Eitt af því sem óneitanlega vekur athygli þess sem hefur dvalið lengstum á Íslandi eða Kanada (Ontario) er hve frjáls sala á áfengi er hér.
Áfengi er því sem næst til sölu allsstaðar. Allar matvörubúðir bjóða áfengi til sölu og allar vikur eru tilboð á einstökum tegundum. Flestar bensínstöðvar selja áfengi, fjölmargar sérverslanir eru með áfengi og þannig mætti áfram telja. Einu takmarkarnir sem ég hef heyrt um á sölu áfengis, eru að bannað er að selja áfengi eftir kl. 10 á kvöldin.
Úrvalið er stórkostlegt, mismunandi frá verslun til verslunar og verðlagið hreint til fyrirmyndar.
Sú röksemd heyrist oft á Íslandi, að þjónusta og úrval muni versna ef áfengissala yrði færði yfir til einkaaðila, en verslanirnar hér í Eistlandi afsanna það. Margar matvöruverslanir bjóða upp á áfengi í úrvali sem gefur ÁTVR ekkert eftir. Hægt er kaupa bjór frá ca 60 sentum, vodka frá u.þ.b. einu euroi (100ml) og upp í sverustu gerðir af koníaki sem kosta mörg hundruð euro. Ein af betri matvöruverslununum sem ég heimsótti bauð til dæmis upp á Skoska vískiflösku sem kostaði 1900 euro. Það er alltaf gaman að skoða :-)
Verðlagið er eins og áður sagði hreint til fyrirmyndar, en það er vissulega ekki eingöngu verslunum og samkeppni að þakka, heldur er hér hófleg skattlagning á áfengi af hendi hins opinbera.
Það breytir því þó ekki að alltaf eru í gangi tilboð og verðlækkanir og samkeppnin er hörð. 15 til 20% afslættir eru algengir og oft má gera góð kaup, ef áhugi er fyrir hendi.
Þá velta sjálfsagt margir fyrir sér hvort að aukið aðgengi hafi ekki ótal vandamál í för með sér. Um það ætla ég ekki að fullyrða.
Flestir hér virðast þeirrar skoðunar að vandamálin séu söm og þau hafi alltaf verið, áfengisvandamál hafi alltaf verið til staðar, ölvunarakstur sömuleiðis, en hart er tekið á ölvunarakstri og leyfilegt áfengismagn í blóð er 0.
En ég get ekki og ætla ekkert að fullyrða um slíkt hér, til þess hef ég ekki næga þekkingu á málinu.
En hitt get ég fullyrt, að samkeppnin tryggir gott úrval og verðsamkeppni sem skilar sér til neytandans hér, og það er þægilegt að geta kippt með sér vínflösku og nokkrum bjórum um leið og keypt er í matinn.
2.7.2012 | 21:59
Þjóðsöngurinn í bjór og moll
Þjóðhátíðardagur Kanada var í gær. Því er frí hér í dag (hljómar svolítið skringilega ekki satt?). Af tilefni dagsins lét Molson bjórframleiðandinn gera auglýsingu, þar sem Kanadíski þjóðsöngurinn er leikinn á hljóðfæri sem eru öll smíðuð úr bjórumbúðum.
Skemmtilega "orginal" auglýsing.
Til þess að allt sé upp á borðum, er rétt að taka fram að ég hef hér engra hagsmuna að gæta, á engin hlutabréf í Molson, né drekk þá tegund af bjór.
Hitt má líka koma fram að vinur minn og ættingi, Kyle Guðmundson, sem er nýfluttur aftur til Kanada eftir að hafa búið á Íslandi um nokkurra ára skeið, vann að auglýsingunni.
26.10.2011 | 03:34
Bannað að borða hákarl
Nú er búið að samþykkja bann við neyslu, sölu og vörslu á hákarlsuggum hér í Toronto. Bannið tekur gildi í september 2012.
Toronto fylgir hér í kjölfarið á nágrannaborgum s.s. Mississauga, Oakville og Brantford. Ef ég skil fréttirnar rétt þá nær bannið að því er virðist vera ekki til annara hluta hákarlsins en ugganna. Ef til vill er það vegna þess að enginn hefur gert sér grein fyrir því að aðrir hlutar hákarls séu etnir, en hvað veit ég.
En bannið kemur víst til út af mikilli ásókn Kínverskra íbúa Toronto í hákarlsuggasúpu. Svo mikil er eftirspurnin eftir uggum, og það vel borgað fyrir þá, að fullyrt er að hákarlar séu veiddir í stórum stíl, uggarnir skornir af og síðan mestum hluta þeirra varpað í hafið aftur. Fullyrt er að hákarlar séu í útrýmingarhættu vegna þessa og er fullyrt að allt að 70. milljónir hákarla sé slátrað árlega til að seðja uggasúpu aðdáendur. Kemur sömuleiðis fram í fréttum að 1 pund af þurrkuðum hákarlsuggum seljist fyrir u.þ.b. 300 dollara.
Sekt við sölu, neyslu eða vörslu á hákarlsuggum getur varðað allt að 100.000 dollara sekt (u.þ.b. 11.5 milljónir Íslenskra króna).
3 eða 4 borgarfulltrúar greiddu atkvæði á móti tillögunni og einnig borgarstjórinn og borgarlögmaðurinn Anna Kinastowski (no pun) lagðist gegn tillögunni á lögfræðilegum forsendum og taldi að lögin gætu skapað borginni skaðabótaskyldu.
Það má líklega segja að sveitarfélög séu að fara inn á nokkuð ótroðnar slóðir með lagasetningu sem þessari, lög sem þessi hafa yfirleitt frekar verið talin á verksviði ríkja og verður fróðlegt að fylgjast með hvernig þróunin verður í þessum efnum.
Þetta gefur bæjar og borgarfulltrúum alveg nýja vídd í hugsanlegum kosningaloforðum. Hugsanlegt verður að lofa að banna næstum því hvað sem er innan bæjar eða borgarmarka. Hugmyndaflugið verður eina hindrun "frjálslyndra stjórnmálamanna" í leitinni að nýjum hlutum sem setja má skorður eða banna.
Líklega er þetta ekki réttinn tíminn til að útskýra fyrir Torontobúum hvað Þorrablót eru.
Hér má sjá frétt National Post um bannið og hér frétt í Globe and Mail
P.S. Ljótt að segja frá því, en í huganum sá ég auðvitað strax forríka Kínverjas gúffa í sig hákarlauggasúpu og hvala sashimi á lúxusveitingastað hótelsins á Grímsstöðum á fjöllum. Það er að segja ef að hreppstjórnin verður ekki búinn að banna að hákarlauggar séu í eða fluttir um hreppinn þegar og ef það hótel rís.
27.8.2011 | 23:08
Bernaise borgarar - 30 ára gömul nýjung?
Sá á netinu að verið var að tala um Bernaise sósu á hamborgara sem merkilega nýjung.
Ætli það séu ekki u.þ.b. 30 ár síðan ég keypti fyrst hamborgara með bernaise á veitingastað á Íslandi. Það var auðvitað á Bautanum á Akureyri, en Smiðjuborgarinn sem þar var lengi á matseðlinum (er ef til vill enn), var með sveppum og bernaisesósu.
Akureyringar enda löngum staðið framarlega í nýjungum hvað hamborgarna varðar, sbr. franskar á milli o.s.frv.
En ég gæti alveg torgað einum Smiðjuborgara akkúrat núna, svona getur netið vakið hungur.
2.11.2009 | 15:21
Vísund á diskinn minn
Ég þurfti að skreppa í "sveitina" á fimmtudaginn. Nánar tiltekið hér vestur eftir ef svo má að orði komast.
Þar keypti ég tvær steikur af vísundi. "Rib eye" var það eina sem var á boðstólum á bændamarkaðnum. Þessar tvær voru síðan drifnar á pönnuna í gærkveldi og bornar fram með sætum, kartöflum og öðru góðmeti.
Það er skemmst frá að segja að þetta kjöt var aldeilis frábært. Bragðmikið, lungamjúkt og skemmtilegt undir tönn.
Vísundur verður án efa fljótlega aftur á boðstólum hér, nú þarf ég að fara að athuga hvort ég geti ekki náð í lund eða fillet einhversstaðar.
P.S. Ég keypti þessar tvær sem á miðri mynd, aðeins undir miðanum.
27.10.2009 | 02:25
Vertu blessaður Ronald McDonald
Það er dulítið skondið að sjá hve sterkar tilfinningar það vekur hjá mörgum Íslendingum að núverandi sérleyfishafar McDonalds á Íslandi ætla ekki að framlengja samning sinn við Bandaríska fyrirtækið.
Sumir virðast líta á það sem einhverskonar sigur að ekki verði hægt að fá McDo hamborgara á Íslandi, á meðan aðrir virðast vera þeirrar skoðunar að Ísland setji niður við þessa breytingu.
Samt er breytingin sáralítil. McDonalds er ekki að fara á hausinn, það á ekki að loka neinum stað, það á ekki að gera neinar veigamiklar breytingar á matseðlinum.
Nei, það á eingöngu að breyta um nafn. McDonalds breytist í Metro.
Ákvörðunin er líklega viðskiptlegs eðlis. Ávinningurinn af samstarfinu við McDonalds, réttlætir ekki það gjald sem McDonalds vill fá fyrir sérleyfið.
Að öllum líkindum er það ekkert flóknara en það.
Sjálfur er ég ekki McDonalds maður, en hef nákvæmlega engar áhyggjur af því sem aðrir borða. Því meira úrval, því betra. Rétt eins og ég læt mér það í léttu rúmi liggja að Kanadamenn drekki upp til hópa eitthvert versta kaffi sem til er, þ.e.a.s. Tim Hortons. Helst helli ég upp á Þýskt kaffi hér heima við, en skaplegt (fyrir minn smekk) kaffi má fá á ýmsum stöðum. Því meira úrval, því betra.
Ísland er hvorki verra né betra, hvort sem þar fæst McDonalds eður ei. En svo vísað sé til færslunnar hér á undan, þá spilar vissulega gengið líklega inn í þessa ákvörðun eins og svo margar aðrar. Við þessa ákvörðun eflist innlend framleiðsla, innflutningur dregst saman.
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 14:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)