Gjaldþrota sveitarfélög?

Það er ekki oft sem heyrist talað um gjaldþrota sveitarfélög, en það er býsna margt sem bendir til þess að það eigi þó eftir að gerast  í einhverjum mæli.

Nýlega mátti lesa um Harrisburg, sem er höfuðborg Pennsylvaníuríkis, en íbúar eru þar rétt kringum 50.000.  Skuldirnar nema samkvæmt fréttinni u.þ.b. 36 milljörðum Íslenskra króna.  Skuldirnar eru þá u.þ.b. 720.000 á hvern íbúa.  Tilkynning kom frá sveitarfélaginu um að það væri gjaldþrota.

Eftir því sem ég kemst næst er þetta annað Bandaríska sveitarfélagið sem fer í gjaldþrot í ár.  Það er þó rétt að taka það fram að það er ekki enn ljóst að Harrisburg fari í gjaldþrot eftir því sem ég kemst næst.  Pennsylvaníuríki vill að borgin fari í neyðaráætlun sem ríkið hefur fyrir sveitarfélög í vandræðum og borgarstjórinn er á móti gjaldþrotaleið, en hún var þó samþykkt á borgarstjórnarfundi með 4 atkvæðum gegn 3.

En hverjar skyldu tölurnar vera fyrir verst stöddu Íslensku sveitarfélögin?

Skuldar ekki Hafnarfjörður einhversstaðar í kringum 42 milljarða?  Íbúafjöldi í kringum 26.000?  Skuldir á hvern íbúa væru þá u.þ.b. 1.615.000.

Eftir því sem ég kemst næst eru heildarskuldir Reykjanesbæjar u.þ.b. 43 milljarðar.  Íbúar u.þ.b. 14.000. Skuldir á íbúa þá nálægt því að vera 3.071.000.

Álftanes skuldar u.þ.b. 7. milljarða.  Íbúafjöldi þar er u.þ.b. 2.500.  Heildarskuldir á íbúa því u.þ.b. 2.800.000

Vissulega segja skuldastöður ekki alla söguna, en það leynir sér ekki að staðan er ekki góð og í raun vandséð hvernig tekjur þessara sveitarfélaga geti staðið undir skuldunum.  Það hlýtur einnig að teljast áhyggjuefni að stórum hluta þessara skulda var safnað á "góðæristímanum".  Það breytir engu hvort að "góðærið" var fengið að láni eður ei, útsvarstekjur sveitarfélaganna bólgnuðu út sem aldrei fyrr.

Ég tók þessi 3. sveitarfélög sem dæmi, vegna þess að þau hafa verið mikið í fréttum vegna skuldastöðu þeirra undanfarin misseri, en líklega er staðan víðar ekki til fyrirmyndar.

Man einhver eftir umræðunum fyrir sveitastjórnarkosningar árið 2006?  Þá vantaði ekki langa loforðalista um, bæði hvað varðaði rekstur og framkvæmdir.  Það var engu líkara en eitt helsta vandamál margra sveitarfélaga væri hvernig ætti að koma peningum í lóg.

Hart var rökrætt um hvort dagvistun barna ætti ekki að vera gjaldfrí og mörgum fannst það fátt sem sveitarfélögin væru ekki fær um.  Og víst má segja að mörg sveitarfélög hafi slegið hressilega í eyðsluklárinn.

Ég skrifaði stutta færslu fyrir fáum vikum um skuldakreppu opinberra aðila og spáði þar að niðurskurður á opinberri þjónustu yrði mikill á næstu misserum og hart tekist á um hvar hann ætti að koma til framkvæmda.  Næstu sveitastjórnakosningar munu líklega að mestu leyti snúast um bága fjárhagsstöðu og hvar eigi að skera niður og hvar hækka þjónustugjöld.


mbl.is Sum þurfa að taka á honum stóra sínum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband