Færsluflokkur: Fjölmiðlar
26.1.2015 | 15:42
Fjölmiðlafólk og stjórnmálaskoðanir
Rakst á blogg Brynjars Níelssonar á Pressunni í dag. Það er mjög fróðlegt og skemmtilegt, eins og reyndar oft áður.
Það fjallar Brynjar um tengsl hinn ýmsu fjölmiðlamanna og eigenda við hinar ýmsu stjórnmálahreyfingar.
Ég vil hvetja alla til að lesa pistilinn, og ég vona að mér fyrirgefist, en ég ákvað að birta hann í heild sinni hér að neðan:
Pólitískir og ópólitískir fjölmiðlamenn
Það var stórfurðulegt að fylgjast með ítrekuðum fréttum af nýjum ritstjóra DV, sem einn fjölmiðlamanna á landinu virðist þurfa að bera járn til að hreinsa sig opinberlega af tengslum við stjórnmálaflokk.
Það er nefnilega alkunna að ýmsir fjölmiðlamenn, blaðamenn og ritstjórar, hafa tengsl við stjórnmálaflokka hér á landi, verið í framboði eða sinnt trúnaðarstörfum fyrir þá. Nú síðast var Heiða Kristín Helgadóttir ráðin til starfa á Fréttastofu 365. Þar mun hún hafa umsjón með vikulegum þjóðmálaþætti fréttastofu, sem hefur göngu sína í febrúar auk þess að sinna fréttaskrifum. Heiða er kunn af störfum sínum fyrir Bjarta framtíð og Besta flokkinn og talin einn helsti stefnu- og hugmyndasmiður flokkanna eða flokksins, hvernig sem menn kjósa að orða það.
Heimir Már Pétursson fréttamaður 365 var framkvæmdastjóri Alþýðubandalagsins þegar Samfylkingin var stofnuð og í framboði til embættis varaformanns Samfylkingarinnar 2005, þar sem hann beið lægri hlut fyrir Ágústi Ólafi Ágústssyni. Nýr fulltrúi ritstjóra DV er Jóhann Hauksson, upplýsingafulltrúi ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri grænna. Það er athyglisvert að þeir sem nú gagnrýna stjórnmálatengsl nýrra ritstjóra DV á þeim grunni að talsmenn stjórnmálaafla megi ekki að hafa ítök í miðlinum skuli ekki hafa horn í síðu opinbers talsmanns núverandi stjórnarandstöðuflokka.Sömu sögu er að segja af eigendum fjölmiðla. Flestir fjölmiðlar hér á landi státa af eigendum sem hafa einhver tengsl við stjórnmálaflokka. Skinhelgi fyrrverandi eigenda og starfsmanna DV heldur t.d. ekki vatni þegar að þessu kemur. Það ágæta blað hefur aldrei verið eins óháð stjórnmálatengslum og margir vilja nú halda fram. Lilja Skaftadóttir, sem lengst af var meðeigandi Reynis Traustasonar að DV, var frambjóðandi Borgarahreyfingarinnar í kosningunum 2009 og sat í stjórn flokksins fram til ágúst 2010. Lilja átti á sama tíma 22% hlut í Smugunni, yfirlýstu flokksmálgagni Vinstri grænna, þar sem Þóra Kristín Ásgeirsdóttir núverandi fréttamaður 365 var ritstjóri. Smugan var meðal annars fjármögnuð af beinum framlögum þingmanna Vinstri grænna. Þau Reynir og Lilja keyptu DV af Hreini Loftssyni sem hefur alkunn tengsl við Sjálfstæðisflokkinn.
Nýir miðlar á markaðnum eru heldur ekki undanskildir tengslum við stjórnmálaflokka. Þannig eru tveir af eigendum Kjarnans þeir Ágúst Ólafur Ágústsson fyrrverandi varaformaður Samfylkingarinnar og Vilhjálmur Þorsteinson núverandi gjaldkeri Samfylkingarinnar og fyrirferðamikill skoðanamiðlari í umræðunni. Ágúst Ólafur var efnahagsráðgjafi ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur. Björt framtíð hefur einnig fyrrverandi meðlimi í fréttamennsku, t.d. þá Atla Fannar Bjarkarson sem ritstýrir Nútímanum var áður framkvæmdastjóri Bjartrar framtíðar og einn frambjóðenda Bjartrar framtíðar er Kjartan Atli Kjartansson fréttamaður 365. Sveinn Arnarsson, blaðamaður Fréttablaðsins, var kosningastjóri Samfylkingarinnar í NA-kjördæmi í síðustu alþingiskosningum.
Og úr því styrinn hefur snúist um DV má nefna að Kolbrún Bergþórsdóttir, hinn ritstjóri DV, var lengi þekkt af stuðningi sínum við Samfylkinguna og á sínum tíma vakti athygli yfirlýsing hennar um að rétt væri að segja sig úr flokknum í tengslum við Landsdómsmálið. Ekki er vitað hvort hún lét verða af því. En að minnsta kosti var hún ekki spurð um sín pólitísku tengsl. Þá má geta þess að Valur Grettisson, nýráðinn fréttamaður DV, er fyrrverandi kosningastjóri Samfylkingarinnar í Hafnarfirði, og María Lilja Þrastardóttir fyrrverandi fréttamaður DV (og áður 365) er fyrrverandi kosningastjóri Samfylkingarinnar í Reykjavík.
Snærós Sindradóttir fréttamaður 365 (og áður Smugunnar) er fyrrverandi formaður Ungra vinstri grænna í Reykjavík. Hún varð þekkt af því að vera einn þeirra aðgerðarsinna sem stóðu fyrir umsátri um ríkisstjórnarfund í Ráðherrabústaðnum í byrjun árs 2009. Aðalsteinn Kjartansson fréttamaður 365 (og áður DV) er fyrrverandi varaformaður ungra jafnaðarmanna í Reykjavík og með honum sat í stjórninni Sólrún Lilja Ragnarsdóttir gjaldkeri, nú blaðamaður á DV.
Ingimar Karl Helgason fyrrum frambjóðandi Vinstri grænna í Alþingiskosningunum 2013 og varaþingmaður flokksins er ritstjóri Reykjavíkur vikublaðs og þeir Björn Bjarnason og Styrmir Gunnarsson sem halda úti Evrópuvaktinni hafa báðir hafa mikil og augljós tengsl við Sjálfstæðisflokkinn. Flestir þekkja líklega líka tengsl eigenda og ritstjóra Morgunblaðsins við Sjálfstæðisflokkinn. Björn Ingi Hrafnsson eigandi Vefpressunnar sem rekur Pressuna, Eyjuna og DV, er fyrrverandi borgarfulltrúi Framsóknarflokksins og aðstoðarmaður Halldórs Ásgrímssonar formanns flokksins. Öfugt við aðra hefur verið fjaðrafok út af umsvifum Björns Inga á fjölmiðlamarkaði. Hvers vegna skyldi það vera?
Þetta er nokkuð langur listi og á honum eru mörg nöfn sem hafa verið áberandi í fréttaumræðunni upp á síðkastið, og sum mjög áberandi í stjórnmálaumræðu síðustu ára. Hér eru þó aðeins nefndir nokkrir þeirra fjölmiðlamanna sem hafa bein tengsl við stjórnmálaflokka, hafa starfað innan þeirra eða gegnt trúnaðarstörfum, og listinn er ekki tæmandi. Þess utan hafa jú allir einhverjar stjórnmálaskoðanir, sumir sterkari en aðrir. Það á eins við fjölmiðlafólk og aðra.Nú er það eitt af grunnatriðum lýðræðisþjóðfélags sé að stjórnmálaskoðanir fólks eigi ekki að ráða því hvar eða hvort það fær vinnu. Þrátt fyrir það virðist nú þykja þörf á sérmeðferð fyrir Eggert Skúlason fyrir alþjóð, krafist er opinberrar afneitunar.
Því liggur beint við að spyrja: Hverra krafa er það, að til þess að teljast trúverðugur blaðamaður á Íslandi þurfi fólk opinberlega að svara þessari spurningu neitandi:
Ert þú núna, eða hefur þú einhverntíma verið, félagi í Framsóknarflokknum?
22.1.2015 | 11:27
Hið rímaða réttlæti
Voðaverkin í París standa okkur líklega flestum enn í fersku minni. Vissulega er farið að "fenna yfir þau", ódæðismennirnir voru vegnir, réttlætinu var fullnægt.
Og svo fengum við þessa fínu samstöðugöngu. Reyndar skipaði þar köttur bjarnarból, því Sarkozy sá sér leik á borði og skaust í fremstu röð, þar sem var nóg pláss vegna þess að Sigmundur Davíð og Obama sátu heima.
Og stór hluti heimsbyggðarinnar "gerðist Charie". Margir sem svo gerðu höfðu líklega aldrei heyrt um Charlie áður. Aðrir eins og ég sjálfur, höfðu séð það sárasjaldan, hlegið að skopmyndunum en höfðum engan áhuga fyrir "far out" vinstriskrifunum.
En að sjálfsögðu stóðum við með "Charie", jafnvel þjóðir eins og Íslendingar sem enn geta ekki lesið "Spegillinn" á löglegan máta, stóðu með tjáningarfrelsinu, en líkega þó sterkar gegn ofbeldis- og hryðjuverkum.
En það voru ekki margir sem keyptu Charlie Hobdo reglulega. Upplagið var 60.000 á viku eða hér um bil. Og seldist sjaldan upp.
Það hefur komið fram í fréttum að útgáfan átti ekki fyrir launum í desember. Sumir hafa sagt að ólíklegt hafi verið að hægt væri að gefa Charlie Hebdo út mikið lengur.
En nú er það breytt, útgáfan stendur líklega traustari fótum en um langa hríð.
Jafn öfugsnúið og það er, að skelfilegt fjöldamorð í nafni trúarbragða hafi í raun tryggt útgáfu blaðs sem hefur markvisst angrað og skopast að þeim sömu trúarbrögðum, þá er það raunin.
En hægt og rólega fara sölutölur "Charlie" líklega í sama farið, það er æ erfiðara að halda úti fjölmiðlum af þessu tagi.
En þannig tryggðu hryðjuverkamennirnar að Charlie Hebdo lifir og mun halda áfram að grýta eitruðum skopmyndum, af Múhameð jafnt sem öðrum.
Þeir tryggðu jafnfram dreifingu þeirra víðar en nokkru sinni áður og að fleiri sæju þær en í raun höfðu áhuga fyrir því.
Þannig vinnur hið rímaða réttlæti eða ætti ég frekar að segja hið ljóðræna?
Og rétt eins og það rignir á okkur öll verður gert grín að bæði réttlátum og ranglátum.
Sitt á hvað, á smekklegan eða ósmekklegan máta. Slíkt fer enda mest eftir sjónarhorninu.
19.1.2015 | 19:32
Ætli Óli Stef hafi unnið mikið í fiski?
13.1.2015 | 13:16
Stóra stóra fjarvistarmálið
Það hefur verið verulega merkilegt að fylgjast með hvernig stóra stóra fjarvistarmálið hefur spunnist um fjöl- og samfélagsmiðla.
Víða er þetta orðið að stórhneyksli og ef ég hef skilið málið rétt, hefur málið gert Íslendingum ljóst að forsætisráðherra er ekki hæfur til að gegna embættinu og hætta er á að Ísland verði að úrkasti á meðal þjóðanna.
Sumir tala eins og við höfum móðgað Frakka, ef ekki "aljþjóðasamfélagið" og líklega megi eiga von á harðorðum diplómatískum skilaboðum frá Franska sendiherranum á hverri stundu.
Líklega tók þó engin verulega eftir fjarveru Íslendinga, nema Sarkozy, sem sá sér leik á borði og skaust í fremstu röð, enda drjúgt pláss af því að Sigmundur Davíð var upptekinn við annað.
En skoðum málið aðeins.
Engum var boðið til fjöldafundarins, en þau "boð látin út ganga að tekið yrði vel á móti öllum". Fjöldi þjóðhöfðingja hvaðanæva að úr heiminum koms saman. Líklega 20 til 30% af löndum heims sendi "sinn mann".
Tók einhver eftir því að það sendu ekki öll Evrópusambandslöndin sinn fulltrúa? Logar "heimspressan" yfir þeirri svívirðu?
Tók einhver eftir því að ekki öll EFTA löndin voru voru með fulltrúa í göngunni? Og þá er ég ekki bara að tala um ísland.
Tók einhver eftir því að Sigmundur Davíð var ekki í göngunni? Nema auðvitað við Íslendingar (konan mín hefur ekki einu sinni skammað mig fyrir þetta og vilja þó sumir meina að hún noti hvert tækifæri) og þá aðallega í réttu hlutfalli við pólítíska afstöðu okkar.
Að þessu sögðu, þá er rétt að taka fram að ég er þeirrar skoðunar að það hefði verið gott að Íslendingar hefðu sent fulltrúa í gönguna, þó að ég vilji ekki gera lítið úr sendifulltrúanum sem fór fyrir okkar hönd. Þeirri skoðun hef ég lýst í bloggi nýverið. Sjá: Ríkisstjórnin átti að biðja Jóhönnu.
En þetta er löngu komið út fyrir það sem eðlilegt getur talist.
Það fer betur á því að Íslendingar mundu róa sig niður og búa sig undir, bæði á líkama og sál, að taka umræðuna af krafti, þegar einn eða fleiri ráðherrar FARA til til Qatar til að horfa á handbolta.
13.1.2015 | 07:17
Ef það er ekki Sigmundi, þá er það Bjarna að kenna
Íslensk umræða er oft undarleg og óvægin. Íslendingar (margir hverjir) virðast vera frekar gjarnir á að "skrýmslavæða" hana.
Og ef að næst að búa til "skrýmsli", má gjarna kenna því um flest og og best að hamra járnið, ef ekki skrýmslið á meðan það er heitt.
Ég las í morgun frétt á Visir.is, þar sem Ferðaþjónusta fatlaðra er harðlega gagnrýnd og lagt til að Sigmundur Davíð og Bjarni Benediktsson verði gert að nýta sér þjónustuna í mánuð svo þeir upplifi hvernig þjónustan sé á eigin skinni.
Það er gömul saga og ný, að ráðamenn hefðu ekkert nema gott af því að kynnast hvernig hlutirnir eru á "hinum endanum", þegar þjónusta sem hið opinbera veitir er til umfjöllunar og umræðu.
En í þessu tilfelli er þó ekki um Bjarna eða Sigmund að ræða.
Þjónustan er alfarið á höndum sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu, í gengum Strætó. Ég veit ekki hvort að málefni almenningssamgangna eru minna mikilvæg en skipulagsmál, og það þætti tilhlýðilegt að ríkisvaldi gripi inn í. Sjálfsagt má kanna það.
En auðvitað á að beina málinu, til Dags Eggertssonar, Björns Blöndal, Sóleyjar Tómasdóttur, Halldórs Svanssonar, Ármanns Ólafssonar, Gunnars Einarssonar og Haraldar Haraldssonar (sjálfsagt gleymi ég einhverjum).
Hvort að þau hefðu gott af því að notfæra sér þjónustu Ferðaþjónustu fatlaðra í mánuð, eða eru reiðubúin til þess, veit ég ekki, en ég skil hugsunina á bakvið hugmyndina mjög vel.
Nú er hins vegar ekki rökrétt að stökkva upp á nef sér yfir því hvort að einstaklingur dragi ranga einstaklinga eða ráðamenn til "ábyrgðar", þegar hann fjallar um eitthvert mál á bloggi eða "Feisbúkk".
Hvort sem það stafar af þvi að hann veit ekki hvar ábyrgðin liggur, eða hann vonast einfaldlega eftir því að ríkisvaldið grípi fram fyrir hendurnar á sveitarfélögunum.
En þegar einn af stærstu fjölmiðlum landsins "tekur" blogg eða "Feisbúkkar" færslu upp eigum við að gera meiri kröfur.
Þar finnst mér að fram eigi að koma hvernig í málinu liggur, og eðlilegt við slíkt tækifæri að hafa samband við þann sem "færsluna" á og ræða málið og í hvernig því liggur.
Annað finnst mér ákveðin "hliðrun" á sannleikanum.
En svo má líka segja við sjálfan sig að "lengi taka skrýmslin við".
Fjölmiðlar | Breytt s.d. kl. 09:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
12.1.2015 | 19:50
Rússar segja að sjónvarpsstöð á Rússnesku myndi ógna málfrelsi
Það verður ekki af Rússneskum ráðamönnum skafið, fas þeirra, tal og ákvarðanir verða æ undarlegri.
Margir hafa án efa lesið fréttir nýlega um að transfólki hafi verið bannað að aka bifreiðum í Rússlandi.
Hvers vegna?
Jú, hann telur að hún muni senda út "and" áróður (counter propaganda).
Hvort að það er tilviljun að þetta kemur í fréttunum daginn eftir að "aðal" utanríkisráðherrann var í París að rölta til stuðnings mannréttindum og tjáningarfrelsi get ég ekki dæmt um.
Það er ekki hægt annað en að velta fyrir sér hvort að Rússneskir ráðamenn yfirleitt skilja hugtök eins og mannréttindi og málfrelsi.
En að sjálfsögðu er það alvarlegt mál frá Rússneskum sjónarhól, ef þeir eru ekki einir um áróðurinn.
12.1.2015 | 06:16
Fyrirsagnir segja sögu
Ég fékk þennan hlekk sendan í tölvupósti frá kunnningja mínum.
Í tölvupóstinum var aðeins hlekkurinn og þrjú orð.
Hvað finnst þér?
10.1.2015 | 10:51
Takk fyrir mig: Loksins las ég Spegilinn. Ábyrgðarmenn blaðsins hefðu vissulega mátt eiga von á lögsókn, en ...
Er er ekki vantrúarmaður, hvorki með litlum eða stórum staf. Það er enda ekkert "van" við mína trú, hún einfaldlega er ekki. Ég hef aldrei fundið hvöt hjá mér til að bindast neinum félagsskap um það.
En ég hef vissulega heyrt af félagsskapnum Vantrú. Oft hef ég haft gaman og stundum gagn af því sem þeir hafa sagt og tekið sér fyrir hendur.
Og þó að ég sé ekki endilega alltaf sammála þeim, finnst mér barátta þeirra í heildina af hinu góða. Málstaður samtakanna er oftar en ekki jafnrétti (jafnrétti snýst um mikið meira en kyn) og réttlæti, alla vegna svo að ég hafi séð til.
Og nú birtu þeir "bannaða Spegilinn" á blogginu sínu og kann ég þeim bestu þakkir fyir það. Ég hafði aldrei séð það áður og hefði líklega, eins og gengur, ekki sýnt því mikinn áhuga, ef ekki hefði komið til bannsins. Það er líka umhugsunarvert.
Nú er ég auðvitað búinn að hlaða því niður. Það er líklega ekki refsivert af minni hálfu, enda bý ég erlendis, en vissulega gæti Vantrú lent í vandræðum vegna dreifingar. Líklega eru þeir undir það búnir.
Ég er ekki búinn að lesa blaðið spaldanna á milli, en glugga í það og lesa margt.
Persónulega get ég ekki séð neina ástæðu til að gera mikið veður út af efni blaðsins. Það er sumt fyndið, sumt ef til vill rætið, sumt smekklítið eða laust og svo fram eftir götunum.
Það er þó auðvelt að sjá að hægt sé að beita "guðlastslögunum" gegn blaðinu.
En, í blaðinu er mikið um nafn eða myndbirtingar af þekktum aðilum og skopast af því af miklum móð. Slíkt er í sjálfu sér ekki óeðlilegt en getur verið afar móðgandi og jafnvel særandi.
Einstaklingur sem verður fyrir slíku á að sjálfsögðu rétt á því að kæra til dómstóla ef hann telur sig verða fyrir ærumeiðingum. Það er réttur hvers og eins.
En það kann að líta út fyrir að vera nokkuð "smásálarlegt". Og fyrir marga er sálin mikilvæg og jafnvel mikilvægara að hún sé ekki talin lítil.
Því var það að mér flaug strax í hug eftir að hafa gluggað í Spegilinn að líklegasta atburðarásin í málinu hefði verið sú að móðgaður einstaklingur, hefði viljað forðast að líta út sem smásál, og frekar kosið að kæra fyrir guðlast.
Er reynt er að hugsa 30 ár aftur í tímann, tel ég yfirgnæfandi líkur á því að margir af nafngreindum einstklingum hefðu getað unnið meiðyrðamál gegn Speglinum.
En það er ólíklegt að reisn eða orðspor viðkomandi hefði aukist.
Sé litið til nýjasta meiðyrðamáls sem ég hef lesið um á Íslandi, verður hins vegar að teljast líklegra að Spegillinn hefði verið sýknaður.
En þó af ólíkum ástæðum sé, ættu allir að geta sammælst um að lögin um guðlast eru óþörf. Trúleysingar af augljósum ástæðum, en þeir sem trúa, telja sig líklega vita að guð dæmir alla, bæði lifendur og dauða, þó að síðar verði.
Það ætti því að vera óþarfi að skjóta móðgunum í hans garð til jarðneskra dómstóla.
Þeir eru hins vegar meðal annars fyrir þá sem telja sig verða fyrir meiðyrðum eða mannorðsárásum.
Fjölmiðlar | Breytt s.d. kl. 16:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.1.2015 | 20:44
Je Suis Charlie
Það hefur verið skelfilegt að lesa fréttirnar frá París í dag.
Það er undarlegt að hugsa til þess að skopblað og starfsfólk skuli hafa orðið fyrir þessri grimmilegu árás. Þessari óskiljanlegu heift.
Það hefur ekki verið oft sem ég gluggaði í Charlie og síðasta var það nokkru fyrir aldamótin síðustu.
En blaðið hefur skemmt mörgum og ýft fjaðrir fjölda einstaklinga og samtaka. Mér eru minnistæð ummæli sem ég heyrði höfð eftir útgefanda blaðsins, þegar hann varði blaðið fyrir rétti gegn lögsókn Íslamskra samtaka.
Þau myndu hljóma á Íslensku eitthvað í þessa áttina:
Það er rasismi að halda því fram að múslimar hafi ekki skopskyn.
Blaðið var á ásakað um að hafa tengt á milli múslima og múslimskra hryðjuverkamanna og það fæli í sér rasisma.
En Charlie Hebdo fór ekki í manngreinaálit. Það gerði stólpagrín að öllum.
Þess vegna lifði Charlie og þess vegna láta nú starfsmenn þess lífið.
Það er ekkert grín heldur fölskvalaust hatur og undarleg afbökuð trú á "hinn góða og mikla guð".
Það er hins vegar full ástæða til að breiða út boðskap Charlies og láta hann ná sem víðast.
Hver eftirleikur þessa hræðilega hryðuverks verður veit auðvitað engin. En andrúmsloftið hefur verið spennuþrungið víða um Evrópu undanfarnar vikur og vaxandi núningur á milli mismunandi "trúar og menningarhópa".
Mikið atvinnuleysi, efnahagserfiðleikar, vaxandi óþol, fordómar og ofbeldi er ógnvænleg blanda.
Hryðjuverk á trúarlegum grunni geta gert hana að púðurtunnu.
Sáu mikið af blóði | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fjölmiðlar | Breytt s.d. kl. 23:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.1.2015 | 06:36
En getur t.d. Spotify talist sala á tónlist?
Tónlistar menn eru margir með böggum hildar vegna þess að þeim finnst þeim bera lítið úr býtum vegna "sölu" framleiðslu sinnar á netinu.
En hvað selja þeir þar?
Getur t.d. Spotify, talist sala á tónlist?
Spotify er í raun, í það minnst að mínu mati, leiga á tónlist eða útvarpsstöð "on demand", það er að segja hlustandinn ræður dagskránni. Gjaldið sem greitt er líkara stefgjaldinu en beinni greiðslu fyrir eign.
Hvað á sá sem hættir í áskrift hjá Spotify? Er það ekki svipað og sá sem hefur hlustað á útvarpið?
Persónulega hef ég ekki fundið hvöt hjá mér til að vera áskrifandi að tónlistarveitum. Líklega er ég orðinn það gamall, að ég er ekki eins "leitandi" að tónlist og áður var.
En ég á all nokkuð af "diskum" og reyndar vínilplötum. Suma "diska" hef ég spilað reglulega í kringum 20 til 25 ár.
Þó að ég hafi greitt fyrir þá nokkuð fé, er það lágt afgjald fyrir hverja hlustun. Líklega mun lægra en ég hefði greitt fyrir sambærilega á "veitu".
Aðrir hafa ekki hreyfst í svipað tímabil. Líklega má halda því fram að verðið sem ég hafi greitt fyrir hverja hlustun á þeim sé full hátt.
Að ýmsu leiti má líklega segja að margir tónlistarmenn hafi orðið "ríkir" af diskum og plötum "sem ekki var hlustað á", svona rétt eins stundum er sagt að sinnepsframleiðendur verði "ríkir" af sinnepinu sem verður eftir á disknum.
Líklegast er mesta tekjufallið hjá þeim sem eiga stór "hit" í skamman tíma og færri diskar seljast út á eitt eða tvö lög.
En eins og þegar tækninýjungar koma til sögunnar tekur "uppstokkunin" nokkurn tíma og sumir ná að nýta sér hana betur en aðrir.
En líklega er eitt af vandamálunum fyrir tónlistarfólk að framfarirnar eru svo örar nú, að um sífellda uppstokkun er að ræða, sem ekki sér fyrir endan á.
Það sem gildir í dag, er aftur til fortíðar. Tekjur af tónleikum er mikilvægari en hefur verið um langan aldur.
Tekjurnar eftir á netinu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |