Er Þorgerður Katrín að kalla eftir massívri peningaprentun Seðlabankans?

Ég er reyndar ekki hissa á því að "Sambandssinnar" eins og Þorgerður Katrín fitji upp á vaxtaumræðu.

Það er gamalt trix til að fá almenning til að  halda að vextir myndu lækka verulega ef Ísland gengi í "Sambandið".

Slík vaxtalækkun er þó "fugl í skógi", en ekki hendi, þó að líklegt væri að vextir myndu lækka að einhverju marki, ef euro yrði lögeyrir á Íslandi, t.d. eftir 10 ár eða svo.

Því þótt vaxtalækkunin yrði næsta víst einhver, hafa fjárfestar brennt sig eftirminnilega á því að halda að allar skuldir í euroum séu hinar sömu, ef svo má segja.

Það sem Þorgerður Katrín minnist heldur ekkert á er hvers vegna vaxtakostnaður eurolandanna sem hún nefnir er lægri en Ísland (í %stigum).

Það er vegna dapurs efnahagsástands á Eurosvæðinu, gífurlegra skulda, atvinnuleysis og stöðnunar.

Undir venjulegum kringumstæðum myndi efnahagsástand eins og ríkir í löndum eins og Grikklandi, Spáni, Portúgal, Ítalíu og jafnvel Frakklandi, þýða að vextir á skuldum þeirra ríkja væru mun hærri en þær eru í dag, líklega jafnvel hærri hjá sumum þeirra en þau kjör sem Íslandi bjóðast.

En til að reyna að koma lífi í staðnað og þreytt efnahagslíf Eurosvæðisins hefur Seðlabanki (ásamt seðlabönkum aðildarríkjanna) þess staðið fyrir gríðarlegri peningaprentun, keypt stóran hluta af skuldabréfum ríkisstjórna og einnig sumra stórfyrirtækja.

Eðlilega keyra slík risa inngrip upp eftirspurn eftir bréfunum og jafnframt niður vexti á þeim. Skuldabréf einstakra ríkja hafa enda farið í neikvæða vexti.

Þetta veit Þorgerður Katrín, hún kýs einfaldlega ekki að minnast á það, það hentar ekki hennar málflutningi.

Er það nýja peningastefnan sem Þorgerður Katrín er að kalla eftir?

Heldur einhver að vextir í landi þar sem talað er um að hagvöxtur hafi dansað í kringum 10% á síðasta ársfjórðungi, geti verið nálægt vöxtum á efnahagssvæði þar sem horft er til 2% hagvaxtar í  hillingum?

Heldur Þorgerður Katrín að massvív peningaprentun og neikvæðir stýrivextir væri það sem hentaði Íslandi í dag? Vill Þorgerður Katrín beita Seðlabankanum til kaupa á skuldum ríkisstjóðs til að keyra niður vextina?  Telur hún að Seðlabankinn ætti að ýta undir þennslu?

Það væri veruleikinn ef Ísland væri á Eurosvæðinu.

Stjórnmálamenn geta ekki leyft sér að tala eins og vextir séu ótengdir almennu ástandi í efnahagsmálum, þó að vissulega megi deila um hvort þeir eigi að vera örlítið lægri eða hærri.

Ég hygg að öll þau lönd sem Þorgerður Katrín nefndi (og fleiri til á Eurosvæðinu) væru til í að skipta á vaxtaprósentu við Ísland, ef með fylgdi framtíðarhorfur, atvinnuleysistölur, atvinnuþátttaka, skuldastaða og viðskiptajöfnuður. Jafnvel verðbólgan sem Ísland býr við þætti eftirsóknarverð sum staðar, því verðhjöðnun er ekki skemmtilegt fyrirbrigði.

Stjórnmálamenn og flokkar sem tala hátt um ný vinnubrögð ættu ekki að hoppa niður í skotgrafirnar sem þeir höfðu komið sér fyrir í síðast þegar þeir sátu á þingi.

 

P.S. Svo er aftur algengt að lágt stýrivaxtastig á Eurosvæðinu skili sér misvel t.d. í fasteignalánum. Þar sker N-Evrópu sig yfirleitt nokkuð frá með afar lága vexti, oft í kringum, eða jafnvel örlítið undir 2%. En vextir til húsnæðiskaupa, t.d á Írlandi eru miklu hærri, sama gildir um Eistland, svo tvö dæmi séu tekin af handahófi.

Þannig er ekki til neitt sem heitir "fasteignavextir á Eurosvæðinu", enda um verulega mismunandi svæði að ræða, sem eru talin mismunandi góð veð.  Svo er endalaust hægt að velta því fyrir sér og rökræða um hvort, ef euro yrði lögeyrir á Íslandi, vextir á fasteignalánum yrðu líkari því sem gildir í Þýskalandi, eða hvort þeir yrðu nær því sem er á Írlandi, eða jafnvel enn hærri.

 

 


mbl.is Spurði út í „óþolandi vaxtabyrði“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Margt er þarna skynsamlega mælt, mér dettur þó í hug að í Svíþjóð eru vextir mjög lágir til húsnæðiskaupa.  Er það þá dæmi um stöðnun, skort á fjárfestingum þar?  Vissulega er umhugsunarvert hvernig lífeyrissjóðir viðkomandi landa eiga að standa undir skuldbindingum sínum ef vaxtastigið er mjög lágt.

Annað er að nú er stór vandi í okkar hagkerfi að gengið rýkur upp vegna innstreymis peninga (aðalega tekjur að sagt er) slíkt grefur undan innlendri framleiðslu m.a. ferðamannaiðnaðinum sjálfum, eykur neyslu og vekur upp hinn gamla draug vaxtamunaviðskiftin við útlönd. 

Er ekki einmitt rétta lausnin við þessar aðstæður að prenta peninga?

Að vísu er undirliggjandi verðbólga sem er falin í gengishækkuninni, miklar launahækkanir og hækkun olíuverðs eru þar helstu drifkraftar (verða, í tiviki olíuverðsins) og hætt við að hin mjög svo nauðsynlega aðgerð að ná genginu niður myndi hleypa af grátkór af þeim sökum. 

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 9.12.2016 kl. 08:39

2 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Bjarni Gunnlaugur Þakka þér fyrir þetta. Vextir eru víðast hvar lágir vegna áhrifa frá Eurosvæðinu og svo aftur Bandaríkjunum.

Svíar, Danir og Svisslendingar, svo dæmi séu tekin þurfa að elta Seðlabanka Eurosvæðisins í vöxtum, því enginn vill að gjaldmiðillinn styrkist um of.

Það er auðvitað nokkuð sem Íslendingar þurfa vissulega að velta fyrir sér.

En Svíar hafa haft miklar áhyggjur af hækkun húsnæðisverðs vegna lágra vaxta og hafa t.d. hert reglur um lánafyrirgreiðslur því tengdu.  http://nordic.businessinsider.com/new-rules-caused-the-sharpest-decline-in-swedish-housing-market-since-the-financial-crisis-2016-6

Danir hafa líka áhyggjur af sínum húsnæðismarkaði vegna þess hve vextir hafa verið lágir lengi. 

https://www.bloomberg.com/news/articles/2016-12-07/danish-central-bank-warns-of-labor-shortages-amid-economic-boom

Ég veit ekki hvort að vogandi væri að keyra markaðinn upp á Íslandi enn frekar með stórkostlegum vaxtalækkunum?

Svisslendingar hafa farið þá leið að kaupa erlendan gjaldeyri í "skipsförmum" og hafa meira að segja farið á hlutabréfamarkað í miklum mæli, eru með stærstu hluthöfum í Apple svo dæmi sé tekið og eru stærri í Facebook en Zuckerberg.

Ég efast um að Íslendingar væru hrifnir af slíku braski, sem er svo sannarlega ekki án áhættu.

En það þýðir ekki að taka vextina eina út, og líta fram hjá öðrum sviðum efnahagslífsins og halda að það sé engin ástæða fyrir því að vextir séu háir á Íslandi.

Mér sýnist að ef fram heldur sem horfir verði Íslendingar að leita allra leiða til kælingar á efnahagnum.

Hvort vaxtalækkun eigi að vera partur af slíkum áformum er býsna erfitt að segja til um, og ég skil vel að Seðlabankinn vilji fara varlega í slíku, þó að ég persónulega sé ekki á móti því stýrivextir lækki lítillega.

En það verður líka fróðlegt að sjá hvernig gengið þróast eftir áramótin þegar verulega slaknar á gjaldeyrishöftunum.

Flykkjast Íslendingar í fjárfestingar erlendis?  Og hvert ætla þeir að sækja ávöxtunina?

Ég yrði ekki hissa þó að leiðin lægi í vaxandi mæli í vestur og dollarinn auki enn á vægi sitt fyrir Íslendinga.

G. Tómas Gunnarsson, 9.12.2016 kl. 09:23

3 Smámynd: Rafn Guðmundsson

ekki hægt að rökræða við ESB hatara (sem sennilega býr í ESB landi) - sorry þú ert ekki trúverðurgur

Rafn Guðmundsson, 10.12.2016 kl. 04:13

4 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Rafn Þakka þér fyrir þetta, þó að í sjálfu sér sé lítið að þakka fyrir, þú virðist ekki hafa neitt til málanna að leggja.  Einungis skítkast. Við slíkar kringumstæður er oft best að vera þögull.

Ég hef ekki búið á Íslandi vel á annan áratug, lengst af bjó ég í landi sem er ekki í "Sambandinu", en nú háttar svo til að ég bý í landi sem er innan "Sambandsins". Hvað það verður lengi á eftir að koma í ljós.

En að mínu mati eru það einungis einfeldningar sem halda að búseta stjórnist af pólítík. Fæstir skipta um búsetu þó að skipt sé um ríkisstjórnir eða önnur stjórnvöld.  Það eru einfaldlega svo mörg önnur atriði sem vega mun þyngra.

Sjálfsagt átt þú þér draum, þar sem eingöngu "hreintrúaðir Sambandsmenn" búa innan Evrópusambandsins og aðrir hafi hrakst á brott, eða verið "kristnaðir".  Slíkir draumar um "sæluríki" eru ekkert nýnæmi en hafa yfirleitt endað illa.

Það má bæta því við að ég hatast ekki við "Sambandið", en sé vissulega á því ýmsa galla og hnökra sem gerir það að verkum að það hentar alls ekki öllum löndum.

En það er einmitt orðræða eins og þín, sem getur ekki tekið samræðuna, heldur reyntir að afgreiða einstaklinga með andstæðar skoðanir með einu orði, s.s. rasistar, fasistar, hatarar, óstjórnhæfir, siðleyingjar, sem hafa með framgöngu sinni unnið þeim stjórnmálaskoðunum sem þið aðhallist svo mikið tjón.

Persónulega tel ég að það eigi einmitt mikinn þátt í því að "vinstrisinnaðar rétttrúnaðarhreyfingar" eigi núna frekar erfitt uppdráttar, sbr. t.d. Samfylkinguna.

Æ fleiri sjá að "frjálslyndið" sem þið reynduð að sveipa um ykkur var ekkert, en þröngsýnin, stjórnlyndið og "rétttrúnaðurinn" þeim mun sterkari.

Að ýmsu leyti má segja að "Sambandið" í heild sé á svipaðri leið.

Auðvitða ætti maður að mörgu leyti að vera þakklátur fyrir slíka andstæðinga, en ég verð að viðurkenna það að ég eiginlega vorkenni ykkur.

G. Tómas Gunnarsson, 10.12.2016 kl. 05:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband