Stóra stóra fjarvistarmálið

Það hefur verið verulega merkilegt að fylgjast með hvernig stóra stóra fjarvistarmálið hefur spunnist um fjöl- og samfélagsmiðla.

Víða er þetta orðið að stórhneyksli og ef ég hef skilið málið rétt, hefur málið gert Íslendingum ljóst að forsætisráðherra er ekki hæfur til að gegna embættinu og hætta er á að Ísland verði að úrkasti á meðal þjóðanna.

Sumir tala eins og við höfum móðgað Frakka, ef ekki "aljþjóðasamfélagið" og líklega megi eiga von á harðorðum diplómatískum skilaboðum frá Franska sendiherranum á hverri stundu.

Líklega tók þó engin verulega eftir fjarveru Íslendinga, nema Sarkozy, sem sá sér leik á borði og skaust í fremstu röð, enda drjúgt pláss af því að Sigmundur Davíð var upptekinn við annað.

En skoðum málið aðeins.

Engum var boðið til fjöldafundarins, en þau "boð látin út ganga að tekið yrði vel á móti öllum".  Fjöldi þjóðhöfðingja hvaðanæva að úr heiminum koms saman.  Líklega 20 til 30% af löndum heims sendi "sinn mann".

Tók einhver eftir því að það sendu ekki öll Evrópusambandslöndin sinn fulltrúa?  Logar "heimspressan" yfir þeirri svívirðu?

Tók einhver eftir því að ekki öll EFTA löndin voru voru með fulltrúa í göngunni? Og þá er ég ekki bara að tala um ísland.

Tók einhver eftir því að Sigmundur Davíð var ekki í göngunni?  Nema auðvitað við Íslendingar (konan mín hefur ekki einu sinni skammað mig fyrir þetta og vilja þó sumir meina að hún noti hvert tækifæri) og þá aðallega í réttu hlutfalli við pólítíska afstöðu okkar.

Að þessu sögðu, þá er rétt að taka fram að ég er þeirrar skoðunar að það hefði verið gott að Íslendingar hefðu sent fulltrúa í gönguna, þó að ég vilji ekki gera lítið úr sendifulltrúanum sem fór fyrir okkar hönd.  Þeirri skoðun hef ég lýst í bloggi nýverið. Sjá:  Ríkisstjórnin átti að biðja Jóhönnu.

En þetta er löngu komið út fyrir það sem eðlilegt getur talist.

Það fer betur á því að Íslendingar mundu róa sig niður og búa sig undir, bæði á líkama og sál, að taka umræðuna af krafti, þegar einn eða fleiri ráðherrar FARA til til Qatar til að horfa á handbolta.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

Algerlega sammála.

Halldór Egill Guðnason, 13.1.2015 kl. 14:00

2 identicon

Sigmundur má vera sáttur þegar svona margir elska að hata hann. Það ku jú vera stutt á milli haturs og ástar!

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 13.1.2015 kl. 14:55

3 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

 @Halldór  Takk fyrir það.

@Bjarni Gunnlaugur  Það getur verið gott fyrir stjórnmálamenn að vera umdeildir.  Og betra að vera umdeildur en gleymdur.

En hygginn og klókur stjórnmálamaður gefur andstæðingum ekki of mörg tækifæri og "les leikinn".

Stundum er það þó næsta óframkvæmanlegt.

Tökum Qatar sem dæmi.

Ef einhver ráðherra fer til Qatar og Íslendingum gengur illa, verður talað um sóun á opinberu fé, háa dagpeninga, spillingu ef aðstoðarmaður fer með o.s.frv.   Þá verður líka minnst á að ráðherrar hafi tíma til að fara og horfa á handbolta en ekki taka þátt í mannréttindagöngu.

Allt slíkt yrði gleymt ef Íslendingum gengi vel.  Þó ekki víst.  Þorgerður fékk mikla gagn´rýni fyrir að fara til Kína, sem var þó óumdeilanlega ein af stærstu stundum Íslenskra íþrótta.

En ef Íslendingum gengur mjög vel og enginn ráðherra flýgur til Qatar, er eins víst að margir teldu þá sýna Íslenskum handknattleik óvirðingu.

Ýmsir úr stjórnarandstöðunni yrðu þar líklega fremstir í flokki, íþróttamannlega vaxnir.

Hvað myndir þú telja best að gera í stöðunni?

P.S. Svo má ekki gleyma hugsanlegri hættu af gagnrýni, vegna samneytis við stjórnvöld Qatar, sem hafa ekki of gott "rep" í mannréttindamálum, m.a. við uppbyggingu íþróttamannvirkja.

G. Tómas Gunnarsson, 13.1.2015 kl. 17:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband