Reykjavíkurvælið

Eitt af því sem mér hefur þótt einkenna pólítíska umræðu á Íslandi undanfarin misseri, er það sem ég kalla "Reykjavíkurvælið".

Það er þegar meirihluti borgarstjórnar Reykjavíkur vælir um erfitt hlutskipti sitt og kvartar undan því að allir séu vondir við sig og það sem aflaga fari í Reykjavík sé flest annað hvort ríkinu að kenna, nú eða þá að nágrannasveitarfélögin varpi byrðinni á Reykjavík.

Stundum finnst mér eins og þetta sé helsti starfsvettvangur borgarstjóra á milli borðaklippinga og glærusýninga.

En það er litið fram hjá þeim kostum sem fylgir því að vera stærsta (eða eina) borg Íslands og jafnframt höfuðborg.

Það er næstum því óhjákvæmilegt að nálægt stórum borgum byggist upp "svefnbæir". Þeir lúta yfirleitt öðrum lögmálum en stórborgirnar (þetta hugtak á auðvitað ekki við Reykjavík, nema í Íslenskum skilningi).

Þannig leita yfirleitt fleiri tekjulágir inn í stórborgirnar, enda eru þar öllu jöfnu mun fleiri atvinnutækifæri. 

Það sama gildir um heimilislausa, hvort sem okkur líkar betur eða verr.  Þeir leita inn í stórborgirnar (yfirleitt "kjarnana"), enda er þar meiri fjöldi af fólki á ferli, fleiri vínveitingastaðir og svo framvegis.

Á móti kemur að "stórborgin" og/eða höfuðborgin hefur auknar tekjur af hótelum, veitingastöðum, fyrirtækjum og síðast en ekki síst ríkisstofnunum, en aðrir þéttbýliskjarnar.

Hvað skyldi hátt hlutfall af fasteignagjöldum ríkisstofnana renna til Reykjavíkurborgar? (bæði beint frá ríkinu og svo frá þeim sem leigja ríkisstofnunum?).

Er hærra hlutfall af störfum per íbúa í Reykjavík, en í öðrum sveitarfélögum?

Svo kemur að "væli" Reykjavíkurborgar um að "Gistináttaskattur" skuli ekki renna til borgarinnar.

Þar eru nefndar til sögunnar aðrar stórborgir sem njóta skattsins, til dæmis New York, London og svo framvegis.

Enn og aftur virðast þeir sem stjórna Reykjavíkurborg ekki skilja muninn.

Þeir sem heimsækja New York eða London, eru fyrst og fremst að heimsækja þessar borgir (þó að vissulega kunni þeir að nota tækifærið og fara annað í leiðinni).

En þeir sem heimsækja Reykjavík?

Eru þeir ekki fyrst og fremst að heimsækja Ísland?  Fer ekki stærstur hluti þeirra "Gullna hringinn", o.s.frv?  Er eitthvað óeðlilegt við að t.d. hluti gistináttaskattsins fari í uppbyggingu á þeim stöðum?

Þurfa ekki nær allir ferðamenn (nema þeir sem lenda á einkaþotum á Reykjavikurflugvelli) að keyra frá öðru sveitarfélagi til hótela sinna í Reykjavík?  Er eitthvað óeðlilegt að einhver hluti gistináttagjalds renni til uppbyggingar á þeirri leið (Þeim meirihluta sem nú ríkir í Reykjavík, virðist fátt mikilvægara en að koma flugvelli sínum úr borginni).

Hefur eitthvert sveitarfélag á Íslandi hagnast meira á ferðamannastraumnum en Reykjavík, með síhækkandi fasteignagjöldum af hótelum, veitingastöðum og "lundabúðum?  Jafnframt því er uppbygging og lóðasala til hótela jafnframt hluti af tekjum borgarinnar.

Hvert skyldi vera hlutfall gistirýmis per íbúa í Reykjavík samanborið við önnur sveitarfélög?

Hvaða kostnaði hefur Reykjavíkurborg þurft að standa straum af á móti?

Núverandi meirihluti í Reykjavík hefur kosið að einblína á það sem getur talist neikvætt við það að vera stórborg/höfuðborg, en nefnir aldrei allt það sem hún ber úr býtum vegna þess.

Er ekki mál að linni?

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Er eitthvað óeðlilegt við að t.d. hluti gistináttaskattsins fari í uppbyggingu á þeim stöðum?

Persónulega myndi ég segja já, það er óeðlilegt, þetta gjald á að fara beint í ríkissjóð eins og aðrir skattar, en þetta gjald á ekkert erindi til borgarinnar þó, hún græðir nóg á öðru.

Það sem mér fyndist eðlilegra varðandi uppbyggingu tengda ferðamennsku er að leggja ferðagjald á ferðamenn sem koma til landsins eins og nær allar aðrar þjóðir í heiminum gera. Það gjald mætti fara í uppbyggingu vega og staða.

Halldór (IP-tala skráð) 22.1.2019 kl. 12:08

2 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Halldór, þakka þér fyrir þetta.  Ég er í raun sammála þér hvað varðar gistináttaskattinn, hann rennur til ríkisins, sem aftur stendur svo straum (með styrkjum) á uppbyggingu ferðamannastaða víðsvegar um landið.  Meðal annars hefur verið nokkur uppbygging á Þingvöllum og svo t.d. við Gullfoss.

Það er ekki nauðsynlegt að "eyrnamerkja" gistináttaskattinn (ég hefði líklega mátt vera skýrari hvað það varðar), en það er órökrétt að hann renni til Reykjvavíkurborgar (eins og hún hefur marg oft óskað eftir), enda hygg ég að minnihluti ferðamanna komi gagngert til Reykjavíkur, þeir eru að koma til Íslands.

Það gerir einmitt samanburð við t.d. New York og London órökréttan, enda hygg ég að stærri hluti ferðamanna þar séu beinlínis að heimsækja borgina.

Á Íslandi, með sína 340.000 íbúa á slíkt ekki við að ég tel.

G. Tómas Gunnarsson, 22.1.2019 kl. 12:16

3 identicon

enda hygg ég að minnihluti ferðamanna komi gagngert til Reykjavíkur, þeir eru að koma til Íslands.

Ég tel að það sé alveg laukrétt hjá þér, það er ekkert spennandi fyrir erlenda ferðamenn úr stórborgum að skoða litlu borgina reykjavík, það sem dregur ferðamenn hingað er einmitt náttúran, í raun allt annað en höfuðborgarsvæðið.

Hafandi sagt það þá er að vísu þeir ferðamenn sem koma hingað á skemmtiferðaskipum, mig grunar að slatti af þeim fari bara um í borginni þar sem skipin stoppa ekki það lengi að hægt sé að skoða landið mikið, en það er örugglega bróðurparturinn sem fer í dagsferðir eitthvað út fyrir borgina.

Halldór (IP-tala skráð) 22.1.2019 kl. 15:03

4 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Varla er lagður gistináttaskattur á ferðamenn af skemmtiferðaskipum Halldór. Hafnargjöld eru helsta tekjulindin af þeim hugsa ég og renna líklega beint til borgarinnar. Þessir ferðamenn eyða reyndar litlu sem engu hér og eru jafnvel séðir sem hálfgerð plága víðast hvar.

Jón Steinar Ragnarsson, 22.1.2019 kl. 15:10

5 Smámynd: Þórhallur Pálsson

Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að fasteignaskattar af ríkiseignum ættu að renna í jöfnunarsjóð sveitarfélaga.

Þórhallur Pálsson, 23.1.2019 kl. 09:44

6 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Halldór, þakka þér aftur.  Reykjavík hefur einnig sitt aðdráttarafl, en ég hygg eins og þú segir að náttúran vegi þyngra.  Og líklegt er að að einhverju marki verki þetta saman.

Það væri vissulega fróðlegt að sjá einhverjar tölur um hvað stór hluti ferðamanna fari aldrei útfyrir Reykjavík, ja nema þá á flugvöllinn.

Jón Steinar er svo búinn að svara þessu býsna vel hvað varðar skemmtiferðaskipin, og það er rétt hjá honum að margir ferðamálafrömuðir telja þau vera frekar til vandræða heldur en hitt.

@Jón Steinar.  Þakka þér fyrir þetta.

@Þórhallur  Þakka þér fyrir þetta. Það er ekki hægt að líta fram hjá því að sveitarfélögin hafa kostnað og veita þjónustu við byggingar ríkisins. Þetta eru ekki hreinar tekjur.

Svo eru ríkisstofnanir fyrirferðarmiklar á leigumarkaði, þannig að það er erfitt að ná utan um málið. 

En hvort að einhver hluti gæti farið þangað, mætti sjálfsagt ræða, en ég sé það ekki fyrir mér.

Hitt er það það fylgja kostir stórborgum, stærðarhagkvæmni, aðdráttarafl o.s.frv, en það er fátt sem gallalaust.

G. Tómas Gunnarsson, 23.1.2019 kl. 12:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband