Færsluflokkur: Sveitarstjórnarkosningar
25.1.2019 | 16:21
Hvaða hlutir hleypa upp húsnæðisverði?
Það hefur mikið verið rætt um húsnæðisverð á Íslandi undanfarin misseri. Skipaðar hafa verið nefndir, og kastað hefur verið fram ótal hugmyndum og skoðunum.
Auðvitað eru þær mismundandi, en flestir eru þó sammála um að málið sé brýnt og húsnæðiskostnaður sé stór þáttur í framfærslu og þá að sjálfsögðu lífsgæðum einstaklinga og fjölskyldna.
Jafnframt hefur verið talað um að aðgerðir í húsnæðismálum séu mikilvægur þáttur í kjarasamningum.
Því vakti það athygli mína þegar ég sá fjallað um húsnæðisverð í Þorlákshöfn. Þorlákshöfn er ef ég hef skilið rétt, ca. 35 mínútu akstur frá Reykjavík (nema þegar umferðarteppur eru) og hefur fengið sívaxandi athygli þeirra sem vilja eignast húsnæði.
Þar má fá rétt ríflega 50 fermetra íbúðir á tæpar 15 milljónir króna. Sambærilegar íbúðir í Reykjavík kosta víst vel yfir 40 milljónir.
Í hverju liggur munurinn?
Einfalda svarið við því, er eins og fasteignasalarnir segja: Staðsetning, staðsetning og staðsetning.
Það verður aldrei fram hjá því litið að staðsetning skiptir miklu máli. En er engin "ódýr staðsetning" á höfuðborgarsvæðinu, eða þarf að leita alla leið til Þorlákshafnar eða lengra til þess að finna slíka?
Þó að ekki sé hægt að fullyrða um slíkt, er freistandi að álykta að stærstur hluti mismunarins sé lóðaverð og tengdar greiðslur, enda getur kostnaðurinn við bygginguna sjálfa varla verið mikið eða nokkuð ódýrari í Þorlákshöfn.
En auðvitað er eðlilegt að lóðir séu dýrari miðsvæðis í Reykjavík samanborið við Þorlákshöfn, ég held að því mótmæli engin.
En hveru dýrari, og svo eru það lóðirnar sem eru í Reykjavík, en ekki "miðsvæðis"? Hvað er eðlilegur munur þar?
Ekki getur það kostað meira að gera lóðir byggingarhæfar í Reykjavík? Ætti Reykjavík ekki, ef eitthvað er, að njóta samlegðaráhrifa stærðarinnar?
Ég held að þetta sé nokkuð sem vert sé að skoða og velta fyrir sér.
Það er líka áhugavert að hugsa um hvort að þéttingarstefna Borgarinnar, hafi orðið til þess að þeir sem sækja vinnu til höfuðuborgarinnar hafi dreifst yfir stærra svæði en nokkru sinni fyrr, og þannig stóraukið umferð og vegalengdir sem eru keyrðar?
Er það ekki þvert á markmið stefnunnar?
Eða er stefnan einfaldlega að hámarka hagnaðinn af lóðasölu og til þess að svo megi verða halda uppi ákveðnum skorti?
Sveitarstjórnarkosningar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
22.1.2019 | 10:33
Reykjavíkurvælið
Eitt af því sem mér hefur þótt einkenna pólítíska umræðu á Íslandi undanfarin misseri, er það sem ég kalla "Reykjavíkurvælið".
Það er þegar meirihluti borgarstjórnar Reykjavíkur vælir um erfitt hlutskipti sitt og kvartar undan því að allir séu vondir við sig og það sem aflaga fari í Reykjavík sé flest annað hvort ríkinu að kenna, nú eða þá að nágrannasveitarfélögin varpi byrðinni á Reykjavík.
Stundum finnst mér eins og þetta sé helsti starfsvettvangur borgarstjóra á milli borðaklippinga og glærusýninga.
En það er litið fram hjá þeim kostum sem fylgir því að vera stærsta (eða eina) borg Íslands og jafnframt höfuðborg.
Það er næstum því óhjákvæmilegt að nálægt stórum borgum byggist upp "svefnbæir". Þeir lúta yfirleitt öðrum lögmálum en stórborgirnar (þetta hugtak á auðvitað ekki við Reykjavík, nema í Íslenskum skilningi).
Þannig leita yfirleitt fleiri tekjulágir inn í stórborgirnar, enda eru þar öllu jöfnu mun fleiri atvinnutækifæri.
Það sama gildir um heimilislausa, hvort sem okkur líkar betur eða verr. Þeir leita inn í stórborgirnar (yfirleitt "kjarnana"), enda er þar meiri fjöldi af fólki á ferli, fleiri vínveitingastaðir og svo framvegis.
Á móti kemur að "stórborgin" og/eða höfuðborgin hefur auknar tekjur af hótelum, veitingastöðum, fyrirtækjum og síðast en ekki síst ríkisstofnunum, en aðrir þéttbýliskjarnar.
Hvað skyldi hátt hlutfall af fasteignagjöldum ríkisstofnana renna til Reykjavíkurborgar? (bæði beint frá ríkinu og svo frá þeim sem leigja ríkisstofnunum?).
Er hærra hlutfall af störfum per íbúa í Reykjavík, en í öðrum sveitarfélögum?
Svo kemur að "væli" Reykjavíkurborgar um að "Gistináttaskattur" skuli ekki renna til borgarinnar.
Þar eru nefndar til sögunnar aðrar stórborgir sem njóta skattsins, til dæmis New York, London og svo framvegis.
Enn og aftur virðast þeir sem stjórna Reykjavíkurborg ekki skilja muninn.
Þeir sem heimsækja New York eða London, eru fyrst og fremst að heimsækja þessar borgir (þó að vissulega kunni þeir að nota tækifærið og fara annað í leiðinni).
En þeir sem heimsækja Reykjavík?
Eru þeir ekki fyrst og fremst að heimsækja Ísland? Fer ekki stærstur hluti þeirra "Gullna hringinn", o.s.frv? Er eitthvað óeðlilegt við að t.d. hluti gistináttaskattsins fari í uppbyggingu á þeim stöðum?
Þurfa ekki nær allir ferðamenn (nema þeir sem lenda á einkaþotum á Reykjavikurflugvelli) að keyra frá öðru sveitarfélagi til hótela sinna í Reykjavík? Er eitthvað óeðlilegt að einhver hluti gistináttagjalds renni til uppbyggingar á þeirri leið (Þeim meirihluta sem nú ríkir í Reykjavík, virðist fátt mikilvægara en að koma flugvelli sínum úr borginni).
Hefur eitthvert sveitarfélag á Íslandi hagnast meira á ferðamannastraumnum en Reykjavík, með síhækkandi fasteignagjöldum af hótelum, veitingastöðum og "lundabúðum? Jafnframt því er uppbygging og lóðasala til hótela jafnframt hluti af tekjum borgarinnar.
Hvert skyldi vera hlutfall gistirýmis per íbúa í Reykjavík samanborið við önnur sveitarfélög?
Hvaða kostnaði hefur Reykjavíkurborg þurft að standa straum af á móti?
Núverandi meirihluti í Reykjavík hefur kosið að einblína á það sem getur talist neikvætt við það að vera stórborg/höfuðborg, en nefnir aldrei allt það sem hún ber úr býtum vegna þess.
Er ekki mál að linni?
Sveitarstjórnarkosningar | Breytt 24.1.2019 kl. 06:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
18.1.2019 | 14:04
Fulltrúi Pírata í Borgarstjórn varð sér til skammar....
Ég horfði á Silfur Egils, á netinu nýlega, ætli það hafi ekki verið á mánudag. Þar fullyrti fulltrúi Pírata ítrekað að engum tölvupóstum hefði verið eytt í "Braggamálinu".
Hún sagði líka ítrekað að borgarfulltrúar ættu að halda sig við staðreyndir.
Nú er komin staðfesting frá Innri endurskoðun borgarinnar að tölvupóstum hafi verið eytt, rétt eins og marg oft hefur komið fram í fréttaflutningi af málinu.
Þvi fellur fulltrúi Pírata frekar skammarlega af þeim "háa hesti" sem hún reyndi að sitja í Silfrinu.
Ég get ekki sagt að ég hafi höndlað sannleikann til fulls í málinu, en það er merkilegt hvernig meirihlutinn virðist æ ofan í æ standa í veg fyrir því að sannleikurinn komi í ljós í málinu.
Skyldi fulltrúi Pírata biðjast afsökunar á framgöngu sinni, útskýra hvers vegna hún fór rangt með, hvernig stóð á því að hún lagði annan skilning í skýrsluna en fulltrúar minnihlutans og fjölmiðlar.
Gat hún ekki lesið skýrsluna sér til gagns?
Í skýrslunni má m.a. lesa á bls. 77:
"Skjalastjórnun í tengslum við framkvæmdir við Nauthólsveg 100 var óvönduð og leiddi til þess að upplýsingar um ákvarðanir og úrvinnslu töpuðust. Varðveislu skjala um endurgerð bygginga við Nauthólsveg 100 var ábótavant. Hún var ekki í samræmi við skjalastefnu Reykjavíkurborgar og fól í sér brot á lögum um opinber skjalasöfn. Tölvupóstum á ekki að eyða úr pósthólfum starfsmanna fyrr en þeir hafa verið færðir til viðeigandi vistunar."
Hér er fullyrt að skjalastjórnum hafi verið ábótavant, brotin séu lög um opinbera skjalastjórnun og að tölvupóstum eigi ekki að eyða fyrr en þeir hafi verið vistaðir á viðeigandi hátt.
Er þetta ekki nógu skýrt svo að borgarfulltrúi Pírata hafi skilið?
Persónulega veitti ég "Braggamálinu" í upphafi ekki mikla athygli. Vissulega óeðlilegt, en ekki af þeirri stærðargráðu að það væri einhver virkilegur "skandall". En ég held að það hafi breyst í eitt af þessum málum, þar sem viðbrögð ríkjandi aðila umbreyta málinu. Það er ekki lengur málið sjálft sem vekur tortryggni (ef svo má að orði komast) heldur viöbrögð stjórnvalda (í þessu tilfelli meirihluta Borgarstjórnar). Þau benda æ sterkar til þess að hér sé potturinn alvarlega brotinn, því ákefðin við að drepa málinu á dreif og afvegaleiða það, eru þess eðlis að það eiginlega kallar á frekari rannsókn.
"Tilviljanirnar" eru einnig orðnar óþægilega margar til þess að hægt sé að líta fram hjá þeim.
Í skýrslunni má einnig lesa eftirfarandi:
"Eins og fram kom í kaflanum um skipulag SEA er umboðskeðjan þannig að SEA heyrir undir borgarritara og síðan er borgarstjóri hans yfirmaður. Þrátt fyrir þetta hefur borgarritari haft lítil afskipti af SEA sem hefur í raun sótt sín mál framhjá honum og til borgarstjóra."
Samt er ítrekað fullyrt af meirihlutanum að ábyrgðin sé ekki borgarstjóra, heldur borgarritara.
Tölvupóstum vegna braggamálsins var eytt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Sveitarstjórnarkosningar | Breytt s.d. kl. 16:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
28.9.2016 | 16:39
Engin ástæða til þess að halda í úrelta lagabókstafi
Það er nákvæmlega engin ástæða til að skylda sveitarfélög til þess að leggja til ókeypis lóðir undir kirkjur eða önnur tilbeiðsluhús.
Því er þetta frumvarp fagnaðarefni.
En það er heldur ekki ástæða til þess að banna slíkt, og ef ég skil rétt gerir þetta frumvarp ekki ráð fyrir því.
Eftir sem áður geta kjörnir fulltrúar í stjórnum sveitarfélaga ákveðið að gefa lóðir undir tilbeiðsluhús, ef þeim svo sýnist og samþykkja.
En þá verður það á valdsviði viðkomandi stjórna, sem svo aftur þurfa að standa kjósendum skil á gjörðum sínum.
Það er bæði sjálfsagt og eðlilegt.
Vilja afnema lög um kirkjulóðir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Sveitarstjórnarkosningar | Breytt 29.9.2016 kl. 13:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.12.2015 | 08:15
Í senn margir og fáir sigurvegarar í seinni umferð frönsku héraðskosninganna
Eins og eðlilegt má teljast hafa fréttir af seinni umferð frönsku héraðskosninganna að miklu leyti fjallað um þá staðreynd að Þjóðfylkingin (FN) náði hvergi í meirihluta. Þrátt fyrir að hafa verið í forystu í 6 héruðum í fyrri umferðinni skilaði það hvergi sigri í þeirri seinni.
Þrátt fyrir það er ekki hægt að segja að Þjóðfylkingin hafi hlotið slæma kosningu. Flokkurinn eykur atkvæðafjölda sinn á milli umferða, en reyndar er prósentutalan heldur lægri í þeirri seinni, en munurinn er þó lítill, innan við eitt %stig.
En Þjóðfylkingin meira en þrefaldar fylgi sitt frá síðustu héraðskosningum og fulltrúar flokksins í héraðsstjórnum þrefaldast einnig.
En það breytir því ekki að enginn sigur vannst, en þó hefur Þjóðfylkingarfólk nokkuð til síns máls, þegar það segir: Hvaða ósigur.
Þeir sem teljast sigurvegarar kosninganna er bandalag mið- hægriflokka Lýðveldisflokkurinn (les Republicains), sem vinnur í meirihluta héraða, eða 7. Ekki aðeins er það meirihluti héraða, heldur einnig þau fjölmennari og auðugri. En samt sem áður eru niðurstöðurnar vonbrigði, því vonir stóðu til mikið betri árangurs. Fyrir engan eru niðurstöðurnar líklega meiri vonbrigði Sarkozy, fyrrverandi forseta, sem vonaðist eftir góðum úrslitum til að gefa forsetaframboði sínu byr í seglinn.
En nú eru vaxandi efasemdir um að hann nái útnefningu flokkabandalagsins.
Sætasti sigurinn (þó að hann væri ekki ýkja stór) náðist í "Ile De France". Þar sigraði Lýðveldisflokkurinn, með 43.8%, en Sósíalistar voru með 42.18%. Þar var Þjóðfylkingin með sinn lakasta árangur(á meginlandinu), með 14.02%.
Sósialistaflokkur Hollande forseta tapaði stórt í kosningunum, en í ósigrinum skína þó margar vonarglætur.
Flokkurinn (og bandamenn hans) hélt velli í 5 héruðum og fékk mun betri útkomu en flestir höfðu spáð.
Það er vert að hafa í huga þegar atkvæðafjöldi og %stig eru skoðuð, að flokkurinn dró frambjóðendur sína til baka í tveimur héruðum og hvatti kjósendur sína til að kjósa "taktískt" til að halda Þjóðfylkingunni frá því að ná í meirihluta.
Staða flokksins er því betri en tölur gefa til kynna og auk þess vilja margir meina að flokkurinn hafi unnið móralskan sigur á meðal kjósenda með þeirri afstöðu sinni.
Sú ákvörðun Sarkoxy að berjast alls staðar áfram er umdeild, jafnvel á meðal stuðningsmanna Lýðveldisflokksins, en þó verður að líta til þess að staða þeirra var alla jafna betri en Sósíalistanna.
Þannig eru þeir margir sigrarnir og býsna margir ósigrarnir líka, en það er reyndar oft raunin í kosningum.
Þjóðfylkingin getur í raun sagt að hún sé stærsti einstaki flokkur Frakklands, því sigur hinna flokkanna byggist á því að kjósendur smærri flokka ganga til liðs við þá í seinni umferðinni.
Næst komst Þjóðfylkingin því að sigra í Bourgogne-Franche-Comté, en þar sigraði Sósialistaflokkurinn með 34.67%, Lýðveldisflokkurinn var með 32.88% og Þjóðfylkingin hlaut 32.43%. Þetta er fimmti besti árangur flokksins í þessum kosningum, en þó þar sem flokkurinn komst næst því að sigra. Í þeim kjördæmum sem betri árangur náðist var munurinn meiri, en í þeim var flokkurinn í öðru sæti.
Í fjórum héruðum náði Þjóðfylkingin að vera í öðru sæti. Í tveimur þeirra dró Sósialistaflokkurinn lista sinn til baka, annars má telja líkegt að Þjóðfylkingin hefði haft sigur.
Það má segja að þessar kosningar sýni að Frakkland hafi ekki lengur tveggja flokka kerfi, heldur séu það orðið þriggja flokka.
Sósialistaflokkurinn má eins og áður sagði nokkuð vel við una, útkoman betri en búist hafði verið við. En það er vissulega áfall að tapa jafn miklu og raun ber vitni og einnig að vera án fulltrúa í tveimur stórum héruðum.
En sú fórn kann að hafa skilað flokknum "the moral highground", eins og stundum sagt á enskunni, en það er vafamál hvort að það þýði fleiri atkvæði síðarmeir.
Lýðveldisflokkurinn styrkir stöðu sína umtalsvert, en það verður að hafa í huga að það er að hluta til með atkvæðum sósialista.
Hefði Sósíalistaflokkurinn ekki dregið frambjóðendur sína til baka í héruðunum tveimur, er líklegt að skiptingin hefði verið Lýðveldisflokkurinn 5. héruð, Sósialistar 5. héruð og Þjóðfylkingin 2. héruð.
Sarkozy þykir því ekki hafa styrkt stöðu sína og óvíst hvort hann nái tilnefningu.
Þessi úrslit þykja hins vegar hafa aukið líkurnar á því að Hollande bjóði sig fram aftur, þó að árangur hans í embætti þyki slakur.
En vegna þess að héraðskosningarnar eru í tveimur umferðum eins og forsetakosningarnar þykja þær nokkuð sterk vísbending um hvernig þær gæti farið.
Þegar litið er til þeirra og skoðanakannana sem birtst hafa, má því segja að líklegustu úrlsltin væru að Marine Le Pen og frambjóðandi Lýðveldisflokksins myndu komast í seinni umferðina, þar sem frambjóðandi Lýðveldisflokksins myndi sigra.
En enn er langt til kosninga og margt sem getur breyst.
Þjóðfylkingin beið alls staðar ósigur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Sveitarstjórnarkosningar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.12.2015 | 17:42
Mikill misskilningur að Þjóðfylkingin hafi ekki fengið neinn mann kjörinn
Það er hræðilega rangur fréttaflutningur þegar sagt er í þeirri frétt sem þessi færsla er hengd við, að Þjóðfylkingin hafi ekki hlotið neinn mann kjörinn í héraðsstjórnir (eða héraðsráð) í kosningunum í Frakklandi í gær.
Setningin: "Margir Frakkar trúðu því þegar þeir vöknuðu í morgun að FN hefði beðið ósigur í gær því enginn frambjóðandi þeirra náði kjöri.", er eiginlega eins röng og hugsast getur og ber þess vitni að blaðamaður hafi litla hugmynd um hvað hann er að skrifa og hafi ekki haft fyrir því að kynna sér málið.
Staðreyndin er sú að fjöldinn allur af fulltrúum Þjóðfylkingarinnar náði kjöri.
Það var verið að kjósa lista til að stjórna héruðum Frakklands, ekki einstakling og um hlutfallskosningu er að ræða.
Sætunum er skipt með þeim hætti að sá flokkur er hlýtur flest atkvæði, fær fyrst 25% af þeim sætum sem eru í boði. Síðan er afgangnum af sætunum (75%) skipt í réttu hlutfalli við atkvæðafjölda þeirra flokka sem náðu í seinni umferð kosninganna.
Þannig fékk Þjóðfylkingin 22. fulltrúa kjörna í Ile de France, þó að fylgi þeirra væri ekki mikið og flokkurinn með lang minnst fylgi í seinni umferðinni. (sjá mynd sem fylgir með færslunni).
Í Nord Pas de Calais, fékk Þjóðfylkingin 54. fulltrúa kjörna, en Lýðveldisflokkurinn 116.
Svona mætti áfram telja, hérað eftir hérað.
Það er því mikill fjöldi fulltrúa Þjóðfylkingarinnar sem tekur sæti í héraðstjórnum í Frakklandi, fleiri en nokkru sinni fyrr.
En flokkurinn er ekki í meirihluta í neinu héraði.
Ósigur! Hvaða ósigur? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Sveitarstjórnarkosningar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
5.11.2015 | 18:51
það kostar lítið meira en tvo farseðla að þagga niður í minnihlutanum
Það er eiginlega með eindæmum að lesa um að borgarstjón Reykjavíkur leggi í þann kostnað að senda 12 fulltrúa á loftlagsráðstefnuna í París. Kostnaðurinn mun vera ríflega 3. milljónir, ef ég hef skilið rétt.
Nú er óþarfi að halda því fram að 3. milljónir sé risavaxin upphæð, en eins og oft áður er það í raun ekki upphæðin sem skiptir meginmáli, heldur "prinsippið". Vissulega eru 3. milljónir barnaleikur á við það sem hefur verið eytt í þrengingar, málningu og fuglahús við ákveðnar götur.
En hvernig getur borg sem er rekin með myljandi tapi og kvartar undan því að tekjustofnar dugi ekki, réttlætt að eyða 3. milljónum í að senda 12 manna sendinefnd til Parísar?
Og það leiðir auðvitað hugann að því, hvað skyldi mörgum milljónum vera eytt í álíka þarflaus verkefni?
Mér skilst að um 40.000 einstaklingar muni sækja ráðstefnuna í París. Gerir það ekki eitthvað tæplega 1 fulltrúa fyrir u.þ.b 190.000 af jarðarbúum?
Það er því varla hægt að neita því að Reykvíkingar eru vel "mannaðir" þarna. Hvað skyldu annars margir fulltrúar fara frá Íslandi?
Ef marka má fordæmi Reykjavíkurborgar, hljóta að eiginlega öll sveitarfélög á Íslandi að senda sinn fulltrúa.
Eða er þetta annað dæmi, eftir viðskiptabannið á Ísrael, um sjálfstæða utanríkisstefnu Reykjavíkurborgar?
Það verður fróðlegt að fylgjast með niðurstöðum Parísarráðstefnunnar og án efa munu koma ítarlegar fréttir af mikilvægu framlagi fulltrúa Reykjavíkurborgar.
Það mun líklega ekki veita af þeirra famlagi, ef tekið er mið af nýlegum ummælum , umhverfis og orkumálaráðherra Frakklands, en hún var einmitt í heimsókn á Íslandi nýlega, ef ég man rétt.
Þegar talað var um að banna dísilbíla, vegna hættulegrar mengunar, sagði Royal:
Franskir hagsmunir verða að sjálfsögðu að hafa forgang, eða hvað, loftlagsráðstefna í París breytir litlu þar um.
En ef til vill er það sárgrætilegasta þegar horft er til þessarar óþarfa eyðslu, er sú staðreynd að gjarna er reiknað með því að minnihluti veiti meirahluta aðhald í sveitarstjórnum, rétt eins og stjórnarandstaða ríkisstjórn.
En það virðist vera nóg að "henda" tveimur farseðlum í minnihlutann til að "þagga niður í honum".
Þegar slík er raunin, eiga skattgreiðendur ekki von á góðu.
P.S. Hvað skyldi vera losað mikið af "gróðurhúsalofttegundum", til þess að koma öllum þessum fjölda til Parísar. Skyldi það allt verða "kolefnisjafnað"?
Sveitarstjórnarkosningar | Breytt 6.11.2015 kl. 10:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
25.9.2015 | 17:32
Er betra að einkavæða eða aumingjavæða?
Það hefur verið nokkur hiti í borgarstjórn Reykjavíkur undanfarna viku, vegna umdeilds sniðgönguáls gagnvart Ísrael, sem meirihlutinn lagði fram og samþykkti og vildi síðan draga til baka, sem hann og gerði.
Það er því ekki nema von að borgarstjóri, Dagur B., hafi gripið það feginshendi þegar borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins talaði um að þörf væri á einkavæðingu í félagsþjónustunni.
Þar sá hann möguleika á því að leiða umræðuna frá "viðskiptabannsklúðrinu".
En hann gleymdi því auðvitað að sami (fyrrverandi) borgarfulltrúi og lagði fram tilöguna um "viðskiptabannsklúðrið", hafði nýlega í blaðaviðtali gefið félagsþjónustunni á vegum Reykjavíkurborgar algera falleinkunn og talað um að þar færi fram aumingjavæðing, þó að hún reyndar notaði kurteislegra orðalag og talaði um veikleikavæðingu.
Ég gat ekki betur skilið en að sú aumingjavæðing væri ein af meginástæðum þess að hún hefði ákveðið að yfirgefa borgarmálefnin, hún hefði verið í forsvari fyrir þeim málefnum og ekki haft erindi sem erfiði.
En auðvitað er slík aumingjavæðing í réttu framhaldi af loforði Besta flokksins, "allskonar fyrir aumingja", sem Dagur B. féllst á að framfylgja eftir að hafa horft a "Wired" og myndaði með Besta flokknum meirihluta.
Það getur varla heldur verið í andstöðu við Bjarta framtíð, sem gaf sig út fyrir að vera arftaka Besta flokksins í borgarstjórn.
Boðun einkavæðingar kanna að vera nokkur atkvæðafæla fyrir borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, og aumingjavæðing að sama skapi skapað atkvæði fyrir meirihluta Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Pírata og Vinstri grænna.
En valið er auðvitað borgarbúa.
Hvert finnst þeim rétt að stefna, eða er til hin "þriðja leið"?
Er rétt að vona að enn sé hægt að finna leið til að láta aumingjavæðinguna virka, eða þurfa borgarfulltrúa að vera að láta af störfum til þess að sjá að svo sé ekki?
Svörin fást líklega ekki fyrr en í næstu borgarstjórnarkosningum, en mér þætti skrýtið ef þetta verður ekki eitt af stóru deilumálunum þá.
Sveitarstjórnarkosningar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Sá þessa frétt á vef RUV, þar segir Dagur borgarstjóri að "stóra sniðgöngumálið" hafi skaðað meirihlutann.
Það ætti að sjálfsögðu að vera aftarlega í huga hans, þó að vissulega sé það rétt. Hið alvarlega er hvað málið hefur skaðað borgarbúa og íslendinga alla.
Það er nokkuð sem ætti að koma fyrst upp í huga Dags og nokkuð sem hann ætti að biðjast afsökunar á.
Enn fremur segir í fréttinni: "Dagur var jafnframt inntur eftir því hvort það væri hefð fyrir því að borgarfulltrúar geti lagt fram einhvers konar gælumál þegar þeir eru að fara út úr borgarstjórn og fengið þau samþykkt. Dagur segir að það sé í raun ekki hefð heldur hafi komið nokkrum sinnum upp á allra síðustu árum þegar borgarfulltrúar hafi hætt á miðju kjörtímabili. Þannig hafi Árni Þór Sigurðsson lagt til að gerð yrði hjólreiðaáætlun fyrir Reykjavík. Þetta er bara einn af lærdómum þessa. Það má ekki vera þannig að fólk, af því að það sé að hætta í borgarstjórn, geti lagt fyrir eitthvað án þess að það sé skoðað nægilega vel, að sjálfsögðu ekki, segir Dagur og viðurkennir að hafi þetta verið hefð þá sé hún ekki sniðug og verði aflögð."
Það er með eindæmum að gefa það í skyn, að það eitt að einn borgarfulltrúi skuli vera að hætta verði þess valdandi að "slökt" sé á skynseminni og mál séu samþykkt án þess að vera skoðuð, svona sem "kveðjugjöf".
Fátt lýsir betur vanhæfni meirihluta borgarstjórnar, en slíkar frásagnir, nema ef skyldi vera afsakanir borgarstjóra í þá átt að tillagan hafi verið illa orðuð og ekki verið eins og "meiningin" væri.
Þýðir það að borgarstjórnarmeirihlutanum er ekki einu sinni treystandi fyrir því að koma hugsunum sínum á blað og í tilöguform þannig að þær skiljist?
Allt ferlið í kringum þetta vandræðamál er meirihluta Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Pírata og Vinstri grænna til stórrar skammar.
Það eina rétta í stöðunni nú er að draga tillögunna skilyrðislaust til baka (eða öllu heldur afnema viðskiptabannið eða sniðgönguna), án þess að leggja fram nýja.
Dagur ýjar að í frétt RUV og er aðeins hægt að vona að sú verði raunin.
Meirihlutinn ætti frekar að einhenda sér í að rétta við fjárhag borgarinnar, þar er sannarlega verk að vinna.
P.S. Ég velti því fyrir mér þegar borgarstjóri segist ætla að draga tillögu Bjarkar Vilhelmsdóttur til baka, hvort að það sé yfirleitt mögulegt, eins og mál standa nú.
Varla getur nokkur dregið tillögu Bjarkar til baka, nema hún sjálf, og það getur hún líklega ekki, þar sem hún á ekki sæti í borgarstjórn lengur, ef ég hef skilið rétt.
Líklega er það eina rökrétta (löglegar rétt, það er betra að hafa það á hreinu) sem borgarstjórnarmeirihlutinn getur gert nú, að samþykkja að fella niður bann á viðskiptum við Ísrael, því bannið hlýtur að vera í gildi nú, eða hvað?
En ég er vissulega ekki sérfræðingur í sveitastjórnarlögum, en hefði gaman (og gagn) af því hvaða skoðun lesendur þessa hafa á þessu.
Sveitarstjórnarkosningar | Breytt s.d. kl. 10:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
3.6.2015 | 18:04
Sýndarveruleiki Samfylkingarinnar?
Þegar ég las þessa frétt fékk ég það á tilfinninguna að fulltrúar Samfylkingarinnar hljóti að lifa í einhverjum sýndarveruleika.
Það er að segja að veruleikinn liggi þeim ekki alveg ljós. Þessi tillöguflutningur finnst mér bera þess nokkur merki.
Auðvitað er skipulagsvald merkilegt vald.
En það ber að hafa í huga að Ísland er ekki stórt land, hvorki að íbúafjölda né flatarmáli, þó að vissulega sé flatarmálið á íbúa all nokkurt.
En íbúarnir eru þó ekki fleiri en svo og landið ekki stærra en að eðlilegt geti talist að líta á hvoru tveggja sem eina heild.
Þannig er það nú algengt að íbúar eins landsvæðis telji sig hafa sitthvað að segja um ráðstöfun landgæða í öðrum landsfjórðungum, og getur varla talist óeðlilegt.
Ekki man ég eftir að það þætti óeðlilegt að Reykvíkingar ættu rödd (eða raddir) um nýtingu Eyjabakka eða Kárahnjúka, og voru ekki Reykvíkingar á meðal þeirra sem mótmæltu vegalagninug í Garðabæ?
Getur það því talist óeðlilegt að fleiri en Reykvíkingar vilji hafa skoðun, og krefjist þess að á þá sé hlustað, þegar talað er um einn af meginflugvöllum landsins, flugvöllinn sem tengir landbyggðina við höfuðborgina?
Eða er það aðeins skipulagsmál höfuðborgarbúa?
Eru virkjanir, vegalagnir, flugvellir o.s.frv. aðeins skipulagsmál viðkomandi sveitarfélags, eða snerta slík málefni íbúa landsins alls?
Auðvitað sjá allir (nema einhverjir Samfylkingarmenn) hvað fáránlegt það væri að kljúfa Reykjavík frá Íslandi, og hve litla möguleika Reykjavíkurborg ætti á því að standa ein, en samt finnast pólítískir fulltrúar stjórnmálaflokks, sem þykir þörf á því að kanna slíkan vilja.
Ég spyr, í hvaða sýndarveruleika lifa slíkir pólítíkusar?
P.S. Ég bloggaði um tengt efni fyrir all nokkru, þann pistil má finna hér.
Viltu að Reykjavík verði borgríki? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Sveitarstjórnarkosningar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)