Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Brrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrr

Hér er kalt í dag.  Mælirinn sýnid - 18°C þegar ég fór út í morgun, en sólin skein og gerði þetta örlítið bærilegra.  Veðurvefurinn segir að með vindkælingunni megi jafna þessu við mínus 25 stig.

Það er óneitanlega þægilegt að vera kominn aftur inn og með kaffi í bollann.

 


Mál og vog

Börnin hér að Bjórá fóru í sína árlegu lækniskoðun nú fyrir helgina.  Allt var eins og það á að vera, börnin hraust og heilbrigð og ekkert sem þurfti frekari athugunar við.

Leifur Enno mældist 123 cm á hæð og 25.3 kílo.  Jóhanna Sigrún var 98 cm á hæð og 15.6 kíló.  Ef til vill var stærsta breytingin sú að læknirinn upplýsti að Jóhanna sem hefur verið heldur undir meðallagi, er nú komin heldur yfir meðallagið.  Ekkert nema gott um það að segja.

En læknirinn bætti svo við góðláltlega, "Það lifir enginn læknir af fólki eins og ykkur", og brosti.

Í vikunni sem leið var líka sótt um skólavist fyrir Jóhönnu, eins og vera ber í Rosethorn, skólanum sem Leifur hefur verið í undanfarin 2. ár.  Stúlkan verður 4ja ára í ágúst, þannig að tímabært er að hún feti sig áfram á menntaveginum.


Lífið - að mestu í svart hvítu

Ég hef ekki verið eins duglegur með myndavélina síðustu mánuði eins og skyldi, enda ef til vill ekki skemmtilegasti árstíminn til myndatöku, kalt og dimmt.  En það ætti þó ekki að duga sem afsökun.

En samt hef ég tekið einhverjar myndir, yfirleitt í það minnsta á laugardagsmorgnum, það er minn myndatími.

Birti hér nokkrar sem hafa verið teknar á undanförnum vikum.

Eins og áður er hægt að beita músinni á myndirnar og skoða þær stærri á Flickr, ef áhugi er fyrir hendi.

Skywalk Glass Mountain To Our Glorious Dead Chester Hill Road Relaxing on a Saturday Morning In the Window Danger Travelling For Dummies? End of Passion

Byrjað á ný

Það eru liðnir ríflega þrír mánuðir síðan hér var ákveðið að gera all nokkurt hlé á skriftum.  Ástæður þess verða ekki raktar hér en nú hefur verið ákveðið að þráðurinn verði tekinn upp að nýju.

Eins og áður mun efniviðurinn sóttur um víðan völl og engar reglur gilda.

 

 


Vísund á diskinn minn

Ég þurfti að skreppa í "sveitina" á fimmtudaginn.  Nánar tiltekið hér vestur eftir ef svo má að orði komast.

IMG 1920Þar keypti ég tvær steikur af vísundi.  "Rib eye" var það eina sem var á boðstólum á bændamarkaðnum.  Þessar tvær voru síðan drifnar á pönnuna í gærkveldi og bornar fram með sætum, kartöflum og öðru góðmeti.

Það er skemmst frá að segja að þetta kjöt var aldeilis frábært.  Bragðmikið, lungamjúkt og skemmtilegt undir tönn.

Vísundur verður án efa fljótlega aftur á boðstólum hér, nú þarf ég að fara að athuga hvort ég geti ekki náð í lund eða fillet einhversstaðar.

 

P.S.  Ég keypti þessar tvær sem á miðri mynd, aðeins undir miðanum.


Trick or Treat?

Halloween 2009 VII

 Í dag ( eða gær laugardag) var Halloween  og krakkarnir hér að Bjórá voru að sjálfsögðu búin að ræða það sín á milli að  nú yrði sko safnað nammi, og það helst vel af því.

Dagurinn byrjaði snemma eins og laugardagar gera yfirleitt og farið var í Eistneska leikskólann, að sjálfsögðu í grímubúningum.  Þar gafst einnig kostur á því að ná sér í nammi.

Untitled 1Þegar heim var komið þreytti heimiisfaðirinn frumraun sína í graskeraútskurði, með dyggri aðstoð og leiðbeiningum frumburðarins.  Soðinn var þessi dýrindis graskerjasúpa og síðan bökuð pizza til að auka á stemmninguna.

Það var síðan upp úr 6 sem haldið var í leiðangur.  Húsmóðirinn búinn að mála andlitin og ekkert að vanbúnaði.  Árangurinn enda eftir því og við komum heim eftir rúman klukkutíma með troðna poka af nammi, kartöfluflögum og gúmmlaði.

En þreytan var líka farin að segja til sín og því var farið í háttinn án þess að borða mikið af fengnum.

En það er eitt hús í hverfinu sem alltaf sker sig úr, þar er ekkert til sparað og lögð á sig mikil vinna til að gera garðinn kláran fyrir Hrekkjavökuna.  Allra handa dúkkur og líkneski, reykvélar og ljós.

Halloween 2009 I

Að lofa betrun

Það hefur lítið verið ritað hér undanfarið.  Allra handa annir og önnur óáran hefur komið í veg fyrir að síðuskrifari stæði sig sem skyldi.

En vonandi næst takturinn aftur.  Það er alla vegna þess vert að reyna, en lofa þó öngvu upp í þröngar ermarnar.

 


... en síðan eru liðin mörg ár.

IMG 0499Ég fór í gær á samkomu hjá "Ljósmyndasögufélagi Kanada" (Photographic Historical Society of Canada).  Þetta var býsna fróðlegt, mikið af alls kyns söluaðilum að bjóða söguna til sölu, bæði myndir og myndavélar og allt mögulegt og ómögulegt þeim tengt.

Það var hreint með ólíkindum hvað það var mikið af dóti, allt frá gömlum útrunnum framköllurum (þar sem dósirnar töldust safngripir)´ Hasselblad myndavélum sem litu út eins og þar hefðu aldrei verið notaðar, gamlar belgmiklar myndavélar og myndir frá hinum aðskiljanlegustu tímabilum.

Leicur sem voru mismunandi snjáðar þóttu hvað merkilegastar af djásnum þeim sem þarna varIMG 0502 boðið upp á, en það mátti fá myndavélar frá 5 dollurum og upp í nokkur þúsund.  Einn söluaðili vildi reyndar endilega gefa mér gamalt og lúið flass, sem ég nennti þó ekki að draga með mér heim.

Á milli borða gekk fólk á öllum aldri, handlék dýrgripi og prúttaði um verð, með misjöfnum árangri.

Sjálfur gekk ég um og skoðaði, ætlaði ekki að kaupa nokkurn hlut.  En ég stóðst ekki mátið þegar ég sá Olympus OM10, sem leit út sem ný. Með henni var 50mm, 1.8 Zuiko linsa.   Keypti hana á 30 dollara.  Fann svo í öðrum bás ónotaða Olympus tösku fyrir hana á 5 dollara og IMG 0503"hálsband" á dollar.  Býsna vel af sér vikið.  Nú þarf ég eingöng að finna manual adapterinn á vélina til þess að vera eins græjaður  og ég var þegar ljósmyndaáhuginn byrjaði fyrir alltof mörgum árum.

En það var vissulega gaman að handleika OM10 aftur.  Með henni komu margar minningar. Líklega þarf ég að fara út í búð og athuga hvort þeir eigi ekki enn þá Tri-X.

 

 

IMG 0501IMG 0496

 

 

 

 

 

 

 

IMG 0494

 

 

 IMG 0487

 

 

 

 

IMG 0484

 

 

 

 

 

 

 


Gengið um - í svart hvítu

Ég fór á rölt, bæði fimmtudag og laugardag í síðustu viku.  Hafði það eins og í "gamla daga", þvældist nokkuð stefnulaust um með myndavélina. 

Tók helling af myndum.

Var búinn að ákveða að þessi "túr" væri í svart hvítu.  Svona "aftur til upphafsins", þar sem ég byrjaði, þegar ég fékk áhuga á ljósmyndun.

Á fimmtudag gekk ég um Bloor West Village og High Park, en á laugardeginum þvældist ég um Danforth og nágrenni.

Hér að neðan má sjá nokkrar myndir frá röltinu.

Eins og áður er hægt að sjá myndirnar stærri með því að klikka á þær.  Þær (ásamt fleirum) er einnig að finna á Flickr síðunni minni, www.flickr.com/tommigunnars .  Ekki ólíklegt að ég eigi eftir að bæta við fleirum þar á næstunni

 

Enjoying the Park High Park Roasting Street Life - Danforth Open 24 Hours A Valiant Plymouth

Prince Polo Caffe Latte

Ég er fastagestur í ýmsum Pólskum verslunum hér í Toronto.  Það er gott að versla við Pólverjana.  Afbragðs pylsur og aðrar kjötvörur, alls konar skrýtið góss og síðast en ekki síst þá bjóða þeir yfirleitt upp á Prince Polo.

PP caffe latteÞegar ég skrapp að versla í morgun varð á vegi mínum ný tegund af þessu gæða súkkulaðikexi.  Prince Polo Caffe Latte. 

Það varð úr að ég keypti 2. stk og síðan 2. stk af Classic, svona til öryggis.

Niðurstaðan er nokkuð fyrirsjáanlega að því leyti til að öll stykkin eru etin, og það upp til agna. En bragðið?

Ég myndi líklega frekar velja að borða Classic með góðum og sterkum uppáhellingi en Latteið er ágæt tilbreyting, en ég held að það nái ekki að ryðja hinu klassíska Prince Pólói út af mínum milli mála matseðli.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband