Færsluflokkur: Bloggar

Með lífið í lúkunum

Ég hef ekki gert mér grein fyrir því í hve mikilli hættu ég er daglega.  Hve rafmagnstæki sem ég hef á heimilinu eru hættuleg og framleidd samkvæmt lökum stöðlum.

Líklega er ég með lífið í lúkunum (í allt að því bókstaflegri merkingu) þegar ég handfjalla þessi tæki.  Það hlýtur sömuleiðis að hafa verið þrúgandi fyrir hermennina og fjölskyldur þeirra að vera í þessu umhverfi, vitandi að slysin biðu eftir því að gerast.

Hitt er svo augljóst mál að af þessu er mikið óhagræði fyrir þá sem koma til með að búa í þessum íbúðum.  Rafmagnstæki sem menn eiga fyrir er líklega ekki hægt að nota (þó eru sífellt fleiri tæki sem nota straumbreyti, með "universal" straumbreyti.) og ef menn fara að kaupa raftæki sem passa þarna, þá verður erfitt að nota þau þegar flutt er burt.

En það verður að sjálfsögðu að kynna væntanlegum íbúum þetta fyrirkomulag, og það vel og vendilega, því vissulega er hætta til staðar ef notuð eru röng raftæki.

En ég tek auðvitað að mér að kaupa rafmagnstæki og senda heim, gegn vægri þóknun.


mbl.is Spilað með öryggi 350 ungra fjölskyldna segir formaður Rafiðnarsambandsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Slæmt

Landið er fagurt og frítt, loftið og vatnið svo tært, Íslenskir karlmenn líklega hinir hraustustu í heimi, Íslenskt kvenfólk orðlagt fyrir fegurð, fáir snúast Íslenskum kaupsýslumönnum snúning, hvergi er betra lambakjöt eða ferskari fiskur.

En þegar Íslensk greind vekur athygli er það auðvitað gervi.


mbl.is Íslenskur hugbúnaður sigrar í gervigreindarkeppni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að upplifa "sósíalismann" - í örfáa daga.

Það er einhvern veginn svo að eftir hæfilega langan tíma virðist allt verða að "nostalgíu", ef til vill ekki alveg allt, en þó um flest.

 Á vef Spiegel hef ég fundið nokkur margar greinar um "nostalgíu" eftir "gömlu góðu" dögunum þegar sósialisminn réði ríkjum í A-Evrópu. 

Nú er hægt að gista á hóteli sem býður upp á "Austur Þýsk" herbergi, Trabantinn hefur gengið í endurnýjun lífdaga, og alls kyns vörur frá mótorhjólum, til þvottaefnis og kóladrykkja frá "sælutíð sósíalismans" nýtur nú vaxandi vinsælda.

Þessi "nostalgía" teygir arma sína alla leið hingað að Bjórá, því konan er einmitt alin upp í einu af þeim ríkjum sem þá töldust til "sæluríkja sósíalismans".  Þess vegna færist oft yfir hana bros þegar hún sér sumt af því sælgæti sem á boðstólum er í Pólsku, Rússnesku eða Úkraínsku verslunum hér.

Bragð af uppvextinum er alltaf vel þegið.

En þetta er auðvitað jákvætt, enda engin ástæða til að þessi tími gleymist, þvert á móti.  Sagan er alltaf þess virði að gefa henni gaum og halda henni til haga.

Þessum svæðum flestum veitir heldur ekki af atvinnu og auknum túrisma.

Svo gæti auðvitað farið svo að þetta gæti "læknað" einhverja.


Heitasta auðlindin

Ég man vel eftir því þgar ég var lítill og við höfðum olíukyndingu.  Heita vatnið kom úr ca 400 lítra hitavatnstanki og skipuleggja þurfti baðferðir fjölskyldunnar til að allir hefðu einhvern yl á vatninu.

Olíubíllinn kom svo með reglulegu millibili og fyllti á stóran tankinn.

Það var gjörbylting þegar hitaveitan kom.  Endalaust heitt vatn.

Jarðhitinn er gríðarleg auðlind, án efa "heitasta" auðlind Íslendinga.  Hitar upp megnið af húsum landsmanna, tryggir "endalaust" heitt vatn úr krananum og framleiðir rafmagn í sívaxandi mæli.

Allt á vistvænan máta. 

Vissulega er jarðrask af framkvæmdum og alltaf spillist náttúra, bæði af framkvæmdum sem og byggingum, rafmagnslínum, heitavatnspípum og svo framvegis.  Sjónmengun er af þessu sömuleiðis.

En þetta eru ómetanlegar auðlindir og spara þjóðarbúinu gríðarlegan innflutning, tryggir betri lífskjör og skapar gríðarleg verðmæti og þekkingu.

Sjálfur bý ég svo aftur við þau kjör, að hafa eingöngu úr "einum hitavatnstanki" að spila nú hitaðan upp með jarðgasi.  Ég sakna því Íslenska hitaveituvatnsins, á hverjum degi, þegar ég fer í sturtu eða bað.


mbl.is BBC fjallar um íslenska jarðhitann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þörf áminning

Það er þarft að minna á hve rík boð og bönn virðast vera á enn þann dag í dag á Íslandi.  Hve sjálfsagt mörgum þykir að athafnir eins og að spila Poker séu bannaðar.

Ég hef oft sagt að það er of algengt að fólk hafi megnar áhyggjur af því hvað aðrir aðhafast, en væri oft hollara að láta sér nægja að stjórna og hafa áhyggjur af sínu eigin.

Það væri óskandi að hin nýja ríkisstjórn gæfi sér svolítin tíma til að huga að auknu frjálsræði á Íslandi.

 


mbl.is SUS segir stjórnvöld þvinga siðferðismati upp á samfélagið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vogar Alcan sér

Það er gott að fólkið í Vogum er jákvætt.  Það verður fróðlegt að fylgjast með staðarvali Alcan en þeir virðast eiga betri möguleika víðast hvar annars staðar en í Hafnarfirði.

Uppbygging á landfyllingu í Hafnarfirði þykir mér ekki líkleg, en ber vott um nokkra örvæntingu af hálfu Samfylkingarmeirihlutans þar.

Þó að vissulega muni það kosta Alcan meira að loka og byggja annars staðar, heldur en uppbygging í Hafnarfirði kostar, kann það að vera mun fýsilegri kostur til lengri tíma litið, enda vilji fyrirtæki yfirleitt vera þar sem íbúar jafnt sem stjórnendur bæjarfélaga eru jákvæðir gagnvart starfsemi þeirra og hefta ekki stækkunarmöguleika þeirra.

Í ljósi þess má álykta að bæði Vogar og Þorlákshöfn séu álitlegri fyrir Alcan en Hafnarfjörður.


mbl.is Borgarafundur í Vogum veitir bæjarstjórn umboð til viðræðna við Alcan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þarf að sameina?

Persónulega sé ég ekki þörf fyrir að byggja upp stórskipahöfn í Kópavogi, þó að þar sé sjálfsagt ágætis aðstæður til slíks.

En það má ef til vill velta því fyrir sér hvort að þörf sé á stórskipahöfn í hverju sveitarfélagi á höfuðborgarsvæðinu?  Eða hér um bil.

Er ekki í þessu sambandi eins og mörgum öðrum betra að hafa hafnirnar færri og stærri?

Er ef til vill þörf á því að sameina sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu, þannig að betri nýting og samvinna verði þar á milli?  Eða í það minnsta að gera eitt heildarskipulag fyrir svæðið?

Einhversstaðar þætti 150.000 manna sveitarfélag ekki ýkja stórt.


mbl.is Hafnarsvæði mótmælt með borða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sammála

Ég er sammála því að kvóti er engan veginn trygging fyrir því að bæjir við sjávarsíðuna dafni og þar sé blómlegt mannlíf.

Það er heldur ekki eingöngu á Íslandi þar sem smærri bæir eiga undir högg að sækja.  Sú þróun á sér stað um allan heim og hefur átt um alllangt skeið.  Það er að mínu mati mikill misskilningur að þeirri þróun verði snúið við eða hún stöðvuð.  Með kvóta eða án.

Nútíma samfélag er mikið flóknara en svo að næg atvinna eða kvóti séu nóg til að fólk sé um kyrrt, eða flyti í til bæjarfélaga.

Hafa enda ekki margar Íslenskar sjávarbyggðir byggt á erlendu vinnuafli?  Sumir hafa sest að, aðrir stoppa í stuttan tíma.  Íslendingarnir hafa flutt á brott.

Þessi staðreynd ein og sér ætti að duga til að sýna að kvóti er ekki nóg.

 


mbl.is Nægur kvóti í Eyjum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rétt og rangt eða rangt og rangt?

Égefast ekkert um að úrskurður siðanefndar Blaðamannafélagsins sé réttur, enda þekkja nefndarmenn ábyggilega þau lög sem lögð eru til grundvallar, mun betur en ég.

En það má ekki rugla því saman að þó að siðanefndin telji umfjöllunina ámælisverða, er það enginn dómur á málið sjálft, enda Blaðamannafélagið ekki umsagnaraðili þar um.  Það að umfjöllunin sé ámælisverð, segir ekkert um það hvort að eðlilega hafi verið staðið að málum varðandi veitingu ríkisborgarétts til handa tengdadóttur Jónínu.

Ég sagði í pistli hér í maí, að ég væri ekki trúaður á tilviljanir, ekki hvað varðaði veitingu umrædds ríkisborgaréttar, eða því hvernig og hvenær þetta mál komst í hámæli.

Sú skoðun mín hefur ekkert breyst.

En rétt eins og ég sagði þá, þá liggur ábyrgðin í þessu máli hjá þáverandi þingmönnum, það voru jú þeir sem samþykktu títtnefndan ríkisborgararétt.  Enginn þeirra sagði nei.

 


mbl.is Siðareglur brotnar í umfjöllun um tengdadóttur Jónínu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyllt upp í íbúalýðræðið? - Fagra landfylling

Hún er býsna merkileg þessi endurtekna umræða á Íslandi um landfyllingar, rétt eins og eitt helsta vandamál landsins sé landþrengsli.

En það er líka merkilegt til þess að hugsa ef að þessi breyting á skipulagi í Hafnarfirði, eða telst landfylling ekki nokkur stór breyting, þarf ekki að fara í íbúakosningu?

Þetta endurspeglar þau vandræði sem Samfylkingin í Hafnarfirði og flokkurinn í heild er í, varðandi álverið í Straumsvík.

En það bendir margt til þess að bæjarstjórinn telji að stækkun álversins og sú landfylling sem hér er um rætt þurfi ekki að fara í íbúakosningu, alla vegna er hann kominn hættulega nærri því að hafa skoðun á málinu.


mbl.is Álver á landfyllingu?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband