Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda
27.8.2009 | 16:15
Annir og þvælingur
Fjölskyldan að Bjórá hefur haft nóg fyrir stafni undanfarnar vikur. Hér hafa verið gestir og eins og oft þegar svo ber við fer fjölskyldan með í "túristagírinn" og flengist um nágrennis Toronto og leiðsegir og sýnir.
Það að búið að fara að Niagara fossunum, búið að leiðsegja um miðbæinn og fara í dýragarðinn svo fátt eitt sé nefnt.
Krakkarnir eru afar hrifnir af þessum snúningum og vildu líklega helst að hér yrði "túrisminn" allsráðandi á heimilinu.
Læt hér fylgja með nokkrar myndir, en líkt og venjulega má finna fleiri á www.flickr.com/tommigunnars
Þá er hægt að klikka á myndirnar og þá flyst viðkomandi yfir á Flickr vefinn, þar sem hægt er að skoða myndirnar stærri.
Vinir og fjölskylda | Breytt 2.9.2009 kl. 15:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
15.8.2009 | 23:20
Smá Flickr
Er alltaf að taka myndir, held og vona að mér sé að fara örlítið fram á því sviðinu.
Set alltaf myndir nokkuð reglulega inn á Flickr síðuna mína, www.flickr.com/tommigunnars
Læt hér nokkrar nýlegar myndir fljóta með, hægt er að klikka á myndirnar til að sjá stærri og flytjast yfir á Flickr síðuna.
15.8.2009 | 19:31
Humar sveppir
Var að þvælast á bændamarkaði á fimmtudaginn þegar ég sá í einum básnum til sölu humar sveppi (lobster mushrooms). Þetta var nýlunda fyrir mér, ég hafði aldrei heyrt talað um þessa sveppi áður.
Let slag standa þó að þeir væru dýrir, fékk rétt rúmlega 100 gr fyrir 9 dollara, og keypti.
Steikti sveppina á pönnu í gærkveldi, kryddaði þá með salti og pipar og ýrði smá sherryi yfir.
Herramannsmatur. Afar ljúffengir og ákveðið bragð, þó að það sé frekar milt.
Fór svo í dag að leita mér frekari heimilda um sveppi þessa. Komst þá að því að ekki er um sveppi að ræða, heldur sýkil (eða hvaða orð á hér vel við) sem leggst á sveppi og breytir litarhafti þeirra, gerir þá líka humri í útlit (rauða að utan og hvíta innvið).
En meindýr, sýklar eða eitthvað annað, ég kvarta ekki þar sem bragðið var gott og sveppirnir fóru vel í maga.
25.7.2009 | 15:26
Á markaði
Á fimmtudaginn fór Bjórárfjölskyldan á markað. Það var haldið til St. Jacobs, lítils bæjar sem í er u.þ.b. í klukkutíma akstursfjarlægð frá Toronto.
Markmiðið var að kaupa "Sumarpylsur", grænmeti, ávexti og eitt og annað sem væri á boðstólum. Þetta er rótgróinn markaður, bæði innandyra í veglegum húsum og utandyra. Það sem setur ef til vill mestan svip á markaðinn eru mennónítarnir, sem þarna koma og selja framleiðslu sína. Margir þeirra rækta enn allt sitt með "gamla laginu" og koma þá nýtísku ræktunaraðferðir eða bensínknúnar dráttarvélar ekkert við sögu. En þeir eru eins og margir aðrir trúflokkar mismunandi "harðir", eða "réttrúaðir" og sumir skera sig ekki frá fjöldanum.
En það er ekki hægt að neita því að afurðir þeirra eru yfirleitt í háum gæðaflokki og vel þess virði að borga ofurlítið hærra verð fyrir þær. Bragðgóðar og ekkert "rusl" í þeim.
En fjölskyldan kom heim með 3. stórar "sumarpylsur, kirsuber, plómur, grænar baunir, mikið af hvítlauk, rauðrófur, hlynsýróp og eitthvað annað smávegis.
Síðan var haldið inn í bæinn sjálfan og rölt um og fengið sér kaffi og meððí.
Í bænum næsta nágrenni setja hestvagnar mennónítanna sérstakan og skemmtilegan blæ á umferðina. Flestir þeirra eru yfirbyggðir kassalaga vagnar, en "hefðbundnari" útgáfur sjást einnig.
Set inn hér nokkrar myndir frá markaðnum.
16.7.2009 | 15:45
Smá Flickr
Ég hef tekið nokkuð mikið af ljósmyndum upp á síðkastið og þær sem ég flokka í betri hlutann enda yfirleitt á Flickr síðunni minni, www.flickr.com/tommigunnars
Þar má m.a. finna eftirtaldar myndir og svo auðvitað fjölmargar til viðbótar. Hægt er að "klikka" á myndirnar til að sjá þær stærri og flytjast þannig yfir á Flickr síðuna.
16.7.2009 | 15:38
Áhugaverðir tímar?
Það er all nokkuð um liðið síðan bloggað hefur verið hér að Bjórá. Einhvernveginn hef ég ekki fundið mig í bloggheimum.
Ég fylgdist sömuleiðis lítið með fréttum um nokkurt skeið, sérstaklega fréttum frá Íslandi. Þær voru svo margar á þann veginn sem lítt kættu geð mitt.
En það er tímabært að taka upp þráðinn að nýju og reyna að koma hugsunum og hugrenningum frá sér. Það er hollt huganum að hugsa og skrifa á Íslensku, helst flesta daga.
Nú eru mikil umbrot í Íslensku samfélagi, ágreiningur uppi, en mikilvægar ákvarðanir teknar.
Það sem sagt er vera Kínversk bölbæn kemur nú oft upp í hugann, megi þú lifa á áhugaverðum tímum.
29.5.2009 | 14:39
Vorverkin að Bjórá
Það hefur verið í mörg horn að líta hér að Bjórá undanfarnar vikur. Vorverkin mörg og hornin sem í þarf að líta ekki síður.
Það er búið að grafa, planta, slá, raka, stinga upp, klippa og saga. Sem betur fer hefur einnig gefist tími til skemmtilegri athafna s.s. að grilla og að fylgjast með þrastarungunum sem hér hafa hlaupið um garðinn. Ég hef sést í ýmsum miður virðulegum stellingum við að taka myndir af þeim.
En einhverra hluta vegna hefur bloggið setið á hakanum og reyndar hef ég fylgst minna með fréttum frá Íslandi nú undanfarnar vikur en oftast áður. Þær hafa heldur ekki verið til þess fallnar að lyfta geðinu, alla vegna ekki þær sem ég hef þó séð.
Á morgun verður síðan haldið í útilegu, alla vegna ef veðrið lýtur út fyrir að verða skaplegt.
En það þarf líka að skerpa sjálfsagann til að standa sómasamlega að þessu bloggi.
P.S. Það er hægt að klikka á myndina til að sjá hana stærri og flytjast þannig yfir á Flickr síðuna mína, þar sem hægt er að sjá fleiri myndir af þrastarungum.
8.5.2009 | 20:08
Nokkrar myndir frá Íslandsferðinni
Set hér inn nokkrar myndir úr Íslandsferð Bjórárfólksins. Einhverjar fleiri myndir má síðan finna á www.flickr.com/tommigunnars
Hægt að er sjá myndirnar stærri og flytja sig yfir á flickr síðuna með því að klikka á myndirnar.
7.5.2009 | 13:02
Að lokinni Íslandsferð
Fjölskyldan að Bjórá fór eins og ýmsum er kunnugt til Ísland nú í apríl og skilaði sér heim aftur stuttu fyrir mánaðarmótin.
Húsfreyjan hélt reyndar lengra, því hún fór alla leið til Eistlands, en eyddi síðustu vikunni með fjölskyldunni á Íslandi.
Þessi ferð var eins og aðrar Íslandsferðir ákaflega ánægjuleg, það er enda alltaf gleðiefni að heimsækja uppeldisstöðvarnar (svona eins og laxinn) og skemmta sér með vinum og ættingjum. Í þessarri ferð gat síðuskrifari notað tækifærið og kosið, þó að ekki hafi úrslitin í þeim kosningum orðið honum að skapi.
En stærsti munurinn á þessarri ferð og þeim Íslandsferðum sem áður hafa verið farnar var verðlagið á Íslandi. Kreppan hefur gert það að verkum að munurinn á verðlagi á Íslandi og hér í Toronto er ekki mikill og getur jafnvel lagst með Íslandi á stundum.
Að fara með fjölskylduna á kaffihús kostar svipaða upphæð, skartgripir og annað slíkt sem unnið er á Íslandi er á mjög samkeppnishæfu verði (líklega ódýrara ef reynt er að taka tillit til gæða) og svo mætti lengi telja. Ísland býður þó enn þá upp á afgerandi dýrara bensín, en munurinn er þó minni en oft áður.
Það er líka rétt að hafa í huga að þó að mér hafi fundist það ógnarhá upphæð að borga 6400 fyrir okkur hjónin ofan í Bláa lónið, þá rukka gufubaðsstofur hér í borg gjarna u.þ.b. 30 dollara fyrir innganginn. Í þeim samanburði er aðgangseyrir Bláa lónsins ekki aðeins sanngjarn, heldur hreint og beint gjafverð.
Það er því ljóst að semkeppnisstaða Íslands sem ferðamannalands hefur sjaldan ef nokkurn tíma verið betri.
Enda hefur mikill fjöldi Kanadabúa hug á Íslandsferð í sumar, jafnvel einstaklingar sem hafa látið sig dreyma um það árum saman. Nú segjast þeir hafa efni á þvi að fara til Íslands.
Nokkrir hafa meira að segja haft samband við mig á undanförnum mánuðum og spurt hvar þeir gæti keypt krónur. Þeir vilja "festa gengið", kaupa á meðan gengið er lágt, því í það minnsta sumir þeirra hafa fulla trú á því að gengi krónunnar eigi eftir að styrkjast.
7.5.2009 | 12:39
Endurræst
Undanfarnar vikur hefur mikil leti hrjáð þann sem ritar þessa síðu. Íslandsferð setti strik í reikninginn og eftir að heim var komið var alltaf eitthvað annað sem glapti og dró mig frá bloggskrifum.
Nú er rétt að reyna að koma reglu á hlutina og viðhalda síðunni með sómasamlegum hætti.