Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda
9.4.2009 | 19:06
Smá Flickr
Nú er allt að verða tilbúið fyrir væntanlega Íslands (og Eistlands) ferð Bjórárfjölskyldunnar. Eingöngu eftir að pakka smáræði ganga frá. En auðvitað er nægur tími á hinum langa föstudegi til að ganga frá ýmsum smáatriðum, enda ekki þörf á því að mæta í flughöfn fyrr en að verða 6 um eftirmiðdaginn.
En ég ákvað að birta hér nokkrar myndir af Flickr síðunni minni, hægt er að klikka á myndirnar ef áhugi er fyrir að sjá þær stærri.
8.4.2009 | 16:12
Bjórárfjölskyldan heldur til Íslands
Þá er að koma að því að Bjórárfjölskyldan haldi til Íslands, en við eigum pantað far með Icelandair seinnapartinn á föstudag (gott að nota þennan langa dag til að ferðast) og komum því til landsins á laugardagsmorgni - rétt svo tímanlega fyrir páskaeggjaát á sunnudeginum.
Reyndar verða það aðeins ég og ómegðin sem stoppa á Íslandi, en Kristina heldur áfram til Kaupmannahafnar og þaðan til Eistlands. Hún kemur svo síðar til Íslands og verður þar í viku áður en við verðum samferða heim.
Dulitlum tíma verður varið á höfuðborgarsvæðinu, en stefnan er aðallega sett norður á Akureyri. Nokkur mikill spenningur hefur gripið um sig hjá börnunum og hafa þau gengið um með bakpoka nokkra undanfarna daga og skipulagt hvað á að setja í þá fyrir ferðalagið.
P.S. Vitanlega er meiningin að versla eitthvað, en það var þó alfarið óþarfi að láta krónuna síga okkar vegna.
11.3.2009 | 05:21
Réttur maður á röngum tíma
Ég hef verið um það bil klukkutíma á eftir mínu eigin lífi síðan á sunnudag.
Þá breyttum við hér í Kanada klukkunni, færðum hana fram um einn klukkutíma, fórum á sumartíma þó að enn sé hér frost á nóttunni.
Mér er meinilla við þetta hringl síðvetrar og svo aftur um haustið.
Enda tekur mig alltaf þó nokkra daga að aðlaga líkamann og ekki síður sálina að þessari breytingu.
Eins og í stjórnmálunum lít ég svo á að það sé stöðugleikinn sem gildi. Hef aldrei skilið þá tillögugerð að taka upp sumartíma á Íslandi, sem að í þokkabót er á eilífum sumartíma, alltaf klukkutíma á undan.
En núna er ég réttur maður á röngum tíma, en í hárréttu húsi.
Fer fljótlega að sofa.
1.2.2009 | 00:16
Vetrarríki
Það hefur verið nokkur snarpur vetur hér í Toronto það sem af er. Drjúgt af frosti og mikið af snjó. Mörg handtökin við snjómokstur og tilfallandi.
En blessuð börnin kunna að meta snjóinn, kvarta þó undan því hve lélegt byggingarefni hann er, en ekki hefur nema einu sinni verið hægt að "rúlla" snjóinn eins og Foringinn kallar það, og þá aðeins dagspart. Alla aðra daga hefur verið of kalt til að hægt væri að ráðast í byggingar. Byggingariðnaðurinn hér að Bjórá er því jafn frosinn og annarsstaðar.
En það skiptir litlu máli þó að það blási smá snjó, í kerrunni er öruggt athvarf og gott að halla sér.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 00:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.1.2009 | 03:57
Myndarlegar
Ég hef verið ótrúlega latur við að taka myndir upp á síðkastið, varla gert það að neinu gagni og verið enn latari við að koma þeim á vefinn.
Reyndar minnkar ljíósmyndaáhuginn yfirleitt við snjóinn og sömuleiðis við hverja viðbótar frostgráðuna, sérstaklega þegar þær mælast í tveggja stafa tölu. Myndavélin verður köld og fer illa í hendinni.
En þó er margt fagurt myndefnið í kuldanum og snjónum.
En loksins dreif ég nokkrar myndir inn á Flickr síðuna mína, en hér er smá forsmekkur, hægt er að klikka á myndirnar til að sjá þær stærri.
14.1.2009 | 14:24
Brrrrrrrrrrrrrrrrrrrrr
Það er með svalara móti hér í Toronto þennan morguninn, mælirinn að Bjórá sýnir - 21°C. Veðurspekingar segja að með vindkælingunni sé kuldinn sambærilegur við - 30°C. Sem betur fer gætir vindsins ekki mikið hér að Bjórá, alla vegna ekki enn, þannig að þetta er ekki svo slæmt.
Spáin segir að það fari að "hlýna", verði ekki nema - 14 og snjókoma seinnipartinn, það er ekki svo slæmt.
Reyndar er þetta ekki neitt miðað við kuldann á sléttunum, þannig fór "hitastigið" vel niður fyrir
40°C í Manitoba fyrir stuttu og með vindkælingu var frostið jafngilda - 50°C.
En nú eru það lopasokkarnir og "föðurlandið" sem duga.
2.1.2009 | 17:39
Nýtt ár, sama ....
Þá er komin tími til að blog þetta lifni við eftir að fjölskyldumeðlimirnir að Bjórá hafa slegið slöku við undanfarna daga. Það hefur enda verið í nógu að stússast, mikill tími hefur farið í að elda hangikjöt, nautasteikur, kalkúna og aðra fugla og næstum í því jafn langur tími fór í að snæða herlegheitin, sérstaklega þegar bætt var við ís, konfekti og öðru góðgæti.
Hingað komu góðir gestir ofan að Íslandi, sem eftir smá hrakninga komust í hús ríflega 9. á aðfangadagskvöld, og ég held að allir hafi átt góð og frekar róleg jól að Bjórá.
Gestirnir drifu sig svo heim þann 30. og Bjórárfjölskyldan fagnaði áramótunum í ró og kyrrð heima fyrir, með stjörnuljósum og púðurgosum. Fyrst var kveikt í flugeldum kl. 5 til að fagna Eistnesku áramótunum og svo aftur kl. 7 til að fagna þeim Íslensku. Þessi háttur var hafður á, þar sem talið var (sem reyndist rétt) að yngri helmingur Bjórárfjölskyldunnar myndi ekki megna að vaka til miðnættis að staðartíma. Rétt er þó að taka fram að Bjórár flugeldarnir voru þeir einu sem ég sá í nágrenninu, enda ekki til siðs að skjóta hér svo neinu nemi um áramót.
Horft var á Skaupið á netinu stuttu fyrir miðnætti, og var það hin besta skemmtun, vel gert og gott grín, þó að hlátrasköll hafi ekki verið mörg, þá var ég mjög ánægður með Skaupið.
En nú er liðið 2008, ár sem líklega verður helst minnst fyrir það sem aflaga fór, en reyndist okkur að Bjórá gott ár að lang mestu leyti, margt sem gladdi þó að fjárfestingar okkar til elliáranna séu ekki þar á meðal.
2009 er enn óskrifað blað, en verður vonandi happadrjúgt og farsælt, þó vissulega séu blikur á lofti.
Bjórárfjölskyldan óskar öllum nær og fjær hamingju og farsældar á nýbyrjuðu ári.
24.12.2008 | 13:16
Jólakveðjur frá snjóalandinu
Það vantar ekki að hér í Toronto er jólalegt um að litast, jafnvel svo að sumum þykir nóg um. Upphandleggsvöðvar mínar enda í sverari kantinum þessa dagana eftir linnulítinn mokstur á heimreið og tröppum.
En þetta þýðir vissulega einhver vandræði eins og þau að fjölskyldumeðlimirnir sem var von á hingað í gærkveldi sitja föst í Boston, en vonast er að þau hafi það hingað til Toronto á milli 5 og 6 í dag.
Jólasveinarnir hafa þó komist hingað óáreittir undanfarna 13. daga og engar truflanir hafa orðið á skógjöfum þeirra, yngri fjölskyldumeðlimum til léttis og ánægju. Þau vakna enda fyrr og fyrr á morgnana til að athuga um fenginn og koma svo og sýna foreldrum sínum.
En fjölskyldan að Bjórá sendir vinum, vandamönnum og lesendum bloggsins sínar bestu jólakveðjur, við vonum að allir nær og fjær hafi það gott um jólin og áramótin.
Nú þarf er best að drífa sig út að moka.
P.S. Myndin er tekin nú 20. desember í 15°C frosti í bakgarðinum að Bjórá.
9.12.2008 | 15:59
Heilsukreppa
Ofan í miðja fjármálakreppuna skall á heilsukreppa hjá þeim sem mestu ræður á þessu bloggi. Svo djúp var sú kreppa að ekkert hefur verið ritað hér á bloggið í u.þ.b. viku.
Heilsukreppan lagðist svo á kroppinn að undirritaður gat ekki hugsað margar heilar hugsanir í röð, og því var talið að best færi á að hvíla bloggið, sem og sálina og kroppinn.
Ólíkt fjármálakreppunni er heilsukreppan í rénum og rís nú línuritið aftur upp á við. Hér er heldur ekki hlífiskildi haldið yfir neinum og engin hræðsla við að benda á sökudólga, allt sett upp á borðið, og næsta víst talið að um hafi verið að ræða "inside job".
Þó varast beri að fella dóma áður en fullar niðurstöður liggja fyrir, bendir flest til að aðalsökudólgarnair séu hálskirtlarnir, og gerast kröfur þess efnis að þeir víkju, verði hreinlega skornir, æ háværari. Endanlegur dómur hefur þó ekki fallið því ólíklegt annað en þeir lifi jólin af.
Þangað til er þeim haldið niðri og skaðsemi þeirra takmörkuð með fúkkalyfjum. Þetta horfir því allt til betri vegar og næst vonandi fullnaðarlausn innan tíðar.
2.12.2008 | 03:44
Pestarbælið að Bjórá
Nú hefur Bjórá breyst í pestarbæli.
Hér eru allir veikir, nema konan, en hún er hálfslöpp.
Þetta byrjaði sakleysislega, fyrir eins og 10 dögum, þá byrjaði drengurinn að hósta. Við heldum honum inni við, létum hann ekki fara í skólann, en allt kom fyrir ekki. Honum virtist elna pestin.
Loks þegar smá blik kom aftur í augu hans í gær, lagðist ég sjálfur í rúmið (í hálfan dag) og Jóhanna litla byrjaði að hósta.
Í dag hringdi svo kennari drengins í mig og spurði mig eftir drengnum, hvatti mig svo til þess að halda honum heima frekar lengur en hitt. Það væru svo mikil veikindi í skólanum.
Sagði mér líka að í dag hefði verið sendur heim minnismiði til foreldra til að upplýsa þá um að vart hefði verið við kíghósta í skólanum.