Costco, bensínstöðvar, áfengi og frjáls innflutningur á kjöti

Mér finnast þær fréttir sem ég hef lesið um áhuga Costco á því að opna verslanir á Íslandi tæpa á nokkrum málum sem vekja ættu athygli.

Í upphafi er rétt að taka það fram að ég hef átt býsna löng og ánægjuleg viðskipti við Costco og er líklega ekki jafn tryggur nokkuri annari verslunarkeðju.

Í fyrsta lagi er það auðvitað nokkuð merkilegt að jafnvel opnun verslunar á smásölusviði skuli krefjast langra viðræðna við yfirvöld, bæði á landsvísu og sveitarstjórnarstigi.

Það vekur athygli mína að borgarfulltrúi Samfylkingar telur vandkvæði á því að leyfa Costco að selja bensín og aðra orkugjafa. Eftir honum er haft að það sé kappnóg af bensínstöðvum í Reykjavík.

Þetta er gott dæmi um hvernig skipulagsmál eru notuð til að hindra og koma í veg fyrir samkeppni.  Það má vel vera að það sé nóg af bensínstöðvum í Reykjavík, ég ætla ekki að dæma um það.  En það þýðir ekki að ekki sé þörf á fleiri aðilum til að selja bensín í Reykjavík.  Skipulag á að vera sveigjanlegt.  

Borgaryfirvöld hafa einmitt með takmörkunum í skipulagi, skaðað samkeppni og stórar keðjur hafa getað einokað staðsetningar og þannig lagt stein í götu samkeppni.

Annað sem vekur athygli mína er að Costco sé í viðræðum við ráðherra, ef marka má fréttir um að breyta landslögum, eða fá undanþágur frá þeim.  Það er auðvitað allt eins líklegt að lítið sé að marka fréttirnir, fjölmiðlar eru jú mis áreiðanlegir.

En ráðherrar sem taka sig alvarlega ræða slíkt ekki við einstök fyrirtæki. 

Mér er reyndar næst að halda að þetta sé ekki rétt, því Costco er þekkt fyrir að laga sig að aðstæðum á hverjum stað.

Hvað varðar áfengi er til dæmis ekkert áfengi selt í verslunum Costco í Ontario.  Þar hefur fylkið einkasölu á áfengi.  Það hefur ekki staðið í vegi fyrir því að verslanir Costco njóti vinsælda og blómstri.  Í Quebec er eingöngu selt létt vín og bjór í verslunum Costco, vegna þess að fylkið hefur einkasölu á  sterku áfengi.

Það má geta þess til gamans, að íbúar Ontario sem búa nálægt fylkjamörkunum við Quebec, flykkjast yfir í næsta Costco og má oft vel hlaðna pallbíla á bílastæðunum við Costco.

Hvað varðar innflutning á kjöti, hlýtur Costco einfaldlega að þurfa að sætta sig við þær reglur sem í gildi eru á Íslandi, ekkert annað getur komið til greina, hversu heimskulegar sem okkur kunna að þykja reglurnar.  

En það er löngu tímabært að huga að því hvernig Íslendingar sjá skipan mála fyrir sér til framtíðar, bæði hvað varðar erlendar fjárfestingar, skipan áfengissölu og innflutning á landbúnaðarafurðum.

En það á ekki að ræða slíkt út frá einstökum tilfellum.

En það væri óneitanlega akkur fyrir Íslendinga ef að smásölurisi á borð við Costco hefur starfsemi á Íslandi.

P.S. Eru Íslendingar komnir í þá stöðu að velgengni fyritækis á borð við Costco á Íslandi, gæti haft neikvæð áhrif á stöðu lífeyrissjóða þeirra?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband