Færsluflokkur: Bloggar
19.6.2007 | 05:28
Fullt hús
Mér þykir það undarlegt að mót sem þetta sé stöðvað. Ég held að lögreglan hafi hæpnar lagaheimildir á bak við sig í þessu sambandi.
Ekki er verið að spila upp á peninga í hefðbundnum skilningi þeirra orða.
Það tíðkast í mörgum íþróttum (t.d. golfi) að þátttakendur borgi þátttökugjöld. Verðlaun eru síðan af ýmsu tagi, utanlandsferðir, jafnvel bílar, en einnig þekkist að veitt hafi verið peningaverðlaun í íþróttum, t.d. í skák að ég held.
En þetta er enn eitt dæmið um þann tvískinnung sem því miður er svo algengur á Íslandi.
Það væri vissulega þarft verk að fækka boðum og bönnum á "landinu bláa".
Pókermót stöðvað | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.6.2007 | 03:36
Til fyrirmyndar
Ég er afar ánægður með þessa framgöngu Steinunnar Valdísar, hún er hreint til fyrirmyndar.
Ég hef oft minnst á á skoðun mína að stjórnmálamenn eigi að einbeita sér á annað hvort á Alþingi eða í sveitarstjórnum. Vissulega er ekkert sem bannar að setið sé á báðum stöðum og auðvitað er engin ástæða til að banna það, en mér finnst eðlilegt að stjórnmálamenn sýni það siðferði að sinna aðeins einu starfi í senn.
Skyldu þeir stjórnmálamenn sem sitja bæði á Alþingi og í sveitarstjórnum vilja gefa þá yfirlýsingu að hvort um sig sé aðeins hálft starf?
Eru þeir þeirrar skoðunar að starfsystkin þeirra sem gegna aðeins starfi á öðrum vettvanginum séu ekki í fullri vinnu?
Ef svo er, þá er vissulega ástæða til að líta á launakjör þeirra öðrum augum.
Hættir í borgarstjórn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.6.2007 | 05:19
Bandamenn
Eystrasaltsþjóðunum veitir svo sannarlega ekki af bandamönnum, enda ástæður fyrir því að þau sóttu fast og hratt að komast í NATO og raunar einnig ESB.
Þau vildu tilheyra bandalögum, njóta stuðnings og hafa bakhjarla í viðskiptum sínum við risastóran nágrannan, Rússland.
Það er hins vegar merkilegt að Rússar virðast í samskiptum sínum við þessar litlu þjóðir (og auðvitað fleiri) líta á sig sem beint framhald af hinu Sovéska heimsveldi.
Rússar verða að gera sér grein fyrir því að þessar þjóðir eru ekki hernumdar lengur, heldur sjálfstæðar. Þær taka sjálfstæðar ákvarðanir, jafnt í innanríkismálum sem utanríkis. Vissulega bera þær ótta til Rússneska "bjarnarins", en þær láta ekki traðka á sér.
Það er auðvitað löngu tímabært að Rússar komi fram við nágranna sína sem jafningja og af virðingu, en það er þó ekki of líklegt að það gerist á næstunni.
Bandaríkin segja Rússum að vera ekki með hótanir gagnvart Eystrasaltsríkjunum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
12.6.2007 | 02:35
Hátt eða lágt?
Það er mikið talað um þéttingu byggðar, það er mikið talað um betri almenningssamgöngur, það er mikið talað um umhverfismál.
Nú ætla ég ekki að fara að ræða þetta einstaka mál, enda ég ekki sérstaklega staðkunnugur, þó að ég hafi stöku sinnum rölt um miðbæ Hafnarfjarðar og gert þar góð kaup, sérstaklega í skartgripum og selskinnsbuddum, en það er önnur saga.
En hinu verður ekki móti mælt að á Íslandi er byggt dreift. Það gerir það að verkum að að borgin og bæir á Íslandi taka yfir óhemju stór landsvæði. Það má auðvitað halda því fram að það séu stærstu umhverfisspjölllin á Íslandi og að mörgu leiti ónauðsynleg og engum til gagns, heldur bölvunar.
Það er líka ljóst að almenningssamgöngur eru óhagstæðari þar sem dreift er byggt, enda fólksfjöldi á ferkílometer ákaflega lítill.
En þétting byggðar virðist afar umdeilt mál á Íslandi, þó að margir séu fylgjandi henni, eru ákaflega fáir sem virðasta vilja að slíkt gerist í sínu næsta nágrenni.
Ef til vill má segja að Ísland sé verr fallið fyrir háhýsi en lönd nær miðbaug, þar sem "skuggakast" verður mun meira þar sem sól er lágt á lofti, en það er líka ljóst að það verður ekki bæði sleppt og haldið, lág byggð þýðir að meiri náttúru verður spillt, að almennningssamgöngur verða ólíklega jafn góðar og hagkvæmar og þar fram eftir götunum.
En það er líka hægt að sammælast um að það sé einmitt eins og Íslendingar vilji hafa það, eða hvað?
Ungir jafnaðarmenn í Hafnarfirði leggjast gegn byggingu háhýsis | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.6.2007 | 03:19
Er Þróunarkenningin blessuð?
Það eru í sjálfu sér ekki nýjar fréttir að skiptar skoðanir séu á meðal Bandaríkjamann um Þróunarkenninguna og Sköpunarkenninguna. Ekki er óalgengt að gert sé grín að "blessuðum Kananum" fyrir vikið, talað um hve trúin á þar sterk ítök og þar fram eftir götunum.
En hvernig skyldi ástandið vera víðast hvar um heiminn? Hvernig skyldi það vera á Íslandi?
Ekki það að ég efast ekki um að meirihluti Íslendinga myndi hneygjast að Þróunarkenningunni, ég held að flest skynsamt og upplýst fólk geri það. En hvernig fer það saman að trúa Þróunarkenningunni og að trúa á einhvern guð?
Er Þróunarkenningin "blessuð" af Þjóðkirkjunni, eða öðrum þeim kirkjudeildum sem starfræktar eru á Íslandi?
Hvert væri þá "hlutverk" guðs hvað varðar Þróunarkenninguna?
Er sú fullyrðing að guð hafi skapað manninn, og það í sinni mynd, ekki lengur partur af kenningunni?
Allar upplýsingar um þetta málefni vel þegnar í athugasemdum.
Þróunarkenningin og sköpunarkenningin báðar réttar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
9.6.2007 | 03:19
Áframhaldandi samgöngubætur
Ég fagna þessari niðurstöðu, ég trúi því að meirihluti Íslendinga vilji áframhaldandi samgöngubætur.
Það yrði án efa mikil samgöngubót fyrir Norður og Suðurland að þessum vegi, og þarfaþing að tengja þessi svæði betur saman. Þó að styttingin á milli Akureyrar og Reykjavíkur sé ekki gríðarleg, er hún umtalsverð á milli Akureyrar og Selfoss.
Það er líka gott að umferð, sérstaklega stórra bíla dreifist á tvær leiðir.
Þetta er tilvalið verkefni fyrir einkaframkvæmd með Hvalfjarðargöngin sem fyrirmynd, vegurinn byggður og vegtollur innheimtur, en á endanum eignist hið opinbera veginn.
Meirihluti landsmanna hlynntur nýjum Kjalvegi samkvæmt könnun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.6.2007 | 03:13
Eru allir á leið í miðbæinn?
Ég hef í sjálfu sér ekkert sterkar skoðanir á staðsetningu Reykjavíkurflugvallar, en hef þó frekar verið því fylgjandi að hann verði fluttur og landið notað til byggingar. En ég held að innan allra flokka séu skiptar skoðanir um flugvöllinn.
Ýmis rök þeirra sem vilja að hann í Vatnsmýrinni get ég þó skilið.
En það er eitt sem ég hef ekki vitneskju um og þætti gaman að vita hvort að séu til einhverjar kannanir um.
Hvað eru það stórt hlutfall farþega sem fer um Reykjvíkurflugvöll sem fer í eða kemur úr miðbænum eða þaðan af vestar?
Með endurbættri Reykjanesbraut, hverju munar þá til dæmis fyrir þann sem er á leið upp í Breiðholt, Grafarvog, nú eða ég tali ekki um Kópavog eða Hafnarfjörð á því að lenda í Keflavík eða í Vatnsmýrinni?
Gæti verið að á ákveðnum tímum dagsins væri tíminn svipaður?
Ekki eining innan Samfylkingar um staðsetningu Reykjavíkurflugvallar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
6.6.2007 | 02:58
Vandmeðfarið
Það er gott að verið sé að vinna í málefnum aldraðra, en allar bætur og tekjutengingar eru vandmeðfarnar.
Ég hef aldrei getað mótað mér fastar og óbreytanlegar skoðanir hvað þetta varðar. Það sama gildir um þessa tillögugerð.
Það er ágætt að hvetja þá sem starfsorku hafa til að nýta hana með því að afnema allar skerðingar á bótum sem yrðu vegna atvinnutekna þeirra. Sérstaklega þegar árar eins og nú og næg eftirspurn eftir fólki til starfa.
En það má samt spyrja hvort að markmið almannatrygginga sé ekki komið nokkuð langt frá markmið sínu, ef að fólk með fullar tekjur nýtur samt fullra bóta?
En ég ætla ekki að gera lítið úr því að tekjutengingar eru vandmeðfarnar.
Annað sem vakti athygli mína í fréttinni var eftirfarandi:
"Til viðbótar því sem felist í frumvarpinu segi í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, að unnið verði að einföldun almannatryggingakerfisins og að samspil skatta, tryggingabóta, greiðslna úr lífeyrissjóðum og atvinnutekna einstaklinga verði skoðað sérstaklega til að tryggja meiri sanngirni og hvetja til tekjuöflunar og sparnaðar."
Því verður ekki á móti mælt að þessar breytingar hvetja vissulega til tekjuöflunar, en mér virðist frekar hæpið að þær hvetji til sparnaðar, því ef ég skil málið rétt er eingöngu verið að tala um að "aftengja" atvinnutekjur, en ekki fjármagnstekjur.
Það hvetur ekki til sparnaðar að mínu mati.
Líklega er það því svo að hress og hraustur ellilífeyrisþegi sem getur unnið fulla vinnu verður án skerðingar. Ellilífeyrisþegi sem ekki treystir sér til að vinna vegna heilsubrests, en ákveður t.d. að selja stórt einbýlishús sem hann á og flytja í minna og hentugra, lendir hins vegar í skerðingu ef hann ávaxtar mismuninn sem verður til við að flytja í minna húsnæði. Sólundi hann hins vegar mismuninum heldur hann líklega fullum ellilífeyri.
Þetta er eins og ég sagði áður vandmeðfarið og mýmargar "jarðsprengjur" þegar farið er út á þessi svæði.
Tekjur 70 ára og eldri hafi ekki áhrif á greiðslur lífeyristrygginga | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.6.2007 | 06:56
Ný stjórnarandstaða
Það er alltaf fróðlegt að fylgjast með því þegar ný ríkisstjórn tekur við og ekki síður að sjá menn máta sig í stjórnarandstöðuna.
Þannig virðist það ljóst að stjórnarandstaðan ætlar að veita harða andstöðu frá fyrsta degi. Það mun þó líklega há henni hve sundurleit hún er. Það er fátt kærleikshvetjandi sem finna má þegar rætt er um VG, Framsóknarflokkinn og þann Frjálslynda.
Það sást glöggt í eftirleik kosninganna hve fátt var með VG og Framsókn og enginn talaði við Frjálslynda. Það er líka eðlilegt að Framsókn hyggist ná því fylgi sem hún hefur misst yfir til VG og færir sig því nokkuð til vinstri.
En ég yrði ekki hissa þó að kýtur innbyrðis hjá stjórnarandstöðunni verði jafn áberandi og skot þeirra á stjórnina.
En það sem á líklega einnig eftir að setja mark sitt á samband stjórnar og stjórnarandstöðu er að stjórnarandstaðan á enga raunhæfa möguleika á því að fella stjórnina í næstu kosningum.
Þessi ríkisstjórn getur ef gott samstarf tekst setið eins lengi og hún kærir sig um, nema að gríðarleg breyting verði í Íslenskum stjórnmálum.
Því mun stjórnarandstaðan einbeita sér að því að kljúfa stjórnina.
Þegar sjást þess merki að stjórnarandstaðan hyggist einbeita sér að Samfylkingunni, í það minnsta til að byrja með, end liggur hún ef til vill betur við höggi nú um stundir. Ráðherrar hennar eru nýir og ekki hagvanir í sínum ráðuneytum, og Samfylkingin heldur "frjálslegri" við loforðin.
En "Svarti Péturinn" um hver kom í veg fyrir myndun vinstri stjórnar er í besta falli grátbroslegur.
En það verður fróðlegt að fylgjast með störfum stjórnarandstöðunnar þetta kjörtímabilið, og kann það að gefa sterkar vísbendingar um hvernig hún mun reyna að splundra" ríkisstjórninni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.6.2007 | 04:06
Spakmæli
Spakmælið er að þessu sinni fengið af blogsíðu hér á Moggablogginu, nánar tiltekið af blogsíðu JAX. Mér finnst þessi setning skemmtilega hnitmiðuð og þó að segja megi að hún sé ekki algild frekar en nokkuð annað, felst í henni mikill sannleikur.
Ég verð í það minnsta kosti að segja að mér þykir þetta vel orðað.
"... fólk hættir ekki hjá fyrirtækjum, það fer frá yfirmönnum!"
Bloggar | Breytt s.d. kl. 04:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)