Færsluflokkur: Matur og drykkur

Hágæða Bandarískt kjöt

Það má vissulega kaupa nautakjöt sem hefur verið alið með sterum í Bandaríkjunum og Kanada.  Heilbrigðisyfirvöld í báðum löndunum eru þess fullviss að slíkt kjöt sé ekki hættulegt neytendum.

Um það eru skiptar skoðanir, en ég hef hvergi rekist á sannanir þess efnis að slíkt sé hættulegt, né heldur afgerandi sannanir þess efnis svo sé ekki.  Það verður þó ekki séð að heilsufar Kanadabúa sé verra en annara svo eftir verði tekið.

En bæði Kanada og Bandaríkin bjóða upp á gríðarlegt úrval af kjöti sem ekki er alið með sterum og mikið af því hefur vottun sem "náttúrulegar afurðir", eða hvað við viljum kalla það.

Af því að Costco hefur verið mikið í umræðunni má t.d. benda á síður þar sem Costco netverslun býður upp á nautakjöt, bæði í Bandaríkjunum og svo í Kanada(Ontario), en úrvalið er mismunandi.

Eins og sjá má er úrvalið mun meira í Bandaríkjunum.

En Costco býður líka upp á t.d. vísundakjöt og villibráð, það er að segja í  Kanada, en það gat ég ekki fundið á Bandarísku heimasíðunni.

Úrvalið er síðan annað í verslunum og líklega býsna misjafnt eftir staðsetningum, alla vegna er það mín reynsla.

En það er gott að þessi mál eru komin inn í umræðuna, en hún þarf, svo vel fari, að vera án upphrópanna og svigurmæla.

Reglugerðir um kjötframleiðslu eru mismunandi um víða veröld.  En það þarf að hafa í huga að reglugerðir eru eitt og framkvæmd þeirra og árangur annað.

Ég geri að sjálfsögðu ekki kröfu um að vera sérfræðingur í þessum efnum, en mér hefur oft verið sagt að löggjöf Evrópusambandsins um matvælaframleiðslu sé mun strangari en sambærileg löggjöf í Bandaríkjunum og ég hef ekki dregið það í efa.

En þeir hinu sömu hafa sagt að árangur Bandaríkjamanna, t.d. hvað varðar sýkingar í fólki, sé mun betri.  

Það er auðvitað gömul saga og ný, að sú trú að reglugerðir, boð og bönn leysi vanda, nær ekki langt, án eftir og framfylgni.

Það þekkja Íslendingar líka, af kjötlausum kjötbökum og mismunandi tegundum af salti.  Reyndar má telja ólíklegt að kjötlausu bökurnar hefðu uppgötvast, nema vegna þess að umræðan fór að snúast um hrossakjötsíblöndun.

Það hneyksli, sem margir vilja halda fram að hafi viðgengist í Evrópu svo árum skipti, sýnir hve reglugerðir ná skammt.  Þar var þó engin hætta á ferðum, einfaldlega vörusvik.  Þó gilda aðrar reglur um lyfjagjafir fyrir hross (sem eru ekki ætluð til matar) og því fyllsta ástæða til að hafa áhyggjur.

En nýlega fékk ég þessa töflu senda í pósti:

US EU comparative food borne illness rates 608x352

Taflan er fengin af síðu capreform.eu, og má finna í þessari grein, en upprunlegu vinnuna má finna hér.

Rétt er að taka fram að þetta er engin stóri dómur, það er erfitt að gera slíkan samanburð og  skiptar skoðanir um gögnin, eins og sjá má hér.

Þessi samanburður er um matvæli almennt, en fókusar ekki á nautakjöt.

Einnig hafa verið uppi harðar deilur um erfðabreytt matvæli.  Rétt eins og hvað vaxtarhormón varðar eru uppi skiptar skoðanir í því máli.  Það þarf ekki að fara út fyrir Moggabloggið til að finna góða grein um það efni.

Margir eru þeirrar skoðunar að andstaða og bönn í Evrópu snúist fyrst og fremst um að vernda innlenda framleiðslu, en sitt sýnist hverjum.

Sjálfur neyti ég mikils kjöts og annara landbúnaðarafurða.  Ég hef ekki óttast það kjöt sem mér hefur staðið til boða, en viðurkenni það fúslega að núorðið sneyði ég í vaxandi mæli hjá unnum kjötvörum.  Ég kaupi ekki einu sinni kryddlegið kjöt.

Hvað mig varðar lít ég að mestu svo á að "matvælavinnslur" eða hvað við viljum kalla það, séu "veiki hlekkurinn" í minni fæðukeðju.

Ég er þeirrar skoðunar að ekkert geti komið í veg fyrir aukin innflutning á kjöti og landbúnaðarafurðum í Íslands á næstu árum. 

Fréttir undanfarinna missera um innflutning á svínasíðum (í beikon), smjöri og öðrum vörum sýnir hver þróunin verður.  Stjórnvöld virðast því miður fyrst og fremst hafa áhuga á því að passa upp á að almenningur njóti þess ekki verðlega og innlendir framleiðendur (ekki síst afurðastöðvar) njóti verndar.

Samhliða því að aðildarumsókn að "Sambandinu" yrði dregin til baka á næstunni, ættu Íslensk stjórnvöld að vinna áætlun til nokurra ára, hvernig best verði staðið að því að heimila aukin innflutning á landbúnaðarvörum, á forsendum Íslendinga, og með hæfilegum skrefum og hraða.

 


mbl.is Segir bandarískt kjöt örugga vöru
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hljómar líklega

Þessi frétt hljómar trúverðuglega.  Hún er mun trúverðuglegri en ýmsar aðrar fréttir sem sagðar hafa verið um áhuga Costco undanfarna daga.

Því miður er það svo að ýmsum Íslenskum fjölmiðlum hættir til að fara undarlega stíga í fréttaflutningi.

Þannig fóru að birtast fréttir í ýmsum Íslenskum fjölmiðlum um hálfgerða kröfugerð Costco á hendur Íslenskum stjórnvöldum.  Þegar þessi frétt er lesin kemur í ljós að þær fréttir virðast ekki eiga við nein rök að styðjast.

Ef til vill var framsetningin fyrst og fremst með þeim hætti til reyna að setja Costco í neikvætt ljós og gefa þeim sem fyrir eru á markaði tækifæri til að stíga fram með yfirlýsingar?

Hér er hins vegar fjallað um málið að rólegan og yfirvegaðan hátt.

Það stemmir við mína reynslu (sem viðskiptavinur) af Costco, þar sem verslanirnar eru lagaðar að þeim lögum og reglum, þar sem þær starfa.  Eru þess vegna eðlilega mismunandi, bjóða yfirleitt nokkuð gott úrval af "local" vörum þó að kjarninn sé hinn sami og framsetning.

En það kemur mér ekki á óvart að mikið sé lagt í undirbúninginn, þó að ákvörðun hafi ekki verið tekin.  Þannig vinnur Costco og hefur ferla og undirbúning á hreinu.

Það hlýtur sömuleiðis að vera Íslendingum umhugsunarefni að lágmarkslaun sem Costco hefur ákveðið fyrir sitt fyrirtæki séu hærri en lágmarkslaun á Íslandi.

En það stemmir við það sem ég hef heyrt.  Costco hefur gott orð á sér sem vinnuveitandi, borgar ágætis kaup, gerir vel við sitt fólk og að starfsmannavelta sé frekar lítil.

Það hljómar ef til vill undarlega, en í þeirri Costco verslun sem ég hef verslað mest í, þekki ég orðið mörg andlitin og þau kannast við marga af kúnnunum.

Costco sker sig sömuleiðis frá öðrum verslunum sem ég hef stundað, með því að við útgöngudyr stendur alltaf starfsmaður (eða menn) og fara yfir strimilinn og gjóa augunum yfir körfuna.

Næstu alltaf þegar krakkarnir voru littlir og voru með mér, teiknaði starfmaðurinn lítið skrípó, eða í það minnsta kosti broskall og afhenti krökkunum.  

Mér er nær að halda að það hafi verið "polisía" í versluninni.


mbl.is Gríðarleg vinna lögð í komu Costco
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innflutningur á heilsubresti

Eins og alltaf þegar innflutningur matvæla ber á góma á Íslandi, kemur það í umræðuna að heilsufari Íslendinga stafi hætta af innflutningi.

Nú er það svo að það er flutt inn gríðarlegt magn af matvælum til Íslands og meira að segja þó nokkuð af kjötmeti.

Yfirvöld virðast ekki hafa verulegar áhyggjur af áhrifum þess á heilsu Íslendinga en þeim mun meiri áhyggjur af því að innflutt kjöt hafi heillavænleg áhrif á pyngju þeirra.

Því innflutt kjöt má ekki vera ódýrt.

Það er reynt að koma því svo fyrir að það verði því sem næst eins dýrt og framast er unnt.

Ég hef oft sagt það áður að ég tel að aukin innflutningur á kjöti sé óhjákvæmilegur.  Það er hins vegar engin ástæða til þess að ganga í "Sambandið" til þess að svo megi verða.  

Það er heillavænlegra fyrir Íslendinga að taka slíkar ákvarðanir á eigin spýtur, og skipuleggja þær á eigin hraða.

Það er heldur engin ástæða til að einskorða sig við vörur frá "Sambandinu", nautakjöt má sækja til S-Ameríku, kengúrukjöt til Ástralíu, buffaló kjöt til Kanada, o.sv.frv.

Það er sömuleiðis nauðsynlegt að draga úr íþyngjandi tollum á innflutninginn, en slíkt er best gert í áföngum og löngu tímabært að Íslendingar búi til áætlun í þeim tilgangi.


Það eru engir eins og Frakkar

Það eru engir eins og Frakkar.  Ýmsir myndu líklega bæta við hér, sem betur fer, en aðrir óska sér þess að þeir væru fleiri sem tækju sér þá til fyrirmyndar.

En það er stórt skref að heimila að banna léttvín á Frönskum vinnustöðum.

Það er rétt að undirstrika það, að það er einungis verið að heimila að banna léttvín á Frönskum vinnustöðum, ekki að banna léttvín á Frönskum vinnustöðum.

Á því tvennu er mikill munur.

Og segir okkur líka hve mikill "menningarmunur" er á milli þjóða.

En "tveggja tíma hádegisverði" er varla í útrýmingarhættu í Frakklandi.

Samanburðurinn á milli Frakklands og Bandaríkjanna í hektólítrum er svo ekki mikið til að taka mark á.   Líklega taka Kínverjar fram úr Bandaríkjamönnum fyrr en varir.

Neysla á eintakling er svo allt annað mál.

Það er enda aukin neysla í Asíu, sem hefur haldið uppi frekar háu verði á víni undanfariin ár.  Ásamt auðvitað áráttu Evrópusambandsins að breyta gæða víni í edik og eldsneyti.  En það er önnur saga.

 

 


mbl.is Mega banna vín á vinnustöðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Costco, bensínstöðvar, áfengi og frjáls innflutningur á kjöti

Mér finnast þær fréttir sem ég hef lesið um áhuga Costco á því að opna verslanir á Íslandi tæpa á nokkrum málum sem vekja ættu athygli.

Í upphafi er rétt að taka það fram að ég hef átt býsna löng og ánægjuleg viðskipti við Costco og er líklega ekki jafn tryggur nokkuri annari verslunarkeðju.

Í fyrsta lagi er það auðvitað nokkuð merkilegt að jafnvel opnun verslunar á smásölusviði skuli krefjast langra viðræðna við yfirvöld, bæði á landsvísu og sveitarstjórnarstigi.

Það vekur athygli mína að borgarfulltrúi Samfylkingar telur vandkvæði á því að leyfa Costco að selja bensín og aðra orkugjafa. Eftir honum er haft að það sé kappnóg af bensínstöðvum í Reykjavík.

Þetta er gott dæmi um hvernig skipulagsmál eru notuð til að hindra og koma í veg fyrir samkeppni.  Það má vel vera að það sé nóg af bensínstöðvum í Reykjavík, ég ætla ekki að dæma um það.  En það þýðir ekki að ekki sé þörf á fleiri aðilum til að selja bensín í Reykjavík.  Skipulag á að vera sveigjanlegt.  

Borgaryfirvöld hafa einmitt með takmörkunum í skipulagi, skaðað samkeppni og stórar keðjur hafa getað einokað staðsetningar og þannig lagt stein í götu samkeppni.

Annað sem vekur athygli mína er að Costco sé í viðræðum við ráðherra, ef marka má fréttir um að breyta landslögum, eða fá undanþágur frá þeim.  Það er auðvitað allt eins líklegt að lítið sé að marka fréttirnir, fjölmiðlar eru jú mis áreiðanlegir.

En ráðherrar sem taka sig alvarlega ræða slíkt ekki við einstök fyrirtæki. 

Mér er reyndar næst að halda að þetta sé ekki rétt, því Costco er þekkt fyrir að laga sig að aðstæðum á hverjum stað.

Hvað varðar áfengi er til dæmis ekkert áfengi selt í verslunum Costco í Ontario.  Þar hefur fylkið einkasölu á áfengi.  Það hefur ekki staðið í vegi fyrir því að verslanir Costco njóti vinsælda og blómstri.  Í Quebec er eingöngu selt létt vín og bjór í verslunum Costco, vegna þess að fylkið hefur einkasölu á  sterku áfengi.

Það má geta þess til gamans, að íbúar Ontario sem búa nálægt fylkjamörkunum við Quebec, flykkjast yfir í næsta Costco og má oft vel hlaðna pallbíla á bílastæðunum við Costco.

Hvað varðar innflutning á kjöti, hlýtur Costco einfaldlega að þurfa að sætta sig við þær reglur sem í gildi eru á Íslandi, ekkert annað getur komið til greina, hversu heimskulegar sem okkur kunna að þykja reglurnar.  

En það er löngu tímabært að huga að því hvernig Íslendingar sjá skipan mála fyrir sér til framtíðar, bæði hvað varðar erlendar fjárfestingar, skipan áfengissölu og innflutning á landbúnaðarafurðum.

En það á ekki að ræða slíkt út frá einstökum tilfellum.

En það væri óneitanlega akkur fyrir Íslendinga ef að smásölurisi á borð við Costco hefur starfsemi á Íslandi.

P.S. Eru Íslendingar komnir í þá stöðu að velgengni fyritækis á borð við Costco á Íslandi, gæti haft neikvæð áhrif á stöðu lífeyrissjóða þeirra?


Ýsa var það heillin

Í gærkveldi borðaði ég Íslenskan fisk eftir nærri tveggja ára hlé.  Það var ótrúlega ljúfengt.

Stinn og góð ýsa og bragðgæðin engu lík.

Börnin skríktu af kátínu, enda ólíkt hvað þau eru hrifnari af fiski en faðir þeirra var á sama aldri.  Það hefur líklega eitthvað að gera með tilbreytni og tíðni.

Það spillti ekki kátínunni, að Íslenska orðið ýsa, er framborið nákvæmlega eins og Eistneska orðið isa, sem þýðir pabbi.

Það gaf færi á mörgum orðaleikjum og bröndurum. 


Til hamingju með daginn

Það er full ástæða til þess að óska Íslendingum öllum til hamingju með að 25 ár skuli vera liðinn frá því að banni við sölu á bjór var aflétt.

Ef ég man rétt eru aðeins 2. þingmenn af þeim sem greiddu atkvæði um bjórfrumvarpið svokallaða enn á þingi.  Það eru Steingrímur J. Sigfússon sem sagði nei, og Einar K. Guðfinnsson (þá varaþingmaður ef ég man rétt) sem sagði já.

En ég velti því nokuð fyrir mér hvernig áfengisneysla á íbúa er mæld.  Á þeim 25 árum sem bjór hefur verið löglegur á Íslandi, hefur ferðamannastraumur stóraukist.  Nú þekkja það líklega margir að áfengisneysla er gjarna all nokkur í fríum, ekki hvað síst bjór og léttvínsdrykkja.

Hvernig skyldi neysla ferðamanna vera tekin með í útreikningum um áfengisdrykkju landsmanna, eða er hún það yfirleitt?

Ef einhver kann svar við því, þætti mér fengur af upplýsingum í þá veru, t.d. í athugasemdum hér að neðan. 

 


mbl.is Hrakspár rættust ekki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að drekka hvítvín með humrinum, eða bara af stút

Nú sit ég og skrifa þessar línur í einu af fátækari löndum Evrópu.  Hér má kaupa hvítvín eða hvaða annarð áfengi sem er, hvaða dag vikunnar, í matvöruverslunum, áfengisverslunum, söluturnum, bensínstöðvum o.s.frv. 

Hvort sem hvítvínið er ætlað til neyslu með humri, eða það er drukkið af stút.

Og þrátt fyrir að ríkidæmið sé ef til vill ekki mikið kaupir almenningur hvítvín - líka á sunnudögum.  Þrátt fyrir það munu vera hér all nokkur fjöldi starfandi guðshúsa og messað í flestum þeirra á sunnudögum.

En ég velti því fyrir mér hvort að Íslendingar haldi að fátæktin hér stafi af þessu frjálsræði í áfengissölu, eða því að hér ríkti harðstjórn, ofríki og stjórnlyndi kommúnismans í ríflega fimmtíu ár.

 


Varla hægt að hugsa sér betra teboð

Ég get tekið undir þetta.  Það væri varla hægt að hugsa sér mikið skemmtilegra teboð, en ef Stephen Fry væri gesturinn.

Vissulega væri félagi hans til margra ára, Hugh Laurie, skemmtileg viðbót.  Sérstaklega ef hann myndi spila á píanóið.

Þeir eru vissulega margir sem væru góðir te-félagar, en Fry er tvímælalaust í hópi þeirra bestu.

Hvað kaffi-féalga varðar, væri listinn allt öðruvísi, kaffi drykkja er enda allt önnur athöfn. 


mbl.is Fry hinn fullkomni te-félagi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sigur skynseminnar

Það er sterk trú víða um lönd, alla vegna að virðist meðal stjórnmálastéttarinnar, að með því að setja lög megi útrýma ýmsum neyslu vandamálum.

Oftast er það þó svo að það dugar skammt.   

Vissulega er óhóflegt gosþamb ekki til fyrirmyndar, en hvort að það réttlæti að banna stór glös held ég að rétt sé að draga í efa.

Ég held t.d. að banna stórar flöskur af áfengi, myndi lítið hafa að segja í að draga úr neyslu þess.

Þegar haft er í huga að hin stóru gosglös eru gjarna framreidd með stórum skömmtum af matvælum og svo hitt að margir veitingastaðir á því markaðsvæði sem um ræðir bjóða fría áfyllingu á gosið, þá hygg ég að flestir geri sér grein fyrir því að áhrifin af lagasetningu sem þessari, yrðu í besta falli takmörkuð.

Þess má einnig geta í þessu sambandi að sé áfengi blandað út í gosdrykkina, náð þau lög sem rætt er um, ekki yfir slík "glös". 

En þetta sýnir ef til vill hve langt "velmeinandi" stjórnmálamenn eru reiðubúnir til þess að teygja sig í lagasetningum. 

Þetta sýnir ef til vill einnig, hversu hinir sömu "velmeinandi" stjórnmálamenn eru áhrifamiklir og stjórna miklu í "land of the free".

P.S.  Spurningin er auðvitað hvort ekki komi að því fljótlega, einvhersstaðar,  að offitu verði útrýmt með lagasetningu.  Það er að setja að offita verði bönnuð, að viðurlögðum sektum. 

 


mbl.is Stöðvaði gildistöku laga um gosdrykki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband