Færsluflokkur: Matur og drykkur
23.1.2015 | 20:29
Rökrétt niðurstaða. Skyr er "tegundarheiti".
Það er ákflega rökrétt niðurstaða að enginn geti skráð vörumerkið skyr. Í raun er það fáránlegt að slíkt skuli hafa verið hægt í einhverjum löndum.
Rétt eins og enginn ætti að eiga vörumerkið skyr á Íslandi, ætti engin að eiga rétt á því í öðrum löndum.
Rétt eins og nefnt er í Svíþjóð að enginn eigi að eiga rétt á nafninu jógúrt.
Að mínu mati er rétt að gjalda varhug við því að fyrirtæki eða einstaklingar eignist "vörumerki" af þessu tagi.
Hið opinbera á ekki að styðja við fáranlegar kröfur sem þessar.
Engin á að eiga tegundaheiti.
Við viljum ekki að einhver eigi sem vörumerki, orð s.s. jógúrt, skyr, pizza, ostur, pepperoni, mjólk, bíll, flugvél, kjöt, kleina, brauð, o.s.frv.
Við eigum auðvitað að gera kröfu til þess að skyr sé ekki kallað "Icelandic skyr", nema að það sé framleitt á Íslandi.
En á slíku á fyrirtæki eins og MS auðvitað ekki heldur að eiga einkarétt á.
Persónulega hefur mér oft þótt illa á þessum málum haldið á Íslandi (og líklega víðar) og fyrirtækjum of oft leyft að slá eign sinni á algeng orð eða hugtök.
Síðasta dæmi um slíkt sem ég man eftir er orðið "gull" tengt bjór.
MS fær ekki einkarétt á skyri | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
13.1.2015 | 06:45
Tvíræðar túrismaauglýsingar
Íslensk ferðaþjónustufyrirtæki hafa stundum legið undir ámæli fyrir nota tvíræð skilaboð í auglýsingum sínum. Ýjað sé að kynlífi og lauslæti.
Líklega fer því best á að vera ekkert að tala mikið um "Bárðarbunga" og eldgosið þar í grend, á Ítalska markaðnum.
4.1.2015 | 16:12
Væri ekki rétt að segja takk fyrir árin tíu?
Ég er ekki einn af viðskiptavinum Bernhöftsbakarís, í það minnsta ekki undanfarin 10 ár. En mér finnst þér eiga þakkir skildar, ef það er rétt að verðið á rúnstykkjunum hafi haldist óbreytt í 10 ár.
Mér er það til efs að margt annað hafi haldið sama verði á því tímabili.
60% hækkun verður að teljast veruleg, en ef það er rétt sem kemur fram í tilkynningunni að algengt verð sé mikið hærra, er engin ástæða til annars en að fagna lágu verði.
En auðvitað er 60% hækkun ekki tilkomin vegna þess að virðisaukaskattur hækkaði um 4% stig. Það hefði leitt til 3.73% hækkunar að öllu jöfnu.
Rúnstykki sem áður kostaði 50 krónur hefði verið kækkað upp í 51.90 eða 52 krónur.
En það er auðvelt að ímynda sér að hækkunarþörfin hafi verið orðin mikil eftir 10 ár.
En það er í besta falli grátbroslegt að sjá skrifað eins og þessa hækkun megi rekja til hækkunar á virðisaukaskatti og skrifaða á ríkisstjórnina.
Það væri auðvitað mikið nær að þakka Bernhöftsbakarí fyrir að hafa "haldið í sér" í 10 ár.
En hitt er svo að ég leyfi mér að efast um að 60% hækkun hafi áður skilað fyrirtæki jafn mikilli og þó jákvæðri umfjöllun áður.
Rúnstykkin hækka um 60% | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 17:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.10.2014 | 16:54
Jólabókin í ár: Eldað með Hagstofunni
Ég hef séð það hér og þar á netinu, að mikið er rætt um neysluviðmið Hagstofunnar, sem kemur fram í virðisaukaskattsfrumvarpi fjármálaráðuneytisins.
Ég skal fúslega viðurkenna að ég þekki illa orðið verðlag á Íslandi, og ætla því ekki að koma með neinar ráðleggingar hvernig 4ja manna fjölskylda borði fyrir u.þ.b. 3000 kall á dag, ef ég hef skilið rétt.
Hér og þar hefur mátt lesa um drjúga reiði í garð fjármálaráðherra fyrir að bera slíka vitleysu á borð.
En mér er spurn, við hvað á fjármálaráðuneytið að miða, ef ekki neysluviðmið gert af Hagstofunni?
Er ekki nær að beina reiðinni að Hagstofunni? Og lægi ekki beinast við að fjölmiðlar öfluðu upplýsinga um hvernig neysluviðmiðið er saman sett? Hvað kaupir Hagstofan fyrir "allan peninginn"?
Síðan má ef til vill hvetja Hagstofuna til að gefa út hugmyndir að matseðlum, nú eða matreiðslubók, því all margir virðast þurfa aðstoð til að ná að lifa af þeirri upphæð sem neysluviðmiðið tiltekur.
Er ekki að efa að slík bók kæmist á metsölulista.
Við ölum fólk ekki bara á hafragraut | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
9.10.2014 | 08:31
Þökkum fyrir að skyrið sé framleitt utan Íslands
Það er gríðarlega góður kostur að skyr sé framleitt "undir leyfi" Íslendinga erlendis. Það er mikið betri kostur en að reyna að ná allri framleiðslunni "heim".
Það hljómar vissulega vel þegar því er haldið fram að það sé slæmt að Íslendingar geti ekki framleitt allt það skyr sem útlendingar vilji kaupa.
Auðvitað vilja Íslendingar framleiða eins mikið og mögulegt er og flytja það út.
En ef málið er skoðað nánar, hygg ég að flestir ættu að geta verið sammála því að best fari á því að reyna að koma á framleiðslu erlendis, undir Íslenskum "leyfum", eins og kostur er.
Með því vinnst margt.
Mjólkuriðnaður er í eðli sínu ekki hefðbundinn iðnaður, að því marki að innkaup á hráefni, sérstaklega á litlum markaði eins og Íslandi, gerast ekki "spontant". Mjólkurframleiðsla verður ekki aukin, eða dregin saman, á stuttum tíma, þó vissulega sé auðveldara að draga saman en að auka.
Því hafa bæði Norðmenn og Íslendingar kynnst á undanförnum misserum, þegar neysluvenjur hafa breyst og líklega á Íslandi, einnig vegna stóraukins ferðamannastraums. Þá hefur þurft að grípa til innflutnings, hversu illa sem mönnum kann annars að vera við hann.
Það getur því verið hættulegt að byggja upp gríðalega mjólkurframleiðslu til þess eins að bregðast við mikilli eftirspurn á skyri, sem kann ef til vill ekki að vara að eilífu.
Einnig er vert að hafa í huga að ef vinsældir skyrs halda áfram að aukast og taka markaðshlutdeild frá öðrum mjólkurvörum, er næsta víst að stórir aðilar í mjólkuriðnaði fari að framleiða skyr. Það er reyndar mjög líklegt með vaxandi vinsældum.
Þá eru Íslendingar mun betur staddir í samvinnu við þokkalega stór framleiðslufyrirtæki erlendis, með styttri leiðir á markaði og betur staddir að takast á við sveiflur, heldur en ef öll framleiðsla færi fram á Íslandi.
Þróun í þessa átt má þegar sjá í Bandaríkjunum.
Persónulega er ég þeirrar skoðunar að ef Íslendingar ætli sér að vinna hylli markaða víða, sé slíkt samstarf og "leyfisveitingar" eina færa leiðin.
Það er oft rætt um gríðarlega útflutningsmöguleika á Íslenskum landbúnaðarafurðum, rétt eins og Helgi Hjörvar gerir í viðhengdri frétt. Einhverra hluta vegna lætur það þó jafnan á sér standa, þó eytt hafi verið hundruðum milljóna í markaðsetningu.
Mér finnst einhvern veginn blasa við að slíkt yrði heldur, öllu jöfnu, Íslenskum skattgreiðendum ekki til hagsbóta.
P.S. Það er svo auðvitað allt annað mál, en ég hef heyrt marga kvarta undan þeirri staðreynd, að hollustuvöru eins og skyr, sé oft erfitt að finna í Finnlandi án efna eins og sucralose og acesulfame K. Ýmsir sem ég hef heyrt í borða ekki skyr vegna þessa.
Eru þessi sömu efni almennt notuð í skyr á Íslandi?
Bændur stæðu betur innan ESB | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 12:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
7.10.2014 | 07:20
Góð þróun
Þeir eru býsna margir sem vilja telja Íslendingum trú um að best að allt sem snýr að landbúnaði sé í fárra höndum. Þannig fáist bestu afurðirnar og lægsta verðið.
En samkeppni eykur yfirleitt fjölbreytni, stuðlar að vöruþróun og styður leitina að hagræðingu og framþróun.
Boðleiðir á milli eigenda, framleiðenda, starfsfólks og neytenda verða styttri og fjölbreyttari.
Það er virkilega ánægjulegt að enn skuli vera til einstaklingar sem hafa áhuga og kraft til að leita annara leiða í framleiðslu á landbúnaðarvörum.
Ég vona að þessi tilraun gangi upp.
Fyrsta handverkssláturhús landsins | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
26.9.2014 | 07:17
Órói í vændum - Almenningur hefur misst þolinmæðina gagnvart bændum og fyrirtækjum þeirra
Þó að MS eigi vissulega andmælarétt, þá virðist blasa við að fyrirtækið hefur hagað sér eins og fíll í postulínsbúð á mjólkurmarkaði.
Í raun kemur það fáum á óvart. Það kemur ef til vill mest á óvart að Samkeppniseftirlitið skuli hafa dug til að komast að þeirri niðurstöðu. En eins og stundum er sagt, lengi er von á einum.
Það sama má ef til vill segja um Framsóknarflokkinn. Það mega vissulega teljast tíðindi að þingmaður Framsóknar höggvi með þessum hætti að Mjólkursamsölunni. Betra seint en aldrei myndu líklega margir segja.
Í gegnum tíðina hefur almenningi verið hlýtt til Íslenskra bænda. Kunnað að meta afurðir þeirra og sætt sig við að greiða fyrir þær mun hærra verð en þyrfti fyrir innfluttar í mörgum tilfellum.
En ekkert varir að eilífu.
Og eins og eins og þekkist frá eldfjöllunum, verður gosið oft öflugra eftir því sem erfiðarar er fyrir kvikuna að ná upp á yfirborðið.
Og það hefur lengi kraumað undir hjá almenningi.
En á undanförnum misserum hefur komið upp á yfirborðið mál sem eru til þess fallin að svifta bændur og afurðasölu fyrirtæki þeirra stuðningi almennings.
Það þykir sjálfsagt að fyrirtæki eins og MS flytji inn tugi tonna af erlendu smjöri, noti það í framleiðslu sína, án þess að upplýsa neytendur sérstaklega um. Þá er engin hætta búin, eða hvað? Hættan er aðeins ef að almenningur fengi að kaupa það á lægra verði.
Svína og nautakjöt er flutt inn sem aldrei fyrr. Breytt í beikon og hamborgara og flest það sem nöfnum tjáir að nefna. Stundum og stundum ekki fær almenningur að vita um uppruna.
Bændur og Framsóknarþingmenn básúna svo reglulega um hættuna af innflutningi. En eina hættan sem þeir virðast berjast gegn, er hættan á að almenningur njóti betra verðs.
Því innflutningurinn er leyfður og er til staðar, en verðið má ekki lækka.
Eftir stendur grímulaus hagsmunagæsla, sem keyrir samkeppnisaðila í þrot, sama hve smáir þeir eru.
Það er nauðsynlegt að brjóta upp kerfið, afnema allar undanþágur frá samkeppnislögum og setja upp 5 til ára áætlun, um stóraukin innflutning, lækkun niðurgreiðsla og tollaafnám.
Því lengur sem það dregst, því meira dregur úr stuðningi við bændur og aðgerðirnar sársaukafyllri þegar þar að kemur.
Leiðin áfram getur ekki verið í óbreyttu kerfi.
P.S. Getur getur einhver útskýrt fyrir mér hvernig stendur á því að aukin mjólkurframleiðsla velldur skorti á nautakjöti?
Stjórnvöld ekki sinnt ábendingum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
21.9.2014 | 09:59
Íslenskur ananas?
Allar upplýsingar um vöru eru af hinu góða og hjálpa kaupandanum að taka ákvarðanir. Að fá upplýsingar um upprunaland er af hinu góða en vissulega má deila um það hvort það er nauðsynlegt.
Það má alltaf deila um það hversu langt að ganga að binda eitt og annað í lög, en ég er þó þeirrar skoðunar að hér eins og víða, verði það krafa neytandans sem verður ofan á, alla vegna á endanum.
Sýni neytendur skýran vilja til að fá upprunamerkingar, þá munu þeir framleiðendur sem veita þær upplýsingar verða ofan á.
Í Kanada er t.d. að sjálfsögðu nóg að segja að vara sé framleidd í Kanada, en margir ganga lengra og segja að að varan sé framleidd í Quebec, Alberta eða Newfoundland. Enn aðrir merkja framleiðsluna býli sínu. Bæði í Kanada og í Bandaríkjunum má sjá orðunum "with pride in" bætt við fyrir framan fylkis eða ríkisnafns.
Sömuleiðs held ég að það sé orðið í flestum tilfellum nóg að merkja vöru sem framleidda í EU, í "Sambandinu", en flestir merkja hana framleiðslulandinu.
En svo er það hitt sem minnst er á í fréttinni, sem vert er að gefa gaum að.
Það er að vara teljist Íslensk ef hún hefur tekið "umtalsverðum breytingum" eftir að hún var flutt til landsins.
Mér þætti fróðlegt að vita meira um þær reglur og hvað "umtalsverð" breytingin þarf að vera og hvernig það er reiknað út.
Ég veit að í Kanada er miðað við hvað "virðisaukinn" hefur verið mikill, það er að segja hvað innlenda "breytingin" bætti miklu við verðmætið.
Mér er t.d. minnistætt þegar ég sá skilti í verslun, þar sem á stóð: "Cored Pineapple, made in Canada, with imported parts.".
Ætli mætti heimfæra það upp í Íslenskar aðstæður sem: "'Kjarnhreinsaður og flysjaður Ananas, Íslensk framleiðsla, úr innfluttum íhlutum"?
Ég held full þörf sé á að ræða mun frekari upplýsingaskyldu í slíkum tilfellum og líklega veitir ekki af góðri umfjöllun um hvernig vörur verða "Íslenskar" með þessum hætti.
Vilja betri upprunamerkingar matvæla | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 10:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.9.2014 | 15:45
Skatturinn hækkar ríflega 50% meira á hina efnamestu, borið saman við hina efnaminnstu
Það er engin leið að ég tel til að halda því fram að virðisaukaskattur sé góður til að jafna tekjumun. Þó virðast margir standa í þeirri meiningu ef marka má umræður á Íslandi.
Ef marka má það sem kemur fram í fréttinni, eykur það kostnað hinna tekjulægstu um u.þ.b. 33.000, að virðisaukaskattur á matvæli hækki úr 7% í 12. Það eykur hins vegar kostnað þeirra tekjuhæstu um tæplega 53.000.
Þessi hækkun leggst því mun þyngra á hina tekjuhærri.
Það er því þarft að hefja umræðu um hvort að það megi ekki finna betri leið til að styðja við hina tekjulágu en lágan virðisaukaskatt.
Annar angi af hærri virðisaukaskatti á matvæli, er að ferðamenn, sem auðvitað kaupa meiri matvæli með sívaxandi fjölda þeirra skila þá hærri skatti í ríkiskassann.
Með lækkandi vörugjöldum og lækkun almenns virðisaukaskatts, verður Íslensk verslun vonandi betur samkeppnishæf við útlönd og flytur verslun heim, ekki er vanþörf á.
Síðan er mikið rætt um þá hættu að lækkun á vörugjöldum og efra þrepi virðisaukaskatts muni ekki skila sér til neytenda. Vissulega er sú hætta alltaf fyrir hendi.
En ef neytendur og hagsmunasamtök þeirra eru vel á verði, ætti að slíkt að gerast í flestum tilfellum. Fordæmi eru fyrir því.
En, allar skattahækkanir, sérstaklega á virðisaukaskatti, tollum og vörugjöldum, ættu að vera þeim sem þannig hugsa sérstakt íhugunarefni.
Allar slíkar skattahækkanir eru sérstaklega varhugaverðar, ef talið er að slíkt sé í raun óendurkræft. Rétt er að hafa það í huga, næst þegar rætt er um skattahækkanir.
Vissulega er sinn siður í landi hverju, og víða, t.d. í N-Ameríku tíðkast að matvæli séu undanþegin sölusköttum. Það er nokkuð sem sjálfsagt er að velta fyrir sér og rökræða. En eins og kemur fram í fréttinni, kemur það þeim sem kaupa dýr matvæli mest til góða.
En það er öllum hollt að rökræða um skatta, hvernig þeir eru lagðir á, og ekki síður til hvers þeir eru notaðir.
En einföldun skattkerfa er af hinu góða og full þörf að stíga frekari skref í þá átt á Íslandi. T.d. hefði mátt ganga mun lengra í því að afnema undanþágur frá virðisaukaskatti, og kemur þá sala á veiðileyfum fyrst upp í hugann.
Matarútgjöldin aukast um 42 þúsund á ári | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 16:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
24.7.2014 | 06:02
Innflutningur á heilsubresti frá Danaveldi? Hvað verður það næst?
Af trúa ætti yfirlýsingum sem heyrst hafa undanfarnar vikur, ættu lýðheilsuyfirvöld að gefa út aðvörun til þeirra sem hyggjast snæða SS pylsur á komandi vikum.
Það hlýtur að vera all nokkur hætta á að yfir neytendur hellist Danskur heilsubrestur, ef snæddar eru SS pylsur. Það er að segja ef einhver leggur trúnað á misvitrar fullyrðingar um hættur þær sem fylgja innfluttu kjöti.
En líklega sjá hvorki ríkisstjórn eða alþingismenn ástæðu til að vara við þessari notkun á erlendu kjöti, þar sem það gerir pylsurnar ekkert ódýrari til almennings. Það er engin hætta á hryggskekkju vegna þess að það þyngist í veskinu hjá pylsuneytendum.
En ef að flutt er inn nautakjöt í stórum stíl, svo veitingastaðir geti boðið upp á góðar steikur og til að SS geti framleitt pylsur og svo er flutt inn svínakjöt svo Íslendingar geti fengið beikon, síðan flytur Osta og Smjörsalan inn smjör til að anna eftirspurn, hvað er þá eftir af rökum gegn því að stórauka innflutning á landbúnaðarafurðum?
Jú, líklega eru einu rökin sem eftir eru að innflutta varan er of ódýr.
Og jú svo auðvitað þetta með heilsubrestinn.
Heilsubrestinn sem Sláturfélag Suðurlands, veitingastaðir og Osta og smjörsalan dreifa á meðal landsmanna, með innfluttum landbúnaðarafurðum?
Skyldi þess verða krafist að þessi fyrirtæki greiði aukalega til heilbrigðiskerfisins?
Það er kominn tími til að ræða málið með yfirveguðum hætti og gera áætlun um leyfi til aukins innflutnings sem taki 5 til 10 ár.
Aukin innflutning á Íslenskum forsendum.
Danskt kjöt í SS-pylsum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |